Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Fréttir

Jafnréttisráðherra telur málin sem leiddu til stjórnarslita upplýst og fullrannsökuð

„Af ofangreindu tel ég það vera upplýst að öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við meðferð sambærilegra mála og tengsl eins af meðmælendum við þáverandi fjármálaráðherra hafi ekki haft nein áhrif þar á svo séð verði,“ segir í svari Þorsteins Víglundssonar við fyrirspurn Stundarinnar.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra, telur að embættisfærslur ráðherra í málunum sem urðu til þess að ríkisstjórnin féll hafi verið skoðaðar með fullnægjandi hætti. 

Ekkert bendi til annars en að meðferð mála er varða uppreist æru kynferðisbrotamannanna Roberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar hafi verið í samræmi við meðferð stjórnvalda í öðrum sambærilegum málum. Þá verði ekki séð að tengsl Benedikts Sveinssonar, eins af meðmælendum Hjalta, við Bjarna Benediktsson núverandi forsætisráðherra, hafi haft nein áhrif á það hvernig stjórnvöld nálguðust málið.  

Þetta kemur fram í svari Þorsteins við fyrirspurn Stundarinnar. Hann telur þó að betur hefði mátt standa að upplýsingagjöf um málin frá upphafi. „Mögulega hefðu mál þróast á annan veg ef upplýst hefði verið um málið strax og það kom upp í sumar,“ segir hann og bætir við: „Þá hefði farið betur að aðstandendur hefðu strax fengið aðgang að þeim gögnum máls sem kallað var eftir en ekki hefði þurft að koma til þess að skjóta synjun ráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.“

„Gríðarleg vonbrigði hvernig fór með þessa ríkisstjórn“

Í viðtali á Sprengisandi um helgina harmaði Þorsteinn að stjórnarsamstarfinu hefði verið slitið. „Það voru gríðarleg vonbrigði hvernig fór með þessa ríkisstjórn og eins og hefur nú komið á daginn þá var þetta nú aldrei tilefni til að sprengja stjórnarsamstarf. Menn þurfa að geta staðið í lappirnar,“ sagði hann.

Þá vísaði hann til Hjalta- og Downey-málsins og sagði: „Þegar rykið var fallið og búið var að fara í gegnum það eins og við kölluðum eftir, þá var ekkert tilefni í því máli til þess að fara að sprengja stjórnarsamstarfið, og þar hefði BF betur mátt bíða og sjá hvernig málið væri nákvæmlega vaxið.“

Nóttina sem ríkisstjórnin féll, þann 15. september síðastliðinn, sendi þingflokkur Viðreisnar frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að fréttir af málsmeðferð um uppreist æru hefðu vakið sterk viðbrögð innan flokksins. „Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar. Í ljósi stöðunnar sem nú er komin upp telur þingflokkur Viðreisnar réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“

„Nefndin ætti að kalla eftir öllum
upplýsingum um málið og ganga úr
skugga um að allt sé uppi á borðum“

Tveimur dögum síðar sendi ráðgjafaráð Viðreisnar frá sér ályktun þar sem boðuð var rannsókn á embættisfærslum forsætisráðherra og dómsmálaráðherra í málnuum sem leiddu til stjórnarslitanna. Vísir.is ræddi við Þorstein Víglundsson vegna málsins sem sagði flokksmenn vilja að „rannsóknin fari fram á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin ætti að kalla eftir öllum upplýsingum um málið og ganga úr skugga um að allt sé uppi á borðum“.

Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ekki fengið þær upplýsingar frá dómsmálaráðuneytinu sem nefndin kallaði eftir seint í septembermánuði að frumkvæði Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata.

Nefndin hefur skilað sameiginlegri bókun og skýrslu um „uppreist æru, reglur og framkvæmd“ en ekki er eining um það í nefndinni hvort þar með hafi farið fram fullnægjandi skoðun á embættisfærslum dómsmálaráðherra og forsætisráðherra í málinu.

Svar Þorsteins í heild

Stundin sendi Þorsteini eftirfarandi fyrirspurn, með vísan til orða hans á Sprengisandi:

Telurðu að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé búin að skoða embættisfærslur ráðherra með fullnægjandi hætti í samræmi við ályktun ráðgjafaráðs Viðreisnar?

Svona svaraði hann:

Þingflokkur Viðreisnar ræddi málið vandlega strax í kjölfar fréttaflutnings á fimmtudeginum. Niðurstaða þingflokksins var skýr. Mikilvægt væri að fullt traust ríkti til þess að meðferð málsins hefði í alla staði verið í samræmi við meðferð annarra sambærilegra mála. Möguleg stjórnarslit vegna málsins voru þar aldrei rædd. Yfirlýsing þingflokksins í kjölfar ákvörðunar Bjartrar framtíðar um að slíta stjórnarsamstarfinu var í fullu samræmi við þá umræðu, en þar sagði m.a.  „Vinnubrögð í málum af þessu tagi verða að standast stranga skoðun þar sem ekkert er undan dregið. Það er skylda stjórnvalda gagnvart almenningi og þolendum þeirra alvarlegu glæpa sem málið varðar.“

Við beittum okkur þess vegna fyrir því í gegnum Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis að málið yrði upplýst. Á fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 21. september var Umboðsmaður Alþingis fenginn til að fara yfir málið með nefndina. Hann taldi ekki tilefni til frumkvæðisathugunar af sinni hálfu og að ekki hafi verið tilefni til að gera athugasemdir við að Dómsmálaráðherra hafi upplýst Forsætisráðherra um trúnaðargögn málsins. Hins vegar verði að hafa í huga að ráðherrar séu annars vegar embættismenn og hins vegar stjórnmálamenn. Það kunni að gilda mismunandi reglur og sjónarmið um störf og athafnir eftir því um hvort hlutverkið sé að ræða.

Í svari þáverandi ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu RÚV kom jafnframt fram þann 26. september að starfsmenn ráðuneytisins hefðu ekki áttað sig á að einn meðmælenda væri faðir þáverandi fjármálaráðherra og að nöfn meðmælenda hefðu aldrei komið inn á borð ráðherra við ákvörðun um uppreist æru.

Af ofangreindu tel ég það vera upplýst að öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við meðferð sambærilegra mála og tengsl eins af meðmælendum við þáverandi fjármálaráðherra hafi ekki haft nein áhrif þar á svo séð verði.

Það breytir því þó ekki að betur hefði mátt standa að upplýsingagjöf um málið allt og mögulega hefðu mál þróast á annan veg ef upplýst hefði verið um málið strax og það kom upp í sumar. Þá hefði farið betur að aðstandendur hefðu strax fengið aðgang að þeim gögnum máls sem kallað var eftir en ekki hefði þurft að koma til þess að skjóta synjun ráðuneytisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Mikilvægt er að stjórnsýslan temji sé betri vinnubrögð í þeim efnum þar sem ríkari áhersla verði lögð á rétt almennings til aðgangs að upplýsingum, í samræmi við upplýsingalög. Fyrsta viðbragð stjórnvalda á ekki að vera synjun. Það liggur alveg ljóst fyrir hvaða upplýsingar skylt er að veita og hvaða viðkvæmu persónuupplýsingar ekki er heimilt að birta. Ef auka á traust almennings á störfum stjórnvalda er nauðsynlegt að auka á gagnsæi stjórnsýslunnar.

Þá er það að sama skapi ljóst að löngu tímabært er að endurskoða það fyrirkomulag sem haft er á því þegar taka skal ákvörðun um hvort og þá hvernig einstaklingar sem hlotið hafa dóm fyrir alvarleg brot er varðar missi borgaralegra réttinda öðlist þau réttindi á nýjan leik. Núverandi fyrirkomulag er löngu úr sér gengið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Lofgrein um Davíð í Morgunblaðinu á skjön við Rannsóknarskýrsluna

Fréttir

Sveinbjörg um þéttingu byggðar: „Höfum misst bæði hundinn okkar og köttinn okkar“

Fréttir

Tryggvi Þór og Friðjón könnuðu aðstæður til raforkuframleiðslu í Dölunum fyrir GAMMA

Fréttir

Listi Roberts yfir stúlkur er enn til - lögregla hefji aftur rannsókn á kynferðisbrotum hans

Fréttir

Margt helsta áhrifafólk landsins fagnaði með Davíð

Mest lesið í vikunni

Viðtal

Þakklátur fyrir þessa lífsreynslu

Úttekt

„Ekki kominn tími til að ég brenni allar veraldlegar eigur mínar“

Fréttir

Skýrsla Hannesar rituð á ensku – „Ótækt“ segir formaður íslenskrar málnefndar

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Umboðsmaður fór fram á að ráðuneytið leiðrétti villandi svör

Pistill

VG framlengir tuttugustu öldina