Ásmundur vissi allt um þrýsting Braga en sagði Alþingi ekkert

„Það er gríðarlega mikilvægt að velferðarnefndin setji sig vel inn í þetta mál,“ sagði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra um leið og hann hélt því leyndu fyrir Alþingi hvernig Bragi Guðbrandsson beitti sér fyrir umgengni prestssonar við dætur sínar sem hann var grunaður um að misnota.

johannpall@stundin.is

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, bjó yfir ítarlegum upplýsingum um afskipti Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmálinu í Hafnarfirði og þrýstinginn sem Bragi beitti barnaverndarstarfsmann af vorkunnsemi við fjölskyldu manns sem grunaður var um kynferðisbrot gegn dætrum sínum þegar ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 23. febrúar síðastliðinn að útnefna Braga sem frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. 

Stundin fjallar ítarlega um málið í dag, en fram kemur að um leið og Bragi hlutaðist til um meðferð málsins hjá barnaverndarnefnd átti hann ítrekuð samskipti við föður mannsins, Þjóðkirkjuprest sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál. Samkvæmt þeim gögnum sem Stundin hefur undir höndum fólst í þrýstingi Bragasú krafa að móðir stúlknanna myndi hætta að „hamla umgengni“ þrátt fyrir að barnavernd Hafnarfjarðar hefði ráðlagt henni að halda dætrum sínum í öruggu skjóli frá föður þeirra meðan málið væri rannsakað. Á sama tíma og afskipti Braga áttu sér stað lá tilvísunarbréf barnaverndarnefndarinnar vegna málsins – þar sem farið var fram á rannsóknarviðtöl við stúlkurnar í ljósi sterkra og margvíslegra vísbendinga um að faðirinn hefði beitt þær kynferðisofbeldi – óhreyft í um mánuð í pósthólfi Barnahúss. Barnahús er rekið af Barnaverndarstofu og heyrði þannig óbeint undir Braga Guðbrandsson þegar afskipti hans af málinu fóru fram. Að sögn Braga bilaði jafnframt tölvukerfi Barnahúss um þetta leyti og skilaði tilvísunin sér því ekki, hvorki með stafrænum hætti né í pósti. 

Ráðherra hélt öllum þessum upplýsingunum leyndum fyrir Alþingi þegar hann sat fyrir svörum hjá velferðarnefnd þann 28. febrúar. Þetta gerði Ásmundur þrátt fyrir að hann hefði sjálfur boðað komu sína á fund nefndarinnar undir þeim formerkjum að hann vildi upplýsa rækilega um kvörtunarmál barnaverndarnefndanna og niðurstöður ráðuneytisins. „Það er gríðarlega mikilvægt að velferðarnefndin setji sig vel inn í þetta mál. Þess vegna hafði ég samband við formann velferðarnefndar nú um helgina og óskaði sérstaklega eftir því að velferðarnefnd setti sig inn í þetta mál,“ sagði hann í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi 26. febrúar. 

„Það er gríðarlega mikilvægt að velferðarnefndin setji sig vel inn í þetta mál“

Ásmundur fullyrti að Bragi Guðbrandsson hefði „ekki brotið af sér með neinum hætti“ og væri „frambærilegur kandídat til framboðs til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna“. Á fundi nefndarinnar tveimur dögum síðar lét Ásmundur ósagt að Bragi Guðbrandsson hefði beitt barnaverndarstarfsmann þrýstingi vegna kynferðisbrotamáls á sama tíma og hann átti ítrekuð samskipti við föður málsaðila og tilvísunarbréf vegna sama máls gleymdist í pósthólfi Barnahúss sem heyrði óbeint undir Braga. 

Á þessum tíma höfðu skjölin sem sýndu þetta – skjölin sem umfjöllun Stundarinnar byggir á – legið fyrir á skrifstofu ráðherra í velferðarráðuneytinu í tæpan mánuð, eða frá 31. janúar 2018. Þann dag voru gögnin afhent á fundi með aðstoðarmanni Ásmundar Einars, skrifstofustjóra og lögfræðingi í velferðarráðuneytinu auk þess sem þau voru sett ítarlega inn í málið, forsögu þess og málsatvik, aðkomu Braga Guðbrandssonar og ítrekuð samskipti hans við föður málsaðila. 

Þannig lágu allar þessar upplýsingar fyrir hjá ráðherranum sem fer með barnaverndarmál í ríkisstjórn Íslands þegar sú ákvörðun var tekin þann 23. febrúar 2018 að bjóða Braga Guðbrandsson fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. 

Þegar kom að því að upplýsa Alþingi um kvörtunarmálin og niðurstöður ráðuneytisins fékk velferðarnefnd nær engin gögn sem varpað gátu ljósi á afskipti Braga, réttmæti þeirra eða lagagrundvöll og afstöðu ráðuneytisins til þess hvað væri hæft og hvað ekki í athugasemdum nefndanna. 

Það var ekki fyrr en nú undir lok apríl – eftir að Stundin hafði byrjað að spyrjast fyrir um málin og úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekið synjun á upplýsingabeiðni blaðsins til efnismeðferðar – sem ráðuneytið afhenti loks velferðarnefnd Alþingis gögn sem óskað hafði verið eftir. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var hluti gagnanna afhentur þingmönnum undir strangri trúnaðarkröfu. Þannig eru gögnin einungis aðgengileg í skjalageymslu Alþingis þar sem þingmenn mega skoða þau en er óheimilt að afrita þau með neinum hætti. 

Dómsmálaráðuneytið einnig með gögnin

Með ítarlegri gögn en ÁsmundurDómsmálaráðuneytið fékk gögnin sem Stundin byggir umfjöllun sína á afhent í fyrra vegna kæru á sýslumannsúrskurði.

Velferðarráðuneytið er ekki eina ráðuneytið sem hefur fengið gögn um íhlutun Braga á sitt borð. Þegar móðirin kærði dagsektarúrskurð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til dómsmálaráðuneytisins þann 23. júní 2017 fylgdu kærunni 23 skjöl, meðal annars skýrslur listmeðferðarsérfræðingsins, niðurstöður meðferðarfunda barnaverndar Hafnarfjarðar og bréf barnaverndar til lögreglu og Barnahúss, en jafnframt afrit af tölvupóstssamskiptum Braga og föðurafans og staðfest afrit af símtali Braga við barnaverndarstarfsmanninn í Hafnarfirði. Þetta eru enn ítarlegri gögn en félagsmálaráðherra fékk afhent.

Þannig er ljóst að upplýsingar um vinnubrögð Braga og eðli málsins sem hann skipti sér af lágu fyrir í tveimur ráðuneytum þegar framboðsákvörðunin var tekin. 

Skráðu þig inn til að lesa

Þú færð 4 greinar fríar í mánuði. Þú hefur síðan val um að styrkja óháða blaðamennsku með áskrift á hagstæðu verði, frá aðeins 1.690 krónum á mánuði. Leiðbeiningar má nálgast á stundin.is/leidbeiningar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt á Stundinni

Pillan og neikvæð áhrif hennar

Pillan og neikvæð áhrif hennar

Ísland tengt við mútugreiðslur og peningaþvætti

Ísland tengt við mútugreiðslur og peningaþvætti

Að auka streitu foreldra og barna

Svala Jónsdóttir

Að auka streitu foreldra og barna

Sóley og Hildur halda vinnuhelgi fyrir róttækar konur

Sóley og Hildur halda vinnuhelgi fyrir róttækar konur

Feilskot að aðstoðarmaður ráðherra kalli „vini sína til leiks“ í máli bráðamóttökunnar

Feilskot að aðstoðarmaður ráðherra kalli „vini sína til leiks“ í máli bráðamóttökunnar

Óhagstæð lög og stefna stjórnvalda hindrar innflytjendur á vinnumarkaði

Óhagstæð lög og stefna stjórnvalda hindrar innflytjendur á vinnumarkaði

Hálendisþjóðgarður í allra þágu: Höfum ekki asklok fyrir himin

Margrét Hallgrímsdóttir

Hálendisþjóðgarður í allra þágu: Höfum ekki asklok fyrir himin

Styttri opnunartími eða styttri vinnuvika?

Ritstjórn

Styttri opnunartími eða styttri vinnuvika?

Gróðureldarnir í Ástralíu aðeins upphafið að vandanum

Gróðureldarnir í Ástralíu aðeins upphafið að vandanum

Spyr hvort takmarka eigi sölu á orkudrykkjum

Spyr hvort takmarka eigi sölu á orkudrykkjum

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað

Átta handteknir við Héðinshúsið og níu leiddir af vinnustað

Samfarir kóngs og drottningar

Illugi Jökulsson

Samfarir kóngs og drottningar