Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Nýtt úrræði fyrir eldri borgara nýtist helst vel stæðum körlum

Tæp­lega 30% ein­stak­linga sem fá elli­líf­eyri í dag frá Trygg­inga­stofn­un rík­is­ins mæta skil­yrð­um um sveigj­an­lega töku elli­líf­eyr­is sem fé­lags- og jafn­rétt­is­ráð­herra sam­þykkti á síð­ustu dög­um síð­asta árs. Hags­muna­að­ill­ar eru ósátt­ir við kjör aldr­aðra og að ráð­ist sé í svona sér­tæk­ar að­gerð­ir á með­an að al­menn­ir elli­líf­eyr­is­þeg­ar geta ekki þeg­ið mik­il laun.

Nýtt úrræði sem leyfir ellilífeyrisþegum að þiggja hálfan lífeyri frá lífeyrissjóði sínum og hálfan frá Tryggingastofnun ríkisins, án skerðingar, nýtist aðeins 30 prósent ellilífeyrisþega, og helst þeim sem hafa haft hærri tekjur.

Frítekjumark ellilífeyrisþega var lækkað niður í 25.000 kr. í byrjun síðasta árs. Það þýðir að eldri borgarar geta aðeins fengið tekjur upp á 25 þúsund krónur á mánuði, áður en tekjurnar skerða ellilífeyri þeirra.

Á meðan eldri borgarar berjast fyrir því að hækka frítekjumarkið upp í 100.000 kr., eða afnema alfarið tekjuskerðingar, hefur nýtt úrræði verið tekið í notkun sem leyfir tæplega 30% af ellilífeyrisþegum að þiggja hálfan lífeyri frá lífeyrissjóði sínum og hálfan frá Tryggingastofnun ríkisins án nokkurrar tekjuskerðingar.

Framkvæmdastjórar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Landssamtaka lífeyrissjóða fagna fleiri úrræðum fyrir ellilífeyrisþega, eins og umræddu úrræði sem birtast í nýrri reglugerð félags- og jafnréttisráðherra um sveigjanlega töku ellilífeyris. Þeir gagnrýna hins vegar jafnframt að úrræðið nýtist þröngum hópum og hygli heilsuhraustara hátekjufólki.

Skerðingarlaus lífeyrir sem stendur fáum til boða

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra, samþykkti reglugerðina 29. desember, en forveri hans og flokkssystir, Eygló Harðardóttir, lagði grunn að breytingunum með lögum sem voru sett 25. október 2016. Í reglugerðinni er að finna úrræði sem heimilar 65 ára einstaklingi að sækja um hálfan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóði sínum.

Þetta fyrirkomulag þekkist erlendis þar sem einstaklingur getur minnkað við sig vinnu og notið samhliða áunninna réttinda frá lífeyrissjóðum og ríkinu til að verða ekki fyrir of miklu tekjutapi. Í greinargerð með frumvarpi laganna er ýjað að þessari sýn, en þar er meðal annars talað um að „taka lífeyri af hálfu hjá lífeyrissjóðakerfinu með minnkuðu starfshlutfalli og að í tengslum við það verði heimilað að greiða hálfan lífeyri hjá almannatryggingum“, og að ríkið og sveitarfélög þurfi að sjá til þess að „atvinnutækifæri og hlutastörf séu til staðar fyrir þá úr hópi aldraðra sem vilja minnka við sig vinnu sem og að vinna lengur“.

Í útfærslu reglugerðarinnar er hins vegar ekki að finna neina kröfu um minnkað starfshlutfall, hvorki í fjölda stunda né upphæð launa; þvert á móti er engin tekjuskerðing innifalin í þessu úrræði. Eina krafan sem er sett á einstaklinginn er að samanlögð réttindi hans frá öllum lífeyrisjóðum og TR séu að lágmarki jöfn fullum ellilífeyri hjá TR og að allir lífeyrissjóðir sem einstaklingur hefur tilkall til hafi samþykkt þetta fyrirkomulag.

Elur á mismunun

Hefur ekkert af vinnu sinniValberg rak lítið fyrirtæki til margra ára, en eftir að frítekjumark var lækkað í 25.000 kr. 2016 sá hann ekki ástæðu til að vinna áfram þrátt fyrir að vera enn hraustur.

„Við fögnum öllu því sem víkkar aðeins út þá möguleika sem er innan þessa annars aðþrengda kerfis,“ segir Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, um þetta úrræði. „En hvernig þetta birtist í framkvæmd getur verið umdeilt. Þetta ákvæði um hálfan lífeyri, þetta nýtist aðeins ákveðnum aðilum og það elur á einhverri mismunun.“

„Þetta ákvæði um hálfan lífeyri, þetta nýtist aðeins ákveðnum aðilum og það elur á einhverri mismunun.“

Í samtali við Stundina segir Gísli að það sé ljóst að þetta úrræði henti best fyrir einstaklinga sem hafa verið hraustir og efnameiri í gegnum líf sitt sem eiga hærri uppsafnaðan lífeyri, en feli ekki í sér neina réttarbót fyrir tekjulægri og berskjaldaðri einstaklinga, sem mæta ekki þessum grunnskilyrðum.

Til að nýta úrræðið þarf hærri tekjur

Til að geta nýtt úrræðið þarf einstaklingur í dag að hafa safnað lífeyrisréttindum upp á að minnsta kosti 239.484 kr. á mánuði. Samkvæmt tölum TR frá maí 2017 voru 70% af ellilífeyrisþegum aðeins með réttindi upp að 215.728 kr. á mánuð frá lífeyrissjóðum sínum. 10% lífeyrisþega voru með réttindi frá 215.729 kr. og í 285.000 kr, og 20% með hærri réttindi. 

Það eru því helst tekjuhærri sem geta nýtt sér úrræðið og í þeim hópi rúmast til dæmis ekki þær konur sem hafa gert hlé á þátttöku sinni á vinnumarkaði.

Einnig gagnrýnir Gísli hvernig birtingarmáti lífeyrismála er nú á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar. „Það kemur þessu félagi og öllum hugsandi eldri borgurum verulega á óvart að ekki skuli betur gefið í í þessum málaflokki í fjárlögum ársins 2018. Þessi ríkisstjórn er skipuð af flokkum sem hafa margoft talað um bág kjör eldri borgara og því kemur það á óvart að það sé aðeins 4,7% hækkun á lífeyri eldri borgara í fjárlögum. Þetta er það allægsta sem hægt var að setja fram samkvæmt lögum og er þá miðað við vísitölu neysluverðs en ekki þróun launa í landinu, hvað þá launahækkanir einstakra hópa; hvað þá að einhver tilraun sé gerð til að bæta lífeyrisþegum þær skerðingar sem þeir urðu fyrir á árunum eftir hrun sem þingmenn og ráðherrar hafa fjálglega talað um að bæta þurfi. Margir hópar hafa fengið sínar hækkanir afturvirkt sem rökstuddar eru með því að þessir hópar hafi sætt skerðingu eftir hrun og setið eftir með sínar hækkanir.“

Gísli telur að hækkunin upp á 4,7% sé óheiðarlega sett fram, þar sem áðurnefnd lög sem Eygló Harðardóttir setti 2016 kveði á um að samanlögð fjárhæð fulls ellilífeyris og heimilisuppbótar skuli verða 300.000 kr. í byrjun þessa árs. Þessi 4,7% hækkun er hluti af þessari áður samþykktu hækkun og bætist ekki aukalega við hana.

„Það sem við köllum nú sem fyrr eftir, eru stjórnmálamenn sem tryggi að kerfið þjóni fólkinu og komi með okkur í þá vegferð. Svo sé vitnað beint í nýleg orð núverandi forsætisráðherra: „Hér þarf stjórnvöld sem eru reiðubúin að taka pólitískar ákvarðanir til að útrýma fátækt og draga um leið úr misskiptingu.““

Lífeyrissjóðirnir líklega tilbúnir í vor

Í samtali við Stundina tekur Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, undir orð Gísla, bæði varðandi hættuna á því að þetta nýja úrræði muni nýtast fáum útvöldum og að skerðingar á ellilífeyri séu of miklar. „Þessar tekjutryggingar fyrir almannatryggingar ganga allt of langt,“ segir hún.

Varðandi úrræðið segir hún að það komi engum sér illa og skerði engin réttindi, en: „Þetta nýtist ekki nema að því gefnu að þú náir ákveðnum lágmarksgreiðslum.“

Þórey segir að lífeyrissjóðirnir séu nú þegar byrjaðir að vinna að því að innleiða þetta nýja úrræði, en að það muni taka tíma. „Þetta kallar á samþykktarbreytingar og það er það sem við erum að rýna og vinna og kallar á útfærslu á tölvukerfum og þannig, og sú vinna er komin á fullt. Ég reikna með að þetta verði tekið fyrir á næstu aðalfundum hjá lífeyrissjóðunum, þannig að þetta ætti að liggja fyrir með vorinu.“

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

BDV-ríkisstjórnin

Taugin milli Katrínar og Bjarna og límið í ríkisstjórninni
SkýringBDV-ríkisstjórnin

Taug­in milli Katrín­ar og Bjarna og lím­ið í rík­is­stjórn­inni

Ein af þeim spurn­ing­um sem vakn­að hafa á þessu kjör­tíma­bili er hvort traust og eða vin­ar­þel Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur og Bjarna Bene­dikts­son­ar sé lím­ið sem held­ur rík­is­stjórn­inni sam­an í gegn­um súrt og sætt. Sögu­legt for­dæmi er fyr­ir því að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks­ins og stjórn­mála­afls­ins lengst til vinstri á Al­þingi hafi ver­ið hald­ið sam­an af með­al ann­ars trausti milli formanna flokk­anna.
Kjarabætur örorkulífeyrisþega standa á sér
FréttirBDV-ríkisstjórnin

Kjara­bæt­ur ör­orku­líf­eyr­is­þega standa á sér

Í fjár­laga­frum­varpi nýrr­ar rík­is­stjórn­ar er sama stefna í mál­efn­um ör­yrkja og nú­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra gagn­rýndi harka­lega á sín­um tíma. Formað­ur Ör­yrkja­banda­lags­ins seg­ir að þing­menn úr öll­um flokk­um hafi lof­að kjara­bót­um ör­orku­líf­eyr­is­þega strax og það séu mik­il von­brigði að þau orð hafi reynst inni­halds­laus.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu