Fréttir

Uppfært: Stjórnmálaflokkarnir greiddu sjálfir fyrir myndskreytingarnar

Fyrrverandi aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hélt utan um myndskreytingar á stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar hjá auglýsingastofunni Hvíta húsinu.

Nýmæli að sáttmálar séu myndskreyttir Sigtryggur Magnason, sem hélt utan um verkefnið, sagðist ekki vita til þess að stjórnarsáttmálar á Íslandi hefðu áður verið myndskreyttir. Mynd: Heiða Helgadóttir

Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn greiddu sjálf fyrir myndskreytingar á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Sigtryggur Magnason hélt utan um verkefnið fyrir hönd Hvíta hússins, en hann var aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar hún gegndi embætti menntamálaráðherra. Í dag starfar hann sem hugmyndasmiður hjá Hvíta húsinu. 

Stundin greindi frá því í morgun auglýsingastofan Hvíta húsið hefði fengið rúmar 1,3 milljónir króna frá forsætisráðuneytinu. Samkvæmt upplýsingum á vefnum www.opnirreikningar.is greiddi forsætisráðuneytið Hvíta húsinu alls 1.353.910 krónur þann 29. desember síðastliðinn. Gísli S. Brynjólfsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Hvíta húsinu, staðfesti í samtali við Stundina í gær að myndskreyting sáttmálans sé eina verkefnið sem stofan hefur unnið fyrir forsætisráðuneytið. Gísli hafði hins vegar aftur samband við Stundina í dag og fullyrti að stjórnmálaflokkarnir þrír hafi fengið reikning fyrir myndskreytingunni, en ekki forsætisráðuneytið. Reikningurinn á vefnum Opnirreikningar.is sé hins vegar vegna verkefnis í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fréttin hefur því verið uppfærð.

Hlutaðeigendur eru beðnir velvirðingar á því að rangar upplýsingar birtust í fyrstu útgáfu fréttarinnar.

Í samtali við RÚV á dögunum sagðist Sigtryggur ekki vita til þess að stjórnarsáttmálar á Íslandi hefðu áður verið myndskreyttir. Um er að ræða alls átta myndir sem fanga innihald sáttmálans. Teymið sem sá um framsetninguna sagði nútímalegt að myndskreyta stjórnarsáttmála og að framsetningin væri til marks um að við lifðum í sífellt sjónrænni heimi og vildum bæta léttleika inn á svið sem eru of þurr og tyrfin fyrir. Myndskreyttur sáttmáli væri þannig til marks um nýja tíma. 

Fram kom að auglýsingastofan hefði fengið knappan tíma til þess að leysa verkefnið. Það hefði komið inn á borð hennar eftir hádegi á mánudagi og teymið þurft að skila af sér verkefninu um miðjan dag á miðvikudegi. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var kynntur fimmtudaginn 30. nóvember síðastliðinn. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Árshátíð andlega gjaldþrota auðmanna 2018

Fréttir

Starfsmaður rekinn af Gló á þeim forsendum að hann sé ekki vegan

Viðtal

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Fréttir

„Deginum ljósara að utanríkisráðherra er ekki treystandi til að sinna þessu máli“

Fréttir

Lokað á allar greiðslur til þroskaskertrar konu: „Þetta er margfalt mannréttindabrot“

Pistill

„Svolítið erfið“ af því þau fylgja samviskunni

Mest lesið í vikunni

Pistill

Árshátíð andlega gjaldþrota auðmanna 2018

Fréttir

Starfsmaður rekinn af Gló á þeim forsendum að hann sé ekki vegan

Fréttir

Hjónin bæði í fangelsi fyrir ofbeldi gegn börnunum

Viðtal

Fékk viðurkenningu í gegnum kynlífsleiki eftir eineltið

Fréttir

Forsætisráðherra mætti á samkomu hjá stuðningskonu Assad-stjórnarinnar

Pistill

Efling Eflingar