Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Unnið að ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur

Katrín Jak­obs­dótt­ir verð­ur for­sæt­is­ráð­herra í rík­is­stjórn Fram­sókn­ar­flokks­ins, Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Pírata og jafn­vel Við­reisn­ar, ef við­ræð­ur flokk­anna ganga eft­ir. Flokk­ar með 75 til 86 pró­sent hlut­fall karla verða skild­ir eft­ir í stjórn­ar­and­stöðu ef þetta geng­ur eft­ir.

Unnið er að myndun nýrrar ríkisstjórnar án Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem Katrín Jakobsdóttir veitir forsæti. 

Samkvæmt heimildum Stundarinnar er fjölflokka ríkisstjórn yfir miðju á teikniborðinu, eins og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, boðaði í gær. Þessi stjórn myndi brjóta blað í stjórnmálasögu Íslands, með fimm til sex flokka í ríkisstjórn.

Mikil leynd er yfir þeim óformlegu stjórnarmyndunarþreifingum sem standa yfir og halda flokkarnir spilunum þétt að sér. Viðmælendur Stundarinnar úr þingflokkunum eru misbjartsýnir en telja þó líklegt að framhaldið skýrist í dag eða á morgun. 

Karlaflokkar settir í stjórnarandstöðu

Sú ríkisstjórn sem nú er efst á teikniborðinu undanskilur þrjá þingflokka sem eru með hlutfall karla á bilinu 75 til 86 prósent; Sjálfstæðisflokk Bjarna Benediktssonar, Miðflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Flokk fólksins undir formennsku Ingu Sædal. Ekki er þó útséð með aðkomu Flokks fólksins að ríkisstjórninni, en líklegra er að Viðreisn verði valin fram yfir hann, sem eykur frjálslynda áherslu, en takmarkar um leið tekjuaukningu ríkissjóðs í gegnum skattahækkanir. 

Forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn yrði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Katrín hefur notið trausts þvert á flokka. Í skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi í fyrra kom fram að um 40 prósent landsmanna vildu að Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. 25,6 prósent vildu Bjarna Benediktsson og 14,3 prósent Sigurð Inga Jóhannsson.

Áhersla á innviði

Ef fimm til sex flokka ríkisstjórn ætti að ganga upp þyrftu allir flokkar að gefa verulega eftir.

Varaformaður Framsóknarflokksins, Lilja Alfreðsdóttir, átti frumkvæði að því að slá Evrópumálin út af borðinu í viðtali við Ríkisútvarpið í gær, þegar hún sagði Framsóknarflokkinn leggjast eindregið gegn því að kosið yrði um aðild eða aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. 

Þorgerður innViðreisn verður líklega hluti af ríkisstjórn yfir miðju, fremur en Flokkur fólksins.

Þetta yrði erfitt fyrir Samfylkinguna og Viðreisn, sem og að hluta Pírata vegna áherslu þeirra á beint lýðræði, en þess ber að geta að Viðreisn gaf eftir nánast að fullu í Evrópumálum við myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki í janúar, þegar fallist var á að staðið yrði í vegi fyrir þingmáli um þjóðaratkvæði þar til undir lok kjörtímabils.

Ekki er talið að mikill ágreiningur sé um að fara svokallaða svissneska leið í húsnæðismálum, sem var eitt helsta áherslumál Framsóknarflokksins í kosningabaráttunni. Í henni felst að greiðslur í lífeyrissjóði virki sem innborgun á fyrstu íbúð. 

Þá er samhljómur um útgjaldaaukningu til innviðafjárfestinga. Allir flokkar hafa lofað að leggja meira til heilbrigðismála. Hins vegar gæti ásteitingarsteinn verið í skattamálum, þar sem Vinstri grænir og Samfylking hafa viljað hækka skatta á stóreigna- og/eða hátekjufólk, en Viðreisn staðið gegn skattahækkunum. Píratar eru opnir í skattamálum, en hafa lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 20 prósent í 30 prósent.

Óljóst er hvernig útfærsla á loforðum einstakra flokka getur gengið eftir, en Flokkur fólksins hefur til að mynda lofað því að persónuafsláttur verði tvöfaldaður strax, Samfylking lofað tvöföldun barnabóta, en Viðreisn lagt áherslu á að skuldir ríkissjóðs verði greiddar og þannig dregið úr vaxtakostnaði.

Rofið sambandSigmundur Davíð Gunnlaugsson lét Sigurði Inga Jóhannssyni eftir forsætisráðuneytið í fyrra eftir að hagsmunaárekstur sem kom fram í Panamaskjölin gerði honum ómögulegt að halda áfram. Síðan tók Sigurður Ingi af skarið og bauð sig fram í formennsku hjá Framsóknarflokksins, við mikla óánægju Sigmundar.

Stjórn með Sjálfstæðisflokki gekk ekki

Tilraunir til myndunar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna strönduðu í gær, en samkvæmt heimildum Stundarinnar vildu Vinstri grænir að Samfylking yrði aðili að slíkri ríkisstjórn. 

Þá er talið að samband Sigurðar Inga Jóhannssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sé of stirt til þess að reynandi sé að stofna til samstarfs þeirra á milli, en hins vegar er málefnalegur samhljómur milli Framsóknar- og Miðflokks.

Því er enn mikil óvissa um ríkisstjórnarmyndun og allt eins mögulegt að horfið verði aftur að þeim möguleika að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár