Fréttir

Fundargerð rituð 10 mánuðum eftir að fundurinn átti sér stað

Bragi Guðbrandsson boðaði til fundarins en afar óvenjulegt er að forstjóri Barnaverndarstofu skipti sér af því hvort einstök börn fari í Barnahús.

Barnaverndarstofa útbjó fundargerð um fund sem haldinn var í húsakynnum Barnaverndarstofu að frumkvæði Braga Guðbrandssonar um mál stúlku sem vísað hafði verið í Barnahús tíu mánuðum eftir að fundurinn átti sér stað. Þeim sem sátu fundinn var ekki send fundargerðin til staðfestingar. 

Þetta kemur fram í úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents um málsmeðferð og athugun velferðarráðuneytisins á kvörtunum barnaverndarnefnda undan starfsháttum Barnaverndarstofu. Ekki er tekin afstaða til þessara vinnubragða Barnaverndarstofu í úttektinni, enda lýtur úttektin einkum að málsmeðferð og athugun velferðarráðuneytisins vegna kvartana barnaverndarnefnda.

Fundurinn hjá Barnaverndarstofu var haldinn þann 20. janúar 2017 eftir að barnavernd hafði farið fram á að önnur stúlknanna í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli færi í viðtal í Barnahúsi vegna grunsemda barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um kynferðislega misnotkun af hálfu föður. Um er að ræða sömu börn og Bragi Guðbrandsson beitti sér fyrir, í byrjun janúar 2017, að yrðu látin umgangast föður sinn samkvæmt þeim skráðu samtímagögnum sem til eru um málið.

Lögreglan gerði ráð fyrir að stúlkan færi í viðtal í Barnahúsi og tilkynnti að beðið yrði eftir niðurstöðum viðtalsins. Tilvísunarbréf barnaverndarnefndar gleymdist hins vegar í pósthólfi Barnahúss auk þess sem tölvupóstkerfið bilaði á sama tíma. 

Loks boðaði Bragi til sérstaks fundar um mál stúlkunnar þann 20. janúar. Þar lýsti hann efasemdum um trúverðugleika þeirra upplýsinga sem borist höfðu frá listmeðferðarfræðingi sem barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafði sent stúlkurnar til. Engu að síður var ákveðið að stúlkurnar færu ekki í viðtal í Barnahúsi en yrðu áfram hjá listmeðferðarfræðingnum.

Eins og Stundin greindi frá þann 4. júní síðastliðinn er mjög óvenjulegt að forstjóri Barnaverndarstofu hafi afskipti af því hvort tiltekin börn fari í viðtal í Barnahúsi eða boði til fundar um slík mál. Þetta staðfesti Ólöf Ásta Farestveit, forstöðumaður Barnahúss, auk þess sem fyrrverandi starfsmaður Barnahúss tók í sama streng og sagði slíkt ekki hafa tíðkast í sinni starfstíð. 

Í úttekt Kjartans Bjarna og Kristínar er vitnað í minnisblað sem sent var Ásmundi Einari Daðasyni félagsmálaráðherra þann 18. janúar 2018 þar sem sérstaklega er vikið að Hafnarfjarðarmálinu. Þar komi fram að af lestri fyrirliggjandi upplýsinga um málið, annars vegar frá Hafnarfjarðarbæ og hins vegar frá Barnaverndarstofu, megi greina að aðilum beri ekki saman um málsatvik og samskipti vegna þeirra.

„Þá er greint frá því að fundargerð vegna fundar 20. janúar 2017 í húsakynnum Barnaverndarstofu hafi ekki verið rituð fyrr en 24. nóvember 2017 eða tíu mánuðum eftir að fundurinn átti sér stað,“ segir í úttektinni. Auk þess kemur fram að í kjölfar fyrirspurnar ráðuneytisins „staðfesti starfsmaður barnaverndarnefndarinnar í tölvupósti 13. desember 2017 að engin fundargerð hafi verið send starfsmönnunum sem sátu fundinn“.

Í minnisblaðinu sem vitnað er til í úttektinni kemur fram að ásakanir gegn forstjóra Barnaverndarstofu í málinu séu „afar alvarlegar og að mati skrifstofu félagsþjónustu þarfnast það því sérstakrar skoðunar við.“

Gagnrýnir úttektarnefndin að ráðuneytið hafi ekki gert fullnægjandi ráðstafanir með vísan til yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda ráðherra til að upplýsa hvort Bragi og Barnaverndarstofa hefðu brotið gegn starfsskyldum sínum. Þannig hafi ráðuneytið vanrækt rannsóknarskylduna og jafnframt brotið gegn andmælarétti Braga.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Blogg

Hættum að bregðast Hauki

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Úttekt

Einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu: 20 ára saga í máli og myndum