Fréttir

Seðlabankinn segir smálánafyrirtæki sniðganga lög til að græða á fjárhagsvanda ungs fólks

Meðan ríkisstjórnin vísar til „lélegs fjármálalæsis hjá almenningi“ í tengslum við greiðsluvanda ungs fólks beinir Seðlabankinn sjónum að hlutverki löggjafans sem hafi ekki tekist að koma böndum á starfsemi smálánafyrirtækja.

Þetta unga par hefði líklega gott af því að taka námskeið í fjármálalæsi. Mynd: Shutterstock

Seðlabankinn telur að lög frá 2013, sem var ætlað að koma böndum á starfsemi smálánafyrirtækja, hafi ekki náð tilætluðum árangri. Fyrirtækin beiti ýmsum brögðum til að komast framhjá lögunum og í sumum tilvikum séu lögin sniðgengin með öllu. Þetta kemur fram í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, sem kom út í gær.

Sem dæmi um aðferðirnar sem beitt er nefnir Seðlabankinn að rekstraraðili smálánafyrirtækja á Íslandi hafi selt rafbækur í skiptum fyrir svokallað flýtigjald eða lántökugjald, en andvirðið af sölunni hafi ekki verið innifalið í útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar fyrirtækisins. 

Bent er á að helsti markhópur smálánafyrirtækja er ungt fólk sem stendur höllum fæti fjárhagslega og hefur takmarkaðan aðgang að lánsfé í hefðbundnum lánastofnunum.

Hlutfall fólks á aldrinum 18 til 29 ára sem sótt hefur um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara hafi hækkað umtalsvert á síðustu árum og um leið hafi hlutfall smálánaskulda af heildarskuldbindingum hópsins aukist.

„Árið 2017 voru 70% einstaklinga sem sóttu um greiðsluaðlögun á aldrinum 18-29 ára með smálánaskuldir. Meðalfjárhæð smálánaskulda á hverja umsókn hjá sama hópi hækkaði um rúmlega 40% á milli áranna 2016 og 2017,“ segir í riti Seðlabankans. 

Stundin fjallar ítarlega um smálána- og raðgreiðslulánastarfsemi í blaðinu sem kom út í dag, einkum um umsvif Skorra Rafns Rafnssonar í íslensku viðskiptalífi. Skorri er stofnandi og eigandi smálánafyrirtækjanna 1909, Múla og Hraðpeninga en jafnframt Netgíró, eins helsta fjártæknifyrirtækis Íslands, og fyrirtækisins Aktiva sem er milliliður í lánaviðskiptum einstaklinga og fyrirtækja. Bent er á að Netgíró hf., sem veitt hefur íslenskum almenningi smá- og neyslulán fyrir marga milljarða króna, lýtur takmörkuðu opinberu eftirliti og er ekki eftirlitsskyldur aðili í sama skilningi og bankar eða tryggingafélög enda fyrirtækið ekki fjármagnað með innlánum. 

Seðlabanki Íslands hnykkir á því í ritinu sem kom út í gær að starfsemi smálánafyrirtækja veiki greiðslugetu einstaklinga sem sækja í slík lán. Þá kunni að reynast varhugavert fyrir fjármálastöðugleika á Íslandi ef stærri fjármálafyrirtæki herða á samkeppninni við smálánafyrirtæki með því að greiða aðgengi almennings að sambærilegum skammtímalánum. Slíkt geti orðið til þess að vanskil í fjármálakerfinu aukist.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er fjárhagsvandi lágtekjufólks á leigumarkaði og fjölgun ungs fólks sem sækir um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara sett í samhengi við það sem kallað er „lélegt fjármálalæsi hjá almenningi“. Leiða má líkum að því að þarna sé vísað til þess að ungt fólk sé of ginkeypt fyrir gylliboðum smálánafyrirtækja.

Í umfjöllun Seðlabankans um smálánastarfsemi og greiðsluvanda ungs fólks er skömminni ekki skellt á almenning eða slæmt fjármálalæsi heldur sjónum beint að löggjafanum, því hvernig Alþingi og stjórnvöldum hefur mistekist að koma böndum á starfsemi smálánafyrirtækja. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Vigdís Hauksdóttir lætur víkinga bera sig í kosningamyndbandi

Aðsent

400 manns senda Katrínu Jakobsdóttur opið bréf vegna „vanrækslu stjórnvalda“ í máli Hauks

Fréttir

Segir ummæli Brynjars ófagleg og afvegaleiða umræðu

Aðsent

Typpi, hvalir og Kristján Loftsson

Fréttir

Inga Sæland segist ekki vera hugsjónalaus afæta

Fréttir

Kallar tilmæli Svandísar „veruleikafirringu“ – Ljósmæður telja sig hafa gert samning

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson ógjaldfær

Fréttir

Ætlar ekki að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Viðtal

Finnur mun meira fyrir fötluninni á Íslandi

Fréttir

Forstjóri Isavia segir miklar launakröfur áhyggjuefni: Hækkaði sjálfur í launum um 400 þúsund milli ára

Fréttir

Vigdís Hauksdóttir lætur víkinga bera sig í kosningamyndbandi

Fréttir

Starfsfólk Árnastofnunar reitt við Ríkisútvarpið