Flækjusagan

„Ég hefði getað kennt Al Capone ýmislegt“

Illugi Jökulsson skrifar um Smedley Butler, hershöfðingja í landgönguliði Bandaríkjanna, sem leit á sig sem „handrukkara fyrir Wall Street“ og fékk tilboð um að verða einræðisherra í Ameríku.

Hitler og félagar Benito Mussolini, Smedley Butler og Adolf Hitler, ásamt föruneyti.

Í Morgunblaðinu 30. júní 1937 stendur:

„Hinir þrír voldugu einræðisherrar fascismans, A.Hitler frá Þýzkalandi, B.Mussolini frá Ítalíu og S.Butler frá Lýðveldisríkjum Ameríku (áður Bandaríkjum Ameríku), hittust á fundi í Berlín í gær. Þeir fjelagar kváðu á um mun nánari samvinnu fascistaríkja sinna á næstunni, og hernaðarbandalag sem stefnt yrði bæði gegn „úrkynjuðum nýlenduríkjum Vestur-Evrópu“ og „blóði drifnu commúnistaríki Sovíjetsins“. Smedley Butler, Foringi Lýðveldisríkjanna, vildi ekki svara spurningum um fangabúðir þær sem búið er að koma upp fyrir andstæðinga stjórnar hans í nágrenni höfuðborgarinnar Enterprise (áður Washington). Margir leiðtogar negra eru sagðir hafa verið fangelsaðir þar í síðasta mánuði. Butler sagðist vera kominn til Evrópu til að læra af „hinum mikilfenglegu leiðtogum Hitler og Mussolini“. – „Við getum margt lært af þeim hvernig upphefja má þjóðarheildina, en sporna gegn spillingu, sundrung og misklíðaröflum,“ sagði Butler Foringi við blaðamenn. Ekki vildi hann orðlengja um líðan F.D.Roosevelts fyrrverandi forseta sem enn er sagður alvarlega veikur og hefur ekki sést opinberlega í þrjú ár.“

Nei annars, þessi frétt birtist raunar ekki í Morgunblaðinu fyrir réttum áttatíu árum. Þann dag snerust helstu erlendu fréttirnar í Mogganum eins og víðar um borgarastríðið á Spáni þar sem fasistaleiðtoginn Franco var í stórsókn, raunar með dyggum stuðningi Hitlers og Mussolinis, en ekki þarf að orðlengja að enginn „Foringi“ var kominn til valda í Bandaríkjunum og hvorki búið að skipta um nafn á ríkinu né höfuðborginni.

Bandaríkin hafa ævinlega verið nokkuð óþægur ljár í þúfu þeirrar kenningar að fasismi og skyldar einræðistilhneigingar spretti fyrst og fremst þar upp þar sem við mikla erfiðleika og innanlandsróstur er að eiga. Á Ítalíu reis Mussolini upp í kjölfar upplausnar eftir fyrri heimsstyrjöld, Hitler náði völdum í Þýskalandi nokkru síðar eftir bæði samfélagskreppu og efnahagsöngþveiti, og þeir kumpánar Lenín og síðar Stalín hrifsuðu völdin í Rússlandi eftir niðurbrot í heimsstyrjöldinni og svo borgarastríð. Við þessar aðstæður – segja menn gjarnan – er ekki nema eðlilegt að fólk líti vonaraugum til „sterka mannsins“ sem muni leiða þjóð sína styrkri hönd út úr erfiðleikunum, og skítt með það þótt eitthvað af mannréttindum fari þá forgörðum á leiðinni.

En saga Bandaríkjanna eftir kreppuna miklu sem hófst 1929 mælir gegn þessu. Efnahagserfiðleikarnir voru geypilegir, þjóðfélagið fór beinlínis á hvolf og undirstaða samfélagsins – sá kapítalismi sem lengi hafði verið drifskaft allra hluta þar vestra – virtist nú mölbrotin. Samkvæmt hefðbundnum vísindum um uppgang fasískra hreyfinga hefði jarðvegurinn átt að vera mjög frjór í Bandaríkjunum. En þar spratt ekki fram neinn leiðtogi sem boðaði billegar lausnir ef hann fengi öll völd og heimild til að snúast gegn „óvininum innra“ sem alltaf er nauðsynlegur fasistum til að efla sín alræðisvöld. Hitler hafði gyðinga, Stalín hafði kúlakka og síðan eiginlega hvaða hóp sem honum sýndist. Bandarískur fasistaleiðtogi hefði sem hægast getað búið til óvin úr svertingjunum og kennt þeim um allt sem aflaga fór.

Auðvitað hefði verið fráleitt að kenna svertingjum um hrun kapítalismans í Bandaríkjunum, þeir réðu jú nákvæmlega engu um framgang hans um þetta leyti.

En eftir á að hyggja er líka aldeilis fáránlegt að Hitler og nótum hans skyldi takast að kenna gyðingum um vandræði Þjóðverja á millistríðsárunum. Gyðingar voru ekki nema örlítill hluti þjóðarinnar og vildu allt til vinna að vera góðir Þjóðverjar, en þetta tókst nasistum nú samt. Hefði því ekki dugmiklum fasistaleiðtoga í Bandaríkjunum alveg eins getað lánast að kenna svertingjum um kreppuna miklu?

En ekkert slíkt gerðist. Margt má ljótt segja um Bandaríkin en á fjórða áratugnum stóðst lýðræðið þar í landi með miklum glans það próf sem fyrir það var lagt. Þrátt fyrir að samfélagið færi nærri á hvolf þegar kreppan beit sem fastast, þá snerust öll hjól hins pólitíska kerfis óáreitt. Í stað þess að falla fyrir sölumönnum ótta og ofstopa, eins og kjósendur Hitlers gerðu, þá kusu Bandaríkjamenn í miðri kreppunni forseta sem sagði þeim að það væri ekkert að óttast nema óttann sjálfan. Það var Franklin Roosevelt.

Þar reis ekki upp neinn Hitler, enginn Stalín, ekki einu sinni Mussolini eða Franco. Og enginn Smedley Butler tók sér foringjatign og skákaði Roosevelt forseta til hliðar. Fréttin úr Mogganum hér að ofan er tómur tilbúningur.

Eða hvað? Var eitthvert frækorn fyrir henni? Var kannski styttra í fasistastjórn í Bandaríkjunum en menn ímynda sér? Og af hverju nefndi ég hinn ímyndaða „Foringja“ Bandaríkjanna (eða „Lýðveldisríkjanna“) Smedley Butler? Maðurinn sem ég bað umbrotsmenn Stundarinnar að klippa inn á myndina af Hitler og Mussolini, varla var hann til í raun og veru?

Jú, reyndar. Smedley Darlington Butler var sannarlega maður af holdi og blóði. Hann var hershöfðingi í bandaríska landgönguliðinu, gífurlega vinsæll maður meðal almennings, og honum var raunar boðið að verða einræðisherra í Bandaríkjunum. Setja átti af Roosevelt forseta og koma þar á sannkallaðri fasistastjórn. Spurningin er bara hversu raunhæft boðið til Butlers var? Var einhver alvara í því?

Og hvernig hefði getað farið ef hann hefði sagt já?  

Butler fæddist 1881 í Pennsylvaníu og var af gamalgrónu yfirstéttarfólki. Margir af forfeðrum hans og -mæðrum höfðu verið í hópi þeirra heittrúuðu kvekara sem leituðu hælis í Bandaríkjunum undan ofsóknum á Bretlandi. Þetta fólk komst svo til áhrifa og auðgaðist. Faðir Butlers og móðurafi voru báðir þingmenn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Faðir hans var raunar einn af áhrifamestum þingmönnunum á þriðja áratugnum og hélt lengi verndarhendi yfir hinum róstusama syni sínum.

Butler gekk í landgöngulið hersins ungur að árum og þjónaði fyrst á Filippseyjum, sem Bandaríkjamenn höfðu hertekið frá Spánverjum laust fyrir aldamótin 1900, og síðar í Kína þar sem vesturveldin höfðu sameinast um að bæla niður svonefnda Boxarauppreisn. Tilgangur hennar var að kasta af Kínverjum oki erlendra yfirráða en útlensku stórveldin brugðust ókvæða við og brutu hana á bak aftur, svo hálfgerð leppstjórn þeirra hélt völdum.

Snemma kom í ljós að Butler bjó yfir einstöku hugrekki og bjargaði iðulega lífi manna sinna með yfirvegun og dirfsku á vígvellinum.

Ég hjálpaði til við að nauðga hátt í tíu Mið-Ameríkuríkjum fyrir hönd Wall Street.

Á fyrstu árum 20. aldar fetaði hann örugglega upp metorðastiga landgönguliðsins og barðist víða í ríkjum Mið-Ameríku þar sem bandarískar hersveitir voru kallaðar til að verja hagsmuni bandarískra fyrirtækja og bandamanna Bandaríkjanna í yfirstéttum landanna gegn ýmsum alþýðu- og uppreisnarhreyfingum. Þessar „aðgerðir“ hafa yfirleitt gengið undir nafninu bananastríðin og svo lymskulega var að þeim staðið að bæði bandarískum almenningi og jafnvel hersveitunum sjálfum fannst hér unnið réttlátt verk í þágu bandarískra hagsmuna, en aldrei var hugsað út í hlutskipti bláfátækrar alþýðu í rómönsku löndunum.

Árið 1908 var Butler kominn aftur til Filippseyja og fékk þá taugaáfall en jafnaði sig á nokkrum mánuðum og var brátt kominn aftur á fullt í Mið-Ameríku. Heiðursorðan heitir eitt helsta heiðursmerki sem bandarískum hermönnum getur hlotnast og árið 1914 fékk Butler heiðursorðu fyrir hugrekki í bardögum í Veracruz í Mexíkó og ári seinna aðra fyrir framgöngu á Haíti. Þangað hafði Wilson forseti sent hersveitir til að bæla niður uppreisn er brotist hafði út gegn forseta einum á Haítí sem bandarískum fyrirtækjum var þóknanlegur.

Orðspor Butlers meðal bandarísks almennings var orðið mikið enda efuðust fáir Bandaríkjamenn um framferði bandarískra stjórnvalda í „bakgarði sínum“ eins og Bandaríkjamenn kölluðu gjarnan rómönsku Ameríku. Og enginn kippti sér upp við það þótt harkalega væri fram gengið. Síðar sagði Butler að hann og menn hans hefðu elt uppi hermenn andstæðinganna á Haítí „eins og svín“ og þurfti ekki að orðlengja að engir fangar voru teknir.

Árið 1917 gengu Bandaríkjamenn til liðs við Breta, Frakka, Ítali og Rússa í fyrri heimsstyrjöldinni. Þegar í stað hófst þjálfun bandarískra hersveita sem síðan voru sendar á vígstöðvarnar í Frakklandi. Butler var þá orðinn ofursti og bað hvað eftir annað um leyfi til að leiða hersveit í Evrópu en var jafnóðum hafnað. Yfirmönnum hans þótti hann „óáreiðanlegur“ hvað sem leið hetjudáðum hans. Við stríðslok var hann hins vegar hækkaður í tign upp í hershöfðingja og ávann sér frábæran orðstír fyrir að stýra og skipuleggja gríðarmiklar herbúðir Bandaríkjamanna í Frakklandi. Þótti hann þá sýna heilmikla umhyggju með velferð manna sinna og jukust nú enn vinsældir hans.

Árið 1924 varð Butler um tíma yfirmaður lögreglu og slökkviliðs í Philadelphiu og þá þótti hann ganga heldur betur rösklega fram. Þetta var á bannárunum margfrægu, áfengisneysla var bönnuð en smygl og leynivínsala óðu uppi og í skjóli þeirra margvísleg glæpastarfsemi. Al Capone, glæpaforingi í Chicago, var aðeins sá frægasti af mörgum samviskulausum þrjótum sem þá hösluðu sér völl. Víða höfðu glæpaforingjarnir mútuþæga lögreglu í vasanum en sú var ekki raunin í Philadelphiu, því þar lét Butler bófana ekki komast upp með neinn moðreyk. Raunar fór hann svo hart fram að jafnvel almenningi blöskraði að lokum, hann hélt uppi slíkum heraga í löggunni og slökkviliðinu að fólk fór að finnast sem borgin væri hersetin. Fyrst og fremst voru það þó spilltir stjórnmála- og kaupsýslumenn sem grófu undan honum. Að lokum hrökklaðist hann burt. Í ræðu sem hann hélt eftir að hafa verið rekinn sagði hann æstum áheyrendum að hann hefði litið á starf sitt í borginni sem stríð gegn spillingu og til bjargar lýðræðinu.

„Þangað til fólkið brjálast, þá kemst maður ekkert áleiðis. Ég legg áherslu á að þetta er ekki friðarhreyfing.“ Til að bjarga lýðræðinu frá spillingunni, „þá verður að sýna hörku!“

Og Butler lýsti því yfir að vistin í Philadelphiu hefði verið verri en nokkur orrusta sem hann hefði tekið þátt í.

Butler var nú í nokkur ár í Kína þar sem hann leitaðist við að sætta ólíkar fylkingar og herstjóra í vaxandi innanlandsdeilum en varð svo yfirmaður helstu herbúða landgönguliðsins heima í Bandaríkjunum. Þegar skipa átti nýjan yfirmann landgönguliðsins 1930 lá beint við að Butler yrði fyrir valinu ef fara ætti eftir starfsaldri og virðingarröð en hann var settur til hliðar. Hann þótti of fyrirferðarmikill og óútreiknanlegur. Faðir hans var þá nýlega dáinn og valdaði hann ekki lengur.

Butler var líka orðinn of lausmáll. Í ræðu í Pittsburgh hafði hann sagt berum orðum frá afskiptum landgönguliðsins af forsetakosningum í Níkaragva árið 1912:

„Við landgönguliðarnir stjórnuðum tvennum kosningum. Enginn þoldi gæjann sem við höfðum þar á forsetastóli en hann var ósköp gagnlegur – fyrir okkur! – svo við lýstum mótframbjóðendur hans bófa og glæpamenn. Við fundum fjögur hundruð innfædda sem fengust til að kjósa rétta frambjóðandann … Þeim var stillt upp í halarófu og þegar þeir voru búnir að kjósa lokuðum við kjörfundi.“

Svo fór að Butler hætti í landgönguliðinu og með látum. Hann gerði upp við fortíð sína með þessum orðum:

„Ég var í 33 ár og fjóra mánuði í herþjónustu og mestallan þann tíma var ég fyrst og fremst háklassa handrukkari fyrir stórkapítalið, Wall Steet og bankamennina. Í stuttu máli sagt var ég svikahrappur, bófi kapítalismans. Ég hjálpaði til við að leggja Mexíkó og Tampico undir bandaríska olíuhagsmuni 1914. Ég hjálpaði til við að nauðga hátt í tíu Mið-Ameríkuríkjum fyrir hönd Wall Street. Ég hjálpaði til við að hreinsa Níkaragva fyrir Brown Brothers bankann 1902–1912. Ég færði Hondúras ljós hinna amerísku ávaxtafyrirtækja árið 1902. Í Kína árið 1927 hjálpaði ég Standard Oil að koma öllu sínu undan. Þegar ég lít til baka, þá hefði ég getað kennt Al Capone sitt af hverju. Hann náði aldrei lengra en að stýra sinni svikamyllu í þremur hverfum Chicago. Ég var að störfum í þremur heimsálfum.“

En sagan er engan veginn öll sögð. Butler var handtekinn og leiddur fyrir herrétt. Sakarefnið var að hann hefði móðgað Benito Mussolini! Hann gaf líka út bókina „Stríð er svikamylla“ sem þykir enn í dag einhver grimmilegasta ádeila á bandaríska heimsvaldastefnu sem út hefur komið. Og – það sem allra umdeildast er – kannski munaði ekki nema því sem munaði að hann yrði einræðisherra Bandaríkjanna eins og ég ímyndaði mér í hinni uppdiktuðu frétt úr Mogganum fyrir 80 árum. En frá þessu öllu saman verður að segja í næstu grein um Smedley Butler. Hún birtist í næstu Stund undir fyrirsögninni:

„Hail Butler!“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Finnur mun meira fyrir fötluninni á Íslandi

Fréttir

Vigdís Hauksdóttir lætur víkinga bera sig í kosningamyndbandi

Aðsent

400 manns senda Katrínu Jakobsdóttur opið bréf vegna „vanrækslu stjórnvalda“ í máli Hauks

Aðsent

Typpi, hvalir og Kristján Loftsson

Fréttir

Segir ummæli Brynjars ófagleg og afvegaleiða umræðu

Úttekt

Kerfið gerir ekki ráð fyrir fötluðum foreldrum

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Björn Ingi Hrafnsson ógjaldfær

Fréttir

Ætlar ekki að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum

Viðtal

Finnur mun meira fyrir fötluninni á Íslandi

Fréttir

Forstjóri Isavia segir miklar launakröfur áhyggjuefni: Hækkaði sjálfur í launum um 400 þúsund milli ára

Fréttir

Klám­mynda­leikari fenginn til að ræða við fram­halds­skóla­nema um kyn­heil­brigði

Fréttir

Starfsfólk Árnastofnunar reitt við Ríkisútvarpið