Flækjusagan

Viktoría er fertug í dag: Hver var hinn óvænti forfaðir hennar?

Viktoría krónprinsessa Svía er fertug í dag. Illugi Jökulsson segir söguna af því franskur soldát varð upphafsmaður nýrrar konungsættar í Svíaríki.

Í Svíþjóð er verið að halda upp á afmæli krónprinsessunnar Viktoríu í dag. Hún er sem sagt fertug. 

Prívat og persónulega finnst mér konungdæmi nútildags vera einhver fáránlegasta, skrýtnasta og raunar siðlausasta tímaskekkja sem um getur.

Að skynsamar þjóðir eins og Norðurlandaþjóðirnar skuli láta sér detta í hug að vera með kerfi þar sem fólk fæðist til - ja, kannski ekki valda lengur, en alla vega auðæfa og ákveðinna starfa, það er einfaldlega út í hött.

En látum það nú vera. 

Í þetta sinn ætlaði ég nú bara að rekja ættir hennar Viktoríu.

Uppruni ættar hennar, Bernadotte-ættarinnar, er nefnilega helstil óvenjulegur.

Árið 1751 dó út þáverandi konungsætt Svíþjóðar. 

Þá völdu sænskir aðalsmenn til konungs Adólf nokkurn Friðrik sem var af ættum danskra og þýskra hertoga í Slésvík-Holstein, en lengra aftur í ættum mátti reyndar finna Gústaf Adólf Svíakóng.

Adólf Friðrik var lítill bógur og varð raunar fyrir valinu einmitt þess vegna. Háaðalsmenn í Svíþjóð fengu að ráða því sem þeir vildu ráða í gegnum hann.

Hann var sagður vænsti karl en hæfileikalaus með öllu, nema hann var víst flinkur í að búa til neftóksdósir.

Og var hann svo um skeið hæstlaunaði neftóbaksdósagerðarmaðurinn í öllum heiminum. 

Þegar hann dó 1771 tók við ungur og frískur sonur hans að nafni Gústaf III við hásætinu.

Hann vildi ekki leyfa aðalsmönnum að ráða yfir sér og tók sér einræðisvöld.

Þeir létu sér það illa líka, enda hafði þokkalegt þingræði á þeirra tíma vísu verið farið að þróast á síðustu áratugum.

1792 var Gústaf III myrtur á grímuballi í Stokkhólmi, og var sú gjörð fræg.

Þótt ýmislegt persónulegt svekkelsi hafi átt þátt í morðinu stóðu aðals- og þingræðismenn þar í raun að baki. Þeir vildu snúa af braut konungseinræðis. 

Þá tók við sonur hans Gústav IV Adolf.

Raunar var sagt að Gústaf IV hefði ekki sonur konungsins, heldur hefði móðir hans - Soffía Magdalena dóttir Friðriks V Danakóngs - haldið framhjá kóngi sínum með finnskum aðalsmanni, sem getið hefði Gústaf IV. En hvað vitum við um það?

Það kom þá altént vel á vondan því Gústaf IV var ómögulegur kóngur og ein helsta bommerta hans var að missa Finnland úr höndum Svía til Rússa.

Gústaf IV var reyndar í alla staði svo hörmulegur í starfi að loks missti hann konungstignina líka.

Uppreisn var gerð gegn honum sumarið 1809. Fyrir henni stóðu helst herforingjar. Þeir settu á konungsstól Karl XIII, föðurbróður Gústafs IV. Hann var orðinn roskinn og átti ekki skilgetna syni á lífi svo ljóst var að þegar hann geispaði golunni myndi þurfa nýja ætt í hásætið.

Karl XIII þótti ágætur dansari og hafði áhuga á dulrænum eftir. Þar með eru hans eiginleikar upp taldir.

Hálfu ári eftir að hann settist á konungsstól fékk hann slag og var eftir það heilsuveill maður og hallaði sífellt undan fæti.

Aðalsmennirnir sem réðu sáu að þeir yrðu að hafa hraðan á að finna arftaka, því Karl gæti horfið yfir í dularheima hvenær sem væri.

Af einhverjum ástæðum völdu þeir danskan prins sem tók sér nafnið Karl Ágúst þegar hann var ættleiddur af Karli Svíakóngi. Ekki er vitað þessi prins hafði sér til ágætis, nema langafi hans var Gullinló greifi, launsonur eins Danakóngsins og er nokkuð um hann rætt í Íslandsklukkunni.

Karl Ágúst dó hins vegar af hjartaslagi aðeins hálfu ári eftir að hafa verið útnefndur krónprins Svía 1809 og aftur stóð Karl XIII upp arftakalaus og varð sífellt hrörlegri til heilsunnar. 

Og nú gerðust óvæntir hlutir.

Suðrí Frakklandi hafði verið gerð bylting 1789. Kóngur var aflagður og hálshöggvinn en brátt komst dátinn Napóleon til valda og lýsti sig að endingu keisara.

Meðal helstu undirforingja hans var Jean Bernadotte. Hann var af borgaralegum ættum suðrí Pýreneafjöllum, faðir hans var minniháttar lögmaður og Jean átti að feta í fótspor hans en þá braust byltingin út.

Bernadotte gekk í herinn og varð sem sagt einn af lautinöntum Napóleons.

Bernadotte þótti glæsilegur, sigursæll, litríkur og heilmikill karakter.

Hann var ævinlega tryggur Napóleon, meðan hann þjónaði í her hans, en persónulega gekk stundum nokkuð á milli þeirra. Napóleon vildi ekki að neinn skyggði á sig og stundum fannst honum hætta á að Bernadotte gerði það.

Désiréekærasta Napóleons, eiginkona Bernadottes, drottning Svía.

Hins vegar „arfleiddi“ Napóleon Bernadotte að kærustu sinni þegar hann varð leiður á henni, sú hét Désirée og var af auðugu kaupmannskyni. Þau Bernadotte og Désirée gengu í hjónaband og urðu ástir þeirra góðar og einn áttu þau son sem Oscar hét.

Bernadotte var að sjálfsögðu frægur maður sem einn af helstu foringjum Napóleons sem hafði bæði gert hann að marskálki og sæmt hann nafnbótinni prins.

Í evrópskum kóngafjölskyldum var Bernadotte samt litinn hornauga sem þjónn „valdaræningjans“ Napóleons. En í Svíþjóð hafði hann gott orð á sér af því hann hafði í einhverri styrjöldinni handsamað hóp sænskra stríðsfanga og þótti fara um þá mjúkum höndum.

Nú gerðist það, sem fyrr var grá greint, að Karl Ágúst krónprins Svía dó og kóngurinn Karl XIII átti bersýnilega ekki langt eftir ólifað. Og Svíar litu í kringum sig eftir nýjum kóngi og eins og venjulega hugsuðu þeir fyrst og fremst um þýska hertoga og prinsa. Eina skilyrðið var í raun og veru að viðkomandi hefði einhverja hernaðarreynslu því loft var lævi blandið í Evrópu og yrði svo áfram meðan Napóleon væri og héti.

Einn hirðmaður við sænsku hirðina steig þá mjög undarlegt og djarft skref. Hann hét Karl Otto Mörner og algjörlega að eigin frumkvæði, og án þess að nokkur viti í rauninni hvers vegna, þá birti hann opinberlega boð til Bernadottes marskálks Frakka um að koma og gerast krónprins yfir Svíum.

Þetta var náttúrlega algjörlega fáránleg hugmynd og þegar Mörner, sem hafði verið í útlöndum, kom loks aftur heim til Svíþjóðar var hann umsvifalaust handtekinn fyrir tiltækið - sem þótti gróf móðgun við Svíþjóð.

Að bjóða einhverjum óuppdregnum dáta úr Frakklandi konungskrúnuna - sem Mörner hafði heldur ekkert yfir að segja - ekki nema það þó!

Napóleon mun hafa farið að skellihlæja þegar hann heyrði þetta, og Bernadotte vissi líklega ekki hvaðan á sig stóð veðrið, svo óvænt var þetta „boð“. Í rauninni bjóst enginn við að staðið yrði við boðið, hvað þá að málið færi lengra.

En svo undarlega brá við að í Svíþjóð fór fylgi við hugmynd Mörners fljótt að vaxa.

Hvað var vitlausara við að fá sem kóng litríkan Frakka, þótt ekki væri fæddur aðalsmaður, heldur en enn einn af þessum endalausu daufgerðu þýsku prinsum?

Og í ágúst 1810 samþykkti sænska ríkisþingið að bjóða Bernadotte krónprinsatign.

Þeim manni, sem hafði átt að verða minniháttar lögfræðingur lengst syðst í Frakklandi, stóð nú til boða konungstign í norðlægu landi sem hann hafði lengst af ævinnar varla vitað að væri til.

Svona getur margt skrýtið gerst.

En þessi franski soldát er sem sagt langalangalangalangalangafi afmælisbarnsins Viktoríu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti

Greining

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Fréttir

Greiðsluþakið hækkað þrátt fyrir loforð um lækkun

Leiðari

Hvers virði eru völdin?

Fréttir

Óásættanlegt að ferðaþjónusta fatlaðra skerðist vegna landsleiksins

Mest lesið í vikunni

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti