Fréttir

Yfirlýsing SÁÁ: Fréttaflutningur „til þess fallinn að gera stöðu sjúklinga á Vogi tortryggilega“

Í yfirlýsingu frá Arnþóri Jónssyni, formanni SÁÁ, er varað við fréttaflutningi af reynslu kvenna sem hafa verið þolendur kynferðisofbeldis og yfirgefa meðferð í kjölfar kynferðislegrar orðræðu, vegna þeirra áhrifa sem „slíkar dylgjur geta valdið“.

Fréttaflutningur Stundarinnar er „til þess fallinn að gera stöðu sjúklinga á Vogi tortryggilega,“ samkvæmt yfirlýsingu frá Arnþóri Jónssyni, formanni SÁÁ, sem send var á Stundina í kjölfar fréttar um að kona hafi yfirgefið meðferðina vegna kynferðislegs tals tveggja unglingspilta og þeirra viðhorfa sem hún mætti í máli þeirra gagnvart konum.

Orð sem minntu á sára reynslu

Konan yfirgaf meðferðina snögglega eftir að hafa hlýtt á tal unglingspiltanna, vegna þess að orð þeirra rifjuðu upp fyrir henni sárar minningar af því hvernig hún var sjálf dæmd fyrir afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku, slæma sjálfsvirðingu og markaleysi sem fólst í því að hún gat ekki sagt nei við nokkurn mann og var fyrir vikið dæmd sem drusla. Þegar hún heyrði strákana segja sögur af stelpu sem átti að hafa gengið á milli manna og klikkja svo út með því „að hún vildi þetta“, komst konan í slíkt uppnám að henni fannst hún vera að horfa á strákana úr gamla þorpinu sínu. Titrandi af reiði lét hún starfsfólkið vita og yfirgaf svo meðferðina án þess að vita hvort strákarnir færu aðeins með sögusagnir eða hvernig yrði tekið á málum, aðeins fullviss um að slíkt yrði gert með viðeigandi hætti, eins og fram kemur í frétt Stundarinnar. „Hvort um var að ræða sanna sögu eða hvort þeim finnst bara gaman að tala svona um konur þá kom þetta mér úr meðferð. Ég er alin upp við svona tal um konur og get ekki hlustað á það í dag.“

Hún ítrekaði að það hafi verið talsmátinn og viðhorfin sem hún mætti, á þessum tímapuntki, þegar hún var brotin fyrir og búin að fella allar varnir í von um aðstoð, sem komu henni úr meðferð. „Ég gat ekki hlustað á þessa stráka tala svona. Þá fóru þessar minningar að sækja aftur á mig,“ sagði hún. „Ef eitthvað hefði verið til þegar ég var ung sem hét Drusluganga hefði það getað breytt miklu. Ég hugsa að við séum ansi margar fullorðnar konur sem erum að takast á við þetta. Ég samgleðst ungum stúlkum svo að fá að njóta mannréttinda sem voru ekki til staðar í sjóarasamfélögum úti á landi á árum áður.“

Fóru yfir eftirlitsvélar

Í yfirlýsingu Arnþórs kemur fram að stúlkan sem strákarnir töluðu um var ekki í meðferðinni. „Skoðun eftirlitsvéla staðfesti að ekkert tilefni var til að efast um það.“

Unglingadeildin er eina deildin á Vogi sem er ekki með kynjaskiptri svefnálmu, en sérstök vakt er á deildinni. Þar eru starfsmenn allan sólarhringinn og eftirlitsvélar fylgjast með. „Ef grunur um ósæmilega hegðun, áreiti, ofbeldi, stuld, eða annað kemur upp, er það tekið alvarlega hjá starfsfólki hjá SÁÁ. Samtöl við hlutaðeigendi sjúklinga, skoðun eftirlitsmyndavéla, samráð við starfsfólk á vettvangi, allt hjálpar til við að skýra málin.

Gripið er til aðgerða eftir því sem við á og ekkert hik er á því að skoða málin, veita tiltal eða jafnvel vísa fólki úr meðferð ef ástæða er til. Öryggi og nærgætni við sjúklinga er í öndvegi. Misskilningur, tortryggni og ójafnvægi á þeim viðkvæma tíma sem afeitrun er, getur verið tilefni til að setja fólk út af standinum,“ segir í yfirlýsingunni.

„Ófaglegt og ef til vill siðlaust“

Þá undirstrikar Arnþór að ef sjúklingi verði „brugðið eða miður sín, hvað sem veldur, þá er mikilvægt að veita samtal, hlusta og leita leiða til að bæta líðan og ná jafnvægi. Það er það sem starfsfólkið á Vogi vinnur við að gera alla daga. Það tekst þó ekki alltaf og ýmsir fara heim ótímabært og jafnvel í uppnámi þrátt fyrir vinnu starfsfólks. En boð um aðstoð er alltaf fremst.“

Umrædd frétt sé til þess fallin að „gera stöðu sjúklinga á Vogi tortryggilega,“ upplifun og líðan einstaklings sé mikilvæg og sönn hverjum og einum, en „að ýja að óheilindum eða andvaraleysi starfsfólks heillrar stofnunar er ófaglegt og ef til vill siðlaust af blaðamanni ef hugsað er til heildarinnar og áhrifa sem slíkar dylgjur geta valdið.“

Þar nálgast hann umræðuna með svipuðum hætti og Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs, gerði þegar hún varaði við umfjöllun um þessi mál. „Þetta skemmir alveg rosalega fyrir örugglega einhverjum konum sem þyrftu að koma að fá aðstoð, en veigra sér við það af því að þær halda að þetta sé allt öðruvísi en þetta er. Það þarf enginn að verða fyrir einhverju.“

Sameiginleg reynsla kvenna með fíknisjúkdóma

Konan ákvað að greina frá þessari reynslu vegna þess að hún telur varhugavert að kynin séu saman í meðferð, þegar rannsóknir sýna að flestar konur með fíknivanda hafa orðið fyrir ofbeldi og eru því viðkvæmar fyrir. Sjálf lenti hún í því í fyrri meðferð, fyrir rúmum tuttugu árum síðan, að mæta geranda sínum þar.

Fleiri konur hafa stigið fram að undanförnu og gagnrýnt það fyrirkomulag að kynin séu saman þegar þau eru svo veik fyrir. Ekki síst í ljósi þess að „ofbeldi er nokkuð sameiginleg reynsla kvenna sem leita á Vog,“ eins og fram kom í skýrslu um ofbeldi í nánum samböndum sem var unnin fyrir félags- og tryggingaráðuneytið. Talið var að minnsta kosti 70–80% þeirra kvenna sem stríddu við fíkn hefðu verið beittar einhverju ofbeldi.

Í meistararitgerð eftir Ara Matthíason, sem skráður er í stjórn SÁÁ, kom síðan fram að 32 prósent þeirra sem komu á Vogi árið 2008 höfðu hlotið dóm og 14 prósent þeirra höfðu framið afbrot á síðustu 30 dögum. Sama ár höfðu þrír af þeim sem leituðu sér aðstoðar á Vogi verið ákærðir fyrir morð og tíu fyrir nauðgun.

Forsvarsmenn SÁÁ hafa hins vegar sagt umræður um þetta byggja á fordómum. „Hérna á sjúkrahúsinu er ekki samansafn af vondum mönnum og einhverjum fórnarlömbum. Það er ekki þannig.“ sagði Valgerður í samtali við Stundina í júní.  „En fordómarnir  gagnvart þessum sjúkdómi okkar sem við erum að fást við koma að hluta til fram í einhverju svona viðhorfi. Þegar ég hugsa: Hvað er það sem menn eru að tala um? Hvað er það sem fólk hefur áhyggjur af? Þá dettur mér helst í hug að það sé þetta. Að fólk haldi að hér séu vondir menn í meðferð. Og þetta er mjög fordómafullt. Vegna þess að þeir sem eru í meðferð hér hjá okkur eru bara venjulegt fólk og á meðal venjulegs fólks er alls konar fólk.“

Fleiri konur gagnrýna fyrirkomulagið

Mæðgurnar Kolbrá Bragadóttir og Frigg Ragnarsdóttir greindu frá reynslu sinni í Stundinni í júní. Kolbrá sat fund Þórarins með vinkonu sinni sem óskaði eftir skýringum á því hvers vegna henni var vikið úr meðferð, skömmu eftir að hún hafði kvartað undan áreitni. Hún fékk ekki aðrar skýringar en þær að meðferðin hentaði henni og að það hefði verið mat Þórarins sem hvorki hitti konuna né ræddi við hana við þá ákvörðunartöku. Þrátt fyrir greiningu á lífshættulegum sjúkdómi var konan send heim án þess að henni væri vísað í önnur úrræði. Frigg dóttir Kolbrár greindi svo frá því að hún hefði farið þrisvar sinnum á Vog. Í fyrsta sinn flúði hún af Vogi vegna áreitis af hálfu fullorðins karlmanns sem var margdæmdur og ógnandi.  Í annan stað þurfti hún að þola kynferðislegt tal og áreitni af hálfu ungs manns sem hélt áfram að áreita hana eftir að meðferðinni lauk.

Thelma Berglind Guðnadóttir hefur einnig sagt sögu sína. Hún kvartaði undan áreitni á Vogi þegar ekkert gerðist, kom annar sjúklingur henni til varnar. Hann reyndist líka vera ofbeldismaður, sem réðst að henni í dagsleyfinu. Í öðru máli var maður dæmdur fyrir að hafa ráðist alvarlega á unga stúlku sem hann kynntist í meðferð.

Þá greindi sautján ára gömul stúlka, Jóna María Gerðudóttur, frá því að hún hefði orðið barnshafandi á unglingadeildinni á Vogi þegar hún fór í afeitrun eftir mikla og langvarandi fíkniefnaneyslu.

Óljóst hvernig áreitni er metin 

Í úttekt á gæðum og öryggi þjónustu í meðferð kvenna og barna gerði Landlæknisembættið margvíslegar athugasemdir við meðferðarstarf SÁÁ. Valgerður, forstjóri sjúkrahússins, vísaði fyrirspurn Stundarinnar um hvernig brugðist hefði verið við niðurstöðum úttektarinnar hins vegar aftur á Landlæknisembættið. „Það er sjálfsagt að inna þá eftir því,“ sagði hún í samtali við Stundina.

Valgerður var afgerandi í afstöðu sinni þegar hún sagði: „Áreiti hvers konar, sérstaklega sem truflar aðra sjúklinga, er ekki liðið inni á meðferðarstöðum SÁÁ.“ Þrátt fyrir það greindi hún jafnframt frá því að kynferðisleg áreitni væri ekki skráð sérstaklega, aðeins væri skráð þegar fólki væri veitt tiltal. „Það er ekkert verið að telja þau tilvik sérstaklega, hvað það eru margir sem missa sig eða lemja símanum í eða hvað. Það er ekki sorterað.“ Hún benti jafnframt á að áreitni gæti gengið í báðar áttir, verið af hálfu karla og kvenna, og sagði að einn kostur þess að kynin væru saman í afeitrun væri að þá gæti fólk æft sig í að setja mörk. „Lífið er karlar og konur, samfélagið. Það hefur ókosti að geta ekki æft sig í því að setja mörk, til dæmis, í ákveðinni vernd. Ef maður er í vandræðum með að setja mörk í kringum sig. Þá er gott tækifæri til þess ef maður er í meðferð.“

Við vinnslu úttektar sem birt var á Stundinni í júní var einnig rætt við Þórarinn Tyrfingsson um hvort rétt væri að kynjaskipta meðferðinni í ljósi alls þessa. Svar hans var á þá leið að þessari spurningu hefði verið margoft svarað, meðferð SÁÁ væri kynjaskipt að hluta og það væri varla krafa um að kynjaskipta samfélaginu. 

Hann neitaði síðan að veita upplýsingar um tíðni kvartana vegna áreitni í meðferð eða hvaða verklagsreglur væru til staðar. „Ég hef nú ekki tekið það saman. Ég þyrfti að taka það saman. Kannski þyrfti ég að athuga það,“ sagði Þórarinn, en það væri ekki „fyrr en eftir einhvern tíma,“ sem þessar upplýsingar gætu legið fyrir.

Í máli hans og Valgerðar hefur komið fram að framkoma sjúklinga fer stundum yfir eðlileg mörk og vegna þess séu ýmis siðferðisleg mörk sem þurfi að gæta að í meðferðarstarfinu. Þórarinn sagði hins vegar óljóst hvernig ætti að skilgreina kynferðislega áreitni. „Eins og þú getur ímyndað þér þá eru samskiptin á Vogi á milli karla og kvenna með ýmsum hætti og mjög margbreytileg. Þannig að hvað við eigum að telja til áreitis getur líka verið álitamál.“

 

Uppfært: Ari Matthíasson hafði samband við Stundina og greindi frá því að hann hefði sagt sig frá trúnaðarstörfum fyrir SÁÁ haustið 2016 og sæti þar af leiðandi ekki lengur í stjórninni. Hann er þó enn á lista yfir stjórnamenn SÁÁ á heimasíðu samtakanna, þar sem fram kemur að hann hafi verið kosinn í stjórn árið 2015 til þriggja ára og sitji í stjórn starfsárið 2017-2018. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Launþegahreyfingin ekki með fulltrúa í nefndum um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfis

Blogg

Hættum að bregðast Hauki

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Umboðsmaður spyr hvort ráðuneytið ætli að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?

Úttekt

Einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu: 20 ára saga í máli og myndum