Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Þór Whitehead, sagnfræðiprófessor og sjálfstæðismaður, kvartar undan samráðsleysi flokksforystunnar við grasrótina í Sjálfstæðisflokknum og vill að staða flokksins og formannsins sé tekin til umræðu.

Þór Whitehead, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, telur að enginn formaður hægriflokks sem nyti mests kjörfylgis í vestrænu landi myndi sætta sig við að vera í ríkisstjórn undir forystu mun minni flokks sem kenndi sig við vinstri róttækni. Þetta kemur fram í harðorðri grein eftir Þór sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Verði af væntanlegri stjórnarmyndun á hún sér áreiðanlega ekkert fordæmi í stjórnmálasögu Evrópu. Það ætti að vera fylgismönnum Sjálfstæðisflokksins til umhugsunar um, hvað formanninum og þingflokknum gangi til með ósíngirni sinni og hvaða áhrif hún geti haft á stöðu flokksins í framtíðinni,“ skrifar hann.

Þór er sjálfstæðismaður til margra ára og var í Eimreiðarhópnum svonefnda sem boðaði frjálshyggju af miklum krafti á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Hann gagnrýnir flokksforystu Sjálfstæðisflokksins fyrir að leita ekki umboðs flokksmanna eða hafa minnsta samráð við grasrótina vegna ákvarðana er snúa að þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem nú standa yfir.

Þór segist hafa sent stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, tölvupóst á dögunum og hvatt til þess að efnt yrði án tafar til fundar „þar sem formaður flokksins ræddi stjórnarmyndunina og stöðu flokksins og sína eigin í ljósi kosningaúrslita“. Þá teldi hann viðeigandi að einhverjum sem talist gæti góður og gildur fulltrúi almennra flokksmanna, yrði boðið að flytja framsögu á fundinum.

„Á þeim þremur fundum sem ég hef sótt í
Valhöll á síðustu árum hafa frjálsar umræður
ekki leyfst, jafnvel ekki um Icesave-samninginn“

„Ég benti á að leyfa yrði frjálsar umræður á fundinum, svo að eitthvert samtal gæti farið fram á milli forystunnar og annarra fundarmanna,“ skrifar Þór og bætir því við að þessi ábending hafi ekki verið send að ástæðulausu. „Á þeim þremur fundum sem ég hef sótt í Valhöll á síðustu árum hafa frjálsar umræður ekki leyfst, jafnvel ekki um Icesave-samninginn. Virkir félagar í flokknum segja mér að þetta sé orðin regla. Forystumenn hafi jafnan óheftan ræðutíma, en fundarmönnum leyfist aðeins að bera fram stuttar fyrirspurnir, ella sé þaggað niður í þeim.“

Hann segist hafa sent Bjarna Benediktssyni sjálfum, auk ritara og varaformanns, afrit af tölvupóstinum. Þá hafi hann tekið fram að vegna reynslu af fyrirrennurum formanns Varðar myndi hann ekki una svarleysi heldur taka málið upp í dagblaði ef svo bæri undir. 

„Nú fór eins og vísir menn höfðu spáð, að formaður Varðar svaraði mér engu. Ég sendi því Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara og varaformanni flokksins, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrsta þingmanni í kjördæmi mínu, skeyti með ósk um að þau beittu sér fyrir því að Varðarformaðurinn svaraði erindi mínu. En þau Áslaug, sem telst ábyrg fyrir flokksstarfinu, reyndust ekki virða mig svars fremur en formaðurinn,“ skrifar Þór og spyr hvort það sé „til of mikils mælst að ræða hugsanlega stjórnarmyndun og afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG við óbreytta flokksmenn, áður en til ákvarðana kemur.“

Þá veltir hann því fyrir sér hvort vinnubrögðin geti talist sómasamleg í lýðræðisflokki. Grein Þórs lýkur með eftirfarandi orðum: „Hvernig endar vegferð, sem hefst með því að ræða ekki við það fólk, sem veitti flokknum sigur í því einvígi, er fram fór í síðasta mánuði á milli hans og VG um forystuhlutverk í stjórnmálum landsins? Getur formaðurinn og þingflokkurinn afskrifað það umboð líkt og hlutabréf í aðþrengdu útrásarfyrirtæki? Hvaða afleiðingar hefur það fyrir flokkinn? Tíminn leiðir það í ljós, en ég verð að viðurkenna að aldrei hefur orðið „flokkseigendur“ haft jafnskýra merkingu í mínum huga.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Jón Steinar þrýsti á að Robert Downey fengi uppreist æru „eftir þá hrakninga sem hann lenti í“

Fréttir

Guðni mátti ekki sjá minnisblöð um Downey og Hjalta: „Ber að eyða því í pappírstætara“

Fréttir

Frásagnir kvenna í læknastétt: „Það þarf nú bara að þvinga lykkjuna upp á ykkur “

Pistill

Með bakið upp við vegginn

Fréttir

Pressan borgaði ekki af jeppa Björns Inga og stefnir í þrot út af ógreiddum iðgjöldum starfsmanns

Pistill

Hvernig er hægt að losna við Trump?

Mest lesið í vikunni

Rannsókn

„Skelfilegar sögur“ úr Kvikmyndaskóla Íslands

Fréttir

Áralangar deilur innan fjölskyldu Ásmundar Einars hafa ratað til lögreglunnar

Fréttir

Björn Ingi keypti hús með auglýsingasamningi og kúlulánum frá GAMMA

Fréttir

Jón Steinar þrýsti á að Robert Downey fengi uppreist æru „eftir þá hrakninga sem hann lenti í“

Fréttir

Guðni mátti ekki sjá minnisblöð um Downey og Hjalta: „Ber að eyða því í pappírstætara“

Pistill

Okkar eigin Weinstein