Fréttir

Skipar þá sem nefndin taldi hæfasta þrátt fyrir að vantreysta hæfnismatinu

Guðlaugur Þór Þórðarson settur dómsmálaráðherra efast um að tilteknir dómarar séu jafn hæfir og sjálfstæð dómnefnd komst að niðurstöðu um, en skipar dómarana samt.

Guðlaugur Þór Þórðarson Utanríkisráðherra er staðgengill Sigríðar Andersen við skipan dómara, vegna löbrots hennar við skipan dómara í Landsrétt. Mynd: xd.is

Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, skipaði í dag þá átta umsækjendur um stöðu héraðsdómara sem dómnefnd taldi hæfasta þrátt fyrir að vera „enn engu nær um innbyrðis vægi þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar mati nefndarinnar“. 

Ráðherrann greinir frá þessu í bréfi sem birtist á vef stjórnarráðsins í dag. Áður hafði hann sent dómnefndinni harðort bréf og gert athugasemdir við umsögn um hæfni umsækjenda í tíu liðum. Af bréfinu mátti ráða að Guðlaugur hefði sérstakar áhyggjur af því að reynsla Ingiríðar Lúðvíksdóttur setts héraðsdómara og Daða Kristjánssonar saksóknara væri ofmetin í umsögn dómnefndarinnar, en að það hallaði á hæstaréttarlögmennina Jónas Jóhannsson og Indriða Þorkelsson. 

„Þrátt fyrir að ýmsar nýjar upplýsingar hafi komið þar fram lét nefndin hjá líða að svara veigamiklum athugasemdum og spurningum ráðherra,“ segir Guðlaugur í nýja bréfinu. „Nefndin svaraði því ekki heldur hvernig umsækjendur stóðu sig í viðtölum og hvert vægi viðtalanna var, þrátt fyrir að hún hafi sérstaklega tekið fram að við matið hafi talsvert verið lagt upp úr viðtölum við umsækjendur. Þá útskýrði nefndin ekki hvernig hið svokallaða „heildstæða mat“ hennar fór fram, en eins og rakið er í bréfi setts ráðherra frá 29. desember er umsögnin að minnsta kosti rökstudd eins og um sé að ræða mjög hlutlægan samanburð á milli umsækjenda í einstökum matsþáttum og fer lítið fyrir hinu heildstæða mati.“

Segist Guðlaugur vera litlu nær um það mat sem fór fram á vettvangi nefndarinnar. Óeðlilegt sé að nefndin svari ekki spurningum hans með greinargóðum hætti, enda geri það ráðherra erfitt um vik að sinna skyldum sínum sem sá aðili sem fer með skipunarvaldið og ber lagalega ábyrgð á ferlinu öllu. 

Fram kemur að ráðherra hafi ekki þótt æskilegt, tímans vegna, að óska eftir nýrri umsögn dómnefndarinnar. Ef hann hefði vikið frá umsögninni og lagt fram tillögu til Alþingis um að skipa aðra umsækjendur í dómaraembættin að undangenginni sjálfstæðri rannsókn hefði slíkt tekið margar vikur og sett starfsemi héraðsdómstólanna í tímabundið uppnám, enda áttu dómararnir að taka til starfa í upphafi nýs árs. 

„Í þessari þröngu stöðu, vegna þess tímahraks sem dómnefndin setti settan ráðherra í, og vegna hinnar einstrengingslegu afstöðu dómnefndar sem birtist í svarbréfi hennar, átti settur ráðherra ekki annan kost en að skipa þá sem dómnefndin taldi hæfasta, þótt settur ráðherra hafi í raun ekki haft fullnægjandi forsendur til að meta réttmæti þeirrar niðurstöðu,“ skrifar Guðlaugur sem tekur sérstaklega fram að í þessu felist þó ekki „að kastað sé rýrð á þá sem dómnefndin taldi hæfasta til að gegna dómaraembættunum.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Sannleikurinn um Viðar Guðjohnsen

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Viðtal

Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag

Pistill

Katrín: Mas, mas, mas í heila mínútu

Úttekt

Ótrúlegur ráðherraferill Sigríðar Andersen: Lögbrot, leyndarhyggja og harka gagnvart hælisleitendum

Fréttir

Listi Roberts yfir stúlkur er enn til - lögregla hefji aftur rannsókn á kynferðisbrotum hans

Mest lesið í vikunni

Pistill

Sannleikurinn um Viðar Guðjohnsen

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Skýrsla Hannesar rituð á ensku – „Ótækt“ segir formaður íslenskrar málnefndar

Viðtal

Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag

Pistill

Katrín: Mas, mas, mas í heila mínútu

Fréttir

Barnafjölskylda svipt framfærslufé vegna reglugerðar Sigríðar um útlendinga