Pistill

Aumingjaskapur Bjarna Ben

Illugi Jökulsson furðar sig á ummælum forsætisráðherra um „aumingjaskap“.

Bjarni Benediktsson Forsætisráðherra sakar þá um aumingjaskap sem styðja ekki fjárlög. Mynd: Pressphotos

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagði í viðtali við Fréttablaðið í fyrradag að það væri „aumingjaskapur“ að „ætla að stefna öllu í ósætti yfir einstökum liðum þegar svo vel árar sem nú“.

Þetta er furðuleg yfirlýsing.

Henni virðist fyrst og fremst vera beint gegn samstarfsmönnum Bjarna í ríkisstjórninni, þeim sem tilheyra Viðreisn og Bjartri framtíð.

Þeir hafa verið honum eins og hlýðnir hvuttar fram að þessu, engar kröfur gert og allt látið eftir húsbónda sínum.

Núna er hins vegar verið að ganga frá fjárlögum og þá gæti hugsanlega farið svo að einhver vottur að sjálfstæðum vilja kviknaði hjá samstarfsmönnunum, en þá kemur Bjarni til skjalanna. Tilkynnir fyrirfram að það sé „aumingjaskapur“ að gera eitthvað sem ruggi bátnum hið minnsta.

Jahérna, hvílíkur húsbóndi! Það verður fróðlegt að sjá hvort litlu hvuttarnir í Viðreisn og Bjartri framtíð láti sér þetta að kenningu verða.

Og dilla litlu rófunum sínum duglegir við ríkisstjórnarborðið meðan Bjarni útmálar fyrir þeim hvernig honum gekk á golfvöllunum í Flórída í sínu langa sumarfríi.

Aumingjaskapur, já.

Ég skal segja ykkur hvað mér finnst vera aumingjaskapur.

Mér finnst aumingjaskapur hjá ríkisstjórnarflokkunum öllum – líka Sjálfstæðisflokknum – að hafa læst lengst inni í skáp allar þær kröfur um verulegar úrbætur í heilbrigðismálum sem kjósendur settu fram í aðdraganda kosninganna í fyrra.

Allt er það gleymt, og ekkert verður gert, enda er það óopinber stefna Garðabæjardeildar Sjálfstæðisflokksins að koma heilbrigðiskerfinu á kaldan klaka svo Ásdís Halla og félagar geti hirt úr því feitustu bitana og lifað í vellystingum á kostnað sjúkra Íslendinga.

Mér finnst aumingjaskapur, ekki aðeins hjá Viðreisn og Bjartri framtíð, að láta þetta líðast, heldur líka hjá almennum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Páll Magnússon, ert þú orðinn þægur hvutti Garðabæjardeildarinnar? Valgerður Gunnarsdóttir, ha?

Og mér finnst líka aumingjaskapur hjá Bjarna Benediktssyni að flokkur hans sé notaður af einhverjum óþekktum aðilum til að þvælast fyrir og hindra að almennilegu ljósi sé varpað á óþægileg mál barnaníðinga. Hvað í ósköpunum vakir fyrir flokknum að vilja ekki koma til skjalanna af fullum krafti og upplýsa það sem þarf að upplýsa, heldur þvert á móti þumbast við í skúmaskotum?

Hvaða aumingjar eru í þeim skúmaskotum?

Og mér finnst aumingjaskapur af Bjarna Benediktssyni að gera ekki gangskör að því að hreinsa til í málefnum útlendinga þannig að þjóðin þurfi ekki að skammast sín fyrir þá tilhugsun að embættismenn hennar séu að senda úr landi og út í algjöra óvissu illa statt fólk, jafnvel börn.

Senda þau úr landi, algjörlega að óþörfu „þegar svo vel árar sem nú“.

Mér finnst aumingjaskapur hjá Bjarna Benediktssyni að sitja sem fastast á stjórnarskrárdrögum sem þegar hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að skuli verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá – stjórnarskrárdrögum sem hefðu getað betrumbætt svo ótal margt í samfélaginu síðustu árin ef fyrirmælum kjósenda hefði verið fylgt.

En ekki bara fylgt fyrirmælunum frá sægreifunum sem vilja þegja plaggið í hel.

Hvílíkur aumingjaskapur hjá einum forsætisráðherra að fara ekki að fyrirmælum þjóðaratkvæðagreiðslu!

„... og þusa svo yfirlætislega um „aumingjaskap“ ef ekki marsera allir í takt.“

Mér finnst aumingjaskapur hjá forsætisráðherra í góðu árferði að nota ekki tækifærið til að þétta undirstöður samfélagsins, bæta velferðarkerfið, stuðla að meira jafnrétti og sanngirni, heldur gera bara hvaðeina til að hlaða undir ríka fólkið og Garðabæjardeildina og þusa svo yfirlætislega um „aumingjaskap“ ef ekki marsera allir í takt.

Og já – mér finnst líka aumingjaskapur að ljúga sig í embætti forsætisráðherra.

En Bjarni heldur kannski að ef hann er bara nógu lengi að dunda við holurnar á Flórída þá gleymum við lygum hans fyrir síðustu kosningar.

Annar Bjarni Benediktsson var einu sinni forsætisráðherra, sem kunnugt er. Hann var umdeildur maður og ekki allra. En aumingi var hann ekki. Og hann sakaði heldur ekki andstæðinga sína og þaðan af síður samherja um aumingjaskap.

En Bjarni Benediktsson yngri verður reyndar aldrei jafn stór og Bjarni eldri. Það virðist fullreynt. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið