Pistill

Þegar ég var barn og lifði við ótta um brottvísun

Isabel Alejandra Diaz hefur reynslu af því að vera barn á Íslandi sem lifir í ótta við að stjórnvöld vísi því úr landi. „Hefði mér verið vísað úr landi þá hefðu stjórnvöld hrifsað af mér öll tækifæri og bjarta framtíð,“ skrifar hún.

Verður vísað úr landi á fimmtudag Haniye Maleki verður, ásamt föður sínum, vísað úr landi á fimmtudag. Mynd: Pressphotos

Fyrir nær 17 árum kom ég til landsins með fjölskyldunni minni. Við settumst að í hjartahlýju bæjarfélagi vestur á fjörðum en næstu 14 árin þurftum við að berjast fyrir réttindum mínum hér á landi. Í mínu tilfelli stöfuðu vandamálin af þeirri staðreynd að ég kom í fylgd afa og ömmu en ekki föður og móður. Ég vil hins vegar ekki ræða það. Ég vil segja ykkur frá því ferli sem barn í þessari stöðu neyðist til þess að takast á við.

Ég get ekki sagt að ég hafi ekki átt góða æsku umkringd vestfirskri náttúru en ég fékk ekki bara að vera barn vegna þess að ég lifði í ótta um að ég yrði tekin frá fjölskyldu minni, frá því að ég var fjögurra ára gömul þangað til að ég varð sjálfráða. Í fyrstu fékk ég tilkynningu um að mér yrði vísað úr landi á 30 daga fresti. Þessir 30 dagar urðu síðar að 6 mánaða fresti, sem  gaf okkur meiri tíma til undirbúnings en var í sjálfu sér ekkert skárra. Sex mánuðirnir urðu svo „loksins“ að einu ári. Fyrir mig sem barn voru þetta ekki bréf, þetta voru hótanir. Samfélagið á Ísafirði gerði mér þessi ár bærileg, auk minnar trúar og trausts á Guði, en ég komst aldrei undan óttanum. Sársaukinn sem ég fann var rosalegur og hann verður ávallt hluti af mér, en sú upplifun hefur mótað mig sem manneskju og mína sýn á heiminn. 

„Það er ósanngjarnt og grimmt að neyða barn í svona erfiða stöðu, þar sem engar útgönguleiðir eru sjáanlegar.“

Það fór mikill tími og orka í að halda baráttunni áfram; tala nú ekki um fjármunina sem bókstaflega glötuðust. Ég náði aldrei að skilja hvers vegna yfirvöld sýndu mér ekki skilning. Hvernig gerðu þau sér ekki grein fyrir þeim áhrifum sem þetta hefur á barn og sálarlíf þess? Er ég leit í kringum mig sá ég vini mína, nágranna mína, bæjarbúa og fleira fólk sem ég jafnvel þekkti ekki sýna mér skilning og líka kærleik. Ég áttaði mig þar af leiðandi ekki á hvers vegna fólkið sem hafði öll völdin gerði ekki hið sama - þau voru nú mennsk eins og ég og allir hinir. Hver var þá munurinn? Svona hugsanir leiða beint í aðra; hvað hafði ég gert rangt af mér? Mér fannst (og finnst enn í dag) svo hallærislegt að ég hafi þurft að standa í þessu vegna þess að ég leit svo á að ég væri ekki að biðja um mikið. Ég var að leitast eftir svo sjálfsögðum hlutum, öryggi og umhyggju og að tilheyra samfélaginu fyrir fullt og allt og þá formlega. En það sem mér fannst og ég hugsaði skipti engu máli. Ég þurfti stanslaust að vera á tánum og vera viðbúin öllu, sem er ekki létt verk fyrir barn. Það er nefnilega ekki hægt að komast hjá því að barn sé meðvitað um ástand sem þetta. Ég kveið alltaf fyrir tímunum hjá lögfræðingnum okkar vegna þess að þær umræður sem fóru þar fram gerðu mig áhyggjufulla. Ég var alltaf hrædd um framhaldið. Stundum fékk ég þá hugdettu að ef ég sýndi og sannaði mig myndi allt fara á annan veg en það bar heldur engan árangur. Samt setti ég mér það markmið að sýna að ég ætti skilið að vera um kyrrt og var þannig í raun að bregðast við eins og ég væri mun eldri. Þetta snerist samt ekki alfarið um mig heldur hafði þetta víðtæk áhrif á fjölskyldu mína líka. Amma mín fékk eftirfarandi spurningu frá mér: „Amma, af hverju vilja þau ekki hafa mig?“

Það er ósanngjarnt og grimmt að neyða barn í svona erfiða stöðu, þar sem engar útgönguleiðir eru sjáanlegar. Engin manneskja á skilið að það sé komið svona illa fram við hana. 

„Hefði mér verið vísað úr landi þá hefðu stjórnvöld hrifsað af mér öll tækifæri og bjarta framtíð.“

Ég er rosalega mikill Íslendingur; elska land okkar og þjóð af öllu hjarta. Það sem er að eiga sér stað í samfélaginu okkar núna brýtur hins vegar í mér hjartað og tekur frá mér alla von. Mig langar að aðstoða við að koma í veg fyrir þetta því ég hef ennþá kraftinn í mér, en ég er samt ráðalaus. Ég skil ekki þessa ótrúlegu mannvonsku og siðleysi. Hvernig erum við svona ægilega mikið fyrir? Við viljum bara vera með traustan sess í samfélaginu og vera partur í að þróa og byggja það upp! Við getum gert vel og mörg okkar hafa sýnt það nú þegar. Við verðum að gefa öðru fólki tækifæri til þess líka. Það er verið að vísa fólki frá sem getur auðgað samfélagið okkar svo ótrúlega mikið. Hvers vegna er það ekki hvati? Í þokkabót er því vísað frá á hallærislegum, úreltum, óskiljanlegum og röngum forsendum. 

Hefði mér verið vísað úr landi þá hefðu stjórnvöld hrifsað af mér öll tækifæri og bjarta framtíð. Það er það sem hendir tvær ungar stúlkur, einmitt núna í þessum skrifuðu orðum. Ég er enn hér og ég ætla að hafa hátt. Ég varð kraftmeiri fyrir vikið og ætla mér ekki að sitja hjá þegar saklaust fólk verður fyrir þessu aftur og aftur. Það er ótrúlega fallegt að geta fagnað fjölbreytileikanum en viðurkenna líka á sama tíma að við erum öll eins í grunninn.

Isabel Alejandra Diaz, nemandi við Háskóla Íslands og verkefnisstjóri Tungumálatöfra, samfélagsverkefnis í Ísafjarðarbæ

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið