Fréttir

Rifta samningi við Björn Inga Hrafnsson

Vegna fyrirsjáanlega vanefnda á greiðslu kaupverðs og slæmrar fjárhagsstöðu Pressunnar ehf. hefur kaupum á tímaritaútgáfunni Birtíngi verið rift. Björn Ingi Hrafnsson segir starfsfólk sitt vera á of háum launum, en sjálfur fær hann 1,9 milljónir króna í laun.

Björn Ingi Hrafnsson Heldur úti þættinum Eyjunni á ÍNN. Mynd: Skjáskot af ÍNN

Vegna „mjög slæmrar fjárhagsstöðu“ Pressunnar ehf. hefur kaupum hennar á tímaritaútgáfunni verið rift. 

Umfangsmikil uppkaup fjölmiðlaveldis Björns Inga Hrafnssonar á íslenskum fjölmiðlum hafa þannig orðið fyrir bakslagi. 

Þetta var tilkynnt í bréfi til starfsmanna Birtíngs, sem gefur út Séð og heyrt, Nýtt líf, Gestgjafann, Vikuna og fleiri tímarit.

„Ástæða riftunarinnar eru fyrirsjáanlegar vanefndir á greiðslu kaupverðs vegna mjög slæmrar fjárhagsstöðu Pressunnar ehf. Það verður því ekkert úr fyrirhugaðri sameiningu Birtíngs við samstæðu Pressunnar ehf,“ segir í bréfinu til starfsmanna frá framkvæmdastjóra Birtíngs, Karli Steinari Óskarssyni.

Fjárfestar hættir við aðkomu

Kaup Pressunnar á Birtingi voru tilkynnt með yfirlýsingu til fjölmiðla fyrir hálfu ári síðan. Eins og kom fram í frétt Stundarinnar um málið var starfsmönnum Birtíngs tilkynnt við kaupin að sterkir fjárfestar væru að baki Birni Inga Hrafnssyni.

Kjarninn greindi frá því í dag að fjárfestar sem boðað hafði verið að myndu leggja 300 milljónir króna í Pressuveldi Björns Inga, hefðu hætt við, þar sem um 700 milljónir króna skuldir hafi safnast upp í félaginu og að þeim hefðu verið gefnar villandi upplýsingar um stöðu félagsins. Eitt af skilyrðum fjárfestanna, samkvæmt Kjarnanum, var að Björn Ingi og framkvæmdastjóri félagsins, Arnar Ægisson, færu alfarið úr rekstrinum. Annað var að sameina starfsemina undir einu þaki, og að skera niður kostnað æðstu stjórnenda, þar sem komið hefði í ljós að stjórnendur hefðu um tvær milljónir króna í mánaðarlaun, jafnvel þótt undirmönnun væri á ritstjórnum.

Fjárfestarnir hafa hins vegar lánað félögunum fé til þess að koma í veg fyrir að Tollstjóri innsigli starfsstöðvar vegna vangreiðslu á opinberum gjöldum, samkvæmt Kjarnanum.

Sagði starfsmenn vera á of háum launum

Björn Ingi sagði í bréfi til starfsmanna Pressunnar og DV að honum hefði verið gerð grein fyrir því að hann greiddi starfsmönnum sínum of há laun. „Við erum að greiða starfs­fólki okkar hærri laun en gengur og ger­ist (eða svo er okkur sagt) og kannski höfum við verið of róm­an­tískir að halda úti efn­is­þáttum sem ekki standa undir sér. Við höfum lagt mikla áherslu á jákvæðan starfsanda og að starfs­fólki líði eins og það sé hluti af stórri fjöl­skyldu.“

Samkvæmt tekjublaði DV í fyrra hafði Björn Ingi tæpar 1,9 milljónir króna í mánaðarlaun árið áður.

Stundin greindi frá því í janúar að farið hefði verið fram á nauðungaruppboð á mikið veðsettu húsi hans í Hvalfirði, aðeins mánuði eftir að tilkynnt var um kaup fjölmiðlaveldis hans á tímaritaútgáfunni Birtíngi. Björn Ingi sagði á Facebook að reynt væri að koma höggi á sig með birtingu fréttarinnar.

„Þetta er alveg mögnuð frétt. Stundin veit að þetta er ekkert mál og ég útskýrði það fyrir þeim og sagði að þetta hefði ekkert með fjölmiðlarekstur minn að gera ... Viljinn til að koma höggi á fólk eru svo mikill ... Mér finnst þetta bara skammarlegt.“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

„Einkar lágt lagst, Jón Steinar“

Pistill

Hvar eru íslensku níðingahringarnir?

Flækjusagan

Þarf að endurskrifa alla sögu mannsins?

Aðsent

En það kom ekki fyrir mig!

Fréttir

Sjö vikna gamalt stúlkubarn í einangrun vegna kíghósta

Fréttir

Inngróið skilningsleysi í kerfinu öllu á afleiðingum kynferðisbrota

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Útlendingastofnun rekur fórnarlamb mansals úr landi

Fréttir

Margvísleg brot á starfsleyfi í matreiðslu ISS fyrir skólabörn

Úttekt

Formaðurinn skuldar yfir 20 milljónir í opinber gjöld

Fréttir

Lögðu hald á margvísleg gögn

Pistill

„Einkar lágt lagst, Jón Steinar“

Viðtal

Vonar að lögregla eigi enn gögn úr tölvum Roberts Downey