Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Fréttir

75 prósent kvenna í meðferð verið beittar kynferðislegu ofbeldi

Niðurstöður nýrrar rannsóknar um reynslu og áfallasögu kvenna í fíknimeðferðum eru sláandi. Mikill meirihluti þátttakenda hefur verið beittur kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni og nær 35 prósent verið kynferðislega áreittar í meðferð.

Ný rannsókn sem fjallar um reynslu kvenna af fíknimeðferð sýnir meðal annars að 75 prósent kvenna höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á fullorðinsaldri og 51 prósent höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. 

Niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnu SÁÁ 2. október síðastliðinn. Markmið rannsóknarinnar er að fá innsýn í reynslu kvenna af meðferðarúrræðum og upplýsingar um líðan þeirra og öryggi í meðferð. Enn fremur að skoða sögu kvennanna með sérstöku tilliti til erfiðrar upplifunar í æsku og hvort að þær eigi sögu um ofbeldi í nánum samböndum.

35% áreittar í meðferð

Það var RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, sem hafði umsjón með framkvæmd rannsóknarinnar sem framkvæmd var í samstarfi við Rótina – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda og hlaut hún styrk frá Jafnréttissjóði Íslands. Spurningalisti var sendur á 305 félaga í Rótinni og bárust 110 svör og höfðu þar af 96 konur átt við fíknivanda að stríða. Alls hafa 88,7 prósent þátttakenda leitað sér aðstoðar vegna fíknivanda. 

Konurnar voru spurðar út í reynslu og viðhorf til meðferðarinnar. Alls töldu 66,3 prósent að meðferðin hefði ekki verið nægjanlega einstaklingsmiðuð og 75,9 prósent töldu að vinna með áföll og annað sem hefur áhrif á andlega heilsu hafi verið ófullnægjandi. Rúmlega 60 prósent töldu meðferðina hafa verið árangursríka en rúm 15 prósent töldu hana ekki hafa borið árangur. Þá fannst um 43 prósent þátttakenda starfsfólk meðferðarinnar sýna sér skilningsleysi.

Þátttakendur voru einnig spurðir hvort þeir hefðu orðið fyrir áreitni og ofbeldi í meðferð eða orðið vitni að slíku. Alls sögðust 23 prósent hafa orðið vitni að einelti í meðferðinni, 21 prósent að óhóflegri valdbeitingu starfsfólks, 45 prósent urðu vitni að ófaglegum eða óviðeigandi athugasemdum starfsfólks í meðferðinni og 35 prósent ofbeldi gegn öðrum þátttakanda í meðferðinni, af hendi annarra þátttakenda, og 15 prósent að hótun.

Þegar spurt var um ofbeldi og áreitni sem konurnar höfðu sjálfar orðið fyrir sögðust 34,6 prósent hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í meðferð, 12 prósent fyrir kynferðislegu ofbeldi, tæp 14 prósent fyrir einelti og 28 prósent fyrir andlegu ofbeldi. Einnig höfðu sex prósent orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og tæp fjögur prósent fyrir fjárhagslegu ofbeldi.

Mikil áfallasaga

Einnig var spurt um ofbeldi sem konurnar höfðu orðið fyrir á fullorðinsárum, ótengt meðferð, og höfðu rúm 80 prósent þátttakenda orðið fyrir kynferðislegri áreitni, tæp 75 prósent fyrir kynferðislegu ofbeldi, 88 prósent fyrir andlegu ofbeldi, tæp 56 prósent fyrir líkamlegu ofbeldi og rúm 46 prósent fyrir fjárhagslegu ofbeldi og sama hlutfall hafði orðið fyrir einelti.

Þá var spurt út í mótlæti og áföll í æsku og samkvæmt niðurstöðunum höfðu 55 prósent þátttakenda upplifað andlegt ofbeldi á heimili sínu í æsku, 34 prósent líkamlegt ofbeldi, 51 prósent kynferðislegt ofbeldi, 70 prósent sögðu að skort hefði upp á ást og umhyggju í uppvextinum og 37 prósent sögðust hafa verið vanrækt. Þá voru 35 prósent svarenda skilnaðarbörn, og 20 prósent höfðu upplifað líkamlegt ofbeldi gegn móður. Í 65 prósent tilfella var einhver á heimilinu með áfengis- eða fíknivanda og í 60 prósent tilfella var einhver þunglyndur, andlega veikur eða aðili sem reyndi að fyrirfara sér á heimilinu. Í rétt tæplega 14 prósent tilfella hafi heimilismeðlimur farið í fangelsi.

Taldi umfjöllun fela í sér „dylgjur“

Stundin fjallaði um mæðgurnar Frigg Ragnarsdóttur og Kolbrá Bragadóttur í júní síðastliðnum, en þær höfðu báðar annaðhvort upplifað eða orðið vitni að kynferðislegri áreitni í meðferð hjá SÁÁ. Frigg, 22 ára, hröklaðist út af Vogi í kjölfar áreitni án þess að ljúka meðferð en móðir hennar, Kolbrá, fylgdi vinkonu sinni í gegnum þá reynslu að vera fyrirvaralaust rekin úr meðferð eftir að hafa kvartað undan áreitni. 

 Í kjölfar umfjöllunarinnar stigu fleiri konur fram og höfðu sams konar sögur að segja. Anna Bentína Hermansen, ráðgjafi hjá Stígamótum, var á meðal þeirra sem gagnrýndu skort á tilliti til kynjasjónarmiða í tilhögun meðferða SÁÁ. Sjálf var hún til að mynda beðin um að ræða ekki nauðgun og fleiri áföll sem hún hafði orðið fyrir í meðferðinni, til þess að trufla ekki aðra. 

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, sendi frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunarinnar og varaði við fréttaflutningi af reynslu kvenna af meðferðum stofnunarinnar vegna þeirra áhrifa sem „slíkar dylgjur geta valdið“. 

Nokkrar tölur úr rannsókninni

Áreiti  og ofbeldi í æsku

51% kynferðislegt ofbeldi.

55% höfðu upplifað andlegt ofbeldi á heimili sínu.

34% líkamlegt ofbeldi.

70% skorti ást og umhyggju.

37% vanrækt.

Áreiti og ofbeldi á fullorðinsárum

80% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

75% höfðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

88% andlegu ofbeldi.

56% líkamlegu ofbeldi.

46% fjárhagslegu ofbeldi.

46% einelti.

Áreiti og ofbeldi Í meðferð

34,6% höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í meðferð.

12% kynferðislegu ofbeldi.

14% einelti.

28% andlegu ofbeldi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Lofgrein um Davíð í Morgunblaðinu á skjön við Rannsóknarskýrsluna

Fréttir

Sveinbjörg um þéttingu byggðar: „Höfum misst bæði hundinn okkar og köttinn okkar“

Fréttir

Tryggvi Þór og Friðjón könnuðu aðstæður til raforkuframleiðslu í Dölunum fyrir GAMMA

Fréttir

Listi Roberts yfir stúlkur er enn til - lögregla hefji aftur rannsókn á kynferðisbrotum hans

Fréttir

Margt helsta áhrifafólk landsins fagnaði með Davíð

Mest lesið í vikunni

Viðtal

Þakklátur fyrir þessa lífsreynslu

Úttekt

„Ekki kominn tími til að ég brenni allar veraldlegar eigur mínar“

Fréttir

Skýrsla Hannesar rituð á ensku – „Ótækt“ segir formaður íslenskrar málnefndar

Fréttir

Húsleit á Arnarnesinu hjá fiskútflytjanda úr Panamaskjölunum: „Ég hef ekkert að fela“

Fréttir

Umboðsmaður fór fram á að ráðuneytið leiðrétti villandi svör

Pistill

VG framlengir tuttugustu öldina