Mest lesið

Alvöru menn
1

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Alvöru menn

·
Myndin af áralöngum kvikindisskap þjóðhetju
2

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Myndin af áralöngum kvikindisskap þjóðhetju

·
Hve lágt má leggjast?
3

Illugi Jökulsson

Hve lágt má leggjast?

·
Raddir Lífar og Gunnlaugs heyrast í nokkrar mínútur
4

Raddir Lífar og Gunnlaugs heyrast í nokkrar mínútur

·
Dauðans alvara
5

Heiða Björg Hilmisdóttir

Dauðans alvara

·
„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“
6

„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“

·
Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram
7

Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram

·

Stóra mótsögnin: Aukin útgjöld og skattalækkanir en samt stöðugleiki og vaxtalækkun

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar boðar stóraukin ríkisútgjöld án verulegrar tekjuöflunar í nýjum stjórnarsáttmála.

Fjármála- og forsætisráðherrar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kallar á aðila vinnumarkaðarins að gæta hófs.  Mynd: Pressphotos
johannpall@stundin.is
jontrausti@stundin.is

Mikið ójafnvægi er á milli útgjaldaráðstafana og tekjuráðstafana í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Ástæðan er sú að um er að ræða málamiðlun milli þriggja ólíkra efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna.

Útkoman er málefnasamningur þar sem ekki er aðeins lögð áhersla á gríðarlega útgjaldaaukningu heldur einnig skattalækkanir upp á tugi milljarða sem vega upp á móti þeim hóflegu skattahækkunum sem boðaðar eru. 

Þannig virðist sem útgjaldafrekar aðgerðir verði að miklu leyti fjármagnaðar með einskiptisgreiðslum og með því að draga úr tekjuafgangi hins opinbera og hægja á niðurgreiðslu ríkisskulda. 

Þrátt fyrir þessa slökun á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna áréttar ríkisstjórnin mikilvægi þess að „hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta“.  Eins og kemur þó skýrt fram í fundargerð frá síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans um vaxtaákvörðun er ljóst að ljóst að Seðlabankinn ætlar að herða á peningalegu aðhaldi, líklega með hækkun vaxta, ef slakað verður á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna á næstu árum. 

Skattalækkanir á móti skattahækkunum

Af yfirlýsingum og upptalningum málefnasamnings nýrrar ríkisstjórnar má ráða að auka eigi frumgjöld hins opinbera um tugi milljarða árlega á kjörtímabilinu. Á meðal fyrirhugaðra aðgerða er innviðauppbygging, samgönguverkefni og mannvirkjagerð um allt land, efling heilbrigðiskerfisins og minnkun greiðsluþátttöku sjúklinga, aukið fjármagn til háskólastigsins og löggæslu og kjarabætur fyrir aldraða og öryrkja. 

Helstu tekjuöflunarráðstafanir stjórnarsáttmálans duga tæpast til að dekka alla útgjaldaaukninguna. Þær aðgerðir sem boðaðar eru á tekjuhliðinni eru hækkun fjármagnstekjuskatts úr 20 prósentum í 22 prósent, hugsanleg upptaka komugjalda til og frá landinu, hækkun kolefnisgjalds og efling skattrannsókna. 

Á móti kemur hins vegar að ríkisstjórnin ætlar að lækka aðra skatta, meðal annars tryggingagjald og neðra þrep tekjuskatts. Þetta eru á meðal stærstu tekjustofna hins opinbera sem er mjög kostnaðarsamt að hreyfa við. Þá verður hætt við hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem hefði annars skilað um 16 milljarða tekjum í ríkissjóð. 

Samkvæmt útreikningum sem gerðir hafa verið í fjármálaráðuneytinu myndi t.d. 1 prósenta lækkun neðra þreps tekjuskatts kosta ríkissjóð um 14 milljarða á ári. Sjálfstæðisflokkurinn lofaði að lækka skatthlutfallið niður í 35 prósent, en ætla má að slíkt kosti hátt í 30 milljarða á ári. Ef lækkun tryggingagjaldsins á að hafa raunveruleg áhrif á rekstur fyrirtækja hleypur kostnaðurinn af slíkri lækkun einnig á milljörðum á ári.

Slakað á aðhaldsstigi ríkisfjármálanna 

Fram kemur í stjórnarsáttmálanum að hætt verði við hað færa ferðaþjónustutengda starfsemi upp í efra þrep virðisaukaskatts, en þar verður ríkissjóður af 16 milljarða tekjum. Komugjöldin sem boðuð eru þess í stað skila varla meira en 4 milljörðum í ríkissjóð á ári. 

Efnahagsstefna vinstri- og hægriflokka er illsamrýmanleg, en vinstriflokkar boða gjarnan aukna skattheimtu og samneyslu meðan hægriflokkar vilja draga úr umsvifum hins opinbera og hlífa fyrirtækjum, fjármagnseigendum og launþegum við sköttum. Í stjórnarsáttmálanum eru farnar báðar leiðir, en engu er efnahagslegur stöðugleiki nefndur sem sérstakt markmið. 

Áréttað er mikilvægi þess að „hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta“. Um leið virðist hins vegar standa til að draga verulega úr tekjuafgangi hins opinbera og slaka á aðhaldsstigi ríkisfjármála. Eins og bent er á í fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar Seðlabankans er slökun á aðhaldsstigi hins opinbera ávísun á að herða þurfi á aðhaldi peningastefnunnar.

Skattalækkanir samliða útgjaldaaukningu

Fráfarandi fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, hafði lagt áherslu á jafnvægi milli útgjalda og tekna í hagstjórninni. Þannig áformaði hann að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu í efra þrep virðisaukaskatts, 24 prósent, en sú hækkun átti að skila 16 milljarða króna tekjum í ríkissjóð. Ný ríkisstjórn fellur frá þeim áformum, en boðar að skoðað verði að leggja á komu- eða brottfarargjöld á ferðafólk ásamt því að gistináttagjald leggist á sem renni til sveitarfélaganna.

„Umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika“

„Umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að aðgerðir tengdar vinnumarkaði skili sér í raunverulegum kjarabótum,“ segir í stjórnarsáttmálanum, en ekki kemur fram hvernig efnahagslegum stöðugleika verður viðhaldið þegar útgjöld aukast svona mikið en tekjur ekki.

Sátt um hóflegar kjarabætur lykillinn

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn boðuðu fyrir kosningar að ráðist yrði í aukna innviðauppbyggingu sem yrði fjármögnuð með 100 milljarða eignatekjum sem mætti taka út úr bankakerfinu vegna lækkunar eigin fjár viðskiptabankanna.

Að öðru leyti lagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ábyrgðina yfir á aðila vinnumarkaðarins, sem hann taldi að þyrftu að taka virkan þátt í að ná sátt og tryggja stöðugleika. Hins vegar varð uppnám á vinnumarkaði í fyrra, þegar fulltrúar kjararáðs, sem skipaðir eru af Alþingi og Bjarna sem fjármálaráðherra, hækkuðu laun þingmanna um 44 prósent í einni hendingu með ákvörðun á kjördag. Þannig hækkuðu laun ráðherra um hálfa milljón. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýnir til dæmis í dag að þeir sem heyra undir kjararáð - sem er undir beinum áhrifum frá stjórnmálavaldinu, en ekki laun á frjálsum markaði - fái 95 þúsund krónum hærri desemberuppbót en launþegar á almennum vinnumarkaði.

Af gagnrýni formanna stéttarfélaga er ljóst að þeim þykir að vantað hafi upp á að fulltrúar stjórnmálanna sýndu gott fordæmi í takmörkun launahækkana og útgjalda; þvert á móti leiði þeir hækkanir á sama tíma og farið sé fram á hófstillta launaþróun almennra launþega. 

Lesa má um fjölmörg og fjölbreytileg áform nýrrar ríkisstjórnar í stjórnarsáttmálanum sem hér fer á eftir. 

Stjórnarsáttmáli 


Málefnasamningur ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, 30. nóvember 2017

Í nýrri ríkisstjórn munu flokkar sem spanna hið pólitíska litróf allt frá vinstri til hægri freista þess að slá nýjan tón, einhenda sér í þau lykilverkefni sem koma Íslandi í fremstu röð og búa þannig um hnútana að hér verði gott að lifa og starfa fyrir unga sem aldna.

Á Íslandi er staðan í þjóðfélagsmálum um margt óvenjuleg. Tekist hefur að ná jafnvægi í ríkisfjármálum en þegar horft er til innviða samfélagsins og nýrra viðfangsefna blasa við brýn og umfangsmikil verkefni. Efnahagur á landsvísu hefur vænkast hratt undanfarin ár en gæta þarf að jafnvægi með þjóðinni og tækifærum allra sem landið byggja.

Stefna þarf að stöðugleika til lengri tíma og auka gagnsæi í athafnalífi og allri stjórnsýslu til að efla traust almennings á rekstri fyrirtækja, fjármálalífi, stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. Frá efnahagshruninu hefur náðst margvíslegur árangur en enn skortir á þá félagslegu sátt sem þjóðin hefur lengi kallað eftir.

Að henni þarf að vinna. Um leið þarf að bregðast við örum þjóðfélagsbreytingum og breyttri sýn á samfélagið á ótal sviðum en líka ójöfnuði og umróti á heimsvísu.

Ísland getur verið sterk rödd á alþjóðavettvangi með því að vera fyrirmynd um jafnréttismál þar sem hægt er að gera enn betur, setja sér metnaðarfull loftslagsmarkmið, vernda ósnortin víðerni og hlúa að náttúru og lífinu í landinu. 

Sjálfbær þróun verður í fyrirrúmi við ákvarðanir í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og -markmið.Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum.

Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu.

Þá verður að auka samráð við vinnumarkaðinn um sterkara  samfélag á sem flestum sviðum. Loks þarf að treysta enn samráð og stuðning við sveitarfélög að því er varðar uppbyggingu innviða, byggðaþróun og fjármálaleg samskipti. 

Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess. 

EFLING ALÞINGIS

Löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis verður styrkt á kjörtímabilinu með auknum stuðningi við nefndastarf og þingflokka. Auk þess vilja ríkisstjórnarflokkarnir ýta allnokkrum verkefnum úr vör með þverpólitískri nálgun og tryggja þar betur en venja er að sú fjölþætta þekking og reynsla sem þingið býr yfir nýtist í þágu lands og þjóðar óháð því hvaða flokkar skipa stjórn og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga. 

Sátt þarf að ríkja um fyrirkomulag fjármálakerfisins til framtíðar. Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið.

Megináherslum ríkisstjórnarinnar má skipta í eftirfarandi flokka sem styðja hverjir aðra:

Sterkt samfélag

• Þróttmikið efnahagslíf

• Umhverfi og loftslag

• Nýsköpun og rannsóknir

• Jöfn tækifæri

• Lýðræði og gagnsæi

• Alþjóðamál

 

STERKT SAMFÉLAG

Heilbrigðismál

Íslenska heilbrigðiskerfið á að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Allir landsmenn eiga að fá notið góðrar þjónustu, óháð efnahag og búsetu. 

Ríkisstjórnin mun fullvinna heilbrigðisstefnu fyrir Ísland með hliðsjón af þörfum allra landsmanna og skilgreina betur hlutverk einstakra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar og samspil þeirra. Mótuð verða markmið og leiðir í heilbrigðismálum í samvinnu við fagstéttir og embætti landlæknis í þeim tilgangi að stuðla að góðu heilbrigði þjóðarinnar og skapa eftirsóknarverðan starfsvettvang fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Heilsugæslan verður efld sem fyrsti viðkomustaður notenda. Framkvæmdir við nýjan með ferðarkjarna Landspítala munu hefjast næsta sumar.

Efla á nýsköpun í heilbrigðismálum þannig að Ísland verði í fremstu röð og nýti sér nýjustu tækni á þessu sviði, þ.m.t. Fjarlækningar. 

Ríkisstjórnin ætlar að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og gera það gagnsærra og skilvirkara. Þar þarf að meta árangur núverandi kerfis með hliðsjón af veikasta fólkinu og skoða þá þætti sem eru ekki hluti af því, t.d. ferða- og uppihaldskostnað, tannlækningar og sálfræðiþjónustu. 

Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum og sjúkra- húsum úti um land verður efld og bráða- og barna- og unglingageðdeildum Landspítalans verður tryggt fjármagn til að standa undir rekstri þeirra. Heilbrigðisþjónusta í framhaldsskólum verður efld með áherslu á geðheilbrigði. 

Ný heilbrigðisstefna

Dregið verður úr greiðsluþátttöku sjúklinga

Geðheilbrigðisáætlun til 2020 verður hrint í framkvæmd 

Ríkisstjórnin mun leggja sérstaka áherslu á forvarnir og lýðheilsu, meðal annars í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu og með stuðningi við íþróttir, æskulýðsstarf og öldrunarstarf. Skoðuð verður beiting efnahagslegra hvata til eflingar lýðheilsu.

Skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra. Fyrir liggur að þörf fyrir uppbyggingu er veruleg á næstu fimm árum.

Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu og mun hún birtast í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs gæti nýst í þetta verkefni.

Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila en áhersla verður einnig lögð á aðra þjónustuþætti, svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu.

Menntun og vísindi

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og boðar ríkisstjórnin stórsókn í menntamálum. Skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Lögð verður rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Nýsköpun og þróun verður að efla á öllum skólastigum enda er menntun kjarninn í nýsköpun til framtíðar.

Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Bregðast þarf við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga. Ríkisstjórnin vill tryggja framhaldsskólum frelsi og fjármagn til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaga og kanna kosti sveigjanlegra skólaskila.

Ráðist verður í stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma  

Ríkisstjórnin ætlar að leggja sérstakra áherslu á listnám og aukna tækniþekkingu sem gera mun íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Iðnnám og verk- og starfsnám verður einnig eflt í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags.

Jafnt aðgengi að námi óháð búsetu og öðrum aðstæð um verður meginmarkmið. Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu og setja skýran ramma um starfsemi menntastofnana og samstarf við atvinnulífið.

Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020 og Norðurlanda árið 2025 í samræmi við áætlanir Vísinda- og tækniráðs sem mun skipta sköpum fyrir bæði kennslu og rannsóknir í íslenskum háskólum.

Unnið verður að lausn á húsnæðismálum Listaháskóla Íslands á kjörtímabilinu.

Ráðist verður í endurskoðun námslánakerfisins í samstarfi við námsmannahreyfingarnar þar sem lögð verður áhersla á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. 

Húsnæðismál

Öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, er ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Í því samhengi skiptir hvað mestu að hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta. Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum sem stuðla að eflingu og auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar. Litið verður til ólíkra áskorana eftir landsvæðum í þessu samhengi og vanda sem stafar frá fyrri tíð.

Tryggja þarf að á hverjum tíma séu aðgengilegar greiningar og tölfræði um húsnæðisframboð og -þörf út frá lýðfræðilegri þróun og skipulagsforsendum.

Skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna hefur aukist mikið á undanförnum árum og hefur sú þróun haft afgerandi áhrif á húsnæðismarkað víða um land.  

Setja þarf skýrari reglur um slíka starfsemi, í samvinnu við sveitarfélögin og ferðaþjónustuna, ásamt því að efla eftirlit með leyfislausri starfsemi. Kanna þarf forsendur þess að sveitarfélög hafi ríkari heimildir til að stýra leigumarkaði.

Stuðla þarf að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa og samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis, auknu gagnsæi á leigumarkaði og aukinni upplýsingagjöf um húsnæðismál.

Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn.

Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þessa. 

Í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og fjárhagsmál verður aukið lóðaframboð og gjaldtaka vegna nýbygginga á dagskrá ásamt því að yfirfara stjórnsýslu vegna byggingaframkvæmda. Styðja þarf áfram við leigufélög sem eru rekin á félagslegum forsendum án hagnaðarsjónarmiða með stofnstyrkjum ríkisins.

Ríkisstjórnin mun taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum en samhliða þeim verður ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði.

Sérstök áhersla verður lögð á að gæta efnahagslegs stöðugleika. Ríkisstjórnin vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar. 

Byggðamál

Mikil verðmæti felast í því að landið allt sé í blómlegri byggð. Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um land allt. Ríkisstjórnin mun auka samráð við sveitarfélögin um verkefni þeirra og fjárhagsleg samskipti. Skilgreina þarf hlutverk landshlutasamtaka og styrk sveitarfélaga til að rísa undir nauðsynlegri þjónustu.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvægt tæki til að reka byggðastefnu á forsendum heimamanna. Þær verða styrktar á kjörtímabilinu. Horft verður til byggðaaðgerða sem tíðkast í nágrannalöndunum en um leið verður svæðisbundin þekking nýtt sem best. Skoðaðir verða kostir þess að nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Ráðuneytum og stofnunum verður falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er.

Ríkisstjórnin mun hefja samstarf við sveitarfélögin um gerð þjónustukorts sem sýnir aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila til að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað.

Flutnings- og dreifikerfi raforku verður að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu. 

Uppbygging kerfisins getur stutt við áætlanir um orkuskipti sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að hraða þrífösun rafmagns, með varmadæluvæðingu á köldum svæðum, innviðum fyrir rafbíla og rafvæðingu hafna.

Kannaðar verða leiðir til að setja skilyrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggðar, landnýtingu og umgengni um auðlindir. 

Samgöngur og fjarskipti

Brýn verkefni blasa við í innviðauppbyggingu um land allt. Þar má nefna verkefni í samgöngum, fjarskiptum, veitukerfum og annarri mannvirkjagerð. Svigrúm er á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni og tryggja þannig þá traustu innviði sem eru forsendan fyrir fjölbreyttu og kröftugu atvinnulífi um land allt.

Ríkisstjórnin vill hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum bæði með nýframkvæmdum og viðhaldi. Við forgangsröðun í vegamálum verður sérstaklega litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.

Unnið verður að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og stutt verður við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. 

Auka þarf möguleika gangandi og hjólandi vegfarenda í þéttbýli. Huga þarf að möguleikum til að opna fleiri hlið inn til landsins og fjölga þannig þeim svæðum sem geta notið góðs af ferðaþjónustu.

Ljósleiðaravæðingu landsins verður lokið árið 2020 sem eykur lífsgæði og fjölgar tækifærum landsmanna til að skapa atvinnu. Ríkisstjórnin vill að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar kemur að fjarskipta- og upplýsingatækni og leggur áherslu á aukið samstarf fjarskiptaaðila um uppbyggingu grunninnviða.

Löggæsla

Öflug löggæsla er ein af forsendum þess að öryggi borgaranna sé tryggt. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggja fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum.

Ljúka þarf gerð þessarar áætlunar og vinna í samræmi við hana. Fleiri ferðamenn kalla á aukið fjármagn og styrkja þarf miðhálendislöggæslu yfir háannatíma. Tryggja þarf Landhelgisgæslunni nægilegt fjármagn til að rækja starf sitt.

Snúa þarf af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna. Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis.

Menning, skapandi greinar og íþróttir 

Aðgengi að menningu er mikilvægur þáttur þess að lifa í frjálsu samfélagi. Þess vegna skiptir máli að allir landsmenn geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á sviði lista og menningararfs.

Unnin verður aðgerðaáætlun á grundvelli samþykktrar menningarstefnu.

Á kjörtímabilinu verður sérstaklega hugað að því að styrkja starfsemi höfuðsafnanna þriggja. Þar á meðal verður Náttúruminjasafn Íslands styrkt til að opna eigin sýningu og gert ráð fyrir framtíðarhönnun fyrir nýtt safn í fjármálaáætlun til fimm ára. 

Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum. Ráðist verður í gerð hagvísa fyrir menningu, listir og skapandi greinar. Áfram verður unnið að því að efla skapandi greinar sem vaxandi atvinnuveg á

Íslandi. Höfundagreiðslur sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta verða skattlagðar sem eignatekjur.

Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna og verkefnasjóði listamanna. Íþróttir og æskulýðsstarf gegna veigamiklu hlutverki í farsælu og heilbrigðu samfélagi. Áfram verður unnið með félagasamtökum á þessu sviði að uppbyggingu grasrótar og afreksstarfs. Unnið verður með Reykjavíkurborg og íþróttahreyfingunni að uppbyggingu þjóðarleikvangs í Laugardal. 

ÞRÓTTMIKIÐ EFNAHAGSLÍF

Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess að treysta megi til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði. Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á traustar undirstöður í ríkisfjármálum sem gefa tækifæri til að byggja upp og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar mun ljúka störfum og í kjölfarið verða gerðar nauðsynlegar breytingar á ramma stefnunnar.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf og að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum.

Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þ.m.t. hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum.

Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og styðja við vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Með því verður fræjum sáð til eflingar nýrra vel launaðra starfa í framtíðinni. Einnig verður hluti nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina. 

Vinnumarkaður

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samstilltu átaki með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja að kjarasamningar skili launafólki og samfélaginu raunverulegum ávinningi. Sátt á vinnumarkaði er nauðsynleg forsenda þess að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi og skapa þannig efnahagsleg skilyrði til lægra vaxtastigs og bættra lífskjara.

Ríkisstjórnin vill vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Innleiða þarf ákvæði um keðjuábyrgð í ólíkum atvinnugreinum, vinna gegn kynbundnum launamun, félagslegum undirboðum, mansali og kennitöluflakki og efla vinnueftirlit. 

Skattar

Launahækkanir undanfarinna ára ásamt hækkuðu lífeyrisframlagi atvinnurekenda og sterkara gengi gjaldmiðilsins hafa dregið úr samkeppnishæfni atvinnulífsins, einkum útflutningsgreina. Mikilvægt er að stjórnvöld og vinnumarkaðurinn leiti leiða til að styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs samhliða því að halda áfram að bæta kjör almennings í þeirri kjarasamningagerð sem stendur fyrir dyrum. Til að styðja við farsæla niðurstöðu hyggst ríkisstjórnin leggja áherslu á lækkun tekjuskatts í neðra skattþrepi. Þá er það einnig forgangsmál á kjörtímabilinu að lækka tryggingagjald. 

Umfram allt er á kjörtímabilinu lögð áhersla á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og að aðgerðir tengdar vinnumarkaði skili sér í raunverulegum kjarabótum.

Af þeim sökum mun það ráðast af heildarniðurstöðu kjaraviðræðna á komandi misserum hvernig hægt verður að tímasetja og hrinda í framkvæmd framangreindum markmiðum.

 Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður í 22% í upphafi kjörtímabils í því markmiði að gera skattkerfið réttlátara óháð uppruna tekna. Samhliða verður skattstofn fjármagnstekjuskatts tekinn til endurskoðunar. 

Til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands mun ríkisstjórnin endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum. 

Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar en aðrar leiðir til gjaldtöku kannaðar í samráði við greinina, m.a. möguleikar á álagningu komu eða brottfarargjalds. Gistináttagjald færist yfir til sveitarfélaga á kjörtímabilinu í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofna. 

Gjaldinu verður breytt þannig að það verði hlutfallslegt. Hugað verður að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla. Fyrsta skref verður að afnema virðisaukaskatt á bókum. Höfundagreiðslur sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta verða skattlagðar sem eignatekjur.

Tímabært er að huga að heildarendurskoðun gjaldtöku í samgöngum, svokölluðum grænum sköttum og skattaívilnunum, þannig að skattheimtan þjóni loftslagsmarkmiðum. 

Kolefnisgjald verður hækkað um 50% strax í upphafi kjörtímabils og verður svo áfram hækkað á næstu árum í takt við væntanlega aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Undanþágum frá kolefnisgjaldi verður fækkað.

Skattrannsóknir verða efldar samhliða því að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgari vinnumarkaði. Áframhaldandi áhersla þarf að vera á alþjóðlegt samstarf gegn skattundanskotum og skattsvikum þannig að Ísland skipi sér í fremstu röð ríkja sem berjast gegn skattaskjólum. 

Landbúnaður

Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum.

Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. 

Meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð. Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að bregðast við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Samhliða nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga verða innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita.

Með þeim verður rudd braut fyrir bændur til að byggja upp nýjar búgreinar eða hasla sér völl á öðrum sviðum.

Slíkir aðlögunarsamningar til búháttabreytinga verða tímabundnir og háðir skilyrðum um byggðafestu, verðmætasköpun og búsetu viðkomandi jarðar og geta stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun.

Forsenda þess að landbúnaður geti nýtt tækifæri framtíðarinnar er jafnvægi í framleiðslu, skilvirkt eftirlit og nýsköpun. Ríkisstjórnin ætlar að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. 

Ríkisstjórnin mun ráðast í aðgerðir til að þróa lífhagkerfið enn frekar, grænar lausnir og aðferðir til að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu með hvötum og stuðningi sem miði meðal annars að kolefnisjöfnun greinarinnar.

Efla þarf sérstaklega lífrænan landbúnað. 

Sjávarútvegur

Íslenskur sjávarútvegur stendur mjög framarlega á alþjóðavísu vegna þeirrar áherslu sem lögð er á sjálfbæra auðlindanýtingu, rannsóknir og þróun.

Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna. Einnig þarf að stuðla að kolefnisjöfnun greinarinnar, til dæmis með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann. Hafrannsóknir gegna lykilhlutverki fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu og þær þarf að efla. Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar. 

Mikilvægt er að efla hinar dreifðu sjávarbyggðir og viðhalda fjölbreytni í vaxtarmöguleikum til að tryggja afkomuöryggi þeirra. Vega þarf og meta fyrirkomulag þeirra aflaheimilda sem ríkið fer með forræði yfir, þ.m.t. Strandveiða, með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.

Ferðaþjónusta

Mörkuð verður langtímastefna um ferðaþjónustu í samvinnu við hagsmunaaðila með sjálfbærni að leiðarljósi.

Aukin dreifing ferðamanna um landið er mikilvæg með hliðsjón af náttúruvernd og byggðasjónarmiðum. Styðja þarf við markaðsstofur landshlutanna. Lögð verður áhersla á greiningu þolmarka frá sjónarhóli náttúrunnar, samfélagsins og efnahagslífsins. Metin verður þörf fyrir aðgangsstýringu á ferðamannastöðum í opinberri eigu eða umsjón auk þess sem mögulegt er að beita friðlýsingum sem stjórntæki á viðkvæmum svæðum. Ljúka þarf vinnu sem hafin er við að leysa úr árekstrum almannaréttar og ferðaþjónustu.

Stutt verður myndarlega við rannsóknir í greininni sem og uppbyggingu innviða og landvörslu. Gæta þarf að því að uppbygging bitni ekki á aðdráttarafli svæða og tryggja að áfram verði til fáfarin svæði, bæði til verndar náttúru og vegna upplifunar ferðamanna. 

Áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu verða lögð til hliðar en aðrar leiðir til gjaldtöku kannaðar í samráði við greinina, m.a. möguleikar á álagningu komu eða brottfarargjalds. Mótuð verður eigendastefna fyrir ISAVIA. 

Fjármálakerfið

Fjármálakerfið á að vera traust og þjóna samfélaginu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum er það umfangsmesta í Evrópu og vill ríkisstjórnin leita leiða til að draga úr því. Ljóst er þó að ríkissjóður verður leiðandi fjárfestir í að minnsta kosti einni kerfislega mikilvægri fjármálastofnun.

Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar áður en stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar um fjármálakerfið.

Leiðarljósin í vinnu við hvítbókina verða aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði, aukið gagnsæi og fjármálastöðugleiki.

Þótt mikilvægar umbætur hafi verið gerðar á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja er brýnt að gera betur. 

Eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum verður að vera gagnsætt. Ríkisstjórnin vill að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda. Mikilvægt er að dregið sé úr áhættu vegna óskyldra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja.

Í mótun að framtíðarfyrirkomulagi skal sérstaklega litið til annarra lítilla opinna hagkerfa og reynslu annars staðar á Norðurlöndum. 

UMHVERFI OG LOFTSLAG

Loftslagsmál

Leiðarljós loftslagsstefnu Íslands er stefnumið Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að takmarka hækkun meðalhitastigs andrúmslofts jarðar við 1,5°C.

Meginforsenda loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Hvergi í heiminum hefur hitastigshækkun orðið jafnmikil og á norðurslóðum. Þannig á Ísland að efla rannsóknir á súrnun sjávar í samráði við vísindasamfélagið og sjávarútveginn. Ísland á enn fremur að ná 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við árið 1990 fyrir árið 2030. 

Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Kolefnishlutleysi verði náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en einnig með breyttri landnotkun í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla og með hliðsjón af vistkerfisnálgun og skipulagssjónarmiðum.

Stutt verður við atvinnugreinar, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög í þeirri viðleitni að setja sér loftslagsmarkmið.

Ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum. Ívilnanir til nýfjárfestinga byggist á því að verkefnin hafi verið metin út frá loftslagsáhrifum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands um samdrátt í gróðurhúsalofttegundum.

Lögð verður áhersla á þátttöku allra geira samfélagsins og almennings í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stutt við nýsköpun á þessu sviði. 

Loftslagsráð verður sett á laggirnar og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun verður tímasett og fjármögnuð. Í aðgerðaáætlun verða meðal annars sett markmið um samgöngur og hlutfall ökutækja sem ganga fyrir vistvænni orku í bílaflota landsmanna, orkunýtni í atvinnulífinu, innleiðingu alþjóðlegra samninga um vernd hafsins, græn skref í ríkisrekstri og loftslagssjóð og stefnt að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands. 

Gengið verður til samstarfs við sauðfjárbændur um kolefnisjöfnun greinarinnar í samræmi við aðgerðaáætlun þar um. Einnig verður unnið með öðrum atvinnugreinum að sambærilegum verkefnum. 

Umhverfis- og auðlindamál

Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila. Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum.

Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt.

Skoðað verði að hve miklu leyti má nýta jarðstrengi í þessar tengingar með hagkvæmum hætti. Ekki verður ráðist í línulagnir yfir hálendið.

Ljóst er að stjórnsýslumeðferð ákvarðana sem tengjast línulögnum hefur tekið verulegan tíma vegna ýmissa þátta. Mikilvægt er að hraða málsmeðferð þar sem það er hægt samkvæmt gildandi lögum, t.d. með því að styrkja úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá eru ríkisstjórnarflokkarnir sammála um að endurskoða á fyrri hluta kjörtímabilsins ákvæði um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála með það að markmiði að sá réttur sé tryggður á fyrri stigum leyfisveitingarferlis og málsmeðferð geti þannig orðið skilvirkari án þess að gengið sé á þennan rétt. Þá verði þjóðréttarskuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum komið til framkvæmda. 

Setja þarf lög um vindorkuver ásamt því að vinna með sveitarfélögum leiðbeiningar um skipulagsákvarðanir og leyfisveitingar.

Langtímaorkustefna verður sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka.

Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda um orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf. Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni.

Sérstök áhersla verður lögð á friðlýsingar kosta í verndarflokki rammaáætlunar auk verndarsvæða í samræmi við náttúruverndaráætlun með hliðsjón af áformum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Með bókhaldi náttúruauðlinda er hægt að auka yfirsýn yfir auðlindir landsins og skilgreina nýtingu þeirra með sjálfbærni að leiðarljósi.

Ráðist verður í langtímaátak gegn einnota plasti með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir og hreinsun plasts úr umhverfi lands og stranda.

Gera þarf átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki.

Dýralíf á Íslandi er hluti af íslenskri náttúru sem ber að vernda. Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn. Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. 

Nýsköpun og rannsóknir

Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Hluti fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs mun renna til verkefna á þessu sviði.

Mótuð verður heildstæð nýsköpunarstefna fyrir Ísland í samstarfi við fulltrúa stjórnmálaflokka og í nánu samráði við atvinnulífið og vísindasamfélagið.

Þá stefnu þarf einnig að vinna í samráði við skólasamfélagið þar sem nýsköpunarstefnan verður samþætt við framtíðarsýn í menntamálum, frá leikskóla til háskóla. Ríkisstjórnin mun fylgja eftir aðgerðum í nýlegri aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs og meðal annars láta vinna vegvísi um rannsóknarinnviði. Ríkisstjórnin mun vinna að því að skilyrði hér á landi fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi. Ljóst er að einfalda þarf starfsumhverfi þeirra, efla stoðkerfið, auka aðgengi að fjármagni og erlendum sérfræðingum og styðja við sókn á alþjóðavettvangi.

Til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands mun ríkisstjórnin endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum. Áfram verður stutt myndarlega við samkeppnissjóði í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs. 

Lögð verður áhersla á að hvetja til nýsköpunar á sviði opinberrar þjónustu og stjórnsýslu, velferðarþjónustu og verkefna í þágu loftslagsmarkmiða. Umgjörð og tækifæri hópfjármögnunar verða skoðuð og starfsemi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins endurskoðuð á grunni væntanlegrar niðurstöðu starfshóps um hana.  

Kannaðir verða möguleikar Íslandsstofu til að kynna Ísland betur sem heimahöfn rannsókna- og þróunarverkefna. Sett verður af stað vinna við að undirbúa klasastefnu fyrir Ísland þar sem unnið er með styrkleika ólíkra atvinnugreina í samvinnu menntakerfis, rannsóknastofnana, atvinnulífs, sveitarfélaga og annarra hagsmunaaðila. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

Alvöru menn
1

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Alvöru menn

·
Myndin af áralöngum kvikindisskap þjóðhetju
2

Ingi Freyr Vilhjálmsson

Myndin af áralöngum kvikindisskap þjóðhetju

·
Hve lágt má leggjast?
3

Illugi Jökulsson

Hve lágt má leggjast?

·
Raddir Lífar og Gunnlaugs heyrast í nokkrar mínútur
4

Raddir Lífar og Gunnlaugs heyrast í nokkrar mínútur

·
Dauðans alvara
5

Heiða Björg Hilmisdóttir

Dauðans alvara

·
„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“
6

„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“

·
Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram
7

Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram

·

Mest deilt

Alvöru menn
1

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Alvöru menn

·
Furðar sig á því að tanngreiningar hafi farið fram innan HÍ án samnings
2

Furðar sig á því að tanngreiningar hafi farið fram innan HÍ án samnings

·
„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“
3

„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“

·
Bára afhendir siðanefnd Alþingis hljóðupptökurnar af Klaustri
4

Bára afhendir siðanefnd Alþingis hljóðupptökurnar af Klaustri

·
Hve lágt má leggjast?
5

Illugi Jökulsson

Hve lágt má leggjast?

·
Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram
6

Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram

·

Mest deilt

Alvöru menn
1

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Alvöru menn

·
Furðar sig á því að tanngreiningar hafi farið fram innan HÍ án samnings
2

Furðar sig á því að tanngreiningar hafi farið fram innan HÍ án samnings

·
„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“
3

„Reykjavík gæti léttilega verið betri borg en Kaupmannahöfn“

·
Bára afhendir siðanefnd Alþingis hljóðupptökurnar af Klaustri
4

Bára afhendir siðanefnd Alþingis hljóðupptökurnar af Klaustri

·
Hve lágt má leggjast?
5

Illugi Jökulsson

Hve lágt má leggjast?

·
Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram
6

Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram

·

Mest lesið í vikunni

Uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði“
1

Uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði“

·
Alvöru menn
2

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Alvöru menn

·
Trans manni vísað úr Laugardalslaug fyrir að nota karlaklefa
3

Trans manni vísað úr Laugardalslaug fyrir að nota karlaklefa

·
Uppljóstrarinn af Klaustri stígur fram í Stundinni
4

Uppljóstrarinn af Klaustri stígur fram í Stundinni

·
Varaþingmaður Miðflokksins segir samning S.Þ. „aðför að hinum frjálsa, vestræna heimi“
5

Varaþingmaður Miðflokksins segir samning S.Þ. „aðför að hinum frjálsa, vestræna heimi“

·
Trumpar á trúnó
6

Hallgrímur Helgason

Trumpar á trúnó

·

Mest lesið í vikunni

Uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði“
1

Uppljóstrarinn af Klaustri: „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði“

·
Alvöru menn
2

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir

Alvöru menn

·
Trans manni vísað úr Laugardalslaug fyrir að nota karlaklefa
3

Trans manni vísað úr Laugardalslaug fyrir að nota karlaklefa

·
Uppljóstrarinn af Klaustri stígur fram í Stundinni
4

Uppljóstrarinn af Klaustri stígur fram í Stundinni

·
Varaþingmaður Miðflokksins segir samning S.Þ. „aðför að hinum frjálsa, vestræna heimi“
5

Varaþingmaður Miðflokksins segir samning S.Þ. „aðför að hinum frjálsa, vestræna heimi“

·
Trumpar á trúnó
6

Hallgrímur Helgason

Trumpar á trúnó

·

Við mælum með

Trump grefur undan eftirliti, andófi og aðhaldi

Trump grefur undan eftirliti, andófi og aðhaldi

·
Á ferð með eftirlitinu: Lygar, ótti og reiði í Villta vestrinu

Á ferð með eftirlitinu: Lygar, ótti og reiði í Villta vestrinu

·
Svipti sig lífi eftir vændið

Svipti sig lífi eftir vændið

·
„Skelfilegar sögur“ úr Kvikmyndaskóla Íslands

„Skelfilegar sögur“ úr Kvikmyndaskóla Íslands

·

Nýtt á Stundinni

Starfsmenn Félagsvísindasviðs leggjast gegn tanngreiningum Háskóla Íslands

Starfsmenn Félagsvísindasviðs leggjast gegn tanngreiningum Háskóla Íslands

·
Ágúst Ólafur segist ekki hafa ætlað rengja frásögn Báru

Ágúst Ólafur segist ekki hafa ætlað rengja frásögn Báru

·
Samkomulag við Útlendingastofnun komi niður á sjálfstæði Háskóla Íslands

Samkomulag við Útlendingastofnun komi niður á sjálfstæði Háskóla Íslands

·
Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram

Konan sem Ágúst Ólafur áreitti stígur fram

·
Framsóknarflokkurinn og VG höfnuðu veggjöldum - vinna nú að innleiðingu þeirra

Framsóknarflokkurinn og VG höfnuðu veggjöldum - vinna nú að innleiðingu þeirra

·
Ágúst Ólafur tjáir sig ekki frekar um ósæmilega hegðun sína

Ágúst Ólafur tjáir sig ekki frekar um ósæmilega hegðun sína

·
71% umsókna um vernd synjað

71% umsókna um vernd synjað

·
Vilja hælisleitanda aftur til landsins til að bera vitni um líkamsárás gegn sér

Vilja hælisleitanda aftur til landsins til að bera vitni um líkamsárás gegn sér

·
Nýr stjórnarformaður Secret Solstice var í Panamaskjölunum

Nýr stjórnarformaður Secret Solstice var í Panamaskjölunum

·
Þegar Marvin skrapp á mótmæli

Þegar Marvin skrapp á mótmæli

·
Yfir helmingur telur mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá

Yfir helmingur telur mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá

·
Furðar sig á því að tanngreiningar hafi farið fram innan HÍ án samnings

Furðar sig á því að tanngreiningar hafi farið fram innan HÍ án samnings

·