Leiðari

Ríkið sem hatar frjálsa fjölmiðla

Davíð Oddsson er eini íslenski blaðamaðurinn sem nýtur ívilnunar íslenska ríkisins.

Davíð Oddsson Er eini íslenski blaðamaðurinn sem nýtur ívilnana ríkisins. Hér kynnir hann forsetaframboð sitt. Mynd: Heiða Helgadóttir

Eina framlag íslenska ríkisins til blaðamennsku síðustu árin hefur verið að brjóta ítrekað gegn tjáningarfrelsi blaðamanna og hækka verulega virðisaukaskatt á sölu dagblaða. Á sama tíma segja stjórnmálamennirnir, sem fara með ríkisvaldið, að fjölmiðlar séu lélegir og veikburða.

Norræn ríki styrkja blaðamennsku, en eini íslenski blaðamaðurinn sem nýtur sérstakrar ívilnunar ríkisins er Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, sem fær samkvæmt lögum sem hann stóð sjálfur að, undanþágu undan skerðingu á ríkulegum eftirlaunum sínum vegna þess að hann fæst við ritstörf. Þannig varð hann langlaunahæsti fjölmiðlamaður landsins, með fjórar milljónir króna í laun frá ríkinu og útgáfufélagi Morgunblaðsins, sem er í eigu stærstu hagsmunaaðila landsins.

Sterkir og gagnrýnir fjölmiðlar eru ein meginstoð lýðræðisríkja og lykilatriði fyrir farsæld samfélaga. Nánast öll íslensk fjölmiðlafyrirtæki glíma hins vegar við svo erfiðan rekstur í miðju góðæri að sum þeirra eru nálægt gjaldþroti á meðan önnur eru orðin gjaldþrota og enn önnur hafa notið niðurgreiðslna hagsmunaaðila.

Fjölmiðlar missa sjálfstæðið

Markviss veiking fjölmiðlanna hefur svipt þá sjálfstæði sínu, sem hefur áhrif til lengri og skemmri tíma á endurspeglun veruleikans í fjölmiðlum. Ritstjórnir eiga erfiðara með að standa í lappirnar gagnvart auglýsendum, þeir verða að selja meira af efninu sínu til auglýsenda, verða að treysta á inngreiðslur frá auðugum aðilum sem vilja í sumum tilfellum kaupa sér áhrif. Hæft fólk yfirgefur blaðamannastéttina vegna vinnuálags, launa og andverðleikavirkni fjölmiðlaumhverfis sem stýrt er af hagsmunaaðilum.

Ef þú ert blaðamaður, ætlarðu að gagnrýna þetta? Ætlarðu að setja út á yfirtökur á fjölmiðlum, pólitísk ítök í fjölmiðlum og ráðningar á ritstjórum sem eru í þágu þess að stuðla að hagsmunalega heppilegri fréttamennsku? Ætlarðu að eiga möguleika á vinnu og mannsæmandi tekjum?

Staðreyndin er sú að bestu möguleikar blaðamanna á góðum tekjum eru að vinna fyrir hagsmunaaðila, annaðhvort innan eða utan geirans.

Hagsmunasamtök blaðamanna eru farin að endurspegla að blaðamenn eru líka þeir sem starfa við að búa til heppilega endurspeglun á veruleikanum fyrir hagsmunaaðila sem greiða fyrir það. Varaformaður Blaðamannafélags Íslands er til dæmis upplýsingafulltrúi. Og sá sem stýrir nefnd ríkisins um hvernig bæta megi rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla er starfsmaður sama almannatengslafyrirtækis og hjálpar Sjálfstæðisflokknum að vinna kosningar.

Styrkir fyrir skáldskap

Gagnrýninni blaðamennsku er ætlað að tryggja að upplýsingar berist almenningi óháð valdhöfum, þannig að fólk geti tekið afstöðu á grundvelli almannahagsmuna. Hliðaráhrifin eru þau að stjórnmálamenn komast síður upp með að skara eld að sinni köku, ástunda óheiðarleg vinnubrögð, eða annað sem skaðar heildina.

Norska ríkið hefur til dæmis þá skýru afstöðu að styrkja þurfi einkarekna fjölmiðla verulega með margvíslegum hætti. Það veitir 4,7 milljarða króna í styrki til dreifingar á blöðum. Á Íslandi myndi þetta jafngilda 300 milljónum króna.

Hins vegar hefur íslenska ríkið farið þveröfuga leið. Á undanförnum árum hefur ríkið verið dæmt sex sinnum af Mannréttindadómstól Evrópu fyrir að brjóta á tjáningarfrelsi blaðamanna, með því að refsa þeim ítrekað fyrir fréttir þeirra. 

Aðrar starfsstéttir á Íslandi hafa ekki búið við það að ríkið dragi þær reglulega fyrir dóm og refsi þeim markvisst fyrir störf þeirra – fyrir orð – og dæmi þá til að greiða bætur, oft til manna sem brotið hafa gegn formlegum eða óformlegum viðmiðum samfélagsins; fjárglæframenn, strippstaðaeigendur og fleira.

Íslenska ríkið styrkir hins vegar markvisst fólk til að skrifa skáldskap, í gegnum listamannalaun. Ríkið borgar laun samtals 46 rithöfunda, sem að mestu skrifa um uppdiktaðan veruleika. Þannig er það. Ef þú stendur þig vel í að skrifa skáldskap færðu laun frá ríkinu. Ef þú skrifar gagnrýnar fréttir er líklegra að þú verðir dæmdur af ríkinu til greiðslu skaðabóta.

Valdið veikir fjölmiðla

Ekkert af þessu er tilviljun eða án þess að nokkur beri ábyrgð á því, eða vilji það.

Svo vill til að þeir sömu og hafa mest um það að segja hvernig íslenska ríkið kemur fram við frétta- og fjölmiðlafólk eru einmitt þeir sem blaðamenn eiga að veita aðhald.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gagnrýndi fjölmiðla í fyrrasumar og sagði þá vera „lítið annað en skel“ vegna fjárskorts. Tilefnið var að honum þótti gagnrýni á hann vera ómálefnaleg. Áður hefur fyrrverandi eigandi DV sagt frá því að Bjarni hafi hringt í hann og beint til hans að stöðva fréttaflutning af viðskiptum hans og fjölskyldu hans árið 2009. Bjarni viðurkenndi að samtalið hefði átt sér stað – hann hringdi í eiganda fjölmiðils til að gera athugasemdir við fréttaflutning ritstjórnarinnar – en hafnaði að hafa reynt að fyrirskipa stöðvun á umfjölluninni.

Reynsla ritstjórnar Stundarinnar er sú að það er undantekning ef aðstoðarmenn og upplýsingafulltrúar Bjarna Benediktssonar svara fyrirspurnum Stundarinnar, þótt aðstoðarmönnum hafi verið fjölgað til að auðvelda slíkt. 

Bjarni var eini flokksformaðurinn sem neitaði að svara spurningum Stundarinnar um stefnu flokks síns fyrir alþingiskosningarnar í fyrra. 

Davíð Oddsson var sömuleiðis eini forsetaframbjóðandinn sem sniðgekk kappræður Stundarinnar fyrir forsetakosningarnar í fyrra. 

Þegar ríkisstjórnin fór í auglýsingaherferð var Stundin eini fréttamiðillinn á prenti sem ríkisstjórnin keypti ekki auglýsingabirtingar af. Aðeins þrjú ráðuneyti af níu hafa viljað kaupa áskrift að Stundinni, sem er eitt af aðeins fjórum áskriftarfréttablöðum á landsvísu og fjallar stöðugt um þjóðfélags-, samfélags- og stjórnmál. Áskriftin kostar að hámarki 1.490 krónur á mánuði. 

Þrátt fyrir að Bjarni gagnrýni að fjölmiðlar séu veikir fjárhagslega, hækkaði hann virðisaukaskatt á dagblöð um 57 prósent, eða fjögur prósentustig, úr 7 í 11 prósent árið 2015, sem hluta af aðgerðapakka til að einfalda skattkerfið.

Og þótt næg tækifæri hafi gefist til aðgerða hafa þeir sem ráða löggjafarvaldi ríkisins ákveðið að halda við meiðyrðalögum, sem setja orð blaðamanna í sama lagabálk og landráð, nauðganir, líkamsárásir og annað ofbeldi. 

Blaðamönnum verði refsað fyrir dómi

Í íslenskum meiðyrðalögum er sérstaklega kveðið á um að ekki sé nægilegt að ummæli séu sönn, þau geti engu að síður verið refsiverð.

Það er samkvæmt vilja valdsins að viðhalda refsimöguleikanum gagnvart blaðamönnum, að halda því opnu að draga þá til ábyrgðar fyrir dómi vegna orða, meintra móðgana eða túlkunar.

En þeir sem fara með valdið forðast hins vegar sjálfir að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Dómsmálaráðherrann bar hvorki ábyrgð á því að hafa skipað dómara í Landsrétt, né kannast starfandi dómsmálaráðherra, sem nú er forsætisráðherra, við að hafa veitt kynferðisbrotamanni uppreist æru. Hins vegar er samkvæmt landslögum brot á hegningarlögum, lagabálknum sem snýr að ofbeldi, að segja frá því hvað kynferðisbrotamaðurinn gerði – ef hann hefur verið sæmdur óflekkuðu mannorði af ráðherranum og forsetanum, sem taka ekki ábyrgð á því, rétt eins og hann sjálfur tók aldrei ábyrgð á gjörðum sínum, játaði ekki og iðraðist ekki. 

„Hafi maður, er sætt hefur refsidómi fyrir einhvern verknað, síðar öðlast uppreist æru, er ekki heimilt að bera hann framar þeim sökum, og leysir sönnun því ekki undan refsingu, er svo stendur á.“

Þannig er í reynd ólöglegt, samkvæmt laganna hljóðan, að nefna að Robert Downey hafi brotið gegn ungum stúlkum. Enn hefur ekki reynt á þessa lagastoð fyrir dómi. Árni Johnsen alþingismaður, sem dæmdur var fyrir mútuþægni, fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, hótaði því að láta reyna á það, en lét ekki verða af því. 

Því er í raun réttarfarsleg óvissa um hvort blaðamenn megi segja frá afbrotum þeirra sem hafa með óútskýrðum hætti fengið uppreist æru og verið sæmdir óflekkuðu mannorði, eins og Robert Downey, sem aldrei iðraðist eða tók ábyrgð á gjörðum sínum.

Það vantar hins vegar ekki að til séu tillögur um breytta meiðyrðalöggjöf, sem endurspeglar betur raunveruleikann og kröfur lýðræðisríkja. Þeir sem fara með valdið hafa hins vegar ákveðið að forgangsraða öðruvísi.

Við erum ekki á Norðurlöndunum

Á heimsvísu er fjölmiðlafrelsi langmest á Norðurlöndunum. Samkvæmt lista Blaðamanna án landamæra raða Norðurlöndin sér í efstu sæti yfir frelsi fyrir blaðamenn í heiminum. Þau eru í topp fjórum sætunum, öll nema Ísland, sem er töluvert neðar.

Ísland hefur ratað niður í 19. sætið á undanförnum árum, en situr núna í því tíunda. Að hluta til virðist þetta byggja á misskilningi. „Þessi litla eyjaþjóð hefur metnaðarfulla drauma um að verða fyrirheitna landið fyrir rannsóknarblaðamennsku og veffréttamennsku. Í júní 2010 samþykkti þingið samhljóða að koma á alþjóðlegri stofnun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, sem hefur að markmiði að skapa hagfellt umhverfi fyrir verndun heimildarmanna, gagnsæi, fjölmiðlafrelsi og sjálfstæði“, segir í greiningu samtakanna á Íslandi. 

Í skýrslu samtakanna er viðurkennt að „þó svo að stjórnarskráin tryggi „algert“ tjáningarfrelsi hefur staða blaðamanna versnað frá 2012, vegna þess að súrnað hefur í samskiptum stjórnmálamanna og fjölmiðla“.

Staðreyndin er sú að flestar tillögur IMMI – alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi – eru ekki forgangsatriði hjá núverandi og fyrrverandi stjórnvöldum, þeirra sömu og hafa helst stillt fjölmiðlum upp sem andstæðingum sínum. Tillögur um bætta meiðyrðalöggjöf og fleiri umbætur hafa legið hjá menntamálaráðuneytinu frá árinu 2015, sem segir þær til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd, en þar hafa þær ekki verið teknar fyrir.

Og Fjölmiðlanefnd, sem var stofnuð til að standa vörð um sjálfstæði fjölmiðla og gagnsæi í starfsemi þeirra, lýsir því yfir að hún hafi ekki næg fjárframlög til að sinna lögbundnum skyldum sínum

Almannatenglar Sjálfstæðisflokksins

Tillögur starfshóps sem fyrrverandi menntamálaráðherra skipaði til að „jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði“ áttu að koma fram í maí, en hefur verið frestað vegna þess að ekki næst sátt um þær.

Þegar norska ríkið setti saman nefnd um að styrkja einkarekna fjölmiðla voru fjölmiðlamenn og forsvarsmenn fjölmiðlafyrirtækja áberandi í nefndinni. Enginn slíkur er í íslensku nefndinni. Formaður hennar er starfsmaður sama almannatengslafyrirtækis og hjálpar Sjálfstæðisflokknum að vinna kosningar. Meðal þeirra sem starfað hafa fyrir nefndina er Gísli Freyr Valdórsson, sem var dæmdur vegna lekamálsins svokallaða, þar sem dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins fór mikinn gegn fjölmiðlum. 

Fram að þessu hafa ráðandi stjórnmálamenn á Íslandi viljað halda fjölmiðlum veikum, nema þeim sem eru niðurgreiddir af ráðandi hagsmunaaðilum, þeim sömu og styðja helst ráðandi flokka.

Því niðurstaðan hefur lengi legið fyrir. Oft má satt kyrrt liggja. Og þögn er sama og samþykki. Við eigum að þegja og vera þæg. Nema fyrrverandi forsætisráðherra, seðlabankastjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins sem útgerðarfyrirtæki og ríkið niðurgreiða til að breiða út pólitískan boðskap Sjálfstæðisflokksins og útmála pólitíska andstæðinga hans, „finna þá í fjöru“ og svo framvegis.

Rekstur Stundarinnar viðhelst með styrkjum og áskriftum almennings. Hér er hægt að styrkja Stundina og hér má kaupa áskrift.

--

Undirritaður hefur starfað í blaðamennsku frá árinu 1998 og samfellt frá 2003, verið 13 sinnum færður fyrir dóm vegna orða og tvisvar verið dæmdur fyrir meiðyrði á grundvelli meiningarmunar á skilgreiningum orða. Annars vegar var það orðið „lögreglurannsókn“, sem dómstóll taldi að væri meiðyrði að nota vegna þess að um hefði verið að ræða skoðun lögreglu en ekki rannsókn, þótt maðurinn hefði síðar verið dæmdur í kjölfar rannsóknarinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að um hefði verið að ræða mannréttindabrot af hálfu ríkisins, brot gegn tjáningarfrelsi. Í hitt skiptið var það orðið „mansal“, þar sem alþjóðlega viðurkennd skilgreining Sameinuðu þjóðanna, sem lögð var til grundvallar umfjölluninni, var ekki tekin gild fyrir dómi, og vísað í einfalda og eldri útgáfu orðsins í íslenskri orðabók. Þrjú dómsmál eru þessa stundina rekin gegn fyrrverandi og núverandi blaðamönnum og ritstjórum Stundarinnar fyrir héraðsdómi. Stefnendurnir eru yfirmaður, sem lærlingar kvörtuðu skriflega undan kynferðisáreitni vegna, skólastjóri, sem kennarar sendu yfirlýsingu gegn vegna ofríkis og svo maður, sem lögreglan leitaði lengi vegna upplýsinga um hvarf Íslendings í Paragvæ.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti

Greining

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Fréttir

Greiðsluþakið hækkað þrátt fyrir loforð um lækkun

Leiðari

Hvers virði eru völdin?

Fréttir

Óásættanlegt að ferðaþjónusta fatlaðra skerðist vegna landsleiksins

Mest lesið í vikunni

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti