Listi

Tíu mest lesnu fréttaskýringar Stundarinnar á árinu

Aðstæður fanga, starfsfólks í ferðaþjónustu og ungs fólks á fasteignamarkaði, þetta var á meðal þeirra viðfangsefna sem mest lesnu fréttaskýringar ársins fjölluðu um.

1  Fangelsi án lausnar

Í fangelsinu á Hólmsheiði eru konur lokaðar inni vegna brota sem þær frömdu undir áhrifum áfengis- og vímuefna. Fá úrræði eru hins vegar til staðar inni í fangelsinu til þess að mæta þessum vanda, þar sem einn sálfræðingur sinnir öllum föngum í fangelsum og enginn meðferðargangur er fyrir konur. Það er ekki heldur neitt sem tekur við þeim þegar þær ljúka afplánun, og þær lýsa því hvernig þær fara beint úr fangelsi á götuna og þaðan aftur inn í fangelsið. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir kynnti sér lífið í fangelsinu á Hólmsheiði.

 

2 Það sem SÁÁ vill ekki tala um

Meðferð SÁÁ snýst um að lækna „lífshættulegan heilasjúkdóm,“ en konur hafa upplifað ógnanir og áreitni frá dæmdum brotamönnum í meðferðinni. Ung stúlka lýsir því hvernig hún hætti í meðferð vegna ógnana og áreitis. Vinkona móður hennar var vikið fyrirvaralaust úr meðferð án skýringa, eftir að hún tilkynnti um áreitni, og ekki vísað í önnur úrræði þrátt fyrir alvarleika sjúkdómsins. Forsvarsmenn SÁÁ segja gagnrýni ógna öryggi og heilsu annarra sjúklinga og vísa henni á bug.

 

3 Ungt fólk flýr klær GAMMA og heldur sig í hreiðrinu

Stundin rýndi í húsnæðismálin á árinu og komst að því að ungt fólk situr eftir í lengstu samfelldu uppsveiflu lýðveldissögunnar. Þrátt fyrir aukinn hagvöxt og kaupmátt hefur sjaldan verið erfiðara fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Húsnæðisskortur, fjölgun erlendra ferðamanna og uppkaup stórra leigufélaga á jafnvel heilu íbúðablokkunum hefur ýtt undir sífellt hækkandi húsnæðis- og leiguverð á undanförnum árum sem veldur því að fjöldi fólks kemst ekki úr foreldrahúsum, gefst jafnvel upp og flytur úr landi. Ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.

 

4 Ótti og grátur eftir störf á farfuglaheimili á Selfossi

Stundin fjallaði ítarlega um brot á erlendu starfsfólki á árinu. Ein sagan er af Dagmöru og Gabrielu, pólskum konum sem voru ráðnar til starfa á Farfuglaheimilinu á Selfossi. Himinn og haf var hins vegar á milli þess hvernig starfið var auglýst og hvernig það var í raun. Vinnutími var mun lengri, frí var mun minna, matur var ekki innifalinn og laun ekki greidd.

  

5 Seldi í Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett

Í byrjun október greindi Stundin frá því að Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, hefði selt allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október árið 2008, en hann var þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Umfjöllunin var unnin í samstarfi við RME og breska fjölmiðilinn Guardian og byggði á nýjum gögnum sem varpa ljósi á hlutabréfasölu Bjarna í Glitni í febrúar 2008 en hann fundaði með bankastjóra Glitnis tveimur dögum áður en hann byrjaði að selja bréfin.

Enn er í gildi lögbann á Stundina vegna umfjöllunarinnar. 

 

6 Tengsl manndrápsmanna við útlendingahatur og ógnanir

Sveinn Gestur Tryggvason var í sumar handtekinn fyrir morðið á Arnari Jónssyni Aspar, en hann hafði áður ógnað og hótað fólki sem hefur sett sig á móti þjóðernissinnuðum stjórnmálum, líkt og Stundin greindi frá. Hann fangaði því að hælisleitandi kveikti í sér og kom meðal annars að heimili bloggara sem hafði haldið úti gagnrýni á þjóðernissinna. 

 

7 Íslendingar flytja úr landi til að geta lifað af framfærslu sinni

Stundin fjallaði um landflótta Íslendinga til Spánar, en um 200 Íslendingar hafa keypt húsnæði á Spánarströndum það sem af er þessu ári. Þúsundir búa allt árið eða að hluta á Costa Blanca, Hvítu ströndinni. Öryrkjar og eldri borgarar geta lifað mannsæmandi lífi í stað þess að berjast við fátækt, en helmingi ódýrara er að lifa á Spáni en á Íslandi.

 

8 Forsætisráðherra á gráu svæði stjórnmála og viðskipta

Í mars á þessu ári rýndi Stundin í tengsl Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, við viðskiptalífið en hann var umsvifamikill í viðskiptum samhliða þingmennsku. Félög sem hann stýrði eða átti aðkomu að stefna í að skilja eftir sig tæplega 130 milljarða króna af afskriftum, sem nemur næstum því tvöfaldri upphæð leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána. Bjarni og faðir hans tóku ákvarðanir um sölu hlutabréfa þegar hann var í kjöraðstæðum til að njóta upplýsinga sem almennur aðili á markaði hafði ekki. Síðar á árinu kom í ljós að Bjarni seldi allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana fyrir hrun árið 2008.

 

9 Stríðsglæpamaðurinn sem við elskuðum: Saga af glæpum og meðvirkni

Karl Th. Birgisson rifjaði upp hvernig íslenska þjóðin stóð með stríðsglæpamanni sem stóð að skefjalausu ofbeldi og morðum á gyðingum og fleirum í seinni heimsstyrjöldinni. Morgunblaðið tók meðal annars þá fyrir sem bentu á sannanir í máli Eðvalds Hinrikssonar og tengdi þá við sovésku leyniþjónustuna.

  

10 Draumurinn á Íslandi breytist í martröð

Með örum vexti ferðamannaiðnaðar á Íslandi hafa skapast kjörnar aðstæður fyrir brot þar sem vinnuveitendur nýta sér vanþekkingu erlendra starfsmanna. Stundin fjallaði ítarlega um málið og sagði sögur starfsmanna af erlendum uppruna sem upplifði sig svikið. 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Úttekt

„Ekki kominn tími til að ég brenni allar veraldlegar eigur mínar“

Fréttir

Skýrsla Hannesar rituð á ensku – „Ótækt“ segir formaður íslenskrar málnefndar

Pistill

VG framlengir tuttugustu öldina

Fréttir

Barnafjölskylda svipt framfærslufé vegna reglugerðar Sigríðar um útlendinga

Fréttir

Eigandinn í kosningaham á forsíðu Morgunblaðsins

Fréttir

Sinfóníuhljómsveitin neitar að opinbera styrktarsamning sinn við GAMMA

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins vill ekki að „duglega fólkið“ haldi uppi sjúklingum sem keppast við að vera veikir

Viðtal

Þakklátur fyrir þessa lífsreynslu

Úttekt

Stjórn Íbúðalánasjóðs réði forstjórann óupplýst um vitnisburði um kynferðislega áreitni

Fréttir

Athafnamaður telur umfjöllun um ójöfnuð einkennast af öfund

Fréttir

Jón Páll sagði starfslok sín „hafa bara ekkert með þetta mál að gera“

Úttekt

„Ekki kominn tími til að ég brenni allar veraldlegar eigur mínar“