Pistill

Hvaða reiði var þetta?

Illugi Jökulsson furðar sig á að Bjarni Benediktsson láti yfir sig ganga allar svívirðingar á Facebook, en verði reiður eðlilegri spurningu á Twitter.

Það þarf ekki að segja lesendum Stundarinnar að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lokaði Twitter-aðgangi sínum fyrir Snæbirni Brynjarssyni eftir að hann hafði velt því fyrir sér á sínum eigin Twitter af hverju Bjarni væri ekki spurður nánar út í aðkomu sína að „uppreist æru“ Roberts Downeys eða Róberts Árna Hreiðarssonar.

Nú er ég enginn Twitter-sérfræðingur, stofnaði reyndar Twitter-reikning í von um að skilja fyrirbærið en þar hellast bara yfir mig tíst frá Donald Trump og Bernie Sanders og ég verð ekkert var við Bjarna Benediktsson.

Ég þekki hins vegar Facebook-vel og þótt við Bjarni séum þar ekki Facebook-vinir, þá sé ég þó síðuna hans og gæti skrifað á hana ef ég vildi. Hún er mér sem sagt ekki lokuð, og það þótt ég hafi gagnrýnt Bjarna bæði oft og mikið gegnum tíðina.

Facebook-síðan hans er ósköp venjuleg og hugguleg dagbók um það sem hann er að gera í leik og starfi, og hann lætur sér þar í léttu rúmi liggja þótt alls konar fólk hnýti síðan misjafnlega málefnalegar athugasemdir aftan við færslurnar hans. 

Margar þessara athugasemda snúast alls ekki um það sem hann var sjálfur að nefna í færslu sinni, og sumar fela í sér harða gagnrýni og jafnvel svæsnar og glórulausar svívirðingar.

Miklu, miklu dónalegri en ég myndi nokkurn tíma láta líðast á minni Facebook-síðu, hvort heldur svívirðingarnar snerust um sjálfan mig eða aðra.

Þótt Bjarna sé jafnvel líkt við ýmis dýr sem við erum vön að telja heldur ófögur, þá kippir hann sér greinilega ekkert upp við slíkt og leyfir því að vera á síðunni sinni.

Hann er sem sagt kominn með þykkan skráp, enda mála sannast að hann þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af gagnrýni, hann Bjarni. 

Þrátt fyrir allan þann spillingaróþef sem (hvort sem honum líkar betur eða verr) leggur af fjármálavafningum hans og fjölskyldu hans, þrátt fyrir að hafa margsinnis orðið uppvís að því að hafa sagt ósatt opinberlega, og líka þrátt fyrir að vanvirða niðurstöðu heillar þjóðaratkvæðagreiðslu með því að stinga henni undir stól, og þrátt fyrir að nafnið hans komi fyrir í Panama-skjölunum (sem þykir meira að segja óhæfa í Pakistan), þá virðist ekkert á honum hrína.

Í sjálfu sér er það náttúrlega bara hrósvert – og nauðsynlegt fyrir stjórnmálamann – að rjúka ekki upp til handa og fóta þótt menn séu gagnrýndir, og jafnvel að ósekju stundum eins og gengur, og jafnvel þannig að svívirðingagusur gangi yfir mann.

Þess vegna vekur það einmitt sérstaklega athygli að Bjarni skuli blokkera mann fyrir að hugleiða hvort ekki ætti að spyrja hann betur út í tiltekið mál.

Mál Roberts Downeys.

Af hverju nennir Bjarni ekki einu sinni að lyfta litlafingri til að þurrka út af Facebook upphrópanir þar sem hann er kallaður kakkalakki, en hefur fyrir því að blokkera á Twitter mann sem spyr ÞESSARAR spurningar?

Spyr bara, fullyrði ekki neitt – bara spyr.

Samt verður Bjarni reiður.

Það er eitthvað verulega óþægilegt við mál Roberts Downeys/Róberts Árna. Það er til dæmis verulega óþægilegt að kerfið (embættismannakerfið, stjórnmálakerfið eða hvort tveggja?) skuli sammælast um að halda hlífiskildi yfir nöfnum þeirra tveggja „valinkunnu“ sem mæltu með uppreistinni fyrir níðinginn.

Og að forsætisráðherra verði reiður þeirri tilhugsun að vera spurður nánar út í mál sem hann bar þó ábyrgð á sem innanríkisráðherra í afleysingum.

Það væri þó í hæsta máta eðlilegt að spyrja hann, því ýmsum spurningum er einmitt ósvarað.

Það virðist því miður eins og kerfiskallar og valdamenn hafi næstum eðlislæga hvöt til að skjóta skildi fyrir einhvern úr þeirra hópi.

Þessu þarf að breyta. Það er gott og blessað og sjálfsagt að gæta mannréttinda glæpamanna og jafnvel kynferðisbrotamanna. En samúð okkar og skilningur, réttlæti okkar og kærleikur á alltaf að vera með brotaþolum, ekki níðingum. Auðvitað hefur Bjarni þá samúð, en hann á þá ekki að þumbast við eins og kerfiskall.

 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Fyrrverandi sambýlismaður minn er grunaður um að nauðga piltum

Fréttir

„Gerði ráðherra enga kröfu um að aðstoðarmaðurinn færi ekki að vinna fyrir sömu kröfuhafa og hann var að kljást við?“

Fréttir

Houssin ekki fylgdarlaust ungmenni við komuna til landsins

Fréttir

72,5 prósent vilja að Sigríður Andersen segi af sér

Pistill

Ferðasirkusinn við Austurvöll og siðanefndin sem hvarf

Aðsent

Öskuhaugar sögunnar og forysta Eflingar

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Næsta bylting: Konur deila sögum af þvinguðu samþykki

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Fréttir

Kjartan ákærður fyrir gróf kynferðisbrot gegn dætrum sínum

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Íslenskir læknar styðja bann við umskurði barna - lýsa alvarlegum fylgikvillum

Viðtal

Fyrrverandi sambýlismaður minn er grunaður um að nauðga piltum