Pistill

Karlkyns pervertar

Sigurjón Kjartansson horfist í augu við skaðleg áhrif karlmennskunnar.

Ég er karlkyns. Það gerir mig sjálfkrafa að hugsanlegum kynferðisglæpamanni, barnaníðingi, nauðgara og ofbeldismanni. Ég finn það mjög vel – sérstaklega þessa dagana – að ég hlýt að liggja undir grun. Það er verið að fylgjast með mér og ég finn að ég þarf að vanda mig.

Harvey Weinstein hefur fengið mig til að líta í eigin barm. Hversu mikill pervert er ég á skalanum 1–10, ef Harvey er 10? Ég hef horft í spegil og spurt mig erfiðra spurninga. Eru einhverjar konur sem gætu komið með ásakanir á hendur mér sem nálgast eitthvað í líkingu við það sem hundruð kvenna í Hollywood hafa á Harvey Weinstein?

Þegar ég les sögurnar um þennan fræga mógúl þá reikar hugurinn ósjálfrátt til unglingsáranna þegar félagar mínir voru að láta hugann reika um hvernig þeir ættu að reyna við stelpur – ég tók ekki þátt í þessum umræðum því ég hafði engan kjark til að tala við stelpur, hvað þá meira. En félagarnir plottuðu og hugmyndirnar komu á færibandi – hver annarri verri. En engar þeirra voru þó eins slæmar og þessar sem Harvey Weinstein lét sér ekki bara detta í hug – heldur framkvæmdi, mörg hundruð sinnum!

En ég held ég hafi hreina samvisku. Ég hata að fara í nudd. Káf er mér ekki að skapi og fyrr mundi ég éta skó en að láta konu horfa á mig í sturtu! Aldrei! Ég á mjög erfitt með að setja mig inn í hugsanagang þess sem treður sér upp á aðra manneskju. Leggst ofan á hana gegn hennar vilja og býst við að fá eitthvað út úr því.

Ég hef aldrei áreitt né verið áreittur. Samt fermdist ég í kaþólsku og man eftir einum af prestunum sem síðar varð landsfrægur barnaníðingur eftir dauða sinn. Hann sagði mér að ég yrði að læra að elska Gus“ . En hann lét mig vera. Káfaði ekkert á mér. Það voru víst ekki allir svo heppnir.

Ofbeldismaður? Ég vann einu sinni strák í slag. Hann var búinn að undirbúa lengi að lemja mig – en þegar á hólminn var komið náði ég undirtökunum – enda talsvert stærri en hann. Þetta kom mér alveg jafn mikið á óvart og honum. Ég hafði búið mig undir tap. Hann fór grenjandi heim. Ég bið hann hér með afsökunar.

Ég hef komið illa fram – bæði við konur og karla. Ég var einu sinni mjög stuttur í spuna í email við ágæta konu sem ég var að vinna með og endaði meilinn á bless  – dálítið eins og ég væri að segja henni að fara í rassgat. Eftir á að hyggja fannst mér ég taka niður og bið ég þessa konu hér með afsökunar. Ég get stundum verið hvass. Slíkt getur sært.

Ég segi stundum blessaður“ við karla en „hæ“ við konur. Ég hef verið að reyna að vinna í þessu. Það er dulin karlremba þarna. Ég hef kallað menn kellingar ef mér finnst þeir sýna of mikla tilfinningasemi. Það er líka karlremba og ég hef lagt þetta af – nema þegar ég gleymi mér.

Við erum veldi. Það fer líkamlega meira fyrir okkur en konunum á heimilinu. Við breiðum úr okkur.“

Feðraveldið? Ég er faðir tveggja drengja – ungra manna skulum við segja. Við dettum stundum í svona húmor sem karlar deila stundum sín á milli – segjum hver öðrum að halda kjafti og svona grín. En þeir eru hins vegar alveg fullkomlega meðvitaðir um hvenær feðraveldið er að tala og hvenær ekki – talsvert meðvitaðri en ég. Þeir hafa kennt mér talsvert meira en ég hef kennt þeim. En við erum veldi. Það fer líkamlega meira fyrir okkur en konunum á heimilinu. Við breiðum úr okkur. Slíkt kallast „manspreading“ á ensku. Ég veit ekki hvað ég get kallað það á íslensku „karlbreiðsla“? Það er slæmt orð. Frekja og yfirgangur? Tja ...

Það er nefnilega svo að ég – verandi karlmaður, stór karlmaður með þokkalega karlmannsrödd, skegg og ýmislegt annað sem því fylgir – þarf að passa mig á að hræða ekki fólk. Ef ég verð pirraður þá breytist ég ósjálfrátt í tíu ára drenginn sem ég var. Og sá gaur var ekkert sérlega ógnvekjandi. Hann var bara frekar aumingjalegur sláni sem var hræddur við flest. Og ef hann varð pirraður var það bara frekar krúttlegt. En þegar þessi tíu ára drengur er orðinn að tveggja metra háum vel yfir 100 kílóa loðfíl með djúpa rödd þá er pirringur hans allt annað en krúttlegur. Hann er ógnvekjandi.

Og ef þú ert kona þá veistu ekkert hverju svona loðfíll gæti tekið upp á. Þú þarft stöðugt að vera á varðbergi gagnvart karlmönnum. Það að vera kona í samfélagi manna krefst mikils hugrekkis. Þegar kona fer út á götu í daglegum erindagjörðum má líkja því við göngutúr í gegnum hóp af ljónum, úlfum og skógarbjörnum. Þetta eru stór dýr sem geta auðveldlega yfirbugað þig og þú verður bara að krossa fingur og vona að þeir láti þig í friði. Þú ert ótrúleg hetja að þora yfirhöfuð að fara út á götu – hvað þá að fara á næturlífið.

Allir karlmenn þurfa að vera meðvitaðir um hversu ógnvekjandi þeir kunna að vera. Og góð byrjun er að fullorðnast og hætta að vera tíu ára. Og ekki vera pervertar!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Viðtal

Keypti brúðarkjól og bað Guð um mann

Listi

Fimm réttir úr fortíð og nútíð

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Fréttir

Ferðaþjónustubændur í máli við Íshesta

Fréttir

Borgarstjórinn vísaði Eyþóri Arnalds af fundi í Höfða