Pistill

Ekki drepa þig

Erum við að reyna að vera of töff? spyr Snæbjörn Ragnarsson. Þetta er spurningin sem læðist að honum í hvert skipti sem rokkari fellur fyrir eigin hendi, en í rokkheiminum er þekkt að þar hneigjast menn til þess að vilja vera töff, jafnvel ósnertanlegir. Sjálfur hefur hann þurft að leita sér aðstoðar og hvetur alla til þess að gera slíkt hið sama.

Ég tek það fram áður en lagt er af stað að ég er ekki menntaður á sviðum sálgæslu eða geðfræða. Það sem á eftir fer er hugleiðing frá mínu sjónarhorni en ekki heilagur sannleikur á nokkurn hátt. Þetta er þó það sem ég trúi að sé rétt, byggt á því sem ég hef séð, heyrt, gert og reynt.

Það sem hefur mótað mig einna lengst í lífinu er rokktónlist. Ég hef verið í hljómsveitum samfellt í meira en 25 ár og hlustað á rokk í meira en 30. Ég lifi og hrærist í þessum heimi, mér þykir vænt um hann og honum um mig. Ég er rokkari hvernig sem á það er litið og stoltur sem slíkur. Þessi risastóra fjölskylda sem við tilheyrum og nær til allra heimshorna er ótrúlega samheldin og sterk, jákvæðnin og hugarfarið frábært og allir mega vera með. Fólk fær að vera eins og það er og þarf ekki að uppfylla fegurðarstaðla eða skoðanakvóta. Ekki vera fáviti, þá færðu að vera með. Þetta er auðvitað alhæfing og innan um er misjafn sauður eins og gengur en heilt yfir er þetta nákvæmlega svona.

Fólkið sem við höldum kannski að sé fullkomið er það ekki og sumir gjalda fyrir það með lífi sínu.

Eitt loðir þó við rokkarakúltúrinn og það er töffaragangur. Við viljum vera töff. Við viljum vera hörð af okkur á einhvern hátt, við erum með yfirgengilegt hár, skegg, húðflúr og aðrar líkamsskreytingar, göngum í fötum sem ögra, tölum oft gróft mál, hlustum hátt, tölum hátt, syngjum hátt og þá gjarnan texta sem segja sögur af djöfulgangi, blóði, dimmum hugsunum, angist og baráttu. Okkur þykir þetta meira áhugavert en að syngja um að allt sé í himnalagi, eða að við séum óskaplega ástfangin. Við dýrkum ekki endilega það ljóta en togstreitan heillar okkur, barátta og dökkar hliðar málefnanna. Okkur finnst það töff. Vegna þess að við erum töff.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr litar töffaraskapurinn það hvernig við viljum láta horfa á okkur. Við horfum á annað fólk uppi á sviði og höfum skoðun á því, berum okkur sjálf saman við þau og veltum fyrir okkur hvernig sé að vera þetta fólk. Og enn lifir aðeins eftir af þessum heilaga ósnertanleika sem varð til fyrir mörgum áratugum og náði hápunkti með Bítlunum. Einhver fölsk glansmynd af manneskju sem er rétt eins og við hin, hefur sína kosti og galla og allt það, en við förum að sjá sem einhvers konar fullkomna persónu. Sem betur fer hefur bilið milli tónlistarfólks og áheyrenda minnkað mjög mikið og þar hafa samfélagsmiðlar spilað góða rullu. En aðdáunin er enn til staðar. Hún kann að vera nauðsynleg að einhverju marki til að þetta módel virki og hún þarf ekki að vera slæm. En þessar ranghugmyndir eru það. Við erum öll af sama holdinu og blóðinu, við þurfum það sama til að lifa lífinu og við viljum það sama. Við vitum þetta öll en við gleymum því oft. Sjáum jafnvel aðrar manneskjur í stjörnuljóma og finnst þetta fólk vera fullkomið. En svo gerist eitthvað.

Í hvert skipti sem rokkari fellur fyrir eigin hendi fæ ég sömu tilfinninguna. Hvort sem það var Kurt Cobain, Keith Emerson, Chris Cornell eða Chester Bennington sem við vissum öll hverjir voru, minna þekktir spámenn sem ég þekkti til en þið kannski ekki, nú eða jafnvel fólk sem stendur manni nærri þá er það sama spurningin sem læðist að mér. Erum við að reyna að vera of töff?

Eins og þessi upptalning hérna að ofan sýnir þá eru það víst oftar karlmenn sem kjósa þessa leið en konur. Í það minnsta kemur það mér þannig fyrir sjónir og það hræðir mig. Erum við sem stöndum upp á sviði og lifum þessa töffaraímynd að gefa þau skilaboð að við þurfum að vera á einhvern hátt fullkomin til að lifa af? Að okkur líði aldrei illa og þurfum aldrei að berjast við svarta hundhelvítið sem heggur skörð í hópinn með reglulegu millibili? Við Skálmaldar-menn höfum rætt svona mál opinberlega og förum aldrei leynt með staðreyndir. Svo ég tali nú fyrir sjálfan mig leitaði ég mér hjálpar á ákveðnu skeiði ævinnar og það sennilega bjargaði lífi mínu. Ég veit svo sem ekki hvort ég hefði framið sjálfsmorð því mín vanlíðan var ekki af þeim toga. En lífið batnaði til allra muna eftir á og ég er alltaf á varðbergi síðan. Ég þarf að passa mig. Vinir mínir í Dimmu töluðu mjög opinskátt um sína sálfræðimeðferð við gerð síðust plötu sinnar, hvernig þeir gátu með því móti unnið saman á mun áhrifaríkari hátt og hvernig þeim sjálfum leið betur eftir á. Og ég þekki mörg dæmi um nákvæmlega þetta, rokktónlistarfólk að deila reynslusögum og hvetja aðra til að leita sér hjálpar sé þess þörf. En kannski erum við enn ekki komin á réttan stað. Kannski höldum við að við eigum bara að vera fullkomin og ef eitthvað bjátar á skyldum við bíta á helvítis jaxlinn og passa okkur að vera töff.

Það er ekki töff að vera fullkominn. Það er töff að vilja láta sér líða betur. Og fólkið sem við höldum kannski að sé fullkomið er það ekki og sumir gjalda fyrir það með lífi sínu, bæði frægir og ófrægir.

Ég beini þessum orðum auðvitað til allra, en viðurkenni þó að ég er fyrst og fremst að tala til þeirra sem vilja vera töff. Ég er að tala við sjálfan mig og mína líka: Snæbjörn. Leitaðu þér hjálpar ef eitthvað er að. Það er ótrúlega stutt í betri líðan.

 

Ekki drepa þig. Vertu töff.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Launþegahreyfingin ekki með fulltrúa í nefndum um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfis

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Blogg

Víkingarnir

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Arður greiddur úr einkareknu meðferðarheimili barna sem vinnur fyrir sveitarfélögin

Fréttir

Sparkað úr hestamannahópi vegna gagnrýni á félagsleg undirboð

Fréttir

Umboðsmaður spyr hvort ráðuneytið ætli að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?