Fréttir

Athafnamaður telur umfjöllun um ójöfnuð einkennast af öfund

„Fleiri ættu að stofna eigin rekstur og láta drauma sína rætast. Það virðist gefast vel hjá þeim hafa úthald til lengri tíma og vinna sín verk vel,“ skrifar Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1.

Hermann Guðmundsson Fyrrverandi forstjóri N1 telur umræðu um að þúsund einstaklingar ráði yfir 98% eiginfjár íslenskra fyrirtækja vera öfund. Mynd: Skjáskot af Youtube

Hermann Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri N1 sem hefur verið umfangsmikill í íslensku viðskiptalífi um árabil, telur að umfjöllun fjölmiðla um ójöfnuð að því er varðar dreifingu eiginfjár einstaklinga í fyrirtækjum sé drifin áfram af öfund. 

„Mér finnst sjálfum að punkturinn sé augljóslega sá að fleiri ættu að stofna eigin rekstur og láta drauma sína rætast. Það virðist gefast vel hjá þeim hafa úthald til lengri tíma og vinna sín verk vel,“ skrifar Hermann á Facebook. 

Sam­an­­tekt sem Cred­it­in­fo vann fyr­ir Við­skipta­Mogg­ann hefur vakið talsverða athygli í dag, en þar er sýnt hvernig fámennur hópur fólks á nær allt eigið fé ein­stak­l­inga í íslenskum fyrirtækjum. Um þús­und manns eiga ríf­lega 98 pró­sent af öllu því eig­in fé sem er í eigu ein­stak­l­inga eða tæpa 1.200 millj­arða króna. Þá kemur fram að tíu eigna­­mestu ein­stak­l­ing­ar lands­ins eiga tæp­­lega þriðj­ung af eiginfé einstaklinga í fyrirtækjum. 

„Í dag virðist stóra fréttin vera sú að 1.000 manns eiga 1.200 milljarða af eigin fé fyrirtækja í rekstri. Ekki er minnst á að almenningur á ca. 1.520 milljarða af þessu sama eigin fé í gegnum lífeyrissjóði auk þess sem mörg hundruð milljarðar hvíla í ríkisfyrirtækjum í eigu almennings,“ skrifar Hermann.

„Fréttin er sett fram með svipuðu sniði og gert var í árdaga sósialista sem vildu ríkisvæða allar eignir. Það var reyndar víða gert með skelfilegum afleiðingum. Öfundin er drifkraftur en ekki góður leiðsögumaður.“

Hermann hefur komið víða við í viðskiptalífinu, meðal annars setið í stjórnum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Klaks hf. og Rannsóknarseturs verslunarinnar. Hann var viðskiptafélagi Bjarna Benediktssonar, núverandi fjármálaráðherra, og fjölskyldu hans um árabil og til dæmis lykilmaður í kaupum Engeyinga og fleiri fjárfesta á Olíufélaginu árið 2006 sem síðar fékk nafnið N1. Þar gegndi hann stöðu forstjóra til 2012, en í dag er hann forstjóri fyrirtækisins Kemi ehf og situr í stjórnum fjögurra einkahlutafélaga samkvæmt tiltækum upplýsingum Credit Info. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Sannleikurinn um Viðar Guðjohnsen

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Viðtal

Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag

Pistill

Katrín: Mas, mas, mas í heila mínútu

Úttekt

Ótrúlegur ráðherraferill Sigríðar Andersen: Lögbrot, leyndarhyggja og harka gagnvart hælisleitendum

Fréttir

Listi Roberts yfir stúlkur er enn til - lögregla hefji aftur rannsókn á kynferðisbrotum hans

Mest lesið í vikunni

Pistill

Sannleikurinn um Viðar Guðjohnsen

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Skýrsla Hannesar rituð á ensku – „Ótækt“ segir formaður íslenskrar málnefndar

Viðtal

Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag

Pistill

Katrín: Mas, mas, mas í heila mínútu

Fréttir

Barnafjölskylda svipt framfærslufé vegna reglugerðar Sigríðar um útlendinga