Pistill

Björgum Sigríði Andersen!

Katrín Oddsdóttir lögmaður skorar á þingmenn meirihlutans að aðstoða Sigríði Andersen við að fá réttláta niðurstöðu í málum Haniye og Mary.

Sigríður Andersen Dómsmálaráðherra segir ekki koma til greina að snúa ákvörðun Útlendingastofnunar um að senda tvö börn á flótta úr landi. Mynd: Pressphotos

Dómsmálaráðherra er kona sterkra skoðana. Hún hefur aldrei legið á þeim heldur þvert á móti tjáð sig opinberlega árum saman um það hvernig henni finnst að samfélagið okkar eigi að vera. Á forsendum þessara skoðana var hún kjörin á þing og á forsendum þessara skoðana ákvað meiri hluti þingmanna að hún skyldi setjast í stól dómsmálaráðherra.

Ég er mjög ósammála stjórnmálaskoðunum Sigríðar Andersen.

Hins vegar þekki ég fólk sem þekkir téða manneskju og ber henni vel söguna. Segir hana góðan vin, skemmtilega og tilbúna að hlusta á aðra þótt sjaldnast breyti það hennar afstöðu.

Nú er svo komið að Sigríður Andersen telur sig ekki geta breytt ákvörðun um að vísa skuli tveimur börnum sem alla tíð hafa verið á flótta frá landinu okkar í áframhaldandi óvissu og neyð. Það samrýmist einfaldlega ekki hennar skoðunum að grípa inn í þetta mál. 

Haniye ásamt föður sínum

Hins vegar er það svo að þingmenn Samfylkingar hafa lýst því yfir að þau muni leggja fram frumvarp til að reyna að bjarga þessum börnum frá brottvísun. Þeirra lausn er sú að veita börnunum, og foreldrum þeirra þar með, íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Þetta er að mínu viti eina leiðin sem eftir stendur opin úr því sem komið er og ég dáist að ykkur Logi, Oddný og fleiri fyrir að leggja upp í einu greiðfæru leiðina sem blasir við frá ykkar bæjardyrum sem þingmenn til að vernda börnin sem um ræðir. Ég treysti því að stjórnarandstaðan fylki sér á bak við þessa leið.

Ég trúi því að innst inni hafi Sigríður nefnilega lítinn áhuga að sjá á eftir þessum litlu stelpum út í óvissuna.

En nú er það líka svo að samkvæmt gildandi stjórnarskrá (var ég annars búin að nefna að við þurfum nýja stjórnarskrá?) þá er hver þingmaður aðeins bundinn af sannfæringu sinni. Þegar til atkvæðagreiðslu kemur eru þannig allir þingmenn, líka meirihlutans, í góðri stöðu til að aðstoða Sigríði Andersen með þeim hætti að veita þessum börnum skjól svo hún þurfi ekki, á grundvelli prinsipp-skoðana sinna, að bera ábyrgð á því að vísa varnarlausum börnum út á gaddinn. Börnum sem stór hluti borgara landsins hefur grátbeðið um að fái að vera um kyrrt, með vísan til þess að hér hafi þau þegar aðlagast og hagsmunum þeirra sé betur borgið hér. 

Mary ásamt foreldrum sínum

Ég trúi því að innst inni hafi Sigríður nefnilega lítinn áhuga að sjá á eftir þessum litlu stelpum út í óvissuna (kannski er ég barnaleg en mér finnst það bara frekar jákvætt þegar á heildina er litið, börn eru gædd mikilli sam- og réttlætiskennd). Ég held að hún geti alveg ímyndað sér að væru þetta hennar börn myndi hún óska þess að hópur kjörinna fulltrúa á lítilli eyju kæmi þeim til bjargar.

Okkur skortir ekki pláss og gæði. Þessar stelpur munu ekki stela ellilífeyri af ömmum okkar. Þær hafa ekkert til saka unnið.

Því skora ég á ykkur kæru vinir Þórdís, Óttarr, Þorgerður Katrín, Pawel, Hanna Katrin, Björt og Hildur sem tilheyrið meiri hluta á þingi að aðstoða Sigríði Andersen svo við fáum réttláta niðurstöðu sem mun breyta þessum ungu lífum að eilífu. Síðan er gæti verðugt næsta verkefni verið að breyta regluverkinu svo við pössum okkur á að uppfylla örugglega Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar það kemur að réttindum barna á flótta. 

En fyrst skulum við bjarga Haniye, Mary og Siggu Andersen.

 

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Katrínar, en er birtur hér með góðfúslegu leyfi hennar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Fréttir

Júlíus Vífill veitti lögmanni meðmæli

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu