Fréttir

Bragi segist aldrei hafa talað við prestinn þvert á hans eigin orð

Bragi Guðbrandsson segist aldrei hafa hitt eða rætt við prestinn í Hafnarfjarðarmálinu áður en hann leitaði til Barnaverndarstofu. Umræddur maður sagði hins vegar Stundinni að hann væri málkunnugur Braga og hefði leitað til hans í erfiðum málum í gamla daga.

Bragi Guðbrandsson Bragi segist á Facebook aldrei hafa hitt eða rætt við prestinn áður.

Bragi Guðbrandsson hjá Barnaverndarstofu segist aldrei hafa hitt eða rætt við föður mannsins sem grunaður var um kynferðisbrot gegn dætrum sínum í Hafnarfjarðarmálinu sem Stundin fjallaði um í síðasta blaði áður en afinn leitaði til Barnaverndarstofu í desember 2016. Orð Braga stangast á við frásögn afans sem segist vera málkunnugur Braga, hafa þekkt hann í gamla daga og leitað til hans í erfiðum málum þegar þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál.

Málið snýst um umfjöllun Stundarinnar þar sem greint var frá því að Bragi Guðbrandsson hefði í samráði við föður málsaðila í barnaverndarmáli beitt sér fyrir því að faðir, sem barnaverndarnefnd og meðferðaraðili óttuðust að hefði brotið kynferðislega gegn dætrum sínum, fengi að umgangast þær.

Bragi skrifaði athugasemd við grein á Facebook-síðu knuz.is á þriðjudag þar sem fjallað var um mál hans. Í greininni var Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur hrósað fyrir framgöngu sína í Silfri Egils. „Við þekkjum þetta, þetta er afskaplega óheppilegt þar sem að konur og börn eru undir í svona viðkvæmum málaflokki eins og barnaverndarmálum að það sé hægt að benda á það að kunningjar séu að hringja í kunningja og biðja um einhverja greiða,“ var haft eftir Þóru. 

Bragi segist í athugasemd vilja koma tilteknum atriðum á framfæri vegna pistilsins. „Ég hef aldrei haft nokkur kynni af neinum sem koma við sögu í umræddu máli, afinn sem hringdi var mér algerlega ókunnugur, hann hef ég aldrei hitt né hafði ég rætt við hann áður en hann bar erindi sitt upp við Barnaverndarstofu,“ skrifar Bragi. „Allt tal um að umrætt mál sé dæmisaga um kunningjasamfélagið er því úr lausu lofti gripið.“

Segir Stundina hafa sett fram kenningu um kunningjatengsl

Í framhaldinu var Bragi spurður í athugasemd af hverju hann hefði haft þessi afskipti af málinu og hvaðan sú saga komi að þeir hafi þekkst. „Mér bar skylda til að bregðast við kvörtun sem beindist að barnaverndarnefnd sbr. 8. gr. bvl,“ skrifar Bragi. „Ég veit ekki hvernig Stundinni datt í hug að setja fram þessa kenningu um kunningjatengsl.“

Rétt er að taka fram að í umfjöllun Stundarinnar hefur hvergi verið fullyrt að Bragi og afinn séu kunningjar. Í upphaflegri frétt var hins vegar vitnað í afann, sem er þjóðkirkjuprestur og hefur sjálfur komið að barnaverndarstörfum. „Ég náttúrlega kannast við Braga frá því í gamla daga,“ sagði hann. „Ég hef sjálfur verið formaður barnaverndarnefndar úti á landi. Það var barnaverndarnefnd í litlu sveitarfélagi sem hafði enga burði og enga starfsmenn. Í erfiðum málum leitaði ég til Braga sem ráðgjafa. Ég þekkti hann á þeim tíma, svo ég er málkunnugur honum, en þegar ég hringdi í hann núna hafði ég ekki hitt hann í 20 eða 25 ár. Það er enginn kunningsskapur milli okkar þannig.“

Í símtalinu sem Stundin átti við afann þann 24. apríl vegna þeirrar umfjöllunar sem þá var í vinnslu lýsti hann fyrri samskiptum sínum við Braga enn nánar. „Ég get nú samt sagt þér – og það lýsir svolítið Braga – að þegar ég hringi og kynni mig þá mundi hann eftir erfiðu máli sem við vorum að eiga við á sínum tíma. Hann mundi nafnið á því barni sem um var að ræða,“ sagði hann. Sjálfur segir Bragi hins vegar á Facebook að afinn sem hringdi í sig í desember 2016 og bað um aðstoð hafi verið sér „algerlega ókunnugur“. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Neyðarkall til stjórnvalda

Fréttir

Skoða ábendingu um „gerviverktaka“ í Hörpu

Fréttir

Segir Arnfríði ekki með réttu geta talist handhafi dómsvalds

Fréttir

Ekki upplýst um nýlegri dæmi þess að börn séu þvinguð til að hitta barnaníðinga

Fréttir

FM Belfast hafa enn ekki fengið greitt fyrir Airwaves

Pistill

Hvað vonuðum við?

Mest lesið í vikunni

Pistill

Það eru engin átök á Gaza og atburðirnir eru ekki sorglegir

Fréttir

Nýr stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs á leigufélag sem er virkt á húsnæðismarkaði

Pistill

Hvalárvirkjun og efnahagslögmálin

Fréttir

Eyþór efndi ekki loforðið í Árborg því það stóðst ekki lög en endurtekur nú leikinn í Reykjavík

Pistill

Neyðarkall til stjórnvalda

Fréttir

Stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs á annað leigufélag sem græddi 12 milljónir í fyrra