Auglysingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Hvað gerði Bjarni rangt?

Illugi Jökulsson rekur hvað honum sýnist, miðað við núverandi vitneskju, að sé athugavert við framferði Bjarna Benediktssonar í níðingamálinu

Áður en lengra er haldið: Hvert smáatriði í níðingamálinu hefur þurft að draga með töngum út úr þeim stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins, sem með það hafa farið. Því skal ég ekkert útiloka að eitthvað fleira eigi eftir að koma á daginn en það sem við vitum nú þegar.

En miðað við núverandi vitneskju er eftirfarandi ljóst:

Einhvern tíma „í lok júlí“ segir Sigríður Anderson dómsmálaráðherra Bjarna Benediktssyni formanni sínum og forsætisráðherra að föður hans sé að finna á meðmælendalista um uppreist æru fyrir tiltekinn mjög grófan barnaníðing.

Níðingamálið var þá þegar orðið mjög fyrirferðarmikið í samfélagsumræðunni og bæði aðstandendur brotaþola barnaníðinga og raddir almennings í samfélaginu öllu kröfðust frekari upplýsinga um málið.

Guðni Th. Jóhannesson forseti hafði blandast inn í málið því hann skrifaði jú upp á uppreistina, án þess að kynna málin á nokkurn hátt, enda virðist hann hafa talið það skyldu sína samkvæmt stjórnsýsluhefðum. Og Guðni hafði þá þegar beðist fyrirgefningar á sínum þætti og engum gat blandast hugur um að það var honum erfitt.

Hafi þetta verið það fyrsta sem Bjarni frétti af undirskrift föður síns (sem ég hef engar forsendur til að efast um, nema raunar þær að Bjarni hefur svo sannarlega EKKI reynst vera mjög sannsögull pólitíkus til þessa), en hafi Bjarni sem sagt frétt af undirskrift Benedikts föður síns fyrst í júlílok, þá stóð honum til boða að stíga strax fram, segja frá því hvernig komið væri og tilkynna að hann myndi nú hvetja til þess að öllum steinum yrði velt við í málinu, eins og fólk krafðist, en hann sjálfur myndi gæta þess að koma hvergi nærri og jafnvel segja sig á einhvern hátt frá störfum, að minnsta kosti þeim er gætu á nokkurn hátt tengst rannsókn á þessu máli.

Þetta gerði Bjarni ekki. Hann kaus að þegja.

Og hafi Bjarni ekki gefið Sigríði Andersen bein fyrirmæli um að reyna að þagga málið niður, þá hlaut hún altént að skilja þögn hans á þann veg - úr því hann sagði ekkert og upplýsti ekkert.

Og Sigríður þumbaðist svo við og tregðaðist við eins og hún mögulega gat, og sama gerði Brynjar Níelsson sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Að Sigríður hafi yfirhöfuð sagt Bjarna og aðeins Bjarna frá þessu er svo aftur á móti hennar helsta yfirsjón - ef „yfirsjón“ er þá nógu sterkt orð.

En svo líður og bíður, níðingamálið heldur áfram að tútna út og verður æ undarlegra - sú tilfinning þjóðarinnar að verið sé að þagga eitthvað niður og fela, hún verður æ sterkari.

Í stað þess að stíga þá fram og hreinsa andrúmsloftið, þá gerði Bjarni enn ekkert. 

Hann kaus að þegja.

Athugið að þögn Bjarna var ekki venjulegt yfirklór stjórnmálamanns sem bitnaði bara á öðrum pólitíkusum í þeim hráskinnaleik sem þeir stunda venjulega.

Þögnin og tregðan til að veita sannar upplýsingar bitnaði í þessu tilfelli á fórnarlömbum og aðstandendum barnaníðinga!

Bergur Þór Ingólfsson lýsti áhrifunum svo að það væri nánast eins og að fá taugaáfall á hverjum einasta degi.

Bjarni hefði getað linað þjáningar fórnarlamba og aðstandenda með því að upplýsa málið og leggja fyrir dómsmálaráðherra að opna allar sínar möppur, en hann gerði það ekki.

Hve lágt er hægt að leggjast?

Jafnvel eftir að Stundin greindi frá því í lok ágúst að Hjalti Hauksson barnaníðingur hefði fengið uppreist æru um leið og Robert Downey, sem athyglin hafði beinst að fram að því, þá sá Bjarni ekki ástæðu til að stíga fram.

Hann vissi samt að þarna var kominn maðurinn sem faðir hans hafði skrifað upp á fyrir.

En Bjarni kaus að þegja.

Þann 7. september kom stúlkan, sem Hjalti níddist á, fram á sjónarsviðið í viðtali í Stundinni. Hún lýsti því hvernig henni hefði þótt uppreist hans vera enn ein svívirðan sem hún þurfti að þola. Og krafðist útskýringa á því af hverju Hjalta hefði verið veitt þessi uppreist.

Daginn eftir var hún í sjónvarpsviðtali og lýsti sömu skoðun.

Þarna hefði Bjarni líka getað stigið fram. En hann kaus að gera það ekki, hann kaus enn að þegja.

Þann 11. september fellir úrskurðarnefnd um upplýsingamál þann úrskurð að birta mætti upplýsingar um margnefndar uppreistir barnaníðinganna og þá sem kvittuðu þar upp á.

Enda mála sannast frá upphafi að þau nöfn skiptu engu við að „verja brotaþola“ sem Sigríður kveðst hafa verið að gera með því að neita að birta upplýsingarnar.

Þegar þessi úrskurður liggur fyrir, þá segir Bjarni Benedikt Jóhannessyni og Óttari Proppé frá því - svona nánast eins og í framhjáhlaupi - að nafn föður hans sé að finna á einhverjum uppreistarlista, en virðist ekki hafa greint nánar frá því.

Meiri trúnað sýndi hann ekki tvímenningunum, þótt Benedikt Jóhannesson telji það ekki hafa verið neinn trúnaðarbrest. Ja, sá er lítilþægur, þykir mér!

En alls engan trúnað sýndi Bjarni alla vega forseta Íslands þegar þeir settu Alþingi saman daginn eftir. Þó gekk góður hluti af ræðu Guðna út á að tala um þessi mál og krefjast opinskárrar umræðu.

Bjarni sagði ekkert.

Ef ég væri forsetinn myndi ég upplifa það sem skítuga blauta tusku framan í mig af hendi Bjarna Benediktssonar.

Jafnvel þarna var enn tími til að Bjarni stigi fram af sjálfsdáðum og skýrði þjóðinni frá málinu.

Hann kaus bara að gera það ekki.

Kannski trúði hann því enn að Sigríði Andersen tækist einhvern veginn að þegja málið í hel áður en nafn föður hans yrði á allra vitorði.

Hvað sem olli, þá kaus Bjarni enn að þegja.

Hann kaus að ljúga með þögninni. 

Ágætu lesendur.

Ef þið rennið yfir ofangreinda þulu, finnst ykkur þá að þarna sé lýst heiðarlegum stjórnmálamanni sem eigi skilið að vera í vinnu hjá almenningi?

Og ef út í það er farið:

Finnst ykkur að þarna sé lýst heiðarlegri manneskju?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Deilan um útboð Isavia: 230 milljóna gróði af verslun 66° Norður í Leifsstöð

Fréttir

Ætlar ekki að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Launahækkanir forstjóra „ógeðslegt misrétti“

Fréttir

Starfsfólk Árnastofnunar reitt við Ríkisútvarpið

Pistill

Þar var einu sinni svo gott að djamma og djúsa

Fréttir

Ráðuneytið segir kosningaloforð Eyþórs óheimilt

Mest lesið í vikunni

Pistill

Lærði að lifa af

Afhjúpun

Sigmundur Davíð lét setja upp stuðningssíður í nafni annarra

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson ógjaldfær

Fréttir

Einn ríkasti hópurinn losnar við fasteignaskatta samkvæmt loforðum Eyþórs

Úttekt

Okurlán Netgíró og tengslin við smálánafyrirtækin

Reynsla

Í lífshættu í hlíðum Marokkó