Pistill

Ég eignast barn á fimmtudaginn

Snæbjörn Ragnarsson stendur frammi fyrir breytingum á lífinu.

Verðandi foreldrar Snæbjörn og kona hans, Agnes Grímsdóttir, eiga von á sínu öðru barni á fimmtudaginn, litlum dreng. Mynd: Úr einkasafni

Ég verð faðir í annað sinn á fimmtudaginn, samkvæmt áætlun. Þá verður Agnes komin 38+2, sem fyrir venjulegt fólk þýðir átta og hálfur mánuður. Sem er samt ekki rétt því 38 vikur eru níu mánuðir, svona sirka. Þó er eðlileg meðganga 40 vikur. En samt níu mánuðir ...?

Ég þurfti að gúggla þetta.

Vikurnar eru víst taldar frá öðrum stað í tíðahringnum en mánuðirnir. Vikurnar teljum við frá því að við fórum óvarlega. Svo bíðum við í tvær vikur og þá, þegar konan er loksins orðin úrkula vonar um að henni muni blæða þá pissar hún á óléttupróf. Tvær línur og við byrjum að telja mánuðina. Sirka svona.

Agnes gengur sem sagt ekki allar 40 vikurnar heldur bara níu mánuði. Ástæðan er fylgjuástand sem fannst við rannsókn eftir síðustu fæðingu. Dóttir okkar, hún Anna, sem núna er á þriðja ári, 125 vikna, var sennilega veik í móðurkviði síðustu tvær vikur meðgöngunnar sökum þessa kvilla og það er eitthvað sem gæti endurtekið sig. Í stað þess að taka sénsinn á því verður Agnes þess vegna bara sett af stað áður en þær vikur ganga í garð. Hann ku víst vera klár hvort eð er. Já, þetta er strákur og ég get ekki beðið eftir því að hitta hann.

Það er fyndið að vita hvaða dag fæðingin verður og hefur bæði kosti og galla. Ég veit að ég byrja í orlofi eftir vinnu á miðvikudaginn. Það er þægilegt fyrir vinnuveitendur mína á PIPAR, og auðvitað fyrir sjálfan mig. Ég get stillt out of office-skilaboðin og tekið iPaddinn með mér heim. Samt finnst mér þetta vera hálfgert svindl. Reyndar svindl númer tvö, því það er eitthvað furðulegt við að vita kynið. Ég er pínu gamaldags og það er einhver rödd í höfðinu á mér segir mér að ég eigi ekki að vita þessa hluti eða stjórna þeim. Ég trúi því samt ekki. Augljóslega, annars myndi ég ekki vita afmælisdag ófædds sonar míns. Svo er þetta annað barn. Við vissum ekki kyn Önnu fyrir fæðingu og fannst slíkt fáránlegt. Öll vígi fallin.

„Það er gríðarlegur vanmáttur sem fylgir því að vera kominn svona nálægt fæðingunni og vita hvenær stundin kemur. Ég er með sömu tilfinningu og tveimur tímum áður en ég steig á sviðið í Eurovision.“

Það er gríðarlegur vanmáttur sem fylgir því að vera kominn svona nálægt fæðingunni og vita hvenær stundin kemur. Ég er með sömu tilfinningu og tveimur tímum áður en ég steig á sviðið í Eurovision. Að nú skuli ég takast á við risastórt verkefni og það sé ekkert sem ég geti gert til að koma í veg fyrir það. Ekki að ég vilji koma mér undan þessu, en tíminn bara æðir áfram og hvort sem mér líkar betur eða verr verð ég kominn á glansandi svart sviðið í appelsínugula Pollagallanum að syngja fyrir milljónir áður ég veit af. Lífið verður aldrei samt aftur og ef eitthvað fer úrskeiðis er ekki hægt að spóla til baka. Ég stoppa það ekkert þegar Agnes fær hríðir. Ég bara fer upp á sjúkrahús og verð faðir.

Síðasta fæðing gekk ekki vel, og reyndar mátti engu muna. Eftir ofboðslegan barning, axlarklemmu, slitna sogklukku, frábærar ákvarðanir og líkamlegar aflraunir fagfólks sem togaði og ýtti á víxl, en þó einkum og sér í lagi ótrúlegt afrek Agnesar kom líflaust stúlkubarn í heiminn. Eftir blástur og hnoð sáum við hana loksins hreyfa sig örlítið og þá var farið með hana í burtu. Að vita ekki hvort þú átt lifandi barn er sérstök tilfinning.

Anna var sett í kæli í þrjá sólarhringa. Eftir morfínmókið í kælinum tók við skrýtin nótt þar sem hún svaf lítið og illa, og við sömuleiðis. Ég man eftir að hafa hugsað með mér að þetta gæti orðið krefjandi líf framvegis. Það voru óþarfa áhyggjur. Anna er alheil og hefur sofið eðlilega síðan, þótt ég gæti hafa gleymt nokkrum andvökunóttum. Hún hefur einu sinni orðið veik og dafnar afar vel.

Á undarlegan hátt hugsa ég glaður til baka um þessa reynslu. Kannski er auðvelt að segja það núna, þar sem allt fór svona vel, en í það minnsta tók ég afar margt jákvætt með mér út úr þessu öllu. Eftir að Agnes varð ólétt aftur höfum við oft verið spurð, og hún talsvert oftar en ég, hvort hún ætli ekki alveg örugglega að gangast undir keisarskurð? Nei. Neinei. Það stendur ekki til. Vísindin segja okkur að engar auknar líkur séu á að svona fæðing endurtaki sig og við erum hvorugt fólk sem býst við hinu versta. Jú, við þáðum tilboð um strangara eftirlit, svokallaða áhættumeðgöngu, kannski einkum og sér til að friða hugann, og inngripið með gangsetninguna er öryggisaðgerð sem okkur finnst vera sjálfsögð. En þar fyrir utan látum við þetta hafa sinn gang.

Það er svolítið undarlegt að vera faðirinn í þessum sporum. Að finna jafnvægið milli þess að hafa skoðun en vera þó ekki ýtinn. Sem betur fer erum við samstiga í þessu öllu saman, eins og reyndar flestu sem við tökum okkur fyrir hendur, en ég myndi ekki bjóða í að þurfa að rífast við hana um sannfæringu mína. Það er nú samt sem áður svo að hún er að fara að fæða barnið á meðan ég reyni af veikum mætti að gera eitthvert máttlaust gagn á meðan. Ég skal bara halda á töskunni út í bíl og keyra upp á sjúkrahús. Sækja vatn. Láta vita. Og halda kúlinu eins og hægt er.

Undarleg þessi tilfinning sem er 96% eftirvænting og 4% kvíði. Hvernig verður þetta allt? Sef ég næst eftir 10 ár? Verður þetta ekki örugglega allt í lagi?

Auðvitað verður þetta í lagi. Ég segi ykkur frá því næst.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið