Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 6 árum.

Portrett af stjórnmálamanni sem valdböðli

Karl Th. Birg­is­son skrif­ar um Dav­íð Odds­son, áhrifa­mesta stjórn­mála­mann á Ís­landi síð­ustu hálfa öld, og rit­stjóra yf­ir stærstu rit­stjórn lands­ins.

Þegar Davíð Oddsson varð fimmtugur í janúar 1998 skrifaði Stefán Jón Hafstein, ritstjóri Dags, í blað sitt:

„Hvorki heimsmannslegur né höfðinglegur – oft alþýðlegur og skemmtilegur. Hrokinn ekki jafn áberandi og oft fyrr og reiðiköstin dempaðri. Alltaf valdsmannslegur. Nákvæmlega. Hann hræðist ekki það vald sem hann hefur, hann beitir því. Valdið er aðferð Davíðs.“

Þetta er býsna glúrin greining. Valdið var aðferð Davíðs.

Án valdanna – raunverulegra og ímyndaðra – verður myndin af Davíð Oddssyni afskaplega ógreinileg í huga okkar. Hann var þrátt fyrir allt í rúmlega aldarfjórðung holdgervingur valdsins í ríki og borg, og hann beitti valdi sínu ótæpilega.

Og ótæpilega er reyndar úrdráttur, því að valdið komst í hendur manns sem birtist okkur reglulega sem hefnigjarn, langrækinn, ósvífinn, refsiglaður og furðusmár í hugsun.

Sumir hafa kallað hann kontrólfrík. Aðrir bara valdasjúkan. Við skulum sleppa því, en rekja bara nokkur dæmi um mann sem fékk völd og beitti þeim þannig að betur væri sleppt í lýðræðisríki með sæmilega siðferðisvitund.

Og við skulum líka alveg leiða hjá okkur kaldhæðnina sem felst í því, að meintur frjálshyggjumaður – sem Davíð Oddsson hefur raunar aldrei verið – hafi beitt opinberu valdi af svo miklum ofstopa og óbilgirni.

Allt hitt

Svo er hér annar fyrirvari: Þessi grein er ekki um hrunið eða hlut Davíðs Oddssonar í því. Um það hafa verið skrifaðar langar rannsóknarskýrslur. Hannes Hólmsteinn er að skrifa aðra styttri og eflaust nákvæmari í boði Bjarna Benediktssonar á kostnað skattgreiðenda.

Hún er heldur ekki nema að litlu leyti um einkavæðingu viðskiptabankanna, átökin um mannréttindi öryrkja eða óréttlæti kvótakerfisins fyrir dómstólum um aldamótin.

Þá þóttu Davíð Oddssyni niðurstöður Hæstaréttar svo augljóslega og ævintýralega vitlausar að hann vildi færa vald dómstóla til að dæma út frá almennum ákvæðum stjórnarskrár inn í sitt eigið forsætisráðuneyti. Þar ætti að dæma með réttu.

Annars gætum við lokað sjoppunni og flutt til Kanarí, eins og hann orðaði það.

Hann kallaði hæstaréttardómara í leiðinni spákellingar og félagsfræðinga, af því að þeir dæmdu ekki eins og hann vildi. Hann væri jú lögfræðingur.

Þessi grein er heldur ekki um Íraksstríðið, þar sem Davíð ákvað upp á sitt einsdæmi – þó með þvinguðu atfylgi Halldórs Ásgrímssonar – að veita stuðning Íslands við hernaðinn. Skömmu síðar tilkynnti hann okkur að friður væri kominn á í Írak, nema í nokkrum sýslum, eins og hann orðaði það líka í þingræðu.

Þær fréttir hafa enn ekki borizt til Íraks.

Hún er heldur ekki um skyndilegt brotthvarf bandaríska hersins héðan, sem Davíð taldi fráleitt að gæti gerzt, af því að þeir George Bush Bandaríkjaforseti væru svo góðir vinir.

Né heldur um allt hitt, sem við munum þótt við vildum náttúrlega helzt gleyma því sem fyrst.

Þessi grein er um einstakling, sem þreifst og virðist í sumu enn þrífast á því að beita valdi, og njóta þess að beita refsingum, ekki í þágu hugmynda heldur til að tryggja hagsmuni og áframhaldandi eigin völd.

Þar voru engin vettlingatök notuð.

Og sjaldnast einu sinni almennir mannasiðir.

Byrjum á fyrstu stóru einkavæðingunni.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu