Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Hestaleigur græða tugi milljóna á félagslegum undirboðum

Not­færa sér ódýrt vinnu­afl í stór­um stíl og fylgja hvorki lög­um né kjara­samn­ing­um.

Fjöldi íslenskra hestaleiga sparar sér tugi milljóna á hverju ári með félagslegu undirboði á vinnumarkaði og öðlast þannig gríðarlegt samkeppnisforskot gagnvart þeim fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum og greiða starfsfólki samkvæmt kjarasamningum.

Stundin hefur aflað upplýsinga sem varpa ljósi á kaup og kjör erlendra starfsmanna hjá hestaleigum. Niðurstöðurnar eru sláandi og benda til þess að vel á annan tug íslenskra hestaleigufyrirtækja brjóti gegn lögum og kjarasamningum. Eins og bent er á í minnisblaði ASÍ um ólaunaða vinnu frá 2015 er slík vinna nær aldrei talin fram til skatts og má því ætla að sameiginlegir sjóðir verði af umtalsverðum fjármunum.

Blaðið hafði samband við tugi hestaleigufyrirtækja undir dulnefninu Sara Larsen. Sara sagðist vera 19 ára hestakona frá Danmörku í leit að vinnu á Íslandi. 

Á meðal fyrirtækja sem buðu Söru að koma og vinna hjá sér á kjörum langt undir kjarasamningum og lágmarkslaunum eru Sólhestar í Borgargerði, Geysir hestar í Bláskógabyggð, Hestasport í Varmahlíð og Alhestar í Þorlákshöfn. 

Aðeins örfáar hestaleigur gáfu svör sem benda til þess að þau greiði laun í samræmi við kjarasamninga. Þetta eru fyrirtækin Íslenski Hesturinn, Vík Horse Adventure, Abbi Island, Traðir og Eldhestar. 

„Hörkuvinna“ frá átta til fimm og einn frídagur 

Fyrirtækið Sólhestar er í eigu hjónanna Sólmundar Sigurðssonar og Sjafnar Sveinsdóttur og með starfsemi í Reykjavík og Borgargerði, rétt hjá Hveragerði. Þegar Sara sótti um vinnu hjá Sólhestum fékk hún sent staðlað upplýsingaskjal þar sem fjallað er ítarlega um launakjör og starfstilhögun. 

„Vinnutíminn er alltaf milli 7:45 og 17:00 og stundum aðeins lengri þegar pantanirnar eru margar. Laun eru 120 þúsund krónur, íbúð, bíll (við greiðum bensín á bílinn þegar keypt er inn),“ segir í skjalinu. Fram kemur að starfsfólk fái einn frídag í viku. Fyrirtækið sé á höttunum eftir „leiðsögumanni“ sem geti fyrst um sinn prófað að vinna hjá Sólhestum í þrjár vikur. „Þá sjáum við hvort viðkomandi er rétta manneskjan í starfið. Þetta er hörkuvinna og það getur verið erfitt að sitja svona lengi á hestbaki. Á sama tíma er þetta gaman og við erum eins og lítil fjölskylda.“ 

Tekið er fram að leiðsögumennirnir hjá Sólhestum búi tveir og tveir í herbergi. Herbergin séu tvö og starfsmennirnir deili eldhúsi, salerni, sturtu og setustofu. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar fá þeir starfsmenn Sólhesta sem dvelja í Reykjavík herbergi á efri hæðinni í hesthúsinu. 

Launakjörin trúnaðarmál

„Við erum ekki með neitt ólaunað eða neitt svoleiðis. Ef það hefur verið ólaunað hefur starfsfólk komið hér á vegum skóla. Annað er það ekki hjá okkur, við setjum allt á kennitölur og erum með allt starfsfólk skráð,“ segir Sólmundur Sigurðsson í samtali við Stundina. Í skjalinu sem Sara Larsen fékk frá Sólhestum er hins vegar tekið sérstaklega fram að hún þurfi ekki kennitölu fyrr en þremur mánuðum eftir að hún byrjar að vinna.

„Við erum núna fimm starfsmenn og þar af eru þrjú íslensk, tvær erlendar og þær eru komnar með kennitölur. Þrjár norskar stelpur voru hjá okkur í þrjár vikur, en þær voru ekki á launum heldur komu frá Noregi, norskum skóla. Við fáum oft svoleiðis erindi frá skólum og það er eina ólaunaða dæmið hjá okkur,“ segir Sólmundur. Aðspurður hvort aðrir fái greitt samkvæmt kjarasamningi svarar hann játandi. „Já já, en svo eru launakjör auðvitað trúnaðarmál milli fólks. Þeir eru nýbúnir að vera hérna frá verkalýðsfélaginu og skattinum og það eru engir stórglæpir framdir hér get ég sagt þér.“ 

„Það eru engir stórglæpir
framdir hér get ég sagt þér.“

Síðar í samtalinu, þegar Stundin spurði hvort það gæti staðist að fyrirtækið byði starfsfólki 120 þúsund króna mánaðarlaun, sagði Sólmundur að það væri allur gangur á því. Almennt tíðkaðist hjá Sólhestum að miða við lágmarkslaun og draga frá þeim húsaleigu og fríðindi á borð við mat. „Svo fær fólk borgað, og við borgum gjöld af allri upphæðinni, lágmarksupphæðinni.“ 

Tugmilljóna launasparnaður hjá Sólhestum

Ef ungur starfsmaður hjá hestaleigu fengi greitt samkvæmt kjarasamningi VR, en farið væri að öðru leyti eftir því sem fram kemur í upplýsingaskjali Sólhesta, svo sem hvað yfirvinnu varðar, myndu heildarlaun með orlofi nema rúmlega 380 þúsund krónum á mánuði. Alls yrði kostnaður vinnuveitandans rúmlega 450 þúsund krónur vegna launatengdra gjalda. 

Sólhestar bjóða upp á reiðtúra allt árið. Í upplýsingaskjalinu sem Sara fékk er tilgreint sérstaklega að erlendur starfsmaður þurfi ekki íslenska kennitölu nema hann ætli að starfa lengur en þrjá mánuði á Íslandi. Fram kemur að hjá fyrirtækinu starfi 12 leiðsögumenn. Ef aðeins fimm þessara starfsmanna eru á launum en hinir sjö á kjörum sambærilegum þeim sem Söru Larsen voru boðin má, með einföldum samanburði og útreikningi samkvæmt áðurnefndum forsendum, sjá að Sólhestar spara sér að lágmarki 22 milljónir í hreinan launakostnað á ári með því að notfæra sér ódýrt vinnuafl. Séu launatengd gjöld tekin með í reikninginn myndi það kosta fyrirtækið um 32 milljónir að hafa þennan fjölda starfskrafta í vinnu á ársgrundvelli ef greitt væri samkvæmt kjarasamningi. Alls næmu þá árlegar skatttekjur af sjö starfsmönnum um 9,5 milljónum og lífeyrisgreiðslur um 4,5 milljónum. 

Fá umbun í „fríðindum og huggulegheitum“

Í ársreikningi Sólhesta fyrir 2016 kemur fram að sjö launþegar hafa starfað hjá fyrirtækinu en ársverkin verið samtals fimm. Engu að síður námu laun og launatengd gjöld aðeins 17 milljónum á því ári sem bendir til þess að starfsmenn hafi fengið greitt langt undir lágmarkslaunum. 

HuggulegheitAðeins sumir starfsmenn fyrirtækisins fá eiginleg laun fyrir vinnu sína.

Á Facebook-síðu Sólhesta birtist í fyrra mynd af níu manna hópi ásamt textanum „Dinner with my staff in Fákasel“. Í athugasemdum kom fram að þetta hefði aðeins verið „launaða staffið“ en hinir fengju „sína umbun í öðrum fríðindum og huggulegheitum“. 

Sólhestar voru stofnaðir árið 2010. Ef viðskiptahættir á borð við þá sem lýst er í bréfinu til Söru hafa tíðkast frá upphafi má ætla að fyrirtækið hafi grætt vel yfir 100 milljónir á félagslegu undirboði. Ódýrt vinnuafl hefur að sama skapi gert fyrirtækinu kleift að ráða fleiri starfsmenn, bæta við sig glæsilegu útibúi í Reykjavík árið 2016 og bjóða upp á fleiri og ódýrari reiðtúra heldur en þeir samkeppnisaðilar sem fylgja lögum og kjarasamningum. 

„Rosalega góður matur“ í laun

Undirboðin eru ekki grófust hjá Sólhestum. Þegar Sara Larsen hafði samband við fjölskyldufyrirtækið Lýsuhól, í eigu Jóhönnu Ásgeirsdóttur og Agnars Gestssonar, var henni boðin launalaus vinna með fæði og húsnæði. 

Lýsuhóll lagði áherslu á að Sara fengi einstaklega góðan mat. „Hæ Sara, það eru engin laun greidd hjá okkur. Eins og þú veist er mjög dýrt að búa og borða á Íslandi. Þú færð þitt eigið rúm í herbergi ásamt fleiri stelpum,“ segir í svarbréfi frá fyrirtækinu þar sem jafnframt kemur fram að allir starfsmenn þurfi að sinna ábyrgðarhlutverkum. 

„Þú borðar með okkur. Maturinn er rosalega góður. Það er veitingastaður í grenndinni þar sem við borðum og þau elda fyrir okkur á hverjum degi. Rosalega gott!“ 

Fær kannski greitt en verður hluti af fjölskyldunni

Hestaleigan Kiðafell í Kjós bauð Söru herbergi og frítt fæði gegn því að hjálpa til með hestana. Fram kemur í svörum fyrirtækisins að Sara muni fá eitthvað borgað, að það ráðist dálítið af því „hve mikil vinnan er og hve mikið við getum notað þig“. Hún verði hluti af fjölskyldunni og fái vonandi meira en nóg til að geta notið dvalarinnar á Íslandi. 

 „Stundum höfum við verið með átta til
tíu stelpur á sama tíma og þá er
ómögulegt að borga þeim öllum.“

Sams konar svör bárust frá hestaleigunni Stóra Kambi. Þar fái Sara mat og húsnæði og reynt verði að gefa henni einn frídag í viku. „Það hvort starfsmenn fá greitt ræðst af því hve lengi þeir dveljast hjá okkur. Stundum höfum við verið með átta til tíu stelpur á sama tíma og þá er ómögulegt að borga þeim öllum. Margar stelpnanna koma aftur og aftur og eru í raun hluti af fjölskyldunni.“ 

Hestaleigan Galsi svaraði Söru einnig á þá leið að flestir stráka og stelpna sem ynnu hjá þeim fengju aðeins greitt í formi húsnæðis og uppihalds. 

Undirboð ólögleg en algeng hjá hestaleigum

Samkvæmt íslenskum lögum eru sjálfboðastörf einungis réttlætanleg þegar um er að ræða vinnu fyrir mannúðar- eða hjálparsamtök, verkefni sem lúta að náttúruvernd eða störf sem ellegar væru ekki unnin. Um önnur störf gilda ákvæði kjarasamninga.

Á vef Alþýðusambands Íslands er bent á að ólaunuð vinna við „efnahagslega starfsemi“ – það er framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði, oftast í hagnaðarskyni og í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi – feli í sér óásættanleg undirboð. Hestaleigur eru nefndar sérstaklega sem dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem mikið er um ólaunaða vinnu í trássi við lög og reglur.

Fæði og húsnæði geta vissulega verið hluti endurgjalda fyrir vinnu, þá með þeim hætti að atvinnurekandi hafi heimild til að draga slíkt af launum starfsmanna. Slíkt er hins vegar háð miklum takmörkunum og skilyrðist auðvitað af því að kjarasamningum sé fylgt, ráðningarsamningur gerður og launaseðill með viðeigandi frádráttarliðum gefinn út. 

Fátt ef nokkuð bendir til þess að sú sé raunin hjá þeim fyrirtækjum sem bjóða Söru að koma að vinna hjá sér fyrir mat og húsaskjól. 

Hestasport telja 80 þúsund nóg til að lifa eðlilegu lífi

Fyrirtækið Hestasport í eigu Magnúsar Sigmundssonar hefur verið starfrækt í Varmahlíð í Skagafirði í meira en 40 ár og er með hátt í 130 hesta á sumrin. Þegar Sara óskaði eftir vinnu hjá fyrirtækinu fékk hún, líkt og hjá Sólhestum, staðlað skjal með vinnulýsingu og upplýsingum um kaup og kjör. 

„Sveigjanleiki er lykilatriði fyrir okkur. Ekki vera hrædd við að vinna! Nýjum hugmyndum er tekið fagnandi og við ætlumst til þess að þú sýnir ábyrgð í vinnunni,“ segir í skjalinu. „Stundum er brjálað að gera, en aldrei leiðinlegt! Þú munt ekki fá reglulega frídaga og aldrei ljúka vinnu á sama tíma. Það koma annasöm tímabil þar sem þú munt vinna marga klukkutíma.“

Fram kemur að starfsmenn séu tveir og tveir saman í herbergi. „Lágmarkslaun“ séu 80 þúsund krónur á mánuði, en á annasömum tímum fái starfsmenn stundum meira greitt. „Við teljum að þessi peningur dugi til að lifa eðlilegu lífi,“ segir í tölvupósti Hestasports til Söru. 

Í upplýsingaskjalinu kemur ekki fram hvort ókeypis matur er innifalinn, en tekið er sérstaklega fram að hver og einn beri sjálfur ábyrgð á því að grunnþarfir um mat og öryggi séu uppfylltar. 

Óskilgreind hlunnindi

Ef miðað er við samskonar forsendur og hjá Sólhestum, og gert ráð fyrir fimm starfsmönnum sem starfi yfir 6 mánaða tímabil á ári, má áætla að Hestasport spari sér árlega um 9 milljóna launakostnað með því að notfæra sér ódýrt vinnuafl í stað þess að fylgja lögum og kjarasamningum. Ef fyrirtækið greiddi samkvæmt kjarasamningum og í samræmi við fyrrnefndar forsendur næmu skattgreiðslurnar um 3,4 milljónum og lífeyrissjóðsgreiðslur um 1,6 milljónum á ári. 

„Við höfum forðast að vera með sjálfboðaliða. Flestir eru á kennitölu en svo eru einhverjir í starfsnámi, en hér er enginn sjálfboðaliði,“ segir Magnús Sigmundsson, eigandi Hestasports, í samtali við Stundina. „Fólk fær laun og óskilgreind hlunnindi og við tökum mið af lágmarkslaunum í samfélaginu. Ég segi nú ekki að fólk fái mikið meira en það en við reynum að hanga í því. Þegar við fáum umsóknir þá gefum við ekki upp mjög háa upphæð fyrsta mánuðinn meðan við erum að kynnast fólkinu sem leitar til okkar.“ Magnús segir að starfsmenn sem eru lengur en nokkrar vikur og standa sig vel fái að minnsta kosti greidd lágmarkslaun. 

„Þegar við fáum umsóknir þá gefum við ekki upp mjög háa upphæð fyrsta mánuðinn meðan við erum að kynnast fólkinu sem leitar til okkar.“

Hann segir samkeppnina hafa harðnað í hestaleigugeiranum undanfarin ár. „Það eru auðvitað allir að finna upp hjólið og margir að koma sér fyrir, sem er fínt svo lengi sem menn bjóða ekki niður. Það versta er þegar menn ná sér í markaðshlutdeild með þjónustuundirboðum.“ Magnús er uggandi yfir þeim kvöðum og gjöldum sem lögð eru á ferðaþjónustuna. Aðspurður hvað honum finnist um hugmyndir um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu segir hann að slíkt yrði dauðadómur yfir mörgum fyrirtækjum. 

„Við deilum eldhúsi, baðherbergi og stofu“

Alhestar í Þorlákshöfn, hestaleiga í eigu Magnúsar Margeirssonar sem er með útibú í Reykjavík, greiða starfsmönnum enn lægri laun en Hestasport eða um 50 þúsund krónur á mánuði ásamt mat og húsaskjóli.

„Hvað húsnæði varðar, þá myndirðu dvelja í íbúð hjá Magnúsi, öðrum föstum starfsmönnum og mér. (…) Það er ekki ýkja stórt en með allt sem þarf. Við deilum eldhúsi, baðherbergi og stofu en þú færð þitt eigið svefnherbergi,“ segir í svari sem Sara fékk þegar hún spurði um aðstæðurnar hjá Alhestum. 

Hjá hestaleigunum Hömluholti og Leirubakka eru launin enn lægri, eða 30 þúsund krónur á mánuði og Jóreykir að Sturlu-Reykjum býður starfsmönnum 35 þúsund krónur í vasapening og reiðjakka. Oddsstaðir í Borgarfirði býður starfsmönnum 50 þúsund krónur á mánuði ásamt mat og húsaskjóli og Skálakot býður 70 þúsund krónur. Giljar í Reykholti buðu svo Söru að koma og vinna hjá sér fyrir au pair-kaup, 40 þúsund krónur á mánuði, en um slíka vistráðningarvinnu gilda strangar reglur. 

Álíka margir starfsmenn, þrefalt lægri launakostnaður

Stundin hafði samband við Eldhesta og Íslenska Hestinn, fyrirtæki sem virðast ekki stunda undirboð á vinnumarkaði samkvæmt þeim svörum sem Sara Larsen fékk. „Ég er nú bara dálítið í mínum eigin heimi og veit ekki einu sinni hvaða fyrirtæki það eru sem stunda þetta eða hvernig þau gera það. En við greiðum eftir kjarasamningum og það er allt uppi á borðum hjá okkur,“ sagði Hróðmar Bjarnason, stofnandi og eigandi Eldhesta, þegar Stundin hafði samband við hann. 

Þegar Sara Larsen sendi Íslenska Hestinum atvinnuumsókn barst svar um að fyrirtækið myndi ekki ráða nýja starfsmenn á næstunni. Þá var henni bent á vefslóð með upplýsingum um réttindi launþega á Íslandi. Stundin hafði samband við fyrirtækið og spurði um launakjör starfsmanna. „Við erum með um 10 til 15 starfsmenn á launum um þessar mundir og yfirleitt fleiri á sumrin. Það eru sirka 10 sem eru fastir starfsmenn, aðeins misjafnt hversu mikið hver vinnur í hverjum mánuði og ekki allir í 100 prósent vinnu,“ segir Sveinn Atli Gunnarsson, annar af eigendum Íslenska Hestsins í samtali við Stundina. 

Sveinn segir að allir starfsmenn séu launþegar og borgi skatta og skyldur til samfélagsins. „Við erum stolt af því að taka þátt í að hjól efnahagslífsins haldist á hreyfingu. Mannréttindi starfsfólks okkar eru okkur mikilvæg og við viljum geta haft ánægt starfsfólk sem vill vera í vinnu hjá okkur til lengri tíma.“ 

Laun og launatengd gjöld hjá Íslenska Hestinum voru tæpar 55 milljónir árið 2016. Starfsmannafjöldi Íslenska Hestsins og Sólhesta, samkvæmt þeim upplýsingum sem Stundin fékk frá fyrirtækjunum, er svipaður, eða í kringum 12 manns. Því vekur athygli að launakostnaðurinn hjá Sólhestum er um þrisvar sinnum lægri en hjá Íslenska Hestinum, eða aðeins 17 milljónir. Mismunurinn er 38 milljónir, en eins og áður kom fram myndi kosta Sólhesta um 32 milljónir að greiða sjö starfsmönnum laun í samræmi við kjarasamning VR en að öðru leyti eftir þeirri lýsingu sem fram kemur í upplýsingaskjalinu til Söru Larsen. 

„Það er mikil samkeppni í ferðaþjónustunni og ekki síst meðal hestaleiga. Síðan við byrjuðum hafa fjölmargar hestaleigur hafið starfsemi og samkeppnin aukist jafnt og þétt og það er á brattann að sækja. Við vonumst auðvitað til að allir okkar samkeppnisaðilar standi rétt að málum og við verðum að geta treyst því að samkeppnin sé á jafnréttisgrundvelli,“ segir Sveinn.  

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Réttindabrot á vinnumarkaði

Starfsfólk launalaust fjórum mánuðum eftir gjaldþrot Sternu
ÚttektRéttindabrot á vinnumarkaði

Starfs­fólk launa­laust fjór­um mán­uð­um eft­ir gjald­þrot Sternu

Ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tæk­ið Sterna var sett í gjald­þrot í mars og starfs­fólk­inu sagt upp, en síð­an var gjald­þrot­ið dreg­ið til baka. Fjór­um mán­uð­um síð­ar hafa fjöl­marg­ir ekki enn feng­ið laun eða upp­sagn­ar­frest borg­að­an frá fyr­ir­tæk­inu. Starf­andi fram­kvæmda­stjóri neit­ar því ekki að fyr­ir­tæk­ið sé hugs­an­lega að skipta um kenni­tölu.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár