Fréttir

„Fjölskyldu sem þurfti að kljást við skilnað, dauða og mannlegan harmleik var velt upp úr svaðinu“

Einar Hannesson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er óánægður með umfjöllun stjórnmálamanna og fjölmiðla um afskipti Braga af Hafnarfjarðarmálinu.

Einar Hannesson, aðstoðarmaður Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra, telur að niðurstaða úttektar um meðferð velferðarráðuneytisins á kvörtunum barnaverndarnefnda leiði í ljós að stjórnmálamenn sem tjáðu sig um afskipti Braga Guðbrandssonar af Hafnarfjarðarmálinu hafi haft rangt fyrir sér. 

Einar birtir harðorða athugasemd um málið á DV.is undir frétt þar sem fjallað er um gagnrýni Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á Pírata.

„Nú þegar það er komið í ljós að þessari fjölskyldu sem þurfti að kljást við skilnað, dauða og mannlegan harmleik var velt upp úr svaðinu fyrir netsmelli og stundarathygli bloggara og stjórnmálamanna sem höfðu rangt fyrir sér - munu þau biðjast afsökunar?“ skrifar Einar og bætir við: „Það er eiginlega ótrúlegt að sjá að RÚV reynir að hjakka áfram í sama farinu. Hvað sér þetta fólk þegar það lítur í spegil á morgnanna?“

Málið rataði upphaflega í fréttir í nóvember 2017 þegar barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar kvartaði undan því að Bragi Guðbrandsson hefði beitt sér fyrir því að ungar stúlkur yrðu látnar umgangast föður sinn þrátt fyrir grunsemdir um að kynferðislega misnotkun.

Stundin varpaði svo ljósi á afskipti Braga af Hafnarfjarðarmálinu þann 27. apríl síðastliðinn og birti ítarlegar upplýsingar um hvernig afskiptunum var háttað. Í umfjöllun Stundarinnar var greint frá þeim vísbendingum sem fram höfðu komið í málinu og rakið hvernig tilvísunarbréf vegna annarrar stúlkunnar gleymdist í pósthólfi Barnahúss um leið og tölvupóstkerfi þess bilaði. Þá kom fram að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði byggt á ummælum Braga þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að beita skyldu dagsektum á móðurina vegna tálmunar, en síðar var dagsektarúrskurðinum snúið við, meðal annars með vísan til þess að meint kynferðisbrot væru enn til skoðunar. 

Umfjöllun Stundarinnar byggði annars vegar á frumgögnum um Hafnarfjarðarmálið og hins vegar á viðtölum við Braga, föðurinn og föðurafann. Haft var eftir Braga að þegar hann skipti sér af Hafnarfjarðarmálinu hefði hann ekki búið yfir gögnum um málið og ekki viljað vita hvort faðirinn hefði hugsanlega brotið gegn dætrum sínum. „Ég vissi ekkert hvort pabbinn í þessu tilviki hefði gert eitthvað á hlut þessa barns eða ekki. Ég var ekki dómbær á það og hafði ekki aðgang að neinum gögnum og hafði í raun og veru engan áhuga á að vita það,“ sagði hann. Föðurafinn sagðist málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál, en Bragi neitaði því síðar að hafa nokkurn tímann talað við manninn.

Í úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents er ekki lagt heildarmat á vinnubrögð og embættisfærslur Braga í Hafnarfjarðarmálinu. Bent er á að í ljósi þess að velferðarráðuneytinu láðist að upplýsa málsatvik hafði ráðuneytið ekki fullnægjandi grundvöll til að staðhæfa að Bragi hefði  farið út fyrir starfssvið sitt eða brotið gegn þagnarskyldu sinni með samskiptunum við föðurafann. Ráðuneytið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við athugun málsins né virt andmælarétt Braga. 

Í úttektinni eru birt skjöl um afskipti Braga Guðbrandssonar af Hafnarfjarðarmálinu sem eru þau sömu og Stundin byggði atvikalýsinguna á þann 27. apríl. Um er að ræða einu skráðu samtímagögnin um afskipti Braga af umræddu máli.

Umfjöllun Stundarinnar olli nokkru fjaðrafoki í lok apríl, einkum vegna þess að í ljós kom að Ásmundur Einar Daðason hafði ekki afhent velferðarnefnd Alþingis gögn um afskipti Braga þegar fjallað var um málið á fundi nefndarinnar í febrúar og jafnframt haldið því leyndu að velferðarráðuneytið teldi Braga hafa farið út fyrir starfssvið sitt með afskiptunum af Hafnarfjarðarmálinu.

Fréttaflutningur Stundarinnar, upptaka málsins á Alþingi og úttekt óháðrar úttektarnefndar urðu til þess að í ljós kom að ráðuneytinu mistókst að rannsaka með eðlilegum hætti þær ávirðingar sem bornar voru á Braga. Fyrir vikið verða nú kvörtunarefni barnaverndarnefndanna tekin til athugunar að nýju. Þrátt fyrir þetta hefur Bragi sjálfur lýst því yfir að málinu sé „lokið“ og sakað fjölmiðla um að flytja „falsfréttir“. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Blogg

Hættum að bregðast Hauki

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Pistill

Að búa í glerhúsi

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Úttekt

Einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu: 20 ára saga í máli og myndum