Pistill

Mamma

Illugi Jökulsson minnist móður sinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, sem andaðist fyrir viku.

Jóhanna Kristjónsdóttir - Myndina tók Vera Illugadóttir og merkti hana svo á Facebook: „Amma í Marokkó fyrir nokkrum árum. Með sólgleraugu, sígarettu og snák. Týpískt.“

„Ég þarf að læra að njóta augnabliksins, ég veit það,“ sagði mamma. „Þess vegna fer ég.“

Ég hef líklega verið svona 16 eða 17 ára þá. Við bjuggum, hún og við systkinin, í litla húsinu við Drafnarstíg, nema Elísabet stóra systir mín var farin að heiman. Hrafn bróðir minn var 11 eða 12 ára eða svo, Kolbrá litla systir var um það bil sex ára.

Og mamma var að fara í ferðalag. Hrafn og Kolbrá fóru í pössun, mér var treyst til að vera einn heima.

Mamma og vinkona hennar ætluðu – ja, ég man ekki hvert, satt að segja. Gæti hafa verið Grikkland, eða Ísrael. Þetta var alla vega skemmtiferð, nema með þessum undirliggjandi tilgangi – að hún þurfti að læra að njóta augnabliksins.

Eftir á að hyggja skil ég hana vel. Hún hafði gifst kornung og byrjað að hlaða niður börnum, hjónabandið var einstaklega lýjandi, svo var hún á endanum ein með okkur fjögur, hún bar því mikla ábyrgð og var í krefjandi starfi, stundum var basl, það hlóðust á hana félagsstörf hin og þessi, það var mikið að gera.

Og þá rann um síðir upp fyrir henni að hún var hætt að kunna að njóta augnabliksins. Hún var alltaf að skipuleggja framtíðina eða grandskoða fortíðina, hvað hefði mátt betur fara, hvaða mistök gerði hún?

 „Að horfa í kringum sig, sjá litina, fólkið, lífið, jörðina alla, finna lykt, heyra framandleg hljóð“ 

Og mamma hafði bæði vit til að átta sig á hvað hún þyrfti að gera og þrek til að rífa sig lausa. Út í heim skyldi hún fara og læra að lifa í núinu. Að anda að sér augnablikinu án þess að hugsa sífellt: Hvað þarf ég að gera næst? Að horfa í kringum sig, sjá litina, fólkið, lífið, jörðina alla, finna lykt, heyra framandleg hljóð, án þess að vera alltaf um leið að skipuleggja hvaða reikninga þarf að borga, hvað á að vera í matinn, hvað á ég að gefa krakkaskaranum í jólagjöf?

Hún sagði mér þetta áður en hún fór. Ég var táningur og lifði svo sannarlega í augnablikinu svo það var svona á mörkunum að ég skildi hvað hún átti við. Og ég var meira að segja örlítið efins að hún ætti eitthvað að vera að segja mér þetta. Átti fullorðið fólk virkilega að trúa börnunum sínum fyrir sínum innstu hjartans málum?

En ég vissi reyndar að þótt mamma væri vissulega töffari og léti oft sem hún hefði hrjúfa húð sem ekkert biti á, þá var hún líka að sumu leyti bæði einlægari og opinskárri en ég vissi til að foreldrar vina minna væru.

Svo ég lét gott heita og óskaði mömmu bara góðrar ferðar þegar hún fór út í heim að finna þetta augnablik sitt.

Á Drafnarstíg átti ég reyndar ágæt augnablik á meðan – ég stillti til dæmis hátölurum út í glugga síðla kvölds og fór svo í gönguferð um hverfið og heyrði mína gregoríönsku kirkjusöngva óma hátt og lágt um allan Vesturbæinn í dýpkandi nóttinni.

Svo kom mamma heim, eflaust með nokkur augnablik í farteskinu, þótt ég spyrði ekki. Og hún hélt áfram að standa sína plikt því það gerði hún alltaf.

En þaðan í frá eltist hún sífellt við augnablikið. Og hún reyndi af öllum sínum umtalsverða mætti að kenna okkur afkomendum sínum líka að grípa það og njóta þess.

Nú síðustu misserin var mamma orðin lúin. Það gleður mig að hún komst í sína síðustu Íransferð með hóp Íslendinga að kenna þeim að njóta augnabliksins í því landi sem hún elskaði líklega meira en flest önnur, og sjálf fékk hún að drekka í sig ný augnablik með því að fara á nýjar slóðir á Hawaii þótt veikindi hefðu þá þegar tekið af henni toll.

Núna upp á það allra síðasta snerust augnablikin einkum um það skondna og yndislega fólk, barnabörnin og barnabarnabörnin. Og á þeim öllum hafði hún vakandi auga þar til yfir lauk.

Mamma hætti aldrei við hálfklárað verk. Þegar hún vildi læra að njóta augnabliksins, þá lærði hún að njóta augnabliksins. Og það er mín vissa og trú að þegar hún kvaddi í svefni eina nótt fyrir skömmu, þá hafi hún haft um sig perlufesti af ótal litfögrum augnablikum sem fylgdu henni síðasta spölinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

„Einkar lágt lagst, Jón Steinar“

Pistill

Hvar eru íslensku níðingahringarnir?

Flækjusagan

Þarf að endurskrifa alla sögu mannsins?

Aðsent

En það kom ekki fyrir mig!

Fréttir

Sjö vikna gamalt stúlkubarn í einangrun vegna kíghósta

Fréttir

Inngróið skilningsleysi í kerfinu öllu á afleiðingum kynferðisbrota

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Útlendingastofnun rekur fórnarlamb mansals úr landi

Fréttir

Margvísleg brot á starfsleyfi í matreiðslu ISS fyrir skólabörn

Úttekt

Formaðurinn skuldar yfir 20 milljónir í opinber gjöld

Fréttir

Lögðu hald á margvísleg gögn

Pistill

„Einkar lágt lagst, Jón Steinar“

Viðtal

Vonar að lögregla eigi enn gögn úr tölvum Roberts Downey