Fréttir

Brynjar þrætti fyrir að hafa verið lögmaður Bóhems en sendi bréf sem slíkur

Brynjar Níelsson, formaður stjónskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði upplýsingum um að hann hefði starfað fyrir nektardansstaðinn Bóhem hafa verið „plantaðar í gagnagrunn“ Google og þær væru rangar. Brynjar starfaði hins vegar fyrir skemmtistaðinn eins og fram kemur í bréfi sem hann sendi fyrir hönd staðarins.

Brynjar Níelsson Þvertók fyrir að hafa starfað fyrir nektardansstaðinn Bóhem en undirritun hans á bréf til borgarráðs Reykjavíkur bendir til annars. Mynd: Pressphotos

Brynjar Níelsson, alþingismaður og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vildi ekki kannast við að hafa starfað fyrir nektardansstaðinn Bóhem í færslu á Facebook vegna umræðu um bakgrunn hans í tengslum við meðferð nefndarinnar á máli manns sem fékk uppreist æru og hafði verið lögmaður Bóhem. Brynjar sagði að upplýsingum um að hann hefði verið lögmaður Bóhem hefði verið „plantað í gagnagrunn“ Google. Brynjar starfaði hins vegar fyrir nektarstaðinn eins og fram kemur í bréfi sem hann sendi fyrir hönd staðarins til Reykjavíkurborgar árið 2003.

Bréfið til borgarráðsBrynar sendi borgarráði bréf fyrir hönd Bóhems þar sem hann fór fram á að borgarráð endurskoðaði regluverk sitt við veitingu áfengisleyfa.

Bergur Þór Ingólfsson, faðir eins af fórnarlömbum Róbert Downey, vakti fyrst athygli á því að Brynjar og Robert hefðu báðir sinnt lögmannstörfum fyrir staðinn. Þá velti hann því fyrir sér hvort Brynjar væri hafinn yfir grun um að vera hæfur til að sinna störfum í stjónskipunar- og eftirlitsnefnd, en þar er nú farið yfir ferlið sem veitti Roberti uppreist æru.

Brynjar brást ókvæða við umfjöllun fjölmiðla um málið. „Því er unnið hörðum höndum að sá tortryggni í minn garð og Sjálfstæðisflokksins og látið að því liggja að við séum að verja Róbert Downey, sem mun vera einn af þeim fjölmörgu sem hafa fengið uppreist æru síðustu áratugi,“ sagði Brynjar í færslunni.

Þótt bent hafi verið á að þarna hafi röngum upplýsingum verið plantað í gagnagrunn herra Google hefur enginn netsóðinn iðrast og fær því ekki uppreist æru hja mér.

Þá segir Brynjar að þær upplýsingar um að hann hafi sinnt störfum fyrir Bóhem hafi verið „plantað í gagnagrunn herra Google“ og þær séu rangar. Brynjar var hins vegar titlaður lögmaður nektarstaðarins Bóhem í Morgunblaðinu í nóvember 2007 og svo í Fréttablaðinu á sama tíma, þar sem hann fordæmdi ákvörðun borgarráðs að leggjast gegn starfsemi nektardansstaða í Reykjavík.

Brynjar kallar það fólk sem vakið hefur athygli á málinu netsóða. „Nú herra Google upplýsti sóðana um að Róbert þessi hefði verið lögmaður eiganda Bóhem 2001 og að ódámurinn Brynjar Nielsson hefði verið lögmaður þessa félags í máli á árinu 2007. Glöddust tröllin nú mjög yfir þessum upplýsingum, sem sýndu ótvírætt að ég væri spilltur og fullkomlega vanhæfur sem formaður nefndarinnar, og auðvitað varð að deila þessari vitneskju um alla netheima. Þótt bent hafi verið á að þarna hafi röngum upplýsingum verið plantað í gagnagrunn herra Google hefur enginn netsóðinn iðrast og fær því ekki uppreist æru hja mér. Svo er mér einnig hulið hvernig það gæti valdið vanhæfi, hvað þá að það væri merki um spillingu, þótt allt hefði verið rétt hjá herra Google,“ segir Brynjar.

Eins og fram kemur í bréfinu starfaði Brynjar fyrir nektardansstaðinn Bóhem árið 2003. Í bréfinu sem Brynjar undirritar er óskað eftir því að borgarráð breyti málsmeðferðarreglum vegna vínveitingaleyfa þannig að Bóhem verði heimilað að hafa staðinn opinn til 05:30 alla daga. Borgarráð féllst ekki á að breyta reglunum.

Gerir lítið úr málinu

Þá sagði Bergur, í færslu sinni á Facebook, Brynjar hafa að undanförnu margoft gert lítið úr glæpum Róberts Árna Hreiðarssonar í fjölmiðlum og um leið smættað afleiðingar þeirra. Þannig sagði Brynjar í viðtali við mbl.is að hægt væri að brjóta með alvarlegri hætti gegn börnum en Robert Downey gerði gagnvart fórnarlömbum sínum. Robert var árið 2008 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum og hlaut uppreist æru í október í fyrra. „Það eru til al­var­legri brot held­ur en þessi gagn­vart börn­um,“ sagði Brynjar. Þá staðhæfði hann við mbl.is að margir barnaníðingar hefðu fengið uppreist æru.

„Eng­inn sagði neitt þá. Þetta komst bara í umræðuna því hann ætlaði að sækja um starfs­rétt­indi sín aft­ur. Menn hafa fengið upp­reist æru sem hafa myrt ann­an mann,“ bætti Brynjar við.

Þá hefur Brynjar lýst því yfir að honum þyki eðlilegt að Róbert fái að starfa við það sem hann er menntaður til. „Hann er búinn að afplána og hann fær í þessu tilviki meiri refsingu því hann missir starfsréttindin.  Hann hefur ekki brotið af sér. Hann fór í sérstaka meðferð í betrun sinni og þá finnst mér ósköp eðlilegt að menn eigi möguleika á því að snúa aftur og starfa við það sem þeir eru menntaðir til,“ sagði Brynjar í samtali við Vísi.

Bróðir Brynjar, Gústaf Adolf Níelsson sagnfræðingur, hefur að sama skapi tjáð sig um málið. Í færslu á Facebook sagði Gústaf að stúlkurnar hafi „spilað á veikleika Róberts til að hafa af honum peninga“ og „gert hann sér að féþúfu“.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið