Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Árið sem þolendur höfðu hátt

Ár­ið 2017 var ár skelfi­legs kyn­bund­ins of­beld­is, en líka ár­ið sem þögn­in um kyn­bund­ið of­beldi var rof­in.

Árið byrjaði með hvarfi Birnu Brjánsdóttur, leitinni sem þjóðin fylgdist með skelfingu lostin og leiddi til líkfundar við Selvogsvita þann 22. janúar. Þúsundir söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur, á Grænlandi og í Færeyjum og heiðruðu minningu ungu konunnar sem kvaddi þennan heim aðeins 20 ára gömul. 

Önnur kona, Sanita Brauna, var myrt á heimili sínu í Vesturbæ Reykjavíkur í september og hefur maður á fertugsaldri verið ákærður fyrir að hafa orðið henni að bana. 

Í febrúar steig Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fram með manninum sem nauðgaði henni þegar hún var sextán ára, Tom Stranger, í fyrirlestri sem fluttur var á Ted og vakti athygli víða um heim. Í kjölfarið gáfu þau út bókina Handan fyrirgefningar þar sem þau gerðu upp ofbeldið sem Tom beitti hana og afleiðingar þess, ferðuðust um heimin og greindu frá reynslu sinni. 

Um mitt ár stigu fram fjórar konur sem höfðu verið beittar kynferðisofbeldi af lögmanninum Robert Downey á unglingsárunum. Anna Katrín Snorradóttir, Glódís Tara, Halla Ólöf Jónsdóttir og Nína Rún Bergsdóttir ögruðu ríkisvaldinu sem hafði sæmt manninn „óflekkuðu mannorði“ samkvæmt lagabókstaf og stjórnsýsluvenjum sem var fylgt í blindni. Þær höfðu hátt og létu stjórnmálamennina sem gerðu lítið úr málinu og komu kerfinu til varnar heyra það. 

Slíkt hið sama gerði brotaþolinn í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar, manns sem hlaut fimm ára dóm árið 2004 fyrir að hafa níðst nær daglega á stjúpdóttur sinni í 12 ár. Þegar kom í ljós að ráðherrar höfðu leynt almenning upplýsingum um málið í bága við upplýsingalög og að faðir forsætisráðherra hefði skrifað meðmæli fyrir Hjalta sprakk ríkisstjórnin. Hún féll „ekki vegna pen­inga, ekki vegna póli­tísks ágrein­ings at­vinnu­stjórn­mála­manna, held­ur vegna þess að kon­ur höfðu hátt,“ eins og Kvenréttindafélag Íslands orðaði það í ályktun. 

Nú, á undanförnum mánuðum, hafa svo hrannast upp sögur af kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni gagnvart konum í hinum ýmsu starfsstéttum. #MeToo-byltingin tók við af #höfumhátt. Stjórnmálakonur riðu á vaðið og í kjölfarið fylgdu konur í sviðslistum, tæknigeiranum og háskólum, flugfreyjur, fjölmiðlakonur; þær og svo miklu fleiri hafa komið saman og deilt reynslusögum með almenningi; reynslusögum sem varpa ljósi á fársjúka menningu kynferðisáreitnis og ofbeldis sem virðist teygja sig inn í flesta króka og kima samfélagsins.

Hér má sjá yfirlit yfir stærstu fréttamál ársins.

Leitin að Birnu Brjánsdóttur

Í janúar fylgdist þjóðin skelfingu lostin með leitinni að Birnu Brjánsdóttur, tvítugri stúlku sem skilaði sér ekki heim eftir að hafa farið út að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur. Almenningur tók virkan þátt í leitinni og eftir að Birna fannst við Selvogsvita sunnudaginn 22. janúar má segja að þjóðin hafi sameinast í sorg. Skelfilegastur var missirinn fyrir aðstandendur Birnu, fjölskyldu hennar og nánustu vini. Hér í blaðinu er rætt við móður hennar, Sigurlaugu Hreinsdóttur, en Birnu er minnst sem skapandi og glaðbeittrar ungrar konu sem var hugmyndarík, skemmtileg en um leið látlaus, einlæg og trúði á það góða í fólki. 

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar

Fyrsta ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hóf störf í janúar 2017 í skugga hneykslismáls þar sem í ljós hafði komið að skýrslum um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og dreifingu skuldaniðurfellingarinnar hafði verið haldið leyndum fyrir almenningi í aðdraganda kosninga. Stjórnarsamstarf Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn fékk lítinn meðbyr, en samanlagt hafði fylgið hrunið úr 46,7 prósentum í kosningum niður í 39,3 prósent þegar stjórnin var mynduð. Samstarfið reyndist niðurlægjandi fyrir Viðreisn og Bjarta framtíð sem gáfu eftir sín stóru kosningamál, svo sem uppboð aflaheimilda, þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB og upptöku evru og fyrirheit um stórfellda innviðauppbyggingu. Eftir að stjórnarsamstarfinu var slitið vegna hneykslismála er vörðuðu uppreist æru barnaníðinga var báðum flokkum refsað harkalega í kosningum, einkum þó Bjartri framtíð sem missti alla sína þingmenn. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn aðra verstu kosningu sína í sögu flokksins.

Ónýtur húsnæðismarkaður

Húsnæðismálin voru mikið á milli tannanna á fólki á árinu, en staðan hefur sjaldan verið jafn erfið. Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað tvöfalt á við laun í landinu og húsnæðisverð hefur hækkað um nær 95 prósent frá árinu 2010. Húsnæðisskortur, fjölgun erlendra ferðamanna og uppkaup stórra leigufélaga á jafnvel heilu íbúðablokkunum hefur ýtt undir þessa þróun, sem veldur því meðal annars að fjöldi fólks kemst ekki úr foreldrahúsum eða flýr land.

Höfðu hátt og sprengdu ríkisstjórn

Mikil reiði blossaði upp snemma í sumar þegar í ljós kom að Robert Downey, margdæmdur barnaníðingur, hefði fengið lögmannsréttindi sín á ný eftir að hafa hlotið uppreist æru. Þolendur Roberts, og aðstandendur þeirra, stigu fram í dagsljósið og kröfðust útskýringa. „Við viljum bara sannleika og réttlæti. Við erum ekki refsiglatt fólk, langt í frá, en við þekkjum í brjósti okkar hvað réttlæti er og erum að leita eftir því,“ sagði Bergur Þór Ingólfsson, faðir Nínu Rúnar Bergsdóttur, eins þolanda Roberts, í viðtali við Stundina. Mikil leynd ríkti hins vegar yfir málinu og erfiðlega gekk að fá svör.

Málið vatt upp á sig þann 25. ágúst þegar Stundin greindi frá því að annar barnaníðingur, Hjalti Sigurjón Hauksson, hefði verið sæmdur óflekkuðu mannorði sama dag og Robert Downey. Hjalti hafði verið dæmdur árið 2004 fyrir að misnota stjúpdóttur sína nær daglega í tólf ár. Eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðuneytið ætti að afhenda öll gögn um málsmeðferð og veitingu uppreistar æru kom í ljós að faðir forsætisráðherra, Benedikt Sveinsson, hefði verið einn þeirra sem hefðu veitt Hjalta Sigurjóni meðmæli vegna málsins. Forsætisráðherra vissi af meðmælabréfi föður síns en lét ekki formenn hinna stjórnarflokkanna vita, sem varð til þess að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu og boðað var til kosninga, einungis átta mánuðum eftir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við völdum. 

Hræringar á fjölmiðlamarkaði

Nokkur ólga var á fjölmiðlamarkaði á árinu og reglulega sagðar fréttir af rekstrarerfiðleikum fjölmiðla. Útgáfufélag Fréttatímans var tekið til gjaldþrotaskipta á árinu eftir að tilraunir til að endurreisa miðilinn mistókust, fjarskiptafyrirtækið Vodafone keypti alla miðla 365, utan Fréttablaðsins og Glamour, og Eyþór Arnalds eignaðist fjórðungshlut í Morgunblaðinu og er þar með orðinn stærsti einstaki eigandi útgáfufélagsins. 

Stærstu deilurnar hafa hins vegar staðið um útgáfufélagið Pressuna. Í apríl var greint frá því að sex nýir fjárfestar kæmu að hlutafjáraukningu hjá Pressunni en til stóð að auka hlutafé félagsins um 300 milljónir króna. Skuldir félagsins numu hins vegar rúmlega 700 milljónum og þar af voru um 300 milljónir við lífeyrissjóði og stéttarfélög vegna vangoldinna opinberra gjalda. Hætt var við hlutafjáraukninguna og eignaðist eignarhaldsfélagið Dalurinn, sem er meðal annars í eigu Róberts Wessmann, meirihluta í félaginu. Áður en ný stjórn tók sæti í félaginu voru nær allar eignir Pressunnar hins vegar seldar til hæstaréttarlögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar, en Pressan hefur sjálf verið tekin til gjaldþrotaskipta. Miklar og opinberar deilur standa enn yfir um málið.

Fjögur morðmál

Grænlendingurinn Thomas Möller Olsen var dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur í Héraðsdómi Reykjaness þann 29. september. Í sama mánuði lést Sanita Brauna, lettnesk kona á fimmtugsaldri, á heimili sínu á Hagamel í Vesturbæ Reykjavíkur en maður að nafni Khaled Cairo hefur verið ákærður vegna málsins. Ungur albanskur maður, Klevis Sula, lést þann 8. des­em­ber eft­ir að hafa verið stung­inn með hnífi á Aust­ur­velli af Íslendingi í byrjun mánaðar. Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi og Klevis hafði ætlað að hjálpa honum. Sveinn Gest­ur Tryggva­son var svo á dögunum dæmd­ur í 6 ára fang­elsi fyrir að hafa ráðist á Arn­ar Jóns­son­ Asp­ar í Mosfellsdal síðasta sumar. Arnar lést af sárum sínum. 

Lögbann á umfjöllun um viðskipti forsætisráðherra

Stundin greindi frá því, í samvinnu við Reykjavik Media og Guardian, þann 6. október að Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, hefði selt allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október árið 2008 auk þess sem hann hefði miðlað upplýsingum um störf Fjármálaeftirlitsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni. Fjallað var ítarlega um viðskipti Bjarna Benediktssonar og frændfólks hans; meðal annars það hvernig Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, seldi eignir í Sjóði sama dag og neyðarlögin voru sett og hvernig Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna var leystur undan sjálfskuldarábyrgð skömmu fyrir þjóðnýtingu Glitnis. Skömmu síðar varpaði Stundin ljósi á að fjárfestahópur Engeyinga, undir forystu Bjarna Benediktssonar, fjármagnaði kaup á Olíufélaginu með kúlulánum frá Glitni og hvernig Bjarni losnaði svo undan 50 milljóna kúluláni í aðdraganda hruns. Fréttaflutningurinn af þessum málefnum tók skjótan endi þegar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti lögbann á alla umfjöllun upp úr skjölum Glitnis. Málið er nú fyrir dómi og fer aðalmeðferðin fram í upphafi nýs árs. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur

Eftir að gengið hafði verið til þingkosninga að nýju og stjórnarmyndunarviðræður fjögurra miðju- og vinstriflokka ekki borið ávöxt ákvað forystufólk Vinstri grænna og Framsóknarflokksins að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn. Úr varð að mynduð var ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur þann 30. nóvember. Stjórnin hefur einsett sér, samkvæmt málefnasamningi, að ráðast í stórauknar innviðafjárfestingar og eflingu samneyslunnar samhliða skattalækkunum. 

Þögnin að eilífu rofin - #metoo

Eftir að bandaríski kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein var afhjúpaður, og fjöldi kvenna steig fram og sakaði hann um kynferðislega áreitni og ofbeldi, reis upp alþjóðleg bylgja kvenna sem höfðu orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi. Krafturinn náði meðal annars hingað til lands og hafa mörg þúsund íslenskra kvenna deilt sögum sínum undanfarna mánuði. Konur í stjórnmálum voru þær fyrstu til að stíga fram og krefjast úrbóta, en síðan hafa konur í sviðslistum og kvikmyndagerð, konur í tæknigeiranum, konur í tónlist, úr réttarvörslukerfinu, í vísindum, í læknastétt, í flugi, í fjölmiðlum, í heilbrigðisþjónustu, í menntakerfinu og konur í verkalýðshreyfingunni skrifað undir yfirlýsingar og deilt sögum sínum af kynbundnu misrétti, áreitni og ofbeldi í starfi. 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

ACD-ríkisstjórnin

Unnu náið með hæsta­réttar­dómurunum meðan þeir dæmdu Arn­fríðar­mál
Fréttir

Unnu ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an þeir dæmdu Arn­fríð­ar­mál

Arn­fríð­ur Ein­ars­dótt­ir lands­rétt­ar­dóm­ari starf­aði sjálf sem vara­dóm­ari með tveim­ur þeirra hæsta­rétt­ar­dóm­ara sem tóku af­stöðu um hæfi henn­ar og bærni til að kveða upp dóma á sama tíma og mál­ið var til með­ferð­ar. Hinir þrír sem vald­ir voru í Lands­rétt í trássi við stjórn­sýslu­lög störf­uðu einnig ná­ið með hæsta­rétt­ar­dómur­un­um með­an Hæstirétt­ur tók fyr­ir mál sem hefði getað sett dóm­ara­störf fjór­menn­ing­anna í upp­nám.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár