Pistill

Tilfinningabyltingin

Eftir að hafa hlusta á stjúpdóttur sína rann upp fyrir Auði Jónsdóttur að hún átti erfitt með að hlusta á frásagnir af ofbeldi því það truflaði minningar hennar. Minningar sem hún var búin að fínpússa; bersögul og opin í augum flestra en um leið höfundur eigin lífs.

Ég vildi ekki vera rasisti. Svo ég hunsaði hikið sem kom á mig þegar við – ég, sex ára sonur minn og vinkona okkar á táningsaldri – vorum í þá mund að setjast í S-bahn-lestinni í sæti sem vísa á móti hvert öðru, þrjú laus en í því fjórða sat slánalegur ungur maður. Ég er ekki vön að hika. Venjulega sest ég hjá hverjum sem er, hvar sem er í troðfullri lest en eitthvað í fasi hans, eitthvað í augnaráðinu, fékk mig til að hika. Hann hefði getað verið einn af þessum götustrákum sem þvælast til Berlínar frá Alsír og Marokkó en hann hefði líka getað verið rammþýskur – ég veit það ekki. En af því ég vildi ekki vera rasisti hunsaði ég sjötta skilningarvitið og plantaði mér þarna með ungviðið gegn betri vitund – og kannski var það rasismi með öfugum formerkjum, ég veit það ekki. 

Skringileg kurteisi 

Sonur minn settist beint andspænis honum og ég við hlið sonarins en hin unga vinkona okkar hjá manninum. Brátt fattaði ég að vinkona okkar var vandræðaleg á svipinn og tók þá eftir því að maðurinn horfði vísvitandi ögrandi á hana, nánast eins og hann gæti starað hana til að lúta vilja sínum. Samtímis sá ég að hann hafði laumað hendinni yfir á sætishelminginn hennar og hvíldi hana þar þétt upp við bert lærið á henni en við vorum báðar í kjólum í hitabylgjunni. Hann hélt áfram að horfa eins og honum væri skemmt yfir hversu óþægilega henni leið. 

Ég stóð samstundis upp, skringilega kurteis og bað krakkana að fylgja mér aftar í vagninn. Vagninn var svo fullur að við gátum ekki setið saman þannig að vinkona okkar settist aftast en ég fyrir miðju vagnsins með soninn í fanginu. Þá verður mér litið í gluggann og sé andlit mannsins speglast því hann hafði líka staðið upp og tekið sér stöðu við dyrnar þar sem hann hélt áfram að stara árásargjarn á vinkonu okkar. Ég hreyfði mig svo harkalega að honum varð litið á mig sem sendi honum dýrslega hvasst augnaráð en hann glotti bara framan í kerlinguna og hélt áfram að horfa á unglingsstúlkuna. Sem betur fer fór hann út á næstu lestarstöð en starði samt áfram á stúlkuna eins lengi og færi gafst. 

Íslensk fyndni 

Reiðin ólgaði í mér. Það var ekki reiði út í götustrák mótaðan af framandi menningu. Nei, atvikið hafði vakið upp minningar um sambærileg atvik þegar ég var unglingsstelpa á Íslandi og hélt að þetta væri bara normið. Svona væri íslensk menning. Að karlar mættu segja og gera allt á kostnað kvenna og þær ættu bara að hlæja og vera upp með sér, ef þær höfðu ekki húmor gátu þær sjálfar sér um kennt.

Krakkarnir hlupu út í vatn að synda en ég sat á bakkanum uppfull af minningu sem ýtti undir óróa tilfinninganna. Ég var aftur unglingsstelpa með hræðilega minnimáttarkennd eftir að hafa harkað allan grunnskólann undir rætnum stríðnisglósum stráka sem stríddu manni fyrir að vera með útstæðan maga í barnaskóla og síðar fyrir að vera með stór brjóst á kynþroskaskeiðinu. Orð þeirra voru sjálfsmynd mín. Og ég hataði líkama minn eins og ég hataði þá um leið og ég leitaði stöðugt viðurkenningar stráka með því að drekka mig fulla og fara í sleik. 

„Allir hlógu. Störðu á brjóstin og tóku undir djókinn meðan ég liðaðist út úr sjálfri mér af skömm“

En þarna, í þessari minningu, stóð unglingsstelpan bak við barborð að hjálpa til í kvikmyndatökum með því að hafa drykkjarföng tilbúin fyrir kvikmyndatökuliðið, laus við skólann og komin í veröld þar sem allir áttu að geta verið þeir sem þeir voru. Við barinn stóð hópur fólks þegar maður nokkur, sem vann við myndina, kom aðvífandi og bað um drykk en meðan ég hellti í glasið sagði hann eitthvað á þessa leið: Djöfull er hún með stór brjóst! Má ég aðeins hnoða? Ha!

Og allir hlógu. Störðu á brjóstin og tóku undir djókinn meðan ég liðaðist út úr sjálfri mér af skömm, samt ofurmeðvituð um að hlæja líka. Því svoleiðis var íslensk fyndni – og er kannski enn. 

Fyllerísbömmerinn hópnauðgun 

Ég gætti þess líka að hlæja eftir að karlræfill hafði hrint mér inn í geymsluklefa í vinnuskúr úti á landi og verið dreginn af mér. Karlinn ræður ekki við sig! hlógu félagarnir og ég ábyggilega manna hæst þarna yfir ofsoðnu kaffinu. Á þessum tíma var ég orðin hokin í baki því ég hataði brjóstin, hataði líkamann, hataði mig. Eins og svo margar stelpur í íslensku samfélagi, þá og nú. 

Svona atvik gerðust bara, vinkonur manns lentu líka í hinu og þessu og djöfuls tilgerð að velta sér upp úr því; æskuvinkonu minni var hópnauðgað á útihátíð en hvað var það annað en fyllerísbömmer? Ég heyrði ekki af því fyrr en við vorum löngu orðnar fullorðnar.

Allt þetta rann upp fyrir mér eftir að hafa hlustað mánuðum saman á rúmlega tvítuga stjúpdóttur mína sem bjó hjá okkur hér um árið og sagði mér sögur af vinkonum sínum sem höfðu lent í því að vera áreittar og beittar ofbeldi. Í fyrstu hlustaði ég með samúð, því næst óþreyju, loks pirringi. Hvað var hún stöðugt að velta sér upp úr þessu?! Hélt hún að þær væru fyrstu konurnar á jörðinni til að upplifa annað eins? 

Á sokkabandsárum mínum fór fólk yfir mörkin hjá mér og ég yfir mörkin hjá því, þannig var veruleiki íslenskra unglinga sem heyrðu í besta falli einhvern segja mörk þegar þurfti að plana fyllerí í Þórsmörk og kannski ekkert skrýtið hversu margir héldu út í lífið í tætlum. Þegar stjúpdóttirin lagði borðhald í matarboði undir sig til að tala um ríkjandi ofbeldismenningu feðraveldisins spurði ég nastí hvort hún vildi ekki sýna femínisma í verki og hjálpa miðaldra konunni að vaska upp. 

Innrætt viðbrögð

Svo gerðist það að ég lenti sjálf í enn einu atvikinu hér í Berlín, orðin miðaldra og hélt einhvern veginn að svona lagað væri búið. En það varð til þess að ég fór í sjálfskoðun og skildist hversu forpokuð ég var orðin. Að ég meikaði ekki að hlusta á vitnisburð kjarkaðra kvenna því það truflaði minningar mínar eins og ég var búin að fínpússa þær; bersögul og opin í augum flestra en um leið höfundur eigin lífs. 

Í gærkvöldi sat ég á kaffihúsi ásamt fyrrnefndri táningsstúlku, vinkonu á mínum aldri og dóttur hennar, rúmlega tvítugri. Talið barst að atvikinu í lestinni og við ræddum fyrstu viðbrögð við áreiti, hvernig kona áfellist sig sjálfkrafa fyrir að vera í stuttum kjól eða finnst að hún megi ekki vera dónaleg við þann sem leitar á hana. Dóttir vinkonu minnar, sjálfstæð og alin upp í jafnréttismekkunni Svíþjóð, spurði þá af hverju ég hefði ekki staðið upp og sagt eitthvað? 

Já, af hverju voru ekki fyrstu viðbrögð mín að láta reka manninn út úr lestinni og af hverju reyndi ég eftir fremsta megni að vera kurteis? 

Spurningin er óþægilegri en hún virtist í fyrstu. 

Mikilvægasta sagan 

Eitthvað í manni vill vera sá sem segir sér yngra fólki hvernig lífið er og eigi að vera. En mikilvægustu lexíurnar á fullorðinsárum hef ég lært af fólki sem er margt um tuttugu árum yngri en ég og hefur tekist, í eins konar tilfinningabyltingu, að vinna gegn ofbeldismenningu svo um munar. Fólk eins og stjúpdóttir mín, sem er nú að ritstýra Druslubókinni ásamt fleirum. Nú fer senn að líða að druslugöngunni og vonandi mæta allir sem vettlingi geta valdið; konur og karlar, ellilífeyrisþegar og börn. Því þessi ganga er mikilvægari en skrúðganga til að fagna lýðræði þjóðar. Þessi ganga er gengin fyrir sjálfræði manneskjunnar.  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti

Greining

Miðflokkurinn er stærsta popúlíska hreyfing Íslands

Fréttir

Greiðsluþakið hækkað þrátt fyrir loforð um lækkun

Leiðari

Hvers virði eru völdin?

Fréttir

Óásættanlegt að ferðaþjónusta fatlaðra skerðist vegna landsleiksins

Mest lesið í vikunni

Úttekt

Laun íslenskra bæjarstjóra hærri en í erlendum stórborgum

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Vildi ekki verða „húsþræll“ í vinstri- og miðjusamstarfi en myndaði atkvæðablokk með Sjálfstæðisflokknum

Fréttir

Nýtur trausts innan lögreglunnar þrátt fyrir nauðgunarkærur

Viðtal

Næturnar voru algert helvíti