Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 2 árum.

Bakgrunnur nýs dómsmálaráðherra: Valdefla lögregluna og þrengja rétt til þungunarrofs

Sjálf­stæð­is­mað­ur­inn Jón Gunn­ars­son hef­ur ver­ið skip­að­ur inn­an­rík­is­ráð­herra í nýrri rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur. Inn­an þings sem ut­an hef­ur Jón lát­ið sig lög­reglu­mál, sjálfs­ákvörð­un­ar­rétt kvenna og tálm­un varða, með­al ann­ars.

Bakgrunnur nýs dómsmálaráðherra: Valdefla lögregluna og þrengja rétt til þungunarrofs
Jón Gunnarsson nýr innanríkisráðherra Í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur Jón Gunnarsson skipaður innanríkisráðherra og tekur því við verkefnum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Mynd: Heiða Helgadóttir

Sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnarsson er nýr innanríkisráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Sem þingmaður hefur Jón lagt fram frumvarp um að láta tálmun varða fimm ára fangelsisvist, kosið gegn frumvarpi um þungunarrof, talað fyrir valdeflingu lögreglunnar og hefur líkt búsáhaldabyltingunni við árás stuðningsmanna Trump á bandaríska þinghúsið ásamt því að leggja það til að íslenska lögreglan þurfi eitthvað meira en bara kylfur til að verjast hryðjuverkaógnum.

„Flóttinn frá umræðunni birtist okkur síðan í því þegar fólk er farið að tala um þungunarrof í staðinn fyrir fóstureyðingu. Hver eru mörkin milli þungunarrofs og fóstureyðingar, eða frá frumuklasa, eins og háttvirtir Samfylkingarþingmenn kjósa að kalla þetta?“ sagði Jón í ræðupúlti Alþingis þegar þungunarrofs frumvarpið var lagt fyrir þingið. 

Jón mun fara fyrir þeim málefnasviðum sem áður heyrðu undir dómsmálaráðherra, þá meðal annars ákæruvaldi, dómstólum, lögreglu og löggæslu, almannavörnum, vopnamálum, trúmálum og málefnum útlendinga. Hann hefur þó verið töluvert fjarverandi meðferð þingsins á þeim málaflokkum sem munu nú heyra undir hann.

Jón hefur verið alþingismaður Sjálfstæðisflokksins síðan 2007 og var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 2017. 

Auka úrræði lögreglunnar til að tryggja öryggi borgara

Árið 2016 fjallaði Stundin um hugleiðingu Jóns Gunnarssonar sem hann birti á Facebook þar sem hann kallaði eftir því að íslenska lögreglan fengi aukin úrræði til þess að tryggja öryggi borgaranna í kjölfar hryðjuverkaárásar í Nice í Frakklandi þar sem nítján tonna vörubíl var ekið inn í hóp af fólki sem fagnaði þjóðhátíðardegi frakka. 

Í þeim hugleiðingum velti hann fyrir sér hvernig hægt væri að tryggja öryggi íslenskra borgara ef slíkt myndi henda á Íslandi og hann og félagar hans væru því sammála að það kæmi að litlu gagni ef lögreglumenn hefðu ekki önnur úrræði en að „banka með kylfu á glugga faratækis misyndismanna og biðja þá að hætta“.

„Við hljótum að þurfa að taka þessa umræðu og hugsa fyrir því hvernig við gerum lögreglumönnum okkar kleift að mæta aðstæðum þeim sem við mögulega stöndum frammi fyrir.“

Líkti búsáhaldabyltingunni við árás á bandaríska þinghúsið

Í janúar síðastliðnum skrifaði Jón svo aðra hugleiðingu sem meðal annars kom inn á vanmátt íslensku lögreglunnar. Þann pistil skrifaði Jón vegna vopnaðrar árásar stuðningsmanna Trump, fráfarandi bandaríkjaforseta, á bandaríska þinghúsið þar sem fjórir létu lífið og fjórtán lögreglumenn særðust. Atburðurinn vakti hjá honum minningar af „keimlíkum“ atburði sem hann sjálfur varð vitni að, búsáhaldabyltingunni í kjölfar bankahrunsins þar sem hann taldi lögregluna hafa verið „hársbreidd frá því að tapa slagnum“.  

„Fyrir mig sem upplifði atburðina verandi í Alþingishúsinu 2009 rifjar þetta upp óþægilegar minningar. Margt er svo keimlíkt með því sem nú átti sér stað og þess sem átti sér stað við Austurvöll í árás á þinghúsið, vöggu lýðræðis í landinu,“ segir í pistlinum.

„Það er margt sem rifjast upp við þessa atburði vestanhafs og ekki hægt að segja annað en að mikil líkindi séu með aðstæðum, þótt sá reginmunur sé á að okkur var blessunnarlega hlíft við mannfalli.“

Hann sagði „ákveðna þingmenn“ hafa séð pólitískt tækifæri í „upplausninni sem skapaðist og ýttu undir ólguna.“ Þá sagði Jón að ef ekki hefði verið fyrir skothelt gler í gluggum Alþingishússins hefði verið líklegt að „æstur múgur hefði komist inn í þingið. Þegar verst lét var lögreglan einungis hársbreidd frá því að tapa þessum slag.“

Stjórnarsáttmálinn og Jón

Í nýja stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar segir að lögreglan og lögregluyfirvöld þurfi að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af „skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og fjarskipta-og nettengingum“. 

Stjórnarsáttmáli um ríkisstjórnarsamstarfÍ nýjum sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstriheyrfingarinnar-græns framboð kom sérstaklega fram að lögregluyfirvöld þyrftu að vera í stakk búin til að takast á við skipulagða glæpastarfssemi.

Jón gerði skipulagaða glæpastarfsemi að umfjöllunarefni sínu í ræðustól Alþingis í lok maí 2019 eftir að skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um sama efni kom út. Jón lagði sérstaka áherslu á að opinbert bótakerfi, vinnumiðlun, móttökukerfi vegna flóttafólks og hælisleitenda og margvísleg félagsleg þjónusta væri „skipulega misnotuð“ af erlendum afbrotamönnum.

Um starfsemina hafði hann eftirfarandi að segja: „Þetta er stóralvarlegt mál, virðulegur forseti, og við þessu verður að bregðast.“

Stuttu síðar eða þann 3. júní 2019 var Jón hins vegar fjarverandi atkvæðagreiðslu um stofnun ráðgjafastofnun innflytjenda og síðar fjarverandi meðferð þingsins á stöðu einstaklinga sem ekki eru mæltir á íslensku í samskiptum þeirra við stjórnvöld. Þá var hann einnig fjarverandi í allri meðferð þingsins á skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri sem lúta að því að styrkja varnir Íslands gegn skipulagðri glæpastarfsemi og peningaþvætti.

Þá segir einnig í stjórnarsáttmálanum að endurskoða þurfi bæði sjálfstætt innra og ytra eftirlit með störfum lögreglu. Jón var fjarverandi í meðferð þingsins og atkvæðagreiðslu á frumvarpi um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

Í stjórnarsáttmálanum er áhersla lögð á að stuðla að „auknu aðgengi fanga að fjölbreyttri menntun, virkni og stuðningi að afplánun lokinni“. Jón var hins vegar fjarverandi meðferð þingsins á samfélagsþjónustu og reynslulausn fanga og meðferð þess á betrun fanga. Þá var hann einnig fjarverandi þegar þingið tók fyrir heildarlög um þjóðkirkjuna sem einnig fellur undir hans málefnasvið sem innanríkisráðherra. 

Fjarvera Jóns á þingiJón var fjarverandi meðferð þingsins á ýmsum málum er varða hans nýja málefnasvið.

Fangelsisvist fyrir tálmun

Hvað réttarfar og refsingar varðar var Jón Gunnarsson einn þeirra sjö þingmanna Sjálfstæðisflokksins, ásamt Brynjari Níelssyni, Ásmundi Friðrikssyni, Bryndísi Haraldsdóttur, Njáli Trausta Friðbertssyni, Óla Birni Kárasyni og Páli Magnússyni, sem fór fyrir frumvarpi þess efnis að heimila fimm ára fangelsisvist sem refsingu fyrir tálmun eða takmörkun á umgengni. „Tálmi foreldri hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði, dómi, dómsátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni að neyta umgengnisréttar, eða takmarki hann, varðar það sektum eða fangelsi allt að fimm árum. Brot gegn ákvæði þessu sætir aðeins opinberri rannsókn að undangenginni kæru barnaverndar til lögreglu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. 

Frumvarpið sætti mikilli gagnrýni

Frumvarpið sætti töluverðri gagnrýni sem meðal annars birtist í umsögnum við það. Stofnanir og samtök á borð við Barnaheill, Barnaverndarstofa og Samtökum um kvennaathvarf sögðust til að mynda ekki styðja frumvarpið vegna ýmissa annmarka og fyrst og fremst þann er varðaði fangelsisvist.

Auk þess skrifuðu hátt í tvö hundruð konur bréf til þingmanna þar sem þeir voru hvattir til að taka afstöðu gegn frumvarpinu. „Hið opinbera tekur nú þegar þátt í kerfislægu niðurbroti og ofbeldi með ákvarðanatöku sinni og fremur mannréttindabrot í skjóli valds. Hversu oft þarf þetta frumvarp sem vinnur augljóslega gegn hag allra barna og vinnur beint gegn þolendum ofbeldis, að vera lagt fram áður en þið áttið ykkur á alvarleika málsins?“ sagði í yfirlýsingu hópsins Aktívistar gegn nauðgunarmenningu en hópurinn sagði viðhorfið sem frumvarpið endurspeglaði vera skaðlegt konum og börnum þeirra. 

Hópurinn sagði hugsunina á baki frumvarpinu vera í mótsögn við barnaverndarlög og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Börn sem af einhverjum ástæðum njóta ekki umgengni við annað foreldri sitt eru bersýnilega ekki betur sett með því að hinu foreldrinu sé varpað í fangelsi. Þá er ríkið sjálft að svipta barnið réttinum á umgengni við það foreldri sem afplánar refsivist og jafnvel svipta barnið eina foreldrinu sem verndar það. Þessi hugsun er ekki bara órökrétt heldur er hún í hreinni mótsögn við alla hugsun að baki barnalögum, barnaverndarlögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir í yfirlýsingunni. 

Kaus gegn frumvarpi um þungunarrof

Þeir sömu þingmenn og lögðu fram frumvarp um refsingu við tálmun, að Bryndísi Haraldsdóttur undanskilinni, greiddu einnig atkvæði gegn þungunarrofi Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra en aðeins 18 manns greiddu atkvæði gegn því á meðan 40 þingmenn greiddu atkvæði með því. Þegar Jón gerði grein fyrir atkvæði sínu í pontu sagði hann að það væri merki um „mikla málefnaþurrð“ að þurfa að hlusta á „allt að því persónulegar svívirðingar ákveðinna þingmanna í garð annarra þingmanna“ vegna mismunandi skoðana varðandi frumvarpið.

„Að væna menn um að bera ekki virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna þegar umræðan snýst um það hversu langt sá réttur á að ná, hversu lengi á hann að gilda. Hæstvirtur forsætisráðherra hefur gefið upp sína skoðun á því: Hann á að ná alla leið að fæðingu. Það er skoðun sem fólki er frjálst að hafa. Ég hef ekki þá skoðun. Hvenær á fóstrið rétt til lífs? Og flóttinn frá umræðunni birtist okkur síðan í því þegar fólk er farið að tala um þungunarrof í staðinn fyrir fóstureyðingu. Hver eru mörkin milli þungunarrofs og fóstureyðingar, eða frá frumuklasa, eins og háttvirtir Samfylkingarþingmenn kjósa að kalla þetta? Hann er ansi myndarlegur frumuklasinn, formaður Samfylkingarinnar, sem situr þarna fyrir aftan mig í salnum,“ sagði Jón. 

Í viðtali við Rúv eftir að ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar voru kynntir lýsti Jón bæði furðu og þakklæti yfir því að hafa hreppt embættið og að nýi stjórnarsáttmálinn sé „fín málamiðlun“ þrátt fyrir að hafa viljað sjá margt öðruvísi í honum.

Í viðtali við fjölmiðlaJón ræðir við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann Rúv um nýju hlutskipti sín.
Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Anna Óskarsdóttir skrifaði
    Þetta er hættulegasti ráðherrann og vonandi nær hann ekki að gera of mikið af sér áður en hann fer
    Hættulegasta ráðuneytið er umhverfis- og orkumála - þar situr ráðherra og á að taka á árekstrum milli umhverfisverndar og landnýtingar við orkuframleiðslu
    0
  • Einar Már Gunnarsson skrifaði
    Jón er ekki góður maður.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu