Pistill

Stjörnuhrap alþingismanns, eða: Hvað er Sjálfstæðisflokkurinn að fela?

Illugi Jökulsson hristir höfuðið yfir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur

Ef Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefði verið formaður allsherjar- og menntamálanefndar í Svíþjóð, þá væri hún það ekki lengur.

Hún hefði þurft að segja af sér eftir Twitter-beiðnina um ólöglegt streymi á hnefaleikabardagann margfræga.

Og áður en þið, lesendur góðir, teygið ykkur í lyklaborðið til að skrifa athugasemdina: „Iss, þetta var nú ekki alvarlegt mál,“ má ég þá reyna að sýna ykkur fram á að þetta var víst alvarlegt mál?

Áslaug Arna getur ekki skákað í því skjólinu að hún hafi ekki vitað að það sem hún var að biðja um var ólöglegt. Allir vita að það er ólöglegt, tala nú ekki um á hennar aldri.

Hafi hún ekki vitað það, þá hefur hún verið búsett í einhverjum öðrum heimi fram að þessu.

Í öðru lagi er það vissulega svo að flestir Íslendingar hafa eflaust einhvern tíma horft á ólöglegt streymi af netinu.

En þingmaður sem gerir sér ekki grein fyrir því að honum eða henni beri að ganga á undan öðrum með góðu fordæmi og ekki hvetja berum orðum til lögbrota, sá þingmaður er á rangri hillu í lífinu.

Í þriðja lagi, þá heyra höfundaréttar- og netmál beinlínis undir þá nefnd sem Áslaug Arna stýrir og ábyrgð hennar er þeim mun meiri.

Með bón sinni sýndi hún eitt af þessu þrennu: Heimsku, dómgreindarleysi eða skeytingarleysi um lögin í landinu.

Og í Svíþjóð hefði þetta sem sagt kostað hana að minnsta kosti formennskuna í allsherjar- og menntamálanefnd, ef ekki sjálft þingsætið.

En hér á Íslandi er bara hlegið að þessu og sagt: „Iss, þetta var nú ekki alvarlegt mál.“

Einhver mun nú benda á að Áslaug Arna hafi beðist afsökunar á Facebook. Dugar það ekki?

Æ, ég veit það ekki. Ég er að verða pínulítið leiður á þessum stöðluðu FB-afsökunarbeiðnum sem allar eru skrifaðar af PR-mönnunum hjá KOM, eða hvað þær heita þessar hvítþvottastöðvar, og þar með á málið að vera dautt.

Sér í lagi af því það fylgir alltaf sögunni að X (í þessu tilfelli Áslaug Arna) muni ekki tjá sig frekar um málið.

Það er aumt, það er alveg hel-andskoti-aumt.

Æjá, ég veit það ekki.

Stjörnuhrap Áslaugar Örnu þessa dagana er ansi bratt.

Hún sem var ein helsta vonarstjarna Sjálfstæðisflokksins.

Þeir gerðu sér jafnvel vonir um það, Sjálfstæðismennirnir, að hún gæti loks útvegað þeim kaleikinn helga: BRENNIVÍN Í BÚÐIR!

En streymisósk hennar og dómgreindarleysið þar að lútandi er því miður ekki það eina.

Og ekki það alvarlegasta.

Hún ætlaði líka að reyna að þagga niður mál Roberts Downeys á fundi nefndarinnar sem hún stýrir ennþá.

Það átti að ræða þar um uppreist æru. Gott og vel, en alls ekki mátti ræða mál Roberts Downeys, lét formaðurinn Áslaug Arna út ganga.

Sem betur fer var hún kveðin í kútinn með það, enda algjörlega fráleit og í raun óskiljanleg fyrirmæli.

En af hverju voru þau fyrirmæli sett fram?

Hvað gerði Róbert Árni Hreiðarsson eiginlega fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

Hvað er það sem er svo nauðsynlegt að þagga niður, að ekki bara miðaldra kerfisköllum, heldur líka ungum og efnilegum konum í flokknum, virðist vera ætlað að taka þátt í þögguninni?

Um daginn var það Hildur Sverrisdóttir sem tók þátt í hinni óskiljanlegu og fáránlegu útgöngu meirihlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Núna Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Báðar hafa stórskaðað orðspor sitt til langframa.

Já, það er ekki ofmælt að tala um stjörnuhrap.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið