Auglysingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Ætti ég ekki bara að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Illugi Jökulsson hugsar sig um.

Í Silfrinu um daginn var Egill að ræða við spekúlanta um væntanlegar kosningar og talið barst að því um hvað yrði kosið. Menn sögðu hitt og þetta en Styrmir Gunnarsson skar sig svolítið frá hinum. Hann sagði eitthvað á þá leið að miðað við heldur lélegt fylgi sem skoðanakannanir spá Sjálfstæðisflokknum, þá yrði kannski ekki síst kosið um það hvort sá flokkur gegndi áfram þeirri lykilstöðu í íslensku stjórnmála- og valdakerfi sem hann hefur gert nánast frá stofnun fyrir bráðum hundrað árum.

Fyrst fannst mér þetta helstil sjálfhverft hjá hinum gamla grávaldi Sjálfstæðisflokksins, en þegar ég hafði hugsað málið svolítið komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega væri bara heilmikið til í þessu. Kjósendum virðist núna gefast sjaldgæft tækifæri til að setja Sjálfstæðisflokkinn til hliðar í íslenskri pólitík, gefa honum almennilegt frí frá valdastólunum (eða réttara sagt gefa valdastólunum frí frá sligandi þunga flokksins) og veita í staðinn öðrum tækifæri til að móta og þróa það samfélag sem við viljum búa í á 21. öldinni.

Vg virðist samkvæmt könnunum nú í svipaðri eða öllu heldur töluvert betri stöðu en Samfylkingin eftir kosningarnar 2007 og hefði getað tekið forystuhlutverk í samfélaginu, en kaus af einhverjum stórkostlega furðulegum ástæðum að framlengja líf Sjálfstæðisflokksins í stjórn Geirs Haarde og verður þeirrar flónsku lengi minnst í sögu vinstri manna á Íslandi.

Stjórn Samfylkingar og Vg 2009–2013 hafði aldrei tóm til að hugsa neitt upp á nýtt. Hún stóð í rústabjörgun fyrri hluta kjörtímabilsins og var svo þrotin að kröftum síðustu misserin.

„Þess vegna er mikilvægt að grípa það tækifæri sem nú gefst og svipta Sjálfstæðisflokkinn ekki aðeins sinni hefðbundnu lykilstöðu, heldur lyklunum sjálfum.“

En nú er sem sagt nýtt tækifæri til að gefa Sjálfstæðisflokknum frí og það gæti orðið mikils vert. Sjálfstæðisflokkurinn hefur afhjúpað sig gjörsamlega síðustu árin og allra mest eftir að Bjarni Benediktsson varð forsætisráðherra. Það mun því miður verða hlutskipti hans að hið eina jákvæða sem hans verður minnst fyrir sem stjórnmálamanns verða kökuskreytingar, ekki einu sinni kakan sjálf heldur bara glimmer og glans á yfirborðinu. Undir hans stjórn er flokkurinn svo augljóslega handbendi ríka fólksins og ættarveldanna að það beinlínis blasir við hverjum sem er.

Og það má ekki gerast að þessi flokkur haldi hér enn völdum meðan hann er ekki annað en pólitískur armur auðkýfinganna. Þess vegna er mikilvægt að grípa það tækifæri sem nú gefst og svipta Sjálfstæðisflokkinn ekki aðeins sinni hefðbundnu lykilstöðu, heldur lyklunum sjálfum – þeim sem Bjarni telur vera eign flokksins eins og frægt varð.

Nú er það svo að hefðbundin stefna Sjálfstæðisflokksins eins og hún birtist á hátíðarstundum – frelsi einstaklingsins! og það allt – sú stefna getur hljómað bara ágætlega, stundum. Og mínar skoðanir á ýmsum málum eru ekkert svo órafjarri skoðunum ýmissa hinna frjálslyndari Sjálfstæðismanna, ef þeir eru þá ennþá til. Ég á við þá Sjálfstæðismenn sem hér fyrrum tóku vissulega óskoraðan þátt í að byggja hér upp samfélag sem dró dám af hinum norrænu velferðarríkjum.

En gallinn er sá að Davíð Oddsson vann það til forystu í Sjálfstæðisflokknum að færa hann að fullu undir harðsvíraða og innvígða klíku auðróna og krókamakara, og þar hefur flokkurinn verið síðan.

Sá flokkur sem hegðaði sér eins og Sjálfstæðisflokkurinn meðan Jóhönnustjórnin var að reyna að hreinsa til eftir hann – með vitskertu málþófi, öskrum og ósóma gegn hverju einasta máli, einskærum hroka og algjöru iðrunarleysi – sá flokkur á ekki skilið að vera hér við stjórn.

Sá flokkur sem hefur hagað sér eins og hann hefur gert frá 2013, með algjörri þjónkun Bjarna Benediktssonar við auðjöfra í eigin fjölskyldu og hinna í valdastéttinni, meðan logið er purkunnarlaust og kjósendur blekktir í bak og fyrir, sá flokkur hefur gott af löngu fríi á sólbökuðum ströndum Jómfrúreyja, enda stutt í banka valdastéttanna þar.

Sá flokkur sem ætlar endanlega að leggja undir sig dómskerfið, lauma feitustu bitum heilbrigðis- og menntakerfis til einkavina og frænda en hóta fjölmiðlum öllu illu; sá flokkur hefur ekkert að gera upp á dekk.

Sá flokkur sem nú ætlar eina ferðina enn að troða upp með örþreytt og undin slagorð um stöðugleika og traust, hann á ekkert betra skilið en að við hlæjum að honum.

Og sá flokkur sem telur sig hafa heimild til að læsa niðrí skúffu heila þjóðaratkvæðagreiðslu, hann ætti sjálfur að vera skúffusettur um skeið og helst lengi.

Þetta er í stuttu máli ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Deilan um útboð Isavia: 230 milljóna gróði af verslun 66° Norður í Leifsstöð

Fréttir

Ætlar ekki að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Launahækkanir forstjóra „ógeðslegt misrétti“

Fréttir

Starfsfólk Árnastofnunar reitt við Ríkisútvarpið

Pistill

Þar var einu sinni svo gott að djamma og djúsa

Fréttir

Ráðuneytið segir kosningaloforð Eyþórs óheimilt

Mest lesið í vikunni

Pistill

Lærði að lifa af

Afhjúpun

Sigmundur Davíð lét setja upp stuðningssíður í nafni annarra

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson ógjaldfær

Fréttir

Einn ríkasti hópurinn losnar við fasteignaskatta samkvæmt loforðum Eyþórs

Úttekt

Okurlán Netgíró og tengslin við smálánafyrirtækin

Reynsla

Í lífshættu í hlíðum Marokkó