Dagbók frá Kaupmannahöfn

Síðasta bréfið frá pabba. Dagbók frá Kaupmannahöfn III.

Illugi Jökulsson hjólaði fram á götu sem hann kannaðist við.

Jens Juels Gade Svona leit hún út rétt áðan.

Áðan var ég að hjóla meðfram Svartstíflutjörn hér í Kaupmannahöfn. Við austurströnd tjarnarinnar eru margar litlar götur, því líkastar sem þær væru í friðsælu smáþorpi úti á landi. 

Og þó eru þær alveg inní miðri stórborg.

Húsin eru lítil og svolítið sveitaleg, þarna er mikill og huggulegur gróður og algjör kyrrð ríkir í götunum. Fólk léttklætt í sólbaði, flekkóttir skjórar vappa um, börn nýfarin inn að borða frá leikföngum.

Og þá sá ég að eitt götunafnið var kunnuglegt.

Jens Juels Gade.

Jú, þetta heimilisfang - með götunúmeri sem ég er búinn að gleyma - stóð aftan á síðasta bréfinu sem ég fékk frá pabba.

Hann var alltaf mikið í burtu, í ýmsum skilningi, og bjó í útlöndum síðustu árin, síðast í Kaupmannahöfn, síðast við Jens Juels Gade.

Og ég sá hann sjaldan þessi ár en við skiptumst stöku sinnum á bréfum.

Ég man að í síðasta bréfinu sem mér barst frá Jens Juels Gade var hann að bera í bætifláka fyrir Halldór Laxness.

Ég var ungur og hrokafullur og hafði verið að gera eitthvað lítið úr því að Halldór skyldi á efri árum una sér við að skrifa meinlausar æviminningar í stað þess að skrifa herskáa pólitík eða miklar skáldsögur um ástina, lífið og dauðann.

Æ, sagði pabbi, eða eitthvað á þá leið: Halldór er búinn að skila sínu. Og ætli við höfum ekki öll einhverja þörf fyrir að dútla svolítið í túninu heima?

Ég er ekki frá því að þetta sé líklega þriðja nytsamasta lexían sem pabbi kenndi mér um ævina.

Svo kom hann heim frá Jens Juels Gade því Þjóðleikhúsið var að fara að sýna eftir hann leikrit: Sonur skóarans og dóttir bakarans.

Ég hitti hann síðast á kaffihúsinu Mokka að kvöldi 13. apríl 1978.

Kvöldið sem ég varð átján ára.

Ég þurfti reyndar að minna hann á það, en það gerði ég bara til þess að sýna honum að ég kippti mér ekki lengur upp við svoleiðis.

Hann roðnaði, tuldraði eitthvað um afmælisgjöf en ég brosti bara umburðarlyndur.

Mörgu að sinna, lítt'á ... já, ég veit það núna.

Haustið eftir hætti ég í menntaskólanum. Eitthvað rót á manni þá. Ég flutti til Kaupmannahafnar og bjó þar hálfan vetur. Ég fór ekki þangað út af pabba, heldur bara af því það lá einhvern veginn beint við, og ég leitaði ekki uppi Jens Juels Gade.

Hef aldrei komið þangað fyrr en núna. Stundum hafa komið til mín kátir karlar og viljað segja mér frá búskapnum á Jens Juels Gade en ég nenni ekki lengur að hlusta á þær sögur.

Aftur á móti kynntist ég þennan hálfa vetur í Kaupmannahöfn í fyrsta sinn í alvöru Unni stærstu systur minni. Hún var líka komin til borgarinnar og sagði mér með stjörnur í augum frá skrýtnum draumi um að sigla kringum heiminn á skútu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Næsta bylting: Konur deila sögum af þvinguðu samþykki

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Fréttir

Kjartan ákærður fyrir gróf kynferðisbrot gegn dætrum sínum

Reynsla

Þegar lúxemborgskt skúffufélag eignaðist heimilin okkar

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Fréttir

„Fáheyrt og stórundarlegt“ að skýrslubeiðni sé stöðvuð

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Næsta bylting: Konur deila sögum af þvinguðu samþykki

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“