Pistill

Eru krúttin svar við popúlismanum?

Meðan draugur popúlismans gengur ljósum logum um Vesturlönd og enn herskárri fasískir flokkar eru að taka yfir í Austur-Evrópu, er nýlegt fyrirbæri fyrirferðarmest í íslenskum stjórnmálum, nefnilega stjórnmálakrúttið.

Ný ríkisstjórn Um leið og stjórnmálin urðu krúttlegri, þarf að spyrja að raunveruleikanum að baki. Mynd: Heiða Helgadóttir

Stjórnmálakrúttið virðist nánast yfir stjórnmálin hafið í einfaldleika sínum og hreinleika hjartans. Það elskar litrík föt, kaffi í pappamáli, langa trefla og allt svona nördalegt og krúttlegt sem er upp hægt að draga. Helst frá sjöunda áratugnum. Krúttið er óaðfinnanlegt, það tók góð próf úr góðum skólum, tók alltaf til í herberginu sínu og lenti aldrei í vondum félagsskap, Þess vegna kemur það svolítið spánskt fyrir sjónir, þegar það tekur upp á því á miðjum aldri að mæta í krummafót í opinbera veislu eða mislitum sokkum við Armani jakkafötin eða dragtina úr Geysi og ljóstrar því upp að það safni servíettum. En kjósendur elska það. Og það sem meira er, það er í tísku.

Það eru til ýmsir litlir sprotar af krúttflokkum í öðrum löndum, Þar er veganfólkið, umhverfisfólkið, hommarnir eða lesbíurnar, það trúir ekki á vinstri eða hægri og elskar gömul hús eða býr við hálfgerðan sjálfsþurftarbúskap upp í sveit og skerðir hvorki hár sitt né skegg. Í fljótu bragði dettur manni helst í hug Píratar þegar reynt er að finna íslenska samsvörun. Þeir hafa þó tapað sérstöðu sinni því að á Íslandi er krúttvæðingin að verða meginstraumurinn í stjórnmálum til hægri og vinstri. Munurinn er þó sá að hér eru þetta bara umbúðir, hannaðar af auglýsingastofum.

Þetta var bara of sætt

Og ekki einu sinni nýtt heldur notað,  Besti flokkurinn, fann upp íslenska stjórnmálakrúttið og mokfiskaði, allir flokkar dauðöfunduðu Jón Gnarr og allir stjórnmálamenn vildu vera hann. Og  Svo kom Óttarr Proppé og Björt framtíð, Gummi Steingríms með harmónikkuna og Róbert Marshall með kassagítarinn. Þetta gat ekki klikkað en gerði það nú samt.  

Björt framtíðKrúttvæðing stjórnmálanna hélt áfram úr Besta flokknum yfir í Bjarta framtíð. Hér eru stofnendur Bjartrar framtíðar, Heiða Kristín Helgadóttir og Guðmundur Steingrímsson.

Það fóru að renna tvær grímur á fólk þegar Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson fóru að leiðast opinberlega, ekki af því þeir væru komnir út úr skápnum, Þeir voru bara svo sammála, svo miklir miðjumenn. Gamli pönkarinn, Óttarr Proppé, auðsveipur og nánast í álögum og Benedikt Jóhannesson, Engeyingur. Þetta var bara of krúttlegt til að vera satt, enda völdu kjósendur að trúa því ekki.

Fleyta Besta flokksins sökk með manni og mús þar sem hún var við skyldustörf á krúttmiðunum. En krúttið lifði. Því skolaði upp á land í forsetakosningum. Við fengum ofurkrútt fyrir forseta. Í bleikum sokkum við svörtu jakkafötin með buff frá Alzheimersamtökunum. Við elskum hann, ekki bara vegna þess að hann er krútt heldur líka vegna þess að hann er góð manneskja.

Alla leið í stjórnarráðið

En stjórnmálakrúttið var komið til að vera. Gömlu stjórnmálaflokkarnir fóru í smiðju Besta flokksins, í leikmunadeildina, þar var aldeilis handagangur í öskjunni, meðan gamla stjórnmálafólkið klæddi sig í ný föt, sem hæfði tilefninu. Nú ætluðu öll dýrin í skóginum að vera vinir.

Katrín Jakobsdóttir var óumdeilanlega mesta krúttið, og um tíma leit úr fyrir að hún myndi hrifsa til sín allt fylgið í kosningum og allir landsmenn væru farnir að halla sér til vinstri. Bjarni Benediktsson örvænti og gerðist jafn mikið krútt og miðaldra maður úr Garðabænum getur orðið, það vantaði bara að hann setti upp gleraugun hans Óttars Proppé eða stældi hárgreiðsluna. Hann gekk með litríka trefla, sást oftar brosa og bregða á leik fyrir myndavélarnar. Þegar auglýsingastofa Valhallar lét gera myndbönd sem sýndu einbeittan Bjarna skreyta litríka köku, með tungubroddinn út úr öðru munnvikinu, steinlágu kjósendur.

Bjarni BenediktssonSkreytir kökur fyrir kosningar.

Og þau bökuðu kökur og sýndu töfrabrögð. Gerðu að gamni sínu og voru óhefðbundin. Blaðamennirnir urðu líka krúttlegir og spurðu bara krúttlegra spurninga.

Og nýr Landsréttur féll í skuggann, heilt dómstig, skipað frændfólki, vinum og flokkshestum, meðan umsóknir þeirra sem sérstök valnefnd taldi hæfasta fóru í pappírstætarann. Svo var sett lögbann á umræður um fjárhagsleg umsvif formannsins, til að trufla ekki einbeitingu hans við kökuskreytingarnar.

En meðan Bjarni Benediktsson var krúttlegur þá voru gamaldags frekjukallar á lista flokksins úti um allt land. Þeir höfðu hent konunum niður í kjallara, nema Sigríði Á. Andersen, sem trítlaði, sigri hrósandi, fremst í flokki reykvískra Sjálfstæðismanna.

Fremstur í flokki allra fór þó Bjarni sjálfur, stórsjarmör og kökubakari. Og eftir kosningar tók hann í hönd Katrínar og þau gengu saman að hásætinu með kaffi í pappamáli. 

Starfshópur um starfshóp

Nýja krúttið er búið til á auglýsingastofu, það er æðra stjórnmálunum, dægurþrasinu, það er sætt og skemmtilegt, ekki formlegt og stirt. Kjósendur voru orðnir leiðir á rifrildinu og illindunum á Alþingi, þeir vildu eitthvað huggulegt og næs. En það er einn dálítið stór galli, þetta eru sömu, gömlu stjórnmálamennirnir þótt þeir séu í nýjum fötum.

„Nýja krúttið er búið til á auglýsingastofu“

Þannig þurfa þau að gera hlé á huggulegheitunum til að verja dómsmálaráðherrann, því hún er svo mikill sérfræðingur að hún þarf ekki að fara að lögum. Og stundum þarf að skipa starfshópa, til að hægt sé að koma umdeildum málum fyrir í þægilegri skúffu. Þannig er komin ein skúffa fyrir fátækt og önnur fyrir traust á stjórnmálum. Og svo er kominn starfshópur um hvernig sé hægt, á sem krúttlegastan hátt, að komast hjá því að breyta stjórnarskránni.

Karlsdóttir og kóngsson

Krúttin breyta ásýndinni talsvert en þau raska sjaldnast valdajafnvæginu. Þau eru umbúðir utan um mjög kunnuglegan veruleika helmingaskiptanna. Hægri popúlistar eru ógeðfelld stjórnmál sem ala á ótta á sundrungu til að ná völdum. Íslensku krúttin eru straumlínulöguð markaðsvara og eiga að líkindum ekki eftir að bjarga okkur undan þeim. 

Einu sinni enduðu öll góð ævintýri á því að Karlsson fékk prinsessuna og hálft konungsríkið að launum. En þótt Karlsson yrði kóngur fengum við ekki að vita hvort hann hefði notað tækifærið og aflétt bændaánauðinni. Hvort hann hefði opnað gullkisturnar og látið reisa barnaskóla fyrir pöpulinn og komið á almennri og gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu. Líklega nægði honum bara að fá hálft konungsríkið, hann var ekki einungis að næla sér í gott hásæti fyrir sjálfan sig heldur einnig að næra drauma allra þeirra sem kúldrast í kotunum og sjá bara höllina bera við í fjarska. Líklega var það samt ekki eini draumur allra þeirra sem kusu Vinstri græna í síðustu kosningum að Katrín og Steingrímur fengju hálft konungsríkið.

Vonandi býr meira undir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða