Fréttir

Guðmundur vann náið með unglingum í viðkvæmri stöðu þrátt fyrir grun um kynferðisbrot

Lögreglan tjáði ekki barnaverndaryfirvöldum að stuðningsfulltrúinn hjá Reykjavíkurborg hefði verið kærður fyrir gróf kynferðisbrot gegn ungmennum. Meint brot gegn sjö manns til rannsóknar.

Guðmundur Ellert Björnsson Starfsmaður barnaverndar er í gæsluvarðhaldi grunaður um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum. Mynd: Af Facebook

Kæra á hendur Guðmundi Ellerti Björnssyni, stuðningsfulltrúa hjá Barnavernd Reykjavíkur, lá á borði kynferðisbrotadeildar lögreglu í um fimm mánuði áður en barnaverndaryfirvöld fengu að vita að hann væri til rannsóknar vegna meintra kynferðisbrota gegn börnum. Guðmundur situr nú í gæsluvarðhaldi, en allt þar til í síðustu viku starfaði hann náið með unglingum á skammtímaheimili þar sem meðal annars eru vistuð fylgdarlaus börn sem hafa komið einsömul til Íslands í leit að hæli.

Stöð 2 greindi frá máli mannsins á mánudag þegar Guðmundur var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hafði þá Sævar Þór Jónsson, réttargæslumaður pilts sem kærði Guðmund fyrir kynferðisbrot í ágúst 2017, ítrekað rekið á eftir því að málið yrði rannsakað. Haft var eftir Sævari í kvöldfréttum RÚV á þriðjudag að hann vissi af níu öðrum einstaklingum sem teldu Guðmund hafa brotið gegn sér. Guðmundur hafði áður verið kærður fyrir kynferðisbrot árið 2013, en þá reyndust brotin sem honum voru gefin að sök fyrnd. Vinnuveitendur mannsins fengu ekki að vita af umræddri kæru frekar en þeirri sem lögð var fram í ágúst.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu viðurkennir að hafa með þessu gert alvarleg mistök, en Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, hefur sagt að annríki og málafjöldi hjá embættinu hafi orðið til þess að ekki reyndist mögulegt að sinna málinu með viðeigandi hætti. „Það er yfirsjón, já,“ sagði Árni Þór í samtali við Vísi. „Hér hefur verið gríðarlegur erill síðasta árið og þegar þannig ástand er þá aukast líkurnar á svona.“ Barnaverndarnefnd Reykjavíkur vinnur nú að því að hafa samband við þá sem maðurinn hefur umgengist í störfum sínum í gegnum tíðina, en Guðmundur hefur starfað með börnum og unglingum um tuttugu ára skeið.  Fram kom íKastljósi í kvöld að lögreglan rannsakaði nú meint kynferðisbrot Guðmundar gegn sjö manns. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða