Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Telja að Ásmundur verði að segja af sér: „Hann laug bara að okkur“

Hall­dóra Mo­gensen, formað­ur vel­ferð­ar­nefnd­ar, seg­ir að Ásmundi Ein­ari Daða­syni fé­lags­mála­ráð­herra sé ekki sætt á ráð­herra­stóli. „Hann laug bara að okk­ur,“ seg­ir Anna Kol­brún Árna­dótt­ir full­trúi Mið­flokks­ins í nefnd­inni.

Formaður velferðarnefndar Alþingis hefur óskað eftir því að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra mæti á opinn fund nefndarinnar á mánudaginn til þess að ræða efni fréttar Stundarinnar frá því í morgun.

Í fréttinni kemur fram að Ásmundur Einar hafi haldið upplýsingum um afskipti Braga Guðbrandssonar, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, af barnaverndarmáli leyndum fyrir velferðarnefnd Alþingis.

Formaður nefndarinnar og í það minnsta einn nefndarmanna telja að Ásmundi Einari sé ekki sætt í stóli ráðherra í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í blaðinu; hann verði að segja af sér.

Velferðarnefnd Alþingis fundaði í morgun og var frétt Stundarinnar rædd þar og sú ósk formanns nefndarinnar, Halldóru Mogensen þingmanns Pírata, að Ásmundur Einar myndi mæta á opin fund næstkomandi mánudag til að svara fyrir málið.

Halldóra óskaði eftir því þegar í nótt, eftir lestur Stundarinnar, en enn hafa ekki borist svör við því hvort ráðherra mæti.

Halldóra sagði í samtali við Stundina að ágætis samstaða hefði verið um að ráðherra þyrfti að koma fyrir nefndina og svara fyrir efni fréttar Stundarinnar.

„Aðallega snýr það að þeim ósannindum sem hann virðist hafa farið fram með fyrir nefndinni og á þingi en eins þá ákvörðun að bjóða Braga fram sem kandidat Íslands, og raunar Norðurlandanna, sem fulltrúa í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Það hlýtur að þurfa að ræða það í samhenginu.

Halldóra segir að ef frétt Stundarinnar sé rétt, þ.e. að ráðuneyti Ásmundar hafi búið yfir umræddum gögnum en leynt Alþingi þeim, sé Ásmundi Einari ekki sætt áfram á ráðherrastóli.

„Það eitt og sér að ráðherra hafi sagt okkur ósatt og hann hafi leynt upplýsingum frá velferðarnefnd Alþingis, sem er eftirlitsaðili með störfum ráðherra, og að hann hafi leynt upplýsingum frá þinginu og í raun og veru sagt því ósatt, það finnst mér málið svo alvarlegt að hann verður að segja af sér ráðherradómi.“

Segir að meirihlutinn hafi staðið í vegi
fyrir því að upplýsingar kæmu fram

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, á einnig sæti í velferðarnefnd og sat fundinn í morgun. Hún segir málið alvarlegt í ljósi framgöngu Ásmundar Einars á fundi nefndarinnar 28. febrúar síðastliðinn en þar lét Ásmundur Einar hjá líða að upplýsa um þær upplýsingar sem ráðuneytinu voru afhentar, um málið sem Stundin geinir frá í dag. Umfjöllun Stundarinnar byggir á upplýsingum sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars, skrifstofustjóri velferðarráðuneytisins og lögfræðingur fengu afhentar þann 31. janúar síðastliðinn. 

„Hann laug bara að okkur, það er bara þannig. Við eigum að heita aðili sem á að veita ráðherra aðhald en samt sem áður var ekki auðvelt að fá fram þessar upplýsingar sem Stundin styðst við. Það voru aðilar innan velferðarnefndar, úr ríkisstjórnarmeirihlutanum, sem stóðu eins mikið í vegi fyrir því og þeir gátu, en það hafðist.“ Anna Kolbrún vísar þarna til þess að þingmönnum var greint frá því 24. apríl að þeir gætu skoðað gögn er lúta að niðurstöðum velferðarráðuneytisins í málum barnaverndarnefnda sem höfðu kvartað undan afskiptum Braga af einstökum málum og óeðlilegum samskiptum hans við barnaverndarstarfsmenn í skjalageymslu Alþingis. Þó var tekið fram að strangur trúnaður ríkti yfir gögnum og óheimilt með öllu væri að taka af þeim afrit.

Anna Kolbrún segir Ásmundi Einari ekki sætt í stóli ráðherra í ljósi þessara upplýsinga. „Nei, og sérstaklega ekki í ljósi þess að hann hefur lýst því yfir að málefni barna séu hans forgangsmál. Ef svo er á hann að segja satt í þessu máli, gefa allar upplýsingar og vinna eftir því verklagi sem hann boðar. Það hefur hann ekki gert til þessa.“

Vilja frekari upplýsingar

Stundin heyrði líka í Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Vinstri grænna, og Guðjóni S. Brjánssyni, þingmanni Samfylkingarinnar en báðir sitja þeir í velferðarnefnd. Þeir sögðust ekki hafa kynnt sér málið fyllilega utan þess sem fram kom á fundi nefndarinnar. Andrés Ingi taldi sig því ekki geta tjáð sig um málið að öðru leyti en því að hann væri fylgjandi því að Ásmundur Einar mætti á opinn fund nefndarinnar í næstu viku. Guðjón tók í sama streng og vildi fá frekari svör frá ráðherra. Halla Signý Kristjánsdóttir, samflokkskona Ásmundar Einars og fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, sat ekki fundinn í morgun og sagðist því ekki geta tjáð sig þegar Stundin leitaði eftir því

Segir ávirðingarnar alvarlegar

Stundin hafði þá samband við Ólaf Þór Gunnarsson, þingmann Vinstri grænna og 1. Varaformann velferðarnefndar, og spurði hann hvort hann teldi eðlilegt að Ásmundur Einar segði af sér í ljósi þessara upplýsinga. „Ég bara er ekki tilbúinn til að svara því afdráttarlaust fyrr en ég er búinn að heyra afstöðu ráðherrans, einkum þar sem ég sat ekki sjálfur umræddan fund 28. Febrúar,“ sagði Ólafur.

Ólafur Þór GunnarssonÞingmaður VG og 1. varaformaður velferðarnefndar segir ávirðingarnar á hendur Ásmundi Einari alvarlegar.

Þegar blaðamaður gekk harðar að Ólafi og spurði hvort eðlilegt væri að ráðherra, hvaða málaflokks sem væri, sæti áfram yrði hann uppvís að því að leyna þingnefnd upplýsingum svaraði Ólafur því til að vissulega væri það mjög alvarlegt ef slíkt gerðist. „Enda var nefndin einhuga um að fá hann á sinn fund og ég held að það sé mjög mikilvægt að ráðherra fái tækifæri til að svara þessu frammi fyrir nefndinni, með hvaða hætti þessi gögn voru til í ráðuneytinu og hvort honum hafi raunverulega verið kunnugt um þau eða ekki. Ég veit það ekki eins og er og treysti mér því ekki til að svara. Eins og þú segir, þetta eru mjög alvarlegar ávirðingar sem þarna koma fram og því mjög mikilvægt að ráðherra fái að svara þeim frammi fyrir nefndinni.“

Stundin hafði samband við Ásmund Einar Daðason og aðstoðarmann hans og bauð ráðherra viðtal vegna málsins. Greindi Stundin frá því að í vinnslu væri frétt um Braga Guðbrandsson og barnaverndarmál. Ásmundur hringdi frá Strassborg, sagðist hugsanlega hafa tíma fyrir stutt símaviðtal en vildi þá vita hverjar spurningarnar væru. Hann bað um að upplýsingafulltrúa ráðuneytisins yrðu sendar spurningarnar áður en viðtalið færi fram. Stundin féllst ekki á slíka viðtalstilhögun en bauð ráðuneytinu að koma hverjum þeim upplýsingum eða athugasemdum á framfæri sem vilji stæði til. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár