Pistill

Óheiðarlega fólkið

Gunnar Jörgen Viggósson svarar ósönnum skrifum Pawels Bartoszek og segir frá viðleitni sinni til að fá þau leiðrétt.

Frelsið Pawel Bartoszek hélt góða ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2015 um frelsi. En hefur maður frelsið til að valda öðrum vísvitandi tjóni? Mynd: Skjáskot af Youtube

Fyrrum samnemandi minn úr Verslunarskólanum, sem ég þekki bara af góðu og ég óska í einlægni alls hins besta, er nú ritari valdamesta stjórnmálaflokks landsins og þingmaður með meiri vigt en gengur og gerist. Hún hélt fram rangri staðhæfingu og blekkjandi um mikilvægt grundvallaratriði í pontu Alþingis, að hluta til í trausti þess að Samtök atvinnulífsins hefðu skoðað málið og birt sanngjarna greiningu. Vonum að hlutaðeigandi vilji svo ekki hreinlega „lifa í blekkingu um þessi gríðarlegu útgjöld,“ svo vitnað sé í orð Áslaugar.

Með þessum orðum deildi ég grein sem birtist undir fyrirsögninni Röng fullyrðing og leiðrétting Áslaugar Örnu. Greinin var framlag mitt til umræðunnar um fjármál og stöðu ríkisins, í beinu framhaldi af umræðu sem hafði skapast út frá orðum þingmannsins Áslaugar Örnu í pontu Alþingis. Var hún afrakstur talsverðrar gagnaöflunar og sannprófunar, en auk þess lagði ég mig fram við að tryggja að pistillinn væri bæði sanngjarn og réttlátur (það er svo lesandans að dæma hvernig tókst til)! Það hvarflaði hins vegar ekki að mér þegar ég birti greinina að hún ætti eftir að verða til þess að ég kynntist því frá fyrstu hendi að verða viðfang sóðalegrar stjórnmálaumræðu — og það úr óvæntri átt! 

Viku eftir að greinin birtist deilir Pawel Bartoszek nefnilega pistli sem hann hafði ritað á bloggsíðu sína undir titlinum Alltaf verra að vera kona. Pistillinn er stutt hugvekja um mismunandi orðfæri í umræðu um konur og karla í pólitík. Að neðan mun ég skýra hvers vegna þau skrif verða að teljast sóðaleg. Hún hefst svo:

Stutt dæmi

Þrjátíu og sjö ára gamall þingmaður heldur jómfrúarræðu. Hann talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Tuttugu og sjö ára gömul þingkona heldur jómfrúarræðu. Hún talar um að á Íslandi sé umfang hins opinbera stórt ef litið er til heildarútgjalda og lífeyrisgreiðslur dregnar frá.

Nokkrum mánuðum síðar eru allir búnir að gleyma ræðu þingmannsins. Ræðu þingkonunnar rifja menn upp enn og reyna mála hana sem vitleysing sem lepur upp dellu frá gáfaðri aðilum.

Sjá: http://stundin.is/pistill/rong-fullyrding-aslaugar-ornu/

Það er góð og gild umræða að ræða um hvað mælikvarðar séu bestir til að meta umfang ríkisreksturs. En þingkonan greindi frá þeim mælikvörðum þegar eftir því var leitað, hún gat heimilda sinna. Þetta snerist því ekki um að hún hafi lesið vitlaust eða rangtúlkað. En þannig er það matreitt og kommentakerfin eru sammála. Konan er bersýnilega nautheimsk.

Þessi grein sem vísað er til og fjallar um Áslaugu Örnu er ekki það versta sem birtist um konur í pólitík. Langt því frá. En hún er dálítið dæmigerð. Fólk kallar mig (því ég er hinn þingmaðurinn) ekki oft vitlausan. Ég er óheiðarlegur og illa innrættur en sjaldan vitlaus. Það límist einhvern veginn verr á karla að vera vitlausir.“

Hlekkjað er á fyrrgreindan pistil minn og hann notaður sem dæmi um ósanngjarna umræðu. Gott og vel. Verði einhver skrif mín einhvern tímann efni í góða hugvekju hef ég að minnsta kosti áorkað einhverju. Skrif Pawels falla þó seint í þann flokk því þau byggja á helberum ósannindum. Í fyrsta lagi tók þingkonan ekki fram að draga þyrfti lífeyrisgreiðslur frá til að fá niðurstöðuna sem hún kynnti, eins og nauðsynlegt er til að fara með rétt mál. Annað er eins og að segja að bíll mengi ekkert, en taka ekki fram að það eigi reyndar bara við meðan hann er ekki í gangi. Í öðru lagi sagði þingkonan alls ekki bara að umfang hins opinbera væri mikið, heldur „eiginlega hvergi hærri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi.“ Það er önnur og sterkari fullyrðing, og ósönn. Ef rétt væri haft eftir þingkonunni í pistlinum um þessi atriði væri dæmisagan einfaldlega hlægileg. Þetta er kyrfilega staðfest á vef Alþingis þar sem ræða Áslaugar er öllum opin. (Þá er ekki minnst á þá staðreynd að kvenkyns aðilinn er ritari valdamesta stjórnmálaflokks landsins og formaður fastanefndar á Alþingi, en karlinn er ekkert slíkt).

Ljóst er að skrifin eru ærumeiðandi. Skrif undirritaðs eru kynnt af Pawel sem óheiðarleg („reyna mála hana sem vitleysing“). Þá eru þau sögð „dæmigerð“ fyrir ósanngjarna umræðu. Þetta ritar þingmaður ríkisstjórnarflokks og mektarmaður í þjóðfélaginu um almennan borgara, sem í ofanálag hefur haft tekjur af skrifum — og flokkast grein Pawels því sem atvinnurógur.

Að neðan eru viðeigandi hlutar af þingræðunum sem um ræðir. Fyrst þess karlkyns (sem raunar er Pawel sjálfur):

„Heildarskattheimta nemur hér á landi yfir 40% af vergri landsframleiðslu. Með þessu móti vorum við í 8. sæti á þeim lista árið 2014. Og ef við myndum taka tillit til þess að í flestum þessara ríkja eru lífeyrissjóðir fjármagnaðir með skattheimtu, en í okkar tilfelli er það með einhvers konar skyldusparnaði, söfnunarkerfum, endum við líklegast enn hærra, einhvers staðar í efstu fimm sætum.“

Og svo Áslaugar:

„Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu eru eiginlega hvergi hærri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi.“

Dæmi hver fyrir sig.

Annars er hugvekjan stutt. Hún heldur áfram:

Jafnvel þegar talað er illa um konur í pólitík þá er þeim gefinn minni kredit en körlum.

Dæmi: Manneskja fer með rangt mál.

Hún … misskildi.

Hann … laug.

Dæmi: Manneskja gerir eitthvað sem X græðir á.

Hún … lét X plata sig.

Hann … er ganga erinda X.

Blaðamaðurinn Jon Ronson var með ágæta bók um fólk sem lendir í skítastormi. Þar var nefnt hvernig allur skíturinn sem konur lenda í verður alltaf miklu svæsnari. Körlum er óskað atvinnumissi. Konum? Að þeim sé nauðgað eða að þær missi börnin sín. Árásir á konur eru persónulegri. Það er oftar ráðist á útlit þeirra eða gáfur.

Hvernig þetta niðurlag gæti talist eðlileg framvinda á greininni er torséð. Þar hefur talið borist að hrottaskap og viðurstyggilegum glæpum sem spyrtir eru við meint óréttlæti í pólitískum greinaskrifum. Ég frábið mér að vera tengdur við alvarlega og viðbjóðslega glæpi á þennan hátt.

Samandregið þá er málflutningur Pawels í meginatriðum rangur. Það er ekki túlkunaratriði. Hann er einnig ærumeiðandi, á máta sem er til þess fallinn að rýra orðspor almenns borgara á vettvangi sem skapar viðkomandi tekjur. Fyrra efnisatriðið ætti að sjálfsögðu að vera tilefni til leiðréttingar, en hið síðara gerir það nauðsynlegt. Ógrynni áhrifafólks í þjóðfélaginu og einstaklinga sem ég hef mætur á, lækaði pistil Pawels sem hann birti í heild sinni á Feisbúkk, og því birti ég svar á sama vettvangi samdægurs sem Pawel var gert viðvart um. Tveimur dögum síðar hafði þingmaðurinn ekki tekið upp á því sjálfur að birta leiðréttingu, og skrifaði ég athugasemd við deilingu hans og lét þar við sitja. Munum að þetta er stjórnmálamaður í flokki sem hefur lagt gríðarlega áherslu á betra orðfæri, og að orðum „fylgi ábyrgð.“

Líður og bíður þar til mánuði síðar að fyrrum ráðherrann og þingmaðurinn Eygló Harðardóttir hlekkir í grein Pawels á bloggsíðu sinni — í trausti þess að Pawel fari með rétt mál auðvitað. Þá ritaði ég athugasemd við grein Pawels á heimasíðu hans, sem hann samþykkti ekki til birtingar. Og nú er kannski óvenjulegt að gera þá kröfu að þingmaður dreifi ekki ósönnum atvinnurógi um samborgara sína — hvað þá að ganga á eftir því — en ég ákvað samt að senda Pawel tölvupóst:

Sæll Pawel,

Það er best að ég viðurkenni strax að mér þykir leiðinlegt að þú hafir vegið að æru minni með ósannindum (eins og heimasíða Alþingis staðfestir auðveldlega), og sérstaklega leiðinlegt því margir af þeim sem lásu pistilinn þinn og líkuðu á Feisbúkk eru valdamiklir aðilar í samfélaginu. Ég hef því augljóslega beðið tjón af þínum völdum að ósekju. Mér þykir líka leiðinlegt að þú hafir ekki samþykkt athugasemd mína til birtingar á bloggsíðu þinni í kjölfar þess að Eygló Harðardóttir hlekkjaði á færsluna.

Ég stakk upp á því í athugasemd við Feisbúkk-deilingu þína á greininni að þú bæðir mig afsökunar en ég hef síðan ekkert heyrt eða séð frá þér í tengslum við þetta mál. Ég sting aftur upp á því núna, og legg aftur til að þú birtir leiðréttingu við greinina á Feisbúkk og á heimasíðu þinni.

Bestu kveðjur,
Gunnar Jörgen Viggósson

Svarið var stutt og gerði fullljóst að Pawel var ekki til umræðu:

Fyrirgefðu að ég hef ekki samþykkt athugasemd þína. Ég er nú búinn að því. 
mbk. Pawel

Þessi viðbrögð ollu mér vonbrigðum, en ég ákvað að láta þar við sitja. Nú, hálfu ári eftir að málið hófst, deilir Eygló Harðardóttir pistlinum á Feisbúkk-síðu sinni. Þegar ég bendi á staðreyndir málsins neitar hún að bregðast við og raunar svarar hún mér ekki. Þá hefur pistlinum verið deilt annars staðar.

Nú er Viðreisn stjórnmálaflokkur sem gefur sig út fyrir að vera einkar vandaður. Eitt af því sem Viðreisn ætlaði að gera gangskör að var vönduð umræða. Á heimasíðu flokksins er sérstök undirsíða sem tileinkuð er því vandaða orðfæri sem Viðreisn tileinkar sér. Þar stendur:

En við ætlum líka að skapa okkur sérstöðu með öðruvísi orðfæri en hinir. Við skulum taka höndum saman og tala öðruvísi en hefðbundnir stjórnmálamenn. Góð orðræða er hluti af grunngildum okkar.

Mikilvægt er að við temjum okkur gott orðfæri á netinu sem og annars staðar og hafa í huga að orð eru til alls fyrst og þeim fylgir ábyrgð.

Óvönduð orðræða getur valdið skaða og þjáningu og í sumum tilfellum varðar hún við lög. Hugsum áður en við tölum eða sendum skilaboð frá okkur, [...]

Við ræðum um málefni en ráðumst ekki á fólk.
Við notum rök og staðreyndir í málflutningi okkar ...
Við tölum af virðingu um fólk …

Í ljósi þess að fokið var í flest skjól, og þessarar góðu viðleitni Viðreisnar, brá ég á það ráð að senda formanni flokksins, Benedikt Jóhannessyni, tölvupóst. Benedikt hefur sjálfur talað mikið um nauðsyn vandaðrar umræðu, og taldi ég hann mögulega vilja veita þingmanni sem ratað hefur af hinum mjóa vegi aðhald. Sagðist ég meðal annars „vona ... að þú sjáir þér fært að bregðast við hegðun hans, sem í þessu tilviki beinist ekki gegn öðrum kjörnum fulltrúum heldur óbreyttum borgara og því aðstöðumunurinn augljós“.

Síðan hef ég ekkert heyrt. Væri ekki í öllu falli faglegt að svara slíkri beiðni? Þetta er nú allur metnaðurinn fyrir orðræðu og vinnubrögðum á þeim bænum þegar á reynir. Nú veit ég ekki hvað skal gera né segja í þessu absúra máli. Kannski senda hugheilar óskir um farsælt starf til allra hlutaðeigandi, og taka fram að þetta er mér ekkert hitamál, þó alvarlegt sé?

Fyrir tveimur árum hélt Pawel góða ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem hann ræddi það sem hann kallaði „f-orðið“: Frelsi. En endar frelsi Pawels ekki þar sem hann byrjar að valda öðrum tjóni? Eða þarf ekki að minnsta kosti frelsinu að fylgja ábyrgð? Er ekki eðlilegt að leiðrétta ærumeiðandi skrif, og biðjast afsökunar? Eða bara laga staðreyndavilluna? Skýra mál sitt? Ég veit ekki hvað Pawel gengur til. Vinnubrögðin sverja sig þó óneitanlega í ætt við þau sem meiri þungavigtarmaður innan flokksins, einn af ráðherrum Viðreisnar, hefur tamið sér og ég reyndar skrifaði um. Sá sagði ósatt á alvarlegan máta um mikilvægt málefni, og neitar enn í dag að svara fyrir þá staðreynd.

Það læra jú börnin, sem fyrir þeim er haft.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið