Auglysingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Fréttir

Forsætisráðherra bregst harkalega við fréttaflutningi

Bjarni Benediktsson skammaði fréttakonu á 365 miðlum fyrir framan samstarfsmenn hennar á laugardag og þráspurði hvaðan hún hefði upplýsingar um fundi efnahags- og skattanefndar Alþingis. Í morgun sendi svo blaðamaður á Guardian frá sér yfirlýsingu til að leiðrétta orð forsætisráðherra um samskipti þeirra.

Forsætisráðherra Reiddist fréttakonu á 365 og skammaði hana fyrir framan samstarfsmenn hennar. Mynd: Samsett

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur brugðist harkalega við fréttaflutningi af viðskiptum sínum í aðdraganda hrunsins. Á laugardag byrsti hann sig og hrópaði yfir ritstjórnarskrifstofu 365 miðla og í morgun sendi blaðamaður á Guardian frá sér yfirlýsingu þar sem hann leiðrétti fullyrðingar Bjarna um samskipti þeirra.

Stundin greindi frá því fyrir helgi að Bjarni Benediktsson hefði selt allar eignir sínar í Sjóði 9 dagana 2. til 6. október árið 2008, miðlað upplýsingum um störf Fjármálaeftirlitsins til framkvæmdastjóra hjá Glitni og átt í ítrekuðum samskiptum við bankastjóra bankans mánuðina á undan meðan hann var þingmaður.

Forsætisráðherra hefur sakað fjölmiðlafólk um óheilindi, sagt blaðamenn Guardian,  Stundarinnar og Reykjavik Media hafa hagrætt tímasetningu á birtingu fréttanna til að koma höggi á sig og gagnrýnt aðra fjölmiðla fyrir að vitna í Stundina.

„Blaðamaðurinn sem hringdi í mig frá Bretlandi, hann beinlínis sagði mér að þeir hefðu haft þessi gögn, þessar upplýsingar, í margar vikur og að þeir hefðu beðið eftir réttu tímasetningunni,“ sagði Bjarni í viðtali við RÚV á föstudag. Þá sagði hann í viðtali við Stöð 2: „Mér finnst tímasetning merkileg og ég bara þori að fullyrða að það tengist kosningunum sem eru framundan.“

Blaðamaður Guardian, Jon Henley, sendi Ríkisútvarpinu tilkynningu í morgun þar sem hann sagði Bjarna leggja sér orð í munn og fara með rangt mál um samskipti þeirra. Í tilkynningunni segir Henley að íslenskir samstarfsaðilar The Guardian, Stundin og Reykjavik Media, hafi lagt áherslu á að flýta birtingu upplýsinganna svo þær birtust ekki of nærri kosningum. Guardian hafði fyrirhugað að birta þær 16. eða 23. október: „Íslenskir starfsfélagar mínir sögðu þá að ef fréttin færi út svo stuttu fyrir kosningar væri hætta á að hún hefði óeðlileg áhrif á þær. Þeir vildu birta þetta eins fljótt og hægt er, í síðasta lagi í vikunni sem lauk 2. október,“ segir í yfirlýsingu Jons. „Það er því langur vegur frá því að birtingu hafi verið seinkað til síðasta föstudags - henni var þvert á móti flýtt um nokkrar vikur til að draga úr tjóninu.“

Skammaði fréttakonu á ritstjórnargólfinu

Þetta er ekki eina dæmi þess að viðbrögð forsætisráðherra við fréttaflutningnum veki athygli. DV greindi frá því í kvöld að Bjarni hefði tekið bræðiskast á ritstjórnargólfi 365 miðla á laugardag. Í umfjöllun blaðsins kemur fram að að Bjarni hafi „misst stjórn á skapi sínu og hróp hans borist um húsið“. Haft er eftir vitni að um hafi verið að ræða „tryllt öskur“ og fólki hafi brugðið. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarkona Bjarna, hafi þurft að draga forsætisráðherra afsíðis.

Frétt DV er í grófum dráttum í samræmi við upplýsingar sem Stundin fékk innan af 365 í gær. Mun forsætisráðherra hafa byrst sig við Sunnu Sæmundsdóttur, fréttakonu, vegna orða sem fram komu í hádegisfréttum Bylgjunnar. Nokkrir starfsmenn urðu vitni að samskiptunum sem þóttu óvenju harkaleg. „Fólk var hálf sjokkerað. Fólk hefur aldrei séð Bjarna svona áður,“ segir einn af viðmælendum Stundarinnar. 

Samskiptin áttu sér stað í opnu rými, á ritstjórnarskrifstofu 365 miðla og duldist engum að forsætisráðherra var reiður.

„Hann tók hálfgert kast inni á miðju gólfi,“ segir starfsmaður blaðsins í samtali við Stundina. Annar viðmælandi segir að sér finnist slíkt orðalag vera full ýkt lýsing á því sem gerðist. „Þetta var ekki æðiskast, það var ekki þannig, en hann byrsti sig vissulega, hann hækkaði mjög róminn.“

Þá ber viðmælendum saman um að Bjarni hafi þráspurt hvaðan fréttakonan hefði fengið upplýsingar um að efnahags- og skattanefnd Alþingis hefði fundað um stöðu Glitnis skömmu fyrir hrun. Sú fullyrðing, sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn, er röng. Hún var endurtekin í hádegisfréttum Bylgjunnar sama dag, skömmu áður en Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir mættust í beinni útsendingu í viðtalsþættinum Víglínunni á Stöð 2. Algengt er að hádegisfréttir Bylgjunnar byggi á fréttum úr blaðinu sem kemur út að morgni.

Forsætisráðherra átti leið gegnum ritstjórnarskrifstofu 365 miðla áður en Víglínan fór í loftið og lét þá óánægju sína í ljós. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur Bjarni beitt sér með sams konar hætti símleiðis við fleiri blaðamenn frá því að ríkisstjórnarsamstarfi Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins var slitið í september. Hann hefur ekki viljað ræða við blaðamenn Stundarinnar.

Óánægður með fjölmiðla

Seinna á laugardaginn birti Bjarni stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann gagnrýndi fjölmiðla og kenndi Stundinni um að aðrir fjölmiðlar hefðu sett fram hina röngu fullyrðingu um fundi efnahags- og skattanefndar um stöðu Glitnis. Þá beindi hann sérstaklega spjótum sínum að Ríkisútvarpinu.

Í frétt Stundarinnar um sölu Bjarna á hlutabréfum í Glitni og innlausn úr Sjóði 9 í aðdraganda hrunsins, sem birtist á föstudaginn, segir orðrétt:

„Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd, sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd. Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008. Frá þessari aðkomu Bjarna var greint í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Á fundinum kom fram að staða Glitnis væri „gríðarlega alvarleg“ eins og haft var eftir einum fundarmanni í skýrslunni.“

Í stöðuuppfærslu Bjarna vitnaði hann í fyrstu setningu efnisgreinarinnar, tilgreindi svo hvað aðrir fjölmiðlar hefðu fullyrt og hrakti þau orð sem fram komu í Fréttablaðinu og á Bylgjunni. 

Um leið sakaði hann Stundina um að hafa fleytt rangfærslunni af stað og sagði aðra fjölmiðla hafa lapið orð Stundarinnar upp án skoðunar.

Ritstjóri Stundarinnar, Jón Trausti Reynisson, birti athugasemd við færslu Bjarna sama dag. Bjarni faldi þá athugasemd fyrir fylgjendum sínum á Facebook eins og Vísir greindi frá, en athugasemdin hljóðaði svo: 

„Það er alfarið rangt að Stundin hafi haldið því fram að fundað hafi verið í efnahags- og skattanefnd á þessum tíma. Verið var að vísa í annan fund, í höfuðstöðvum Stoða, eins og sést á fréttinni sem hér er vitnað í. Hér er hluti af frétt Stundarinnar tekinn úr samhengi. Setningin úr frétt Stundarinnar er í heild sinni svona, áður en hún var klippt til að undirbyggja falska ásökun um óheiðarleg vinnbrögð: „Bjarni, sem á þessum tíma var meðal annars í efnahags- og skattanefnd, sat fundi á þessum tíma þar sem erfið staða Glitnis var rædd. Hann var einn þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem sat neyðarfund um framtíð Glitnis í höfuðstöðvum Stoða, stærsta hluthafa Glitnis, nóttina áður en íslenska ríkið fékk bankann í fangið þann 29. september 2008.“

Í kjölfarið lýsti Bjarni óánægju með að talað væri um „fundi“ í fleirtölu í frétt Stundarinnar.

Daginn eftir greindi Stundin frá því að Bjarni hefði ekki aðeins fundað með forstjóra Glitnis um „lausn vanda bankanna“ þann 19. febrúar 2008, tveimur dögum áður en hann hóf sölu á hlutabréfum sínum í bankanum, og svo fundað í höfuðstöðvum Stoða aðfaranótt 29. september rétt áður en ríkið fékk Glitni í fangið, heldur einnig hitt Lárus í lok ágúst 2008, rúmum mánuði fyrir bankahrunið, og talað um að gott væri að „fara yfir stöðuna reglulega, m.a. í efnahagsmálum“. 

Athugasemd: Í fréttinni fjallar Stundin um tengda aðila; fjölmiðilinn Stundina og ritstjóra Stundarinnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Deilan um útboð Isavia: 230 milljóna gróði af verslun 66° Norður í Leifsstöð

Fréttir

Ætlar ekki að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Launahækkanir forstjóra „ógeðslegt misrétti“

Fréttir

Starfsfólk Árnastofnunar reitt við Ríkisútvarpið

Pistill

Þar var einu sinni svo gott að djamma og djúsa

Fréttir

Ráðuneytið segir kosningaloforð Eyþórs óheimilt

Mest lesið í vikunni

Pistill

Lærði að lifa af

Afhjúpun

Sigmundur Davíð lét setja upp stuðningssíður í nafni annarra

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson ógjaldfær

Fréttir

Einn ríkasti hópurinn losnar við fasteignaskatta samkvæmt loforðum Eyþórs

Úttekt

Okurlán Netgíró og tengslin við smálánafyrirtækin

Reynsla

Í lífshættu í hlíðum Marokkó