Pistill

Ég er hættur

Lífið býður upp á svo miklu meira en enska boltann.

Eins og margir íslenskir karlmenn sór ég ævilanga fylgd við fótboltalið frá Englandi þegar ég var ungur strákur. En nú er ég hættur.

Ég man vel hvernig þetta byrjaði. Vinur minn hélt með Liverpool og spurði mig hvaða liði ég héldi með. Ég hélt með engu. Úr varð að ég fékk hann til að telja upp nokkur lið og valdi það sem mér fannst bera flottasta nafnið. Ég gleymi aldrei fyrstu alvöru sigurvímunni þegar liðið mitt vann Liverpool og svo deildina.

Þetta er oft arfgengt. En ekki hjá mér. Pabbi minn hélt með Manchester United. Ástæða hans var bara að liðið hafði lent í flugslysi.

Trúarbrögðin

Það er ekkert skynsamlegt við að binda stuðning sinn og tilfinningar við knattspyrnulið í norðurhluta London í Bretlandi. En fótbolti er ekki lógík, heldur trúarbrögð.

Ég var auðvelt fórnarlamb. Fótboltaliðið mitt, Grettir á Flateyri, hafði verið nokkurn veginn lagt niður þegar ég var ellefu ára. Helvítis kvótinn! En þannig var ég knattspyrnulega munaðarlaus, eins og rótlaust, ungt fólk á lestarstöð sem tælt er til sértrúarsafnaða.

Eftir að fólk hættir sér það hlutina öðruvísi. Allt þetta sem gerðist. Öll öskrin, sturlaða gleðin, uppnámið og þyngslin. Hvernig dagur gat myrkvast við niðurlægjandi úrslit.

Öll sjálfsblekkingin. Rannsóknir hafa sýnt að fylgjendur fótboltaliða finna sér alltaf afsakanir fyrir tapinu. Og flestir verða undir. Kannski allir nema þeir á toppnum.

Þannig týnist tíminn

Það tekur um 80 klukkutíma af bestu tímum vikunnar yfir veturinn að horfa á alla leiki liðsins manns í ensku deildinni. Fyrir utan öll hin liðin og bikarinn og meistaradeildina. Og allann tímann í fjölskylduboðum og annars staðar sem fer í að tala um þetta í staðinn fyrir eitthvað sem skiptir máli og tengist einhverju raunverulegu.

Áskrift að enska boltanum kostar 15 þúsund krónur á mánuði. Þú þarft að vinna þér inn 24 þúsund króna laun til að borga það, fyrir skatt. Algeng vaktavinnulaun eru 2.400 krónur á tímann, þannig að það tæki kannski 10 klukkutíma vinnu á mánuði að borga fyrir enska boltann. 

Ég ákvað að hætta. Nú er ég frjáls. Ég horfði ekki á neinn leik í ensku deildinni síðustu leiktíð. Í staðinn fyrir að velja að verja besta tíma vikunnar í að sitja fyrir framan sjónvarp með órjúfanlegan stuðning við lið fótboltamanna, sem tengjast sjálfir liðinu sínu bara tímabundið þar til þeir fá tilboð um meiri tekjur annars staðar, lið sem eru í eigu einhverra rússneskra olígarka, arabískra sjeika eða bandarískra auðjöfra, reyni ég að lifa mig inn í lífið.

Við vinnum fimm daga vikunnar og fáum tvo í frí. Raunverulega svigrúmið fyrir það sem við viljum upplifa í lífi okkar – fyrir utan vinnu – á sér stað einmitt á afmörkuðum tíma um helgar sem klofinn er af leikjum í enska boltanum. Við fáum 52 helgar á ári. Og það eru 38 leikir fyrir hvert lið í ensku deildinni.

Lífið býður upp á svo margt annað. Lífið býður upp á lífið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Þórólfur rauk á dyr á framsóknarfundi

Viðtal

Halldór Auðar um kynferðisofbeldið: Sektin helltist yfir

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Fréttir

Borgarfulltrúi stígur fram sem gerandi í kynferðisbrotamálum til að kenna ábyrgð

Pistill

Sagan af uppreist æru

Fréttir

Vísar ábyrgðinni á embættismenn: „Ég var erlendis á þessum vikum“

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Karlmaður í kventíma

Pistill

Hvað gerði Bjarni rangt?

Fréttir

Yfirmaður hjá Kynnisferðum vildi að sem flestir tækju sér Hjalta til fyrirmyndar