Pistill

Campus Reykjavík

Þórarinn Leifsson reynir að fóta sig á umræðunni.

Við feðgar vorum að bíða eftir húsfreyjunni að lokinni sundferð þegar við tókum eftir svartskeggjuðum náunga sem las upphátt úr snjallsímanum sínum fyrir tvær vinkonur sínar. Honum lá hátt rómur þannig að allir í anddyri sundlaugarinnar gátu heyrt í honum.

Þetta var auðvitað alveg frábært. Ekki nóg með að ég væri hlekkjaður á höndum og fótum við Facebook heima hjá mér, nú fékk ég líka frían upplestur úr sömu vandræðabók í sundi.

Þótt sá svartskeggjaði læsi snaggaralega var erfitt að festa sig nákvæmlega við um hvað hann var að fjalla fyrr en hann lauk máli sínu með því að æpa upp fyrir sig: „Hildur Lilliendahl! Hvað er aaaað!?“

Hildur þessi lætur sig víst ýmis samfélagsmál varða og er því, að mér skilst, nokkuð oft miðpunkturinn í rifrildum á íslenskum netmiðlum. Þetta er kona sem setur mjög sterkan svip á samtíma sinn og skiptir þá engu máli hvort menn eru sammála henni eða ekki.

Nafnið eitt og sér er í stuttu máli sagt einhvern veginn mjög tvö þúsund og sautján. Árið tvö þúsund og sjö hefði þessi svartskeggjaði metrósexjúal náungi sennilega verið sléttrakaður í Dressmann-jakkafötum að öskra á fartölvuna sína: „Hannes Smárason! Hvað er aaað!?“

Það var hinsvegar ekki alveg ljóst hvort stelpurnar sem hlustuðu átekta væru sammála þeim sem las. Kannski voru þær bara að bíða eftir því að hann kláraði að frussa testesteróni yfir snjallsímaskjáinn, síðan myndu þær fara heim til að skrifa honum opið bréf sem yrði birt á netmiðli sama kvöld. Í því bréfi myndu þær sýna honum mjög rækilega fram á að hann hefði rangt fyrir sér í tíu vel völdum málsgreinum.

Þetta litla atvik í anddyri sundlaugar í Reykjavík lýsti fangelsi samfélagsmiðla mjög vel og hvað við verðum öll einkennileg þegar við reiðumst manneskju úti í bæ af þeirri einföldu ástæðu að hún er á öndverðri skoðun. Og þá er ég ekki að setja sjálfan mig á háan hest. Ég hef átt mín hysteríuköst á Fésinu eins og hver annar Íslendingur. Ég hef móðgað fólk, klofið fermingarveislur og blokkað mann og annan bara af því að ég var í vondu skapi þann daginn.

Ég hef móðgað fólk, klofið fermingarveislur og blokkað mann og annan bara af því að ég var í vondu skapi þann daginn.

Við erum sítengd allan sólarhringinn og rífumst eins og hundur og köttur um allt og ekkert. Í raun og veru er Reykjavík kannski eins og amerískur háskólabær. Við erum svolítið inni í okkar eigin prívat bólu þar sem við sjúgum til okkar hræringar heimsins og lögum þær að veruleika okkar. Við viljum ekki hafa of mörg grá svæði. Annað hvort ertu með eða á móti, þú mátt helst ekki tvístíga.

Kannski er það vegna þess að birtan í Reykjavík er skarpari en annarsstaðar. Sólin skín beint á ská, rigningin er lóðrétt og þvær þannig burt öll þessi gráu svæði sem öllu jafna rugla hugann annars staðar á byggðu bóli. Við ættum í raun og veru að forðast það að dvelja langdvölum í útlöndum, því þá verða til þessi leiðinda gráu svæði eins og eftirfarandi dæmi sannar.

Fyrir um tíu árum síðan stóð ég margoft niðri í bæ í Reykjavík, á Austurvelli í rigningu og fyrir framan ameríska sendiráðið og mótmælti því að ísraelski herinn væri að murka lífið úr palestínskum smábörnum. Þetta voru voðalega þægileg mótmæli vegna þess að fólkið í kringum mig var af svipuðum meiði og ég sjálfur. Hundrað og eitt hipsterar úr háskólanum og ömmur sem höfðu verið í Fylkingunni í gamla daga. Svo þegar ég flutti til Berlínar um árið fór málið heldur að vandast.

Nú þýddi ekki lengur að ætla sér að mótmæla fyrir Palestínu lengur því tedrekkandi Allaballinn sem hafði staðið við hliðina á mér á austurvelli var horfinn og í staðinn mættur blóðþyrstur nýnasisti frá Reinickendorf og líbanskur gyðingahatari með Isis-tilhneigingar. Og þúsund grá svæði þar á milli. Mótmælin fengu ekki einu sinni að vera í friði því það var búið að stofna til annarra mótmæla á móti þeim. Þannig var auðveldlega hægt að lenda í því að standa allt í einu á milli fylkinganna eða rata ekki inn í rétta göngu.

Ekki nóg með það heldur bjuggu um þrjátíu þúsund Ísraelsmenn í Berlín sem ég var sífellt að rekast á í leikskólanum eða kaffisamætum. Flest þetta fólk var á móti sinni ríkisstjórn en ég gat auðvitað ekki vitað það fyrir víst svo ég fór að forðast umræðuefnið og var þar af leiðandi lentur á þessu mið-evrópska grásvæði sem var svolítið ólíkt mínum veruleika í Campus Reykjavík. Nei, andstaða mín við glæpi ísraelska hersins hefur ekkert breyst en ég er núna sannfærður um að allt þetta fólk sé jafn klikkað og hættulegt. Að Hammas séu alveg jafn hættulegir og ísraelski herinn, til dæmis. En ég segi þetta yfirleitt ekki upphátt við Íslendinga því þeir eiga það til að fuðra upp í bræði: „Þú verður að velja!!“

Og þannig er það með fleiri mál. Á móti vændi? Já, auðvitað? Og þó. Konur eiga að ráða yfir sínum eigin líkama. Ísland í Evrópusambandið? Auðvitað! Nei, og þó.

Og nú skolar mér á land aftur í Reykjavík yfir sumarið, þessi tvístígandi grásvæðishvalur sem ég er orðinn. Get ekki tekið afstöðu til neins. En bíðið bara! Það mun slípast af mér aftur. Eftir sex mánuði verð ég farinn að öskra af bræði til varnar fressköttum í Vesturbænum.

Og akkúrat núna er örugglega einhver staðar metrósexjúal gaur með svart skegg að öskra þennan pistil minn upphátt í anddyri sundlaugar í Reykjavík: „Tóti Leifs! Hvað er aaaað!“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Fyrrverandi sambýlismaður minn er grunaður um að nauðga piltum

Fréttir

„Gerði ráðherra enga kröfu um að aðstoðarmaðurinn færi ekki að vinna fyrir sömu kröfuhafa og hann var að kljást við?“

Fréttir

Houssin ekki fylgdarlaust ungmenni við komuna til landsins

Fréttir

72,5 prósent vilja að Sigríður Andersen segi af sér

Pistill

Ferðasirkusinn við Austurvöll og siðanefndin sem hvarf

Aðsent

Öskuhaugar sögunnar og forysta Eflingar

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Næsta bylting: Konur deila sögum af þvinguðu samþykki

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Fréttir

Kjartan ákærður fyrir gróf kynferðisbrot gegn dætrum sínum

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“

Fréttir

Íslenskir læknar styðja bann við umskurði barna - lýsa alvarlegum fylgikvillum

Viðtal

Fyrrverandi sambýlismaður minn er grunaður um að nauðga piltum