Fréttir

Svona dreifist hækkun fjármagnstekjuskattsins

Tekjuháir á aldrinum 50 til 70 ára standa að mestu leyti undir hækkun fjármagnstekjuskattsins. Aðgerðin er „leið til að gera skattbyrðina réttlátari og auka jöfnuð“ sagði Katrín Jakobsdóttir í áramótaávarpi sínu.

Hækkun fjármagnstekjuskattsins leggst að langmestu leyti á tekjuhæstu 10 prósent landsmanna, einkum ríkasta eina prósentið og fólk á aldrinum 50 til 70 ára. 

Umræddur skattur – sem leggst á vaxtatekjur, arð, söluhagnað og leigutekjur utan rekstrar – hækkaði úr 20 prósentum upp í 22 prósent um áramótin í samræmi við nýsamþykkt fjárlög ársins 2018.

Um leið hækkaði frítekjumark vaxtatekna einstaklinga úr 125 þúsundum í 150 þúsund krónur. Fyrir vikið munu langflestir greiðendur fjármagnstekjuskatts ekki taka á sig þyngri byrðar þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. 

Gert er ráð fyrir að hækkunin skili samtals 2,6 milljörðum í ríkissjóð. Eins og Stundin hefur áður greint frá kemur þar af meira en milljarður frá tekjuhæsta eina prósentinu, þeim hópi sem tók til sín um 45 prósent prósent allra fjármagnstekna á síðasta ári. 

Í gögnum sem efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fékk frá fjármálaráðuneytinu þegar fjárlagafrumvarpið var til meðferðar á Alþingi er að finna myndrænt yfirlit yfir dreifingu skattahækkunarinnar á tekju- og aldurshópa. 

Byggt er á skattgrunnskrá frumálagningar á einstaklinga á árinu 2017 og þannig sýndur munurinn á álagningu fjármagnstekjuskatts eins og hún var árið 2017 og hvernig álagning fjármagnstekjuskatts hefði verið á sama ári ef skatthlutfallið hefði verið 22 prósent. Á fyrri myndinni er íslenskum skattgreiðendum raðað niður í 10 hópa eftir heildartekjum, þeim tekjulægstu fyrst og þeim tekjuhæstu síðast. Síðari myndin sýnir eingöngu hækkun skattbyrðinnar eftir aldursbilum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vék að hækkun fjármagnstekjuskattsins í áramótaávarpi sínu á gamlárskvöld.

„Eitt af því sem blasir við er hið gríðarlega mikilvæga verkefni að sjá til þess að allir fái notið velmegunar á Íslandi. Vaxandi ójöfnuður í heiminum er af ýmsum alþjóðastofnunum metinn ógn við hagsæld en líka ógn við frið og lýðræði. Þó að jöfnuður á Íslandi hafi mælst hlutfallslega mikill í alþjóðlegum samanburði er full ástæða til að gera betur,“ sagði hún.

„Þegar glímt er við ójöfnuð er mikilvægt að líta til þess hvar ójöfnuðurinn er mestur en á Íslandi er það í eignatekjum. Þess vegna er hækkun fjármagnstekjuskatts sem samþykkt var nú fyrir áramót leið til að gera skattbyrðina réttlátari og auka jöfnuð.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti

Greining

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Fréttir

Greiðsluþakið hækkað þrátt fyrir loforð um lækkun

Leiðari

Hvers virði eru völdin?

Fréttir

Óásættanlegt að ferðaþjónusta fatlaðra skerðist vegna landsleiksins

Mest lesið í vikunni

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti