Pistill

Matreiðsluraunir nýbúans

Friðrika Benónýsdóttir lærir að versla í matinn í París.

Þegar flutt er til ókunnugs lands er eðlilegt að ýmsir siðir breytist. Það sem hinum íslenska Hauki frænda þykir gott og gilt þykir hinum paríska Bubba kannski óttaleg villimennska. Og vilji maður verða góður og gegn þegn nýja landsins lagar maður sig að því.

Í París er til dæmis óhugsandi fyrir konu að fara ótilhöfð út í búð, jafnvel þótt viðkomandi súpermarkaður sé aðeins tvöhundruð metra í burtu handan götunnar. Matarinnkaup byrja því með hálftíma dvöl fyrir framan baðherbergisspegilinn, þar sem beitt er cc-kremum, ælæner, maskara og dassi af varalit eftir kúnstarinnar reglum. Árangurinn verður sjaldnast eins og að var stefnt, en að minnsta kosti er ekki lengur hætta á að maður valdi umferðarslysi með óhrjálegu útlitinu. Maður brosir í spegilinn, grípur margnota innkaupapokann, arkar niður stigann og yfir götuna.

Hverfisbúðin mín heitir því lítt traustvekjandi nafni Casino og komandi þar inn fær maður á tilfinninguna að það sé nafn við hæfi. Maður gæti unnið stóra vinninginn, en það er allt eins líklegt að maður komi út í tapi.

Svo maður vandar sig við innkaupin. Allri þessari áherslu á kvenleika virðist nefnilega fylgja aukinn áhugi á að spjara sig í húsmóðurhlutverkinu og á þessum tiltekna degi hef ég, eftir miklar stúderingar á franskri matreiðslubók sem leyndist í hillu í nýju íbúðinni, ákveðið að elda Poulet a l´ail et au citron, eða kjúkling með hvítlauk og sítrónu. Bókin góða fullyrti að þetta væri einfaldur, fljótlegur og góður réttur og hver er ég að efast um fullyrðingar franskra matreiðslugúrúa?

Mig vantar sem sé kjúkling, hvítlauk, sjallottlauk og sítrónu, það hlýtur nú að vera einfaldasta mál í heimi að skófla því í körfuna, eða hvað? En nei, ó nei, strax fyrir framan hvítlaukshilluna áttar maður sig á því að hvítlaukur er ekki bara hvítlaukur. Hér eru að minnsta kosti sjö mismunandi tegundir af hvítlauk og fávís Íslendingur hefur engar forsendur til að átta sig á því hvað greini eina tegund frá annarri. Svo maður grípur það sem hendi er næst og vonar það besta.

Sömu sögu er að segja af kjúklingaframboðinu, ég bara hafði ekki hugmynd um að það væru ræktaðar svona margar gerðir af kjúklingum. Meira að segja sítrónurnar eru hér í ýmsum útgáfum og það er eiginlega bara sjallottlaukurinn sem ekki veldur höfuðverk að velja; enda tegundirnar ekki nema þrjár. Allt hefst þetta þó að lokum og heim heldur húsmóðirin með fjölnotapokann úttroðinn af gómsæti.

 „Þetta er jú hátíð, fyrsta heimaeldaða máltíðin í nýjum heimkynnum.“

Svo hefst eldamennskan. Saxa lauk og hvítlauk smátt, skera kjúklinginn í hæfilega bita, velta sítrónunni milli handanna til að mýkja hana. Jú, jú, þetta gengur allt saman vel. Laukurinn brennur að vísu pínulítið í snarpheitri olíunni, kjúklingurinn líka og sítrónusafinn frussast um alla eldavél. En þetta gengur. Nokkurn veginn að minnsta kosti.

Bókin góða gaf engar upplýsingar um það hvaða meðlæti væri gott með þessu, þannig að íslenska sveitakonan sýður bara kartöflur á hefðbundinn hátt og kærir sig kollótta um hvað etikettinn segir. Svo er lagt á borð, servéttur brotnar, kveikt á kertum. Þetta er jú hátíð, fyrsta heimaeldaða máltíðin í nýjum heimkynnum.

Á meðan á borðlagningunni stendur hefur kjúklingurinn tekið upp á því að skreppa saman og innan um brenndar laukagnirnar er hann satt að segja ekki sérlega girnilega útlítandi. Þetta get ég ekki borið fram. Íslenska sveitakonan deyr þó ekki ráðalaus, grípur til hins óbrigðula íslenska björgunaratriðis í matargerð og hellir vænum slatta af rjóma yfir allt saman til að fela mesta óhroðann. Rjómi reddar öllu.

Rétturinn lítur engan veginn út í samræmi við myndina fögru í bókinni, en góður er hann og rennur ljúflega niður. Þessi franska matargerð er kannski ekki svo vitlaus, þótt með íslensku tvisti sé. Næst ætla ég að reyna við Flan d´aubergines. Það getur ekki verið svo flókið. Eða hvað? Maður verður allavega að reyna.

Kjúklingur með hvítlauk og sítrónu

Fyrir sex

 

 • 250 g kjúklingafille
 • 2 geirar hvítlaukur
 • 1 sjallottlaukur
 • Safi úr einni sítrónu
 • 5 steinseljukvistir
 • ögn af sætu paprikudufti
 • ólífuolía, salt og pipar

 

 Aðferð: 

 1. Saxið lauk og hvítlauk smátt

 2. Skerið kjúklinginn í hæfilega bita

 3. Steikið laukinn og hvítlaukinn í ólífuolíunni í eina mínútu. Bætið kjúklingabitum, kryddi og sítrónusafa út í og steikið í um það bil fjórar mínútur.

 4. Saxið steinseljuna, dreifið henni yfir réttinn, takið pönnuna af hellunni og berið fram í snatri.

Bon appetit!

Tögg

Matur

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Næsta bylting: Konur deila sögum af þvinguðu samþykki

Fréttir

Slys hjá Arnarlaxi: Eldiskví með um 500 tonnum af laxi sökk í Tálknafirði

Fréttir

Kjartan ákærður fyrir gróf kynferðisbrot gegn dætrum sínum

Reynsla

Þegar lúxemborgskt skúffufélag eignaðist heimilin okkar

Fréttir

Helga Vala skoraði á Alþingi að aflétta leyndinni tafarlaust – Jón: „Dæmigerð popúlistauppákoma“

Fréttir

„Fáheyrt og stórundarlegt“ að skýrslubeiðni sé stöðvuð

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Vilhjálmur fékk 3,4 milljónir endurgreiddar – Þingmenn hæðast að umræðunni

Fréttir

Næsta bylting: Konur deila sögum af þvinguðu samþykki

Fréttir

Kölluð kellingartussa og negri

Fréttir

Stjórnun kynferðisbrotadeildar ábótavant – Sigríður skipti yfirmanni út fyrir stjórnanda með minni reynslu af rannsókn kynferðisbrota

Pistill

Karlar að spara okkur pening

Viðtal

„Neita að eyða allri ævinni í að vinna fyrir einhvern steinkassa“