Fréttir

Átta atriði um hið fordæmalausa Marple-mál

Dómur féll nýverið á nýjan leik í héraðsdómi í Marple-málinu svokallaða. Hæstiréttur hafði ómerkt fyrri niðurstöðuna vegna vanhæfis eins af meðdómendunum. Málið er einstakt að mörgu leyti en um sérstaklega alvarlegan fjárdrátt var um að ræða. Þá beitti héraðsdómur í fyrsta skipti í hrunmálunum refsiþyngingarákvæði hegningarlaga þegar hann ákvað refsingu Hreiðars Más í málinu.

Hreiðar Már Sigurðsson Þynging refsingar Hreiðars Más er fordæmalaus í hrunmálunum svokölluðu.

Dómur féll á nýjan leik í Marple-málinu svokallaða í byrjun mánaðar. Hæstiréttur hafði áður ómerkt fyrri dóm héraðsdóms vegna þess að sérfróður meðdómari í málinu var úrskurðaður vanhæfur. Málinu lyktaði með því að Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, fékk 12 mánaða dóm, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fékk 18 mánuði og Skúli Þorvaldsson fagfjárfestir sex mánuði. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var hins vegar sýknuð. 

Stundin tók saman helstu atriði málsins. 

1Sex milljarða millifærsla 

Í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Hreiðari Má og Guðnýju Örnu var þeim gefið að sök að hafa skipulagt og framkvæmt fjárdrátt með því að millifæra um sex milljarða króna til félagsins Marple Holding S.A. SPF. úr sjóðum Kaupþings. Í ákærunni segir að engar lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir hafi legið að baki millifærslunni. 

Þá voru þau Hreiðar Már og Guðný einnig ákærð fyrir umboðssvik, en þau áttu að hafa misnotað aðstöðu sína innan bankans með því að láta Kaupþing kaupa skuldabréf af Marple, sem gefin voru út af bankanum sjálfum, á nafnvirði bréfanna að viðbættum áföllnum vöxtum. Nam kostnaðurinn 57,5 milljónum evra og 45,4 milljónum dala, en samkvæmt ákæru var kaupverðið „langt yfir markaðsverði skuldabréfanna og olli Kaupþingi hf. með því fjártjóni“. Eftir sat tveggja milljarða hagnaður vegna viðskiptanna á reikningum Marple.

Magnús Guðmundsson var ákærður fyrir hlutdeild í brotum Guðnýjar og Hreiðar og Skúli fyrir hylmingu og peningaþvott.

Magnús GuðmundssonVar dæmdur í 18 mánaða fangelsi vegna aðkomu sinnar í Marple-málinu.

2Mundi ekki eftir félaginu fyrr en hann sá undirskriftir sínar 

Eignarhald á Marple Holding var á meðal deiluefna í málinu. Við rannsókn málsins sagðist Skúli Þorvaldsson ekkert hafa munað eftir félagi með nafninu Marple Holding og eignarhald á því hefði ekki verið borið undir hann. Þá sagðist hann ekki muna eftir því að hafa ritað undir neina pappíra tengda félaginu fyrr en honum hafi verið sýndir slíkir pappírar.

Í skýrslutökum fyrir dómi rifjar Skúli upp sín fyrstu kynni af félaginu. Hann sagði Magnús Guðmundsson hafa beðið sig um að hjálpa bankanum og gera þeim greiða. Fyrir greiðann hafi Skúli fengið sölurétt á Kaupþing banka sem hann hafi virkjað 30. september 2008. Sölurétturinn hafi verið í eigu félagsins SKLux og þegar peningurinn fyrir söluréttinn hafi ekki skilað sér inn á reikning SKLux hafi Skúli spurt Magnús hvað hafi orðið um peninginn. Magnús sagði peninginn óvart hafa farið inn á Marple Holding og hafi Skúli spurt Magnús hvaða félag það væri. Magnús hafi sagt að Skúli ætti félagið og hann hafi ekki heyrt af því vegna þess að hann hefði sjálfur verið að stýra því og stjórna.

Við rannsókn málsins lék vafi á þætti Skúla við millfærslurnar á reikning Marple Holding. Magnús hafi lýst því yfir að hann hefði alfarið tekið ákvörðun um viðskiptin fyrir hönd Marple Holding og lék þannig vafi á því að hvaða marki Skúli hafi haft vitneskju um að ólögmæt viðskipti eða samningar hafi legið að baki millifærslunum. Héraðsdómur taldi Skúla hafa látið sér þessi atriði í léttu rúmi liggja og hefði honum sem eiganda félagsins og í ljósi upphæða fjárhæðanna, borið að krefja Magnús, Hreiðar og Guðnýju upplýsinga um forsendur að baki millifærslunum. Vegna þess að hann gerði það ekki var hann talinn hafa sýnt af sér gáleysi og sakfelldur fyrir peningaþvott.

3

Lítil sem engin gögn að baki millifærslunum

 Engin gögn um fyrri millifærsluna frá Kaupþingi hf. til Kaupþings Luxemborg fundust við rannsókn málsins, fyrir utan fylgiskjal þar sem fram kom að millifærsla að fjárhæð rúmum 3 milljörðum króna hefði átt sér stað þann 19. desember 2007. Í fylgiskjalinu kom fram að millifærslan hefði verið vegna valréttarsamnings um sölu á hlutabréfum í Kaupþing banka en slíkur samningur fannst ekki þrátt fyrir mikla rannsókn. Hreiðar Már og Magnús héldu því fram að samningurinn hefði verið gerður og kvaðst Guðný hafa séð slíkan samning á borði Hreiðars. Þá kom fram við rannsókn málsins að fylgiskjalið sem vísaði til valréttarsamningsins hefði ekki verið stofnað fyrr en þann 12. janúar 2008 í tölvu Guðnýjar.

Að því er varðar síðari millifærsluna að fjárhæð rúmum 3 milljörðum sem gerð var þann 30. júní fundust heldur engin gögn um í bókhaldi Kaupþings. Við rannsókn málsins fundust hins vegar gögn um þá millifærslu við húsleit yfirvalda í Lúxemborg. Samkvæmt samningnum sem fannst var Kaupþing Luxemborg sagður vera viðskiptamaður en fyrir aftan nafn bankans hafði verið handskrifað félagið Marple Holding. Guðný hafi vottað upprunalega samninginn en hún hefði ekki verið meðvituð um að fjármununum yrði síðar ráðstafað inn á reikning Marple Holding. Vegna þess að ekki var hægt að leiða í ljós, án vafa, vitneskju Guðnýjar um að fjármunirnir myndu renna til Marple Holding var hún sýknuð.

4Lögreglan lagði hald á 5,6 milljarða króna við rannsókn málsins

Við rannsókn málsins var lagt hald á samtals 47 milljónir króna evra, eða um 5,6 milljarða króna, og var í ákærunni krafist að Skúla og félögum í hans eigu yrði gert að sæta upptöku á fjármununum með vísan til 69. greinar almennra hegningarlaga. Niðurstaða héraðsdóms var sú að um 807 milljónir króna voru gerðar upptækar af reikningi Marple Holding. Þá hafnaði héraðsdómur að gera rúmar 27 milljónir króna upptækar, sem færðar voru af reikningi Marple Holding in á reikning félagsins BM Trust og blandaðist þannig við aðrar eignir félaga í eigu Skúla.

5Taka þurfti málið upp á ný í héraði vegna vanhæfis eins meðdómaranna

Ásgeir Brynjar TorfasonEndurflytja þurfti málið þegar í ljós kom að Ásgeir var vanhæfur til að dæma í málinu.

Málið var sent aftur til meðferðar í héraði þegar Hæstiréttur úrskurðaði að Ásgeir Brynjar Torfason, sérfróður meðdómsmaður, hefði verið vanhæfur. Ásgeir hafði talað um „bankabófa“ í viðtali árið 2011 og var mat Hæstaréttar að með þeim orðum hefði hann lýst afstöðu sinni til stjórnenda íslensku bankanna á hrunárunum. Þá var bent á það að Ásgeir var stjórnarmaður í félaginu Gagnsæi, samtökum gegn spillingu en það hefði ekki eitt og sér getað leitt til þess að hann teldist vanhæfur. „Á hinn bóg­inn hef­ur með­dóms­mað­ur­inn ítrekað á sam­skipta­miðlum tekið upp fréttir af dóms­málum gegn stjórn­endum A hf. [Kaup­þing] og birt mynd meðal ann­ars af ákærðu Y [Hreiðar Már Sig­urðs­son] og Z [Magnús Guð­munds­son] við frá­sögn um sak­fell­ingu þeirra í dóms­máli. Þær til­grein­ingar verða ekki skildar á annan veg en þann, að með­dóms­mað­ur­inn lýsi yfir stuðn­ingi við það, sem fram kom í því efni sem hann tekur upp. Þá lýsir tal hans um „banka­bófa“ sem hann við­hafði á árinu 2011 afstöðu hans til stjórn­enda bank­anna, þar með talið ákærð­u,“ segir í nið­ur­stöðu Hæsta­rétt­ar. Áður hafði Símon Sigvaldason, héraðsdómari og dómsformaður í málinu, komist að þeirri niðurstöðu að Ásgeir teldist ekki vanhæfur.

Vanhæfi Ásgeirs varð til þess að niðurstaða úr héraðsdómi dróst um meira en eitt og hálft ár. Ákæra í málinu var gefin út þann 26. júní 2014 og málið þingfest 9. september sama ár. Þann 9. október árið eftir var dómur kveðinn upp en með dómi Hæstaréttar þann 23. febrúar á þessu ári var sá dómur ómerktur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar og því vísað heim í hérað til úrlausnar á ný. Málið var loks dómtekið að nýju 13. júní og dómur kveðinn upp þann 4. júlí.

6Héraðsdómur viðurkenndi rúmlega 8 milljarða króna skaðabótaskyldu

Í málinu krafðist Kaupþing hf. að fjórmenningarnir yrðu dæmdir til greiðslu rúmra 6 milljarða króna í skaðabætur, 15 milljóna evra og 3,5 milljóna dollara, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Héraðsdómi þótti skaðabótakrafan ekki sett fram með þeim hætti, að teknu tilliti til mótmæla fjórmenninganna, að unnt væri að dæma um hana. Þá var kröfunni vísað frá gegn Guðnýju enda var hún sýknuð af refsikröfu ákæruvaldsins. Því féllst dómurinn á varakröfu Kaupþings um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Ekki liggur þó fyrir á þessari stundu hvort Kaupþing muni höfða einkamál þar sem Hreiðar, Magnús og Skúli verða krafnir um rúma átta milljarða króna í skaðabætur.

7 Fordæmalaus refsing Hreiðars Más

Refsing Hreiðars Más í Marple-málinu á sér ekkert fordæmi í hrunmálunum svonefndu, þar sem héraðsdómur ákvað að þyngja refsingu Hreiðars umfram refsihámark ákvæðis hegningarlaga um fjárdrátt.

Al Thani-málið.Í málinu fengu Hreiðar og Magnús þunga fangelsisdóma.

Hreiðar Már var sakfelldur í Al Thani-málinu þann 12. febrúar 2015 og dæmdur í 5 og hálfs árs fangelsi. Refsiramminn fyrir auðgunarbrot eru sex ár og fór því héraðsdómur út fyrir þann ramma þegar Hreiðar var sakfelldur í Marple-málinu en hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Hefur Hreiðar þannig verið dæmdur til sex og hálfs árs fyrir auðgunarbrot sín. En samkvæmt 2. málsgrein 77. greinar hegningarlaga er heimilt að þyngja refsingu svo bætt sé við hana allt að helmingi hennar.

Í dómi héraðsdóms var bent á að í fyrsta sakamálinu, Al Thani-málinu, hefðu dómstólar nær fullnýtt refsimörk auðgunarbrota. Þegar Hreiðar var næst sakfelldur í héraðsdómi 2015, með staðfestingu í Hæstarétti á árinu 2016, var hann á ný sakfelldur fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Var þeim þá lýst þannig í dómi Hæstaréttar að þau væru umfangsmikil, þaulskipulögð og drýgð í samverknaði og af einbeittum ásetningi. Beindust þau í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild og yrði tjónið sem leiddi af þeim beint og óbeint ekki metið til fjár. Voru brotin talin með þeim alvarlegustu sem dæmi væru um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Vegna umfangsmikilla brota þótti héraðsdómi rétt að þyngja refsingu Hreiðars.

8Hreiðar og Magnús dæmdir í þriðja sinn fyrir auðgunarbrot

Marple-dómurinn er sá þriðji sem Hreiðar Már hlýtur. Fyrsti dómurinn féll þann 12. desember 2013 þegar Hreiðar var dæmdur í 5 og hálfs árs fangelsi í Al Thani-málinu fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Hæstiréttur staðfesti refsinguna þann 12. febrúar 2015. Því næst var Hreiðar dæmdur í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og var honum gerður sex mánaða hegningarauki fyrir markaðsmisnotkun. Loks var Hreiðar Már dæmdur í Marple-málinu sem féll  síðastliðinn þriðjudag og gert að sæta fangelsisrefsingu í 12 mánuði. Hann hefur lýst því yfir að hann muni áfrýja dómnum.

Magnús hefur komið við sögu í þeim þremur málum sem Hreiðar hefur verið dæmdur til refsingar. Í Al Thani-málinu var Magnús dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun. Þá var Magnús sakfelldur fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun og í umboðssvikum í stóra markaðsmisnotkunarmálinu en honum var ekki gerð refsing í málinu. Marple-málið er þriðja málið þar sem Magnús er sakfelldur en hann hlaut lengsta dóminn, 18 mánaða fangelsi. Í málinu var Magnús sakfelldur fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum.

Skúli, sem jafnan er kenndur við Hótel Holt, var stærsti persónulegi lántakandi Kaupþings á árunum fyrir hrun en hann fékk 94 milljarða króna lánaða frá bankanum miðað við gengi dagsins í dag. Hann var dæmdur í 6 mánaða fangelsi í Marple-málinu sem er jafnframt eina málið sem höfðað var gegn honum af sérstökum saksóknara. Marple-málið er eina málið sem sérstakur saksóknari höfðaði gegn Guðnýju Örnu og var hún sýknuð af refsikröfu ákæruvaldsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Sósíalistar vilja afnema greiðslur slökkviliðsins til borgarstjóra

Fréttir

Bróðir Hauks handtekinn fyrir að flagga tyrkneska fánanum á Stjórnarráðshúsinu

Fréttir

Launþegahreyfingin ekki með fulltrúa í nefndum um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfis

Blogg

Hættum að bregðast Hauki

Blogg

Píp Trumps um viðskipahalla og fleira

Mest lesið í vikunni

Pistill

Hjúkrunarfræðingur: „Landspítalinn er í frjálsu falli“

Fréttir

Umboðsmaður spyr hvort ráðuneytið ætli að „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“

Fréttir

Bankastjóri Landsbankans þiggur boðsferð á heimsmeistaramótið í Rússlandi

Fréttir

Hagnaður ISS dróst saman en hluthafar fengu 760 milljóna arð

Pistill

Krakkafréttir - hin raunverulega ógn mannkyns?

Úttekt

Einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu: 20 ára saga í máli og myndum