Pistill

Kæru gestir, velkomnir heim

„Af hverju, mamma, af hverju má hún ekki vera hér?“ var Móheiður Hlíf spurð af dóttur sinni, eftir erfitt ferðalag þeirra, sem var mun auðveldara en ferðin sem hin tólf ára gamla Hanyie Maleki lagði á sig.

Haniye og faðir hennar Um þrjú hundruð manns mættu í afmælisveislu henni til heiðurs. Mynd: Pressphotos

Við vorum að fara heim hérna um daginn fjölskyldan eftir gifturíka ferð til meginlandsins. Við vorum búin að pakka öllu dótinu okkar sem hafði bólgnað umtalsvert á ferðalaginu, með vegabréfin í veskinu og farseðla í símanum, svona eins og gengur. Við lögðum af stað snemma, ég var búin að koma mér upp þessari fínu berkjubólgu og mollan ekki að hjálpa, þannig að við vorum tilneydd til að hjálpast að við farangursburð.

Það hafði greinilega ekki verið óráð hjá okkur að leggja fyrr af stað en ella því þennan kæfandi dag í Berlín kom eitthvað upp á. Lestin sem átti að flytja okkur beint á flugvöllinn stoppaði þónokkrum stöðvum áður og lestarstjórinn bað okkur, fremur þurrlega, um að fara út þar sem lestin myndi enda hér. Við ætluðum að bíða eftir næstu lest en allt kom fyrir ekki og eftir samtal við unga móður með grenjandi ungabarn kom í ljós að næsta lest myndi líka enda hér. Líkast til væri einhver bilun á lestarteinunum.

Unga móðirin talaði um strætó sem ætti að fara út á völl. Við fórum því af lestarpallinum og leituðum strætisvagnarins án árangurs, tveir Indverjar reyndu að hjálpa okkur á álíka bjagaðri þýsku og okkar og bentu okkur á áætlun næturstrætósins sem var óskiljanlegt þar sem það var miður dagur. Þá tókum við eftir leigubílabiðröð annarra ferðalanga sem voru greinilega að fara á flugvöllinn líka. Um var að ræða ítalskt ættarmót þar sem allir voru bókstaflega að fara yfir um úr óreiðu, endalausar handahreyfingar og syngjandi fuglabjargssamræður. Eftir að einir fimm leigubílar höfðu komið á 45 mínútum að ná í ítölsku stórfjölskylduna var loksins komið að okkur. 

Þegar þarna var komið við sögu var mér litið á dætur mínar þar sem þær stóðu náfölar. Með grátstafinn í kverkunum spyr eldri stelpan mín „Hvað ef við missum af flugvélinni, af hverju er þetta svona mikið vesen? “ 

Ég huggaði þær og sagði „Engar áhyggjur elskurnar mínar, við fáum leigubíl og við missum ekki af vélinni.“ Leigubíllinn kom stuttu síðar, við komumst í gegnum hreinsunareldinn á vellinum eða öryggishliðið og settumst á gólfið í troðfullri og fremur kuldalegri flugstöð – öfugt við molluna úti. Þarna biðum við þar til loksins að við komumst í sal með sætum og svo loks í flugvélina. Öryggiskenndin óx umtalsvert hjá stelpunum þegar þær hittu íslensku flugfreyjurnar og fljótlega voru þær farnar að karpa og skríkja á víxl. Þegar flugvélin lenti á fallega, litla örugga Íslandi heyrðist í flugfreyjunni „Kæru gestir, velkomnir heim.“ Ég veit ekki hvenær flugfélagið ákvað að við værum gestir en ekki farþegar en hvað um það. Leifsstöðin tók við okkur, troðfull af ferðamönnum og svo loksins, loksins loftið ferska. 

Á leiðinni frá Leifsstöð las ég grein um jafnöldru dætra minna, Hanyie. 300 manns höfðu mætt í afmælisveislu hennar á Klambratúni daginn áður. Myndin af fallegu stelpunni greip athygli dætra minna. Hanyie og pabbi hennar Abrahim Maleki eru afganskir flóttamenn og ferðalag hennar hafði verið töluvert erfiðara. Ég sagði dætrunum frá ferðalagi Jafnöldrunar, hún var heppin að vera á lífi, hún hafði þurft að fara á gúmmíbát ekki einu sinni heldur tvisvar yfir Miðjarðarhafið til þess að komast í öruggt skjól og þau vissu ekki hver áfangastaðurinn yrði endanlega eða hvar öryggið væri að finna. Pabbi hennar hefur verið á flótta undan stríði í nærri 20 ár. Hann vill að dóttir sín eigi sér framtíð, öruggt skjól, líf. Hversu oft skyldi hann hafa reynt að hugga dóttur sína. „Þetta verður allt í lagi, elskan mín.“ 

Þegar ég segi svo dætrum mínum að íslensk stjórnvöld séu búin að reka hana úr landi stara þær á mig og spyrja nánast ásakandi „Af hverju, mamma, af hverju má hún ekki vera hér?“ Alveg eins og Hanyie sjálf skiljum við ekki hvers vegna við getum ekki gefið henni skjól, af hverju hún er ekki velkomin heim. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Launþegahreyfingin ekki með fulltrúa í nefndum um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfis

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Blogg

Víkingarnir

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Arður greiddur úr einkareknu meðferðarheimili barna sem vinnur fyrir sveitarfélögin

Fréttir

Sparkað úr hestamannahópi vegna gagnrýni á félagsleg undirboð

Fréttir

Umboðsmaður spyr hvort ráðuneytið ætli að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?