Pistill

Í hvaða heimi býr Agnes Sigurðardóttir?

Illugi Jökulsson ber saman leiguverð sem biskup ríkiskirkjunnar annars vegar borgar og hins vegar nokkrir strákar sem leigja gluggalaust herbergi þar sem þeir búa til músík.

Agnes M. Sigurðardóttir. En er þetta persónan eða biskupinn? Það er ekki gott að segja. Mynd: Pressphotos

Ég veit um nokkra unga stráka innan við tvítugt sem leigja sér herbergi úti í bæ. Þetta er svona 30-35 fermetra gluggalaust kjallaraherbergi undir skrifstofuhúsi; þeir hafa aðgang að klósetti og rennandi vatni frammi á gangi en bíða enn eftir nettengingu.

Fyrir þetta gluggalausa herbergi borga þeir 33 þúsund krónur á mánuði og þykir afskaplega vel sloppið. Og það munu líka þeir sem þekkja ögn til leigumarkaðar í Reykjavík vita að þetta er í rauninni alls ekki há leiga.

Og þarna sitja þeir strákarnir og búa til músík í tölvunum sínum og synþesæserum og eru alsælir.

Agnes M. Sigurðsdóttir heitir hins vegar fullorðin kona sem gegnir embætti biskups ríkiskirkjunnar á Íslandi.

Hún fékk um daginn launahækkun frá kjararáði og hefur nú rúmlega 1,5 milljón í mánaðarlaun.

Kjararáði fannst líka ástæða til að biskup fengi launahækkun sína afturvirkt í tæpt ár og því fékk Agnes 3,3 milljónir í sérstaka eingreiðslu til að bæta henni þá ósvinnu að hún hefði haft svo lág laun síðasta árið.

Agnes hefur samt ekki verið beinlínis á flæðiskeri stödd. Til dæmis hefur verið vakin athygli á að árið 2015 fékk hún tæpa milljón í dagpeninga fyrir að dveljast í Svíþjóð í rúman hálfan mánuð og vinna þar að hirðisbréfi fyrir ríkiskirkju sína.

Hirðisbréfið var tvær síður og munu þetta teljast bestu ritlaun sem nokkur íslenskur rithöfundur hefur fengið.

En launahækkun sína nú fékk Agnes eftir að hafa skrifað kjararáði og krafist þess að laun hennar yrðu hækkun. Hún tilgreindi ýmsar ástæður og þar á meðal þá að nú þyrfti hún, ólíkt fyrri biskupum, að borga húsaleigu fyrir biskupsbústað sem henni væri ætlað að búa í.

Almáttugur minn! Agnes verður að borga húsaleigu!

Húsið er reisulegt einbýlishús við Bergstaðastræti og nú hefur Fréttablaðið upplýst að Agnes borgi „tæplega 90 þúsund“ á mánuði fyrir leiguna.

Hún man það samt ekki nákvæmlega í samtali við Fréttablaðið, þess vegna er þetta „tæplega“.

Húsið er 487 fermetrar.

Og fyrir það borgar Agnes semsé innan við þrisvar sinnum þá upphæð sem strákarnir mínir ungu borga fyrir sitt gluggalausa kjallaraherbergi og þykir sem sagt vel sloppið.

En Agnesi finnst ekkert rangt við þetta leiguverð hjá sér.

Hún ítrekar að henni sé „skylt“ að búa í húsinu og ber sig illa undan því að þar séu stundum veislur á vegum embættisins, og jafnvel komi ókunnugt fólk og stússi í eldhúsinu hennar fyrir veislurnar.

Ja, aumingja vesalings Agnes!

En kannski er það ekki hún.

Það var náttúrlega ekki hún „prívat og persónulega“ sem fékk launahækkun kjararáðs, heldur biskupinn yfir Íslandi (eða þeim hræðum sem enn hafa geð í sér til að vera í ríkiskirkjunni hennar).

Það sagði hún sjálf í stórfengu (eða hitt þó heldur!) viðtal við Vísi um daginn, sjá hér.

Í hvaða heimi býr Agnes M. Sigurðardóttir? Eða hver sem hún kann að vera í dag?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Sannleikurinn um Viðar Guðjohnsen

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Viðtal

Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag

Pistill

Katrín: Mas, mas, mas í heila mínútu

Úttekt

Ótrúlegur ráðherraferill Sigríðar Andersen: Lögbrot, leyndarhyggja og harka gagnvart hælisleitendum

Fréttir

Listi Roberts yfir stúlkur er enn til - lögregla hefji aftur rannsókn á kynferðisbrotum hans

Mest lesið í vikunni

Pistill

Sannleikurinn um Viðar Guðjohnsen

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Skýrsla Hannesar rituð á ensku – „Ótækt“ segir formaður íslenskrar málnefndar

Viðtal

Dýralæknirinn sem keypti kaupfélag

Pistill

Katrín: Mas, mas, mas í heila mínútu

Fréttir

Barnafjölskylda svipt framfærslufé vegna reglugerðar Sigríðar um útlendinga